Framsókn stendur í lappirnar

Það er aumt fyrir andstæðing Framsóknarflokksins, að þurfa að hrósa honum fyrir að vera eini flokkurinn á Alþingi, sem stendur ennþá í lappirnar varðandi ríkisábyrgðina á Icesave skuldum Landsbankans.  Þetta er skuld, sem einkabanki stofnaði til og hefur aldrei verið á ábyrgð almennings, enda er í raun lagt bann við slíkri ríkisábyrgð í tilskipun Evrópusambandsins um Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta. 

Ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðnum telst vera markaðsmismunun milli landa og því óleyfileg samkvæmt tilskipun ESB og ekki gert ráð fyrir henni í íslenskum lögum.  Hefði það einhverntíma verið vilji ESB að ríkisábyrgðir skyldu vera á innistæðutryggingasjóðum landanna, þá er ekki nokkur hætta á öðru, en að sambandið hefði verið löngu búið að skikka Íslendinga, sem aðra, til að taka slíka ábyrgð inn í sína lagabálka.  Þá þyrfti heldur ekki að fjalla um það núna, eftirá.

Verði þessi þrælalög samþykkt, er verið að setja fordæmi um að einkabankar verði framvegis reknir á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda, sem allir hljóta að sjá, að er algerlega á skjön við alla heilbrigða skynsemi.

Ríkisábyrgðina má ekki samþykkja undir neinum kringumstæðum. 

Menn verða að hugsa lengra en til morgundagsins.


mbl.is Icesave afgreitt úr nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarmennska ríkisstjórnarinnar

Af sýndarmennsku einni saman, ætlar ríkisstjórnin nú að skipa starfshóp, sem á að undirbúa skaðabótamál gegn þeim sem ollu almenningi fjárhagstjóni í aðdraganda bankahrunsins, í þeim tilgangi að fá þá dæmda til greiðslu skaðabóta og krefjast kyrrsetningar eigna.

Rannsóknarnefnd Alþingis mun skila sínum niðurstöðum í nóvemberbyrjun og undanfarið hefur embætti Sérstaks saksóknara verið eflt, m.a. með ráðningu nýrra saksóknara, sem eiga að rannsaka hver sinn bankann og Fjármálaeftirlitið sinnir einnig rannsóknum á þessum málum.

Alveg er öruggt að fjöldi mála verður höfðaður á grundvelli rannsókna þessara aðila og því vaknar sú spurning, hvort höfða eigi mörg mál vegna sömu sakargiftanna.  Reikna verður með því að allir banka- og útrásarmógúlar sæti nú þegar rannsókn hjá framangreindum rannsóknaraðilum og ef munað er rétt, er ekki hægt að lögsækja menn oft, fyrir sömu sakirnar.  Því hlýtur þetta nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar að vera hreint lýðskrum, eingöngu sett fram til að lægja óþreyjuöldurnar í þjóðfélaginu, sem risið hafa vegna þess hve rannsóknirnar taka langan tíma.

Vissulega taka mál ótrúlega langan tíma í rannsókn og saksókn, en áður en lýkur hljóta allir mógúarnir að verða komnir bak við lás og slá, hvort sem þeir heita Sigurður, Hreiðar, Sigurjón, Bjöggar eða Jón Ásgeir, svo nokkur nöfn séu nefnd af handahófi.

Ríkisstjórnin á ekki að vera að stunda einhverja sýndarmennsku í þessum efnum.


mbl.is Höfða einkamál gegn hrunfólkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir axlar enga ábyrgð á útrásinni

Kröfur, sem borist hafa í þortabú Baugs Group, eru að upphæð 316,6 milljarðar króna og þar af eru almennar kröfur (án veða og trygginga) að upphæð kr. 170,2 milljarða króna.  Þetta eru svo stjarnfræðilegar upphæðir í þrotabúi eins fyrirtækis, að fá fordæmi munu vera öðru eins.  Þetta er þó ekki nema hluti þess, sem tapast á fyrirtækjum, sem tengjast þessum viðskiptaköngulóarvef, því áður hafa Stoðir, Landic, Fons og fleiri fyrirtæki orðið gjaldþrota og skilið eftir sig tugmilljarða skuldir, hvert um sig.

Einu fyrirtæki var þó skotið undan þessum gjaldþrotum, en það er Hagar hf., sem selt var einkafyrirtæki Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, á 30 milljarða króna, sem Kaupþing lánaði Jóni fyrir að öllu leyti í fyrrasumar og ekki á að byrja að greiða af því láni fyrr en á árinu 2011.  Það verður að teljast með ólíkindum, að þeir aðilar sem skilja eftir sig hunduð milljarða tap, sem aðrir verða að taka á sínar herðar, skulu hafa fengið aðstoð íslensks banka, rétt fyrir hrun, til þess að skjóta eignum undan gjaldþroti, með þessum hætti.

Skiptastjóri Baugs Group hlýtur að rifta þessum gjörningi og reyna síðan að fá betra verð fyrir Haga, enda nemur þessi undandráttur um 10% af skuldunum, sem skildar voru eftir í Baugi Group.

Jafnvel þó ekki fengist betra verð fyrir Haga, er óréttlætanlegt að Jón Ásgeiri verði gert kleyft að halda allri ínnlendu starfseminni óskertri í sínum yfirráðum, en aðrir verði látnir axla tapið af útrásinni.


mbl.is Kröfur upp á 316,6 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enga ábyrgð íslensks almennings

Nú er talað um að erlendir aðilar yfirtaki Kaupþing og Íslandsbanka, sem verði eftir sem áður íslenskir bankar, með íslenskar kennitölur.  Alls ekki er óhugsandi, að annarhvor bankinn, eða báðir, stofni seinna meir útibú í öðrum löndum og útvíkki þannig starfsemi sína, enda innanlandsmarkaður afar takmarkaður, fyrir stórhuga menn.

Með því að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, verður sett það fordæmi, að íslenskur almenningur verði um alla framtíð ábyrgur fyrir viðskiptum íslenskra einkabanka í útlöndum.  Verði ábyrgðin samþykkt nú, hvernig á að afneita sambærilegri ábyrgð í næsta bankahruni, sem vafalaust verður einhverntíma í framtíðinni.

Í upphafi skyldi endirinn skoða, segir máltækið.  Alþingi er þessa dagana að setja fordæmi til framtíðar og skyldu Alþingismenn hugsa sinn gang vel, áður en þeir greiða atkvæði með þessum þrælalögum.

Almenningur á Íslandi er ekki og á ekki að vera í ábyrgð fyrir einkabankastarfsemi í Evrópu, eða annarsstaðar í heiminum.


mbl.is Ríkisábyrgðin falli niður 2024
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband