30.6.2009 | 16:32
Ráðherrar með svima af stöðugum snúningi.
Vafalaust muna allir eftir hamaganginum í þinginu fyrir kosningar, þegar til umræðu var frumvarp minnihlutastjórnarinnar um stjórnlagaþing, sem átti að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá og átti áætlaður kostnaður við það að vera tveir milljarðar króna. Þá lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram sáttatillögu um að stjórnlagaþingið yrði ráðgefandi fyrir Alþingi, en þá mátti minnihlutastjórnin ekki heyra á það minnst, því það væri ekki nógu lýðræðislegt.
Vegna þessarar þvermóðsku var Alþingi haldið við efnið fram á nætur, dag eftir dag, þar til vika var til kosninga og ekki vannst nokkur tími til að ræða þau mál, sem skiptu þjóðina einhverju máli, t.d. efnahagsmálin og ráðstafanir í atvinnumálum.
Sjálfstæðismenn voru úthrópaðir af stjórnarliðum og þjóðinni fyrir málþóf og töpuðu vafalaust miklu fylgi í kosningunum vegna afstöðu sinnar í málinu og hvað þeir voru berskjaldaðir fyrir ósvífnum áróðri vegna þessa.
Nú leggur ríkisstjórnin fram nýtt frumvarp um stjórnlagaþing til samræmis við 100 daga áætlun sína og nú á stjórnlagaþingið að vera ráðgefandi fyrir Alþingi.
Ráherrana hlýtur að vera farið að svima af öllum þessum snúningum.
![]() |
Stjórnlagaþing 17. júní 2010 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2009 | 15:27
Álfheiður alltaf rökföst
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri grænna, segir að þjóðin hafi kosið um Icesave málið í apríl s.l., en ekki er nú víst að margir taki undir það, a.m.k. var afar lítið talað um það mál, frekar en önnur brýn mál, í kosningabaráttunni. Þeir sem minntust eitthvað á Icesave voru vinstri grænir og þá eingöngu til að lýsa andstöðu sinni við alla samninga um málið. Hafi einhver kosið í kosningunum á grundvelli Icesave, hefur sá hinn sami væntanlega kosið VG vegna eindreginnar andstöðu þeirra við alla nauðasamninga við Breta og Hollendinga.
Þegar Álfheiður taldi upp þau erfiðu mál, sem nú er við að eiga, sagði hún m.a: "Þar á meðal er Icesave, þar á meðal er núna 9% atvinnuleysi, þar á meðal eru skuldaklafar heimila og fyrirtækja, 500 milljarðar í nýtt bankakerfi. Ég verð að segja að Icesave er ekki stærsta málið af þessum málum í mínum huga."
Icesave er ekki erfiðasta málið í huga stjórnarliða, enda hafa þeir ekki klárað að leysa eitt einasta af öðrum málum sem Álfheiður telur upp. Stjórnin hefur hins vegar aukið á vanda heimilanna með skattahækkunum sem hækkað hafa neysluverðsvísitölu og þar með húsnæðislánin, krónan veikist stöðugt, þannig að erlendu lánin hækka og verðbólga lækkar ekkert. Bankakerfið er ekki enn orðið starfhæft og Fjármálaeftirlitið hefur nú gefið stjórnvöldum lokafrest til 17. júlí til að ganga frá því máli.
Það er undarlegt hvað VG misskildi Icesave gjörsamlega fyrir kosningar, fyrst málið er svona smátt og einfalt í þeirra huga.
![]() |
Þjóðin kaus um Icesave í apríl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.6.2009 | 13:49
Tinna eða Kolla
Ekki er vitað annað en Tinna Gunnlaugsdóttir hafi staðið sig vel í starfi Þjóðleikhússtjóra og verið tiltölulega óumdeild í starfi, þó reikna megi með því að einhverjir hefðu viljað að hún stjórnaði eitthvað öðruvísi en hún hefur gert. Aldrei eru allir ánægðir með nokkurn stjórnanda og yfirleitt finnst alltaf einhver, sem telur sig vita betur en viðkomandi, eða telur að framhjá sér hafi verið gengið með eitthvað, sem hann hefur talið sig eiga rétt á.
Tinna ætti því, samkvæmt öllum sanngirnisreglum, að vera örugg um endurráðningu, en þar sem hún liggur undir grun um að vera jafnvel stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins, þá er mjög líklegt að núverandi menntamálaráðherra sniðgangi hana og ráði sína Kollu í starfið.
Þrjá eða fjóra mánuði tók að ráða Má Guðmundsson í starf seðlabankastjóra, til að sýna hvað ráðningarferlið væri hlutlaust og faglegt, þó allir vissu frá því að nöfn umsækjenda voru birt, að Már yrði ráðinn í embættið.
Ekki er ósennilegt að það sama verði uppi á teningnum með Kollu.
![]() |
Tíu sóttu um starf Þjóðleikhússtjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2009 | 11:33
Forsetinn til séstaks saksóknara
Það verður að teljast vera auðugt ímyndunarafl að láta sér detta í hug að forsetinn verði ráðinn til sérstaks saksóknara til að hafa milligöngu um yfirheyrslur yfir erlendum samstarfsmönnum íslenskra fjárglæframanna. Margur myndi láta sér detta í hug, að forsetinn hefði sjálfur stöðu grunaðs manns í máli sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al-Thani, eða yrði a.m.k. kallaður fyrir sérstakan saksóknara sem vitni, enda nátengdur báðum málsaðilum.
Á þessari mynd er annar vinur sjeiksins, sem væri líklegri til að geta sett sig í samband við fjölskylduna vegna yfirheyrslnanna, enda gegnir hann, þó ótrúlegt sé, embætti utanríkisráðherra Íslands, en það er sjálfur Össur, grínari.
Hann og flokkur hans hafa haft mikil og góð samskipti við allnokkra af svokölluðum útrásarvíkingum og voru milils metin af þeim, fyrir mikla og góða hjálp, þegar vondir menn reyndu að fá þá dæmda fyrir fjárglæfra fyrir nokkrum árum.
Annars er ekki að vita, nema hann þurfi sjálfur að mæta hjá saksóknaranum, til að vitna um þessa vini sína og forsetans.
![]() |
Forsetinn útilokar ekki aðstoð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2009 | 09:21
Lánasöfnun
Þegar Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn var fenginn til aðstoðar við endurreisn efnahagslífsins, var einn aðalkosturinn við það sagður, að lán þeirra og önnur tengd lán væru til þess að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn og þar með myndi krónan styrkjast á ný. Styrking krónunnar átti að lækka innflutningsverð, lækka erlend lán í krónum talið og nánast eyða verðbólgu.
Ekkert af þessum markmiðum hefur náðst, enda liggur fyrsti hluti láns AGS óhreyft í Seðlabanka Bandaríkjanna, krónan hefur haldið áfram að falla, lánin hækka, verðlag hækkar og verðbólga helst há. Ofan á allt þetta knýr AGS seðlabankann til að halda uppi okurstýrivöxtum og af hálfu ríkisins er ekkert gert til að koma atvinnulífinu aftur á færurna, heldur þvert á móti skorið niður í öllum framkvæmdum á vegum ríkissins, en lítið sparað í rekstrinum.
Á morgun mun eiga að skrifa undir lánasamninga við norðulöndin, en þau lán eiga ekki að koma til útborgunar fyrr en við fjórðu endurskoðun AGS á framkvæmd samstarfssamningsins, en fyrsta endurskoðun hans er nú fyrirhuguð í ágúst, en átti að fara fram í febrúar s.l., samkvæmt upphaflegri áætlun. Með sama áframhaldi mun fjórða endurskoðunin ekki fara fram fyrr en á árinu 2011, þannig að "vores nordiske venner" eru lausir allra mála þangað til, en geta hins vegar gortað af gæsku sinni við sinn minnsta bróður.
Hins vegar má velta fyrir sér, hvaða styrkur er í því að taka lán með háum vöxtum til að láta það liggja inni í banka á lágum vöxtum.
Það virðist a.m.k. ekki slá neitt á kreppuna svona sjálfkrafa.
![]() |
Greiðsla frá IMF í ágúst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)