Eftir uppskriftinni

Í þessu bloggi var því spáð að Hannes Smárason myndi áfrýja til Hæstaréttar úrskurði Héraðsdóms um að húsleitir efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra á heimilum hans og víðar, væru löglegar.  Það sem er athyglisvert er, að lögmaður hans sendir mikla varnarræðu með áfrýjuninni, sem halda mætti að ætti betur heima sem hluti af vörn fyrir rétti, þegar ákæra verður lögð fram.

Í niðurlagi bréfs lögmanns Hannesar segir að allt bendi til þess að rannsóknin hafi farið af stað án þess að nægilegra gagna hafi verið aflað.  Ætli húsrannsóknirnar hafi ekki einmitt verið hugsaðar til að afla nægilegra, eða a.m.k. fleiri, gagna?  Ekki hafa þær verið hugsaðar sem kurteisisheimsóknir, eða kaffispjall, eða bara af því að löggurnar hafi langað til að sjá húsakynnin. 

Hannes segir í sinni yfirlýsingu, að hann muni ekki fjalla meira um málið á opinberum vettvangi fyrr en því verði lokið og væntir þess að aðrir aðilar málsins geri það ekki heldur.  Ekki er nú alveg ljóst hverjir þessir "aðrir aðilar málsins" eru, en ef hann á við að fjölmiðlar og almenningur eigi ekki að ræða málið neitt, þá mun honum alls ekki verða að þeirri ósk sinni.

Þetta mál fer algerlega af stað eftir uppskrift Baugsmálsins fyrsta.  Svo mun einnig verða um öll önnur mál, sem á eftir munu koma.

Að lokum mun verða til heil uppskriftabók um varnir fjárglæframanna fyrir dómstólum. 


mbl.is Hannes segist ekki hafa brotið lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstarfsmenn vilja skattahækkanir

Stöðugleikasáttmálinn fyrirhugaði er í óvissu vegna þeirrar afstöðu ríkisstarfsmanna að þeir krefjast stórhækkaðra skatta á atvinnulífið og almenning, til þess að alls ekki verði fækkað um eitt einasta starf hjá hinu opinbera. 

Árni Stefán Jónsson, staðgengill Ögmundar ráðherra hjá BSRB, lætur mbl.is hafa eftir sér:  "„Við viljum fara tekjuleiðina," sagði Árni og átti við að hann kysi að auka tekjur ríkisins með hærri sköttum frekar en að skera niður í velferðarkerfinu." 

Auðvitað er þessi skattahækkanakrafa sett í þann fallega búning, að betra sé að hækka skatta, frekar en að skera niður í velferðarkerfinu.  Bara orðið sjálft, velferðarkerfi, er svo heilagt, að engum dirfist að láta sér detta í hug að þar megi spara eina einustu krónu, hvað þá að segja það upphátt.  Þess vegna er hægt að réttlæta allt sukk og svínarí hjá hinu opinbera með því að segja alltaf að ekki megi "skera niður í velferðarkerfinu".

Að sjálfsögðu meinar Árni alls ekki það sem hann segir með þessu, heldur meinar hann að ekki megi setja starf eins einasta ríkisstarfsmanns "í hættu" með sparnaði í ríkiskerfinu almennt.  Það er líka þess vegna sem aðal ráð ríkisstjórnarinnar til sparnaðar er að skera niður framkvæmdir, frekar en rekstur.  Þannig er störfum á almennum vinnumarkaði fórnað fyrir opinber störf, enda koma kjósendur vinstri flokkanna helst úr röðum opinberra starfsmanna.

Þetta er allt spurning um atkvæði, en ekki þjóðarhag.


mbl.is Deilt um leiðir í Karphúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bætur hverra tapast?

Fyrir nokkrum árum voru háværar kröfur á lofti um að tryggingafélögin lækkuðu iðgjöld sín, þar sem gífurlegar upphæðir hefðu safnast saman í bótasjóðum félaganna og því var talið að góður grundvöllur væri fyrir lækkunum.  Þetta tóku tryggingafélögin ekki í mál, því samkvæmt þeirra rökum voru bótasjóðirnir vandlega útreiknuð ógreidd tjón og því alls ekki grundvöllur til nokkurrar lækkunar iðgjalda.  Svo halda iðgjöldin auðvitað áfram að hækka og hækka.

Nokkuð hefur verið hljótt um bótasjóðina um tíma, en t.d. á þessu bloggi hefur stundum verið velt vöngum yfir því, hvað útrásarvíkingar væru að vilja með því að leggja undir sig tryggingafélögin, eins og reyndar flest annað.  Þá var m.a. sett fram sú spurnig, hvort það gæti verið vegna ásælni í bótasjóðina og nú væri búið að "fjárfesta" með þeim í óskyldum verkefnum.

Nú er smátt og smátt að koma í ljós hvað um þá varð.  Þeir eru búnir að "fjárfesta" út um allan heim í alls kyns óarðbærum verkefnum og nú síðast er Sjóvá að tapa 3,2 milljörðum úr bótasjóði sínum á lúxusíbúðum í Macau.  Önnur frétt er her á mbl.is, þar sem fram kemur að íslensk útrásarfyrirtæki með heimilisfang hjá Sjóvá, standa í málaferlum í Milwaake vegna annarrar lúxusbyggingar, sem virðist vera jafn glötuð fjárfesting og sú í Macau.

Forstjóri Sjóvár segir að þetta tap muni ekki á nokkurn hátt koma niður á viðskiptavinum félagsins, eða tjónþolum, sem er afar undarlegt, þar sem bótasjóðirnir áttu ekki að vera til neins annars en til tjónauppgjöra.  Annað hvort voru rökin fyrir tjónasjóðunum hreinn tilbúningur, eða forstjórinn verður að svíkja talsvert marga tjónþola, til að eiga fyrir þessu tapi.

Sennilega þarf fljótlega að hækka tryggingariðgjöld.  Það mun auðvitað verða ótengt þessu máli.


mbl.is Sjóvá tapar 3,2 milljörðum í Hong Kong
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðslufall með auknum kostnaði

Hagsmunasamtök heimilanna hefur samþykkt stuðning við "greiðsluverkfall fjölda Íslendinga", án þess að útskýrt sé nánar hvað það þýðir.  Í fréttinni segir að:  "Þátttaka í greiðsluverkfallinu getur auk þess að hætta að greiða af lánum meðal annars falist í að draga greiðslur eða takmarka þær og hvetja til úttekta og flutnings á innistæðum."

Að hætta að greiða af lánum eða takmarka þær, gerir náttúrlega ekkert annað en að auka kostnað skuldarans vegna dráttarvaxta og innheimtukostnaðar.  Þýðir samþykktin að HH ætli að standa á bak við þennan aukna kostnað "fjölda Íslendinga"?  Hvað ef einhver af þessum "fjölda Íslendinga" missir hús sín vegna þessara aðgerða?

Að boða verkfall vegna launadeilna og að hætta að greiða af lánum, er ekki sambærilegt að öðru leyti en því, að menn verða jafnvel blankari við aðgerðirnar, tímabundið vegna verkfallanna en jafnvel til framtíðar vegna greiðslufalls skulda.

Í samþykktinni er hugtökum greinilega ruglað saman, því samþykkt var að setja saman verkfallsstjórn til að stjórna greiðslufallinu.  Nær væri að tala um greiðslufallsstjórn.

Ætlar greiðslufallsstjórnin að loka útibúum banka, eða hvernig á að framfylgja greiðslufallinu?


mbl.is Hagsmunasamtök heimilanna styðja greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisverðbólga

Vísitala neysluverðs hækkar milli mánaðanna maí og júní um 1,38% og munu verðtryggð lán hækka sem því nemur.  Þessi vísitöluhækkun er alfarið í boði ríkisstjórnarinnar og frekari hækkun hennar boðuð með skattahækkunum í næsta mánuði.

"Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 7,8% (vísitöluáhrif 0,36%) og verð á áfengi og tóbaki um 9,8% (0,32%) og er það að hluta til vegna hækkunar gjalda. Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 1,2% (0,17%)."  Hækkun á eldsneytissköttum er ekki komin inn í vísitöluna en mun gera það í næsta mánuði.  Verð á mat og drykkjarvöru er öll tilkomin vegna lækkunar á gengi krónunnar, en ekkert er gert til að styrkja gengi hennar.

Á sama tíma og ríkisstjórnin hamast við að hækka bæði gengis- og verðtryggð lán, er allt í hnút í Karphúsinu, vegna ósamkomulags við ríkisstjórnina um sparnað í ríkisfjármálum á árunum 2011 - 2013, en skattahækkanir sem fyrirhugaðar eru á þeim árum eru svo gífurlegar, að aðilar vinnumarkaðarins telja, að hvorki atvinnulíf né almenningur muni geta staðið undir slíkri skattpíningu.

Hvað sem öðru líður, mun ríkisverðbólgan ekki hjaðna á næstunni.

 


mbl.is Verðbólga eykst á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband