Skýringalaus ráðherra

Það eru fleiri kjaftstopp í dag, en Steingrímur J, jarðfræðingur og fjármálaráðherra, en af allt annarri ástæðu en hann.  Það sem veldur þessu kjaftstoppi manna er að sennilega í fyrsta skipti í þingsetutíð sinni, hefur Steingrímur J. ekki svör á reiðum höndum.  Hann hefur getað blaðrað út í það óendanlega fram að þessu um hvaðeina sem til umræður hefur verið og talið sig hafa umboð fyrir sannleikann í öllum málum.

Nú hefur fjármálaráðherra þjóðarinnar engar skýringar á veikingu krónunnar og er þó eitt helsta stefnumál ríkisstjórnarinnar að styrkja hana.  Þegar höfuðóvinurinn var flæmdur úr seðlabankanum 27. febrúar s.l. var gengisvísitalan 186,95 stig, en er nú 216,07.  Þetta þýðir gengislækkun um tæp 16% síðan norski förusveinninn og peningastefnunefndin tóku við seðlabankanum.  Þetta þýðir það líka að sá sem skuldaði myntkörfulán, sem var að upphæð kr. 30.000.000 þann 27. febrúar, skuldar nú tæpar 35 milljónir.

Þessari ríkisstjórn, sem þóttist ætla að bjarga heimilunum frá gjaldþroti, hefur tekist að koma miklum fjölda nær hengifluginu en áður.  Svo lætur stjórnin Alþingi masa dögum saman um stjórnarskrárfrumvarp og neitar að ræða "björgunaraðgerðirnar".  Á meðan blæðir heimilunum út.

Það óásættanlegt að ráðherra nokkurrar þjóðar geti ekki svarað grundvallarspurningum um fjármál síns eigin lands.


mbl.is Kann ekki skýringar á veikingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langar umræður

Mikið er býsnast yfir því að löngum tíma hafi verið varið í umræður um stjórnarskrárfrumvarpið.  Stjórnarskráin er það gagn sem öll lög landsins verða að byggja á og því er ekkert undarlegt að þingmenn vandi sig við breytinar á henni.  Umræður um þetta mál hafa staðið á Alþingi í innan við fjörutíu klukkustundir og er það alls ekki mikið, miðað við margar aðrar umræður í þinginu, eins og sjá má  hér

Munurinn á umræðunni núna og þá er sá, að þáverandi málþófsmenn eru nú komnir í ríkisstjórn.

Gullfiskaminni manna lætur ekki að sér hæða.

 


mbl.is Koma til móts við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvíst um björgun heimila

Á meðan menntamálaráðherra og ríkisstjórnin funda um björgunaraðgerðir til handa stúdentum, neitar sami vinnuflokkur að láta ræða og samþykkja frumvörp um aðgerðir í efnahagsmálunum, svo sem hækkun vaxtabóta, álver í Helguvík og greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.

Eins og sést á dagskrá Alþingis í dag, er hún eins og hún er búin að vera síðustu vikuna, þar sem ríkisverkstjórinn telur brýnasta hagsmunamál heimilanna vera breyting á stjórnskipunarlögum:

 128. þingfundur 07.04.2009 hófst kl. 10:33
1. Fundur í umhverfisnefnd -- umhverfismál.
2. Stjórnarskipunarlög (stjórnlagaþing, náttúruauðlindir í þjóðareign og þjóðaratkvæðagreiðslur) 385. mál, lagafrumvarp JóhS. Frh. 2. umræðu.
3. Tekjuskattur (hærri vaxtabætur 2009) 410. mál, lagafrumvarp fjármálaráðherra. 2. umræða.
4. Endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja (stofnun hlutafélags, heildarlög) 411. mál, lagafrumvarp fjármálaráðherra. 2. umræða.
5. Fjármálafyrirtæki (slitameðferð og kostnaður af störfum skilanefnda) 409. mál, lagafrumvarp viðskiptaráðherra. 2. umræða.
6. Breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn (niðurfelling sektar eða ákæru til að greiða fyrir rannsókn afbrots) 359. mál, lagafrumvarp viðskiptaráðherra. 2. umræða.
7. Heimild til samninga um álver í Helguvík (heildarlög) 394. mál, lagafrumvarp iðnaðarráðherra. 2. umræða.
8. Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði 461. mál, lagafrumvarp allsherjarnefndar. 2. umræða.
9. Tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda (styrkari skattframkvæmd og hömlur gegn skattundanskoti) 366. mál, lagafrumvarp fjármálaráðherra. 3. umræða.
10.

Listamannalaun (heildarlög) 406. mál, lagafrumvarp menntamálaráðherra. 3. umræða.

Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Sjálfstæðismanna um að dagsrá verði breytt og þjóðþrifamálin tekin framfyrir, neitar ríkisverkstjórinn öllum beiðnum um slíkt og lætur sína eigin þvermóðsku koma í veg fyrir eðlilega starfsemi í þinginu.

Háskólastúdentar eru af þeirri kynslóð sem aldrei hefur kynnst mótlæti í lífinu, en yfirleitt fengið hlutina rétta upp í hendurnar frá foreldrum sínum og síðan ríkinu, eftir að þeir hefja langskólanám. 

Ætti ekki að vera í forgangi að aðstoða þá sem hafa alla sína tíð þrælað fyrir börnin sín og lagt sitt til þjóðfélagsins með sköttum sínum, en eiga nú á hættu að missa heimili sín og hafa jafnvel misst vinnuna?

Forgangsröðun ríkisvinnuflokksins er ekki alltaf auðskilin.

 


mbl.is Allt óvíst með sumarnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kílóagjald á hvalveiðar

Nefndin, sem falið var að semja frumvarp um hvalveiðar, leggur til veiðigjald allt að einni milljón króna fyrir hvert dýr, eða eins og segir í fréttinni:

 "Veiðigjald fyrir hvern hval sem veiðist skiptist í fjóra flokka samkvæmt tillögunni og er við flokkunina tekið mið af þyngd hvers hvals.  Veiðigjaldið er 10.000 kr. fyrir hvali undir 2 tonnum, 50.000 kr. fyrir hvali frá 2-10 tonnum, 500.000 kr. fyrir hvali frá 10-42,5 tonnum, og 1.000.0000 kr. fyrir hvali yfir 42,5 tonnum."

Þetta virðist vera afar undarleg verðlagning og gæti manni dottið í hug að öllum hval, sem áhöfnum hvalbátanna virtist vera yfir 42,5 tonnum yrði hent í sjóinn aftur og reynt að skjóta heldur annan aðeins minni og spara þannig hálfa milljón króna.  Mikið hefur verið rætt um að afla sé hent af fiskiskipum, ef hann uppfyllir ekki ákveðin stærðar- eða hagkvæmnismörk.  Ekki er nú á bætandi að fara að henda hval í stórum stíl, en svona gjaldtaka virðist hvetja til að smár hvalur verði frekar veiddur en sá stóri.

Af hverju dettur nefndinni ekki í hug jafn einföld lausn og að leggja einfaldlega gjald á landað kíló?


mbl.is Leggja til veiðigjald fyrir hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kim Jong-Il fyrirgefið

Hinn ástkæri leiðtogi Kim Jong Il óskar fyrirgefningar landsmanna sinna vegna eldflaugatilrauna sinna, eða eins og segir í fréttinni:

"Kim Jong-Il, leiðtogi Norður-Kóreu, segist sjá eftir því að peningarnir sem fóru í tilraunir með loftskeyti og gervitungl um sl. helgi, hafi ekki farið í að hjálpa fólkinu í landinu. Hins vegar telur hann að fólkið fyrirgefi honum, í ljósi þess að allt gekk að óskum og skotið hafi verið „sögulegt“."

Ekki er að efa að þau 99,98% þjóðarinnar, sem kusu í kosningunum í Norður Kóreu nýlega, og greiddu leiðtogunum atkvæði sín, munu fyrirgefa leiðtoganum þetta hlaup útundan sér, við annars ástríðufullan áhuga sinn á velferð alþýðunnar.

Sjálfsagt getur hann líka bent á að matvælaaðstoð annarra ríkja sé fullnóg fæða fyrir pöpulinn og ekki honum að kenna, þó aðstoðin sé svo knöpp, að stór hluti þjóðarinnar svelti. 

Alþýðan í Norður Kóreu skilur vel að það er dýrt að gera kjarorkutilraunir og skjóta eldflaugum.  Hún skilur vel að ekki er hægt að gera allt í einu og matur getur þurft að bíða, á meðan snilligáfan er fóðruð.

Þessi einföldu sannindi hljóta vesturlandsbúar að geta skilið líka og fyrirgefið leiðtoganum, eins og hann svo auðmjúklega biður þjóð sína um.


mbl.is Hefði viljað hjálpa fólkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband