16.12.2009 | 14:28
Byltingin í VR étur börnin sín
Hallarbylting var gerð í VR síðast liðinn vetur og öllum fyrrum stjórnendum félagsins vikið til hliðar vegna setu þáverandi formanns í stjórn Kaupþings á mesta rugltíma íslenskrar fjármálasögu.
Nú rúmu hálfu ári síðar er byltingin farin að éta börnin sín innan nýrrar stjórnar VR og virðist það helst stafa af því, að fólk, reynslulítið af félagsstörfum, virðist hafa komist til valda í félaginu og sumt algerlega vanhæft til félagslegra starfa.
Varaformaður félagsis hefur látið í ljós ótrúlega ofstækisfullar og einstenginslegar skoðanir sínar, bæði í ræðu og riti, frá því hann var kjörinn í stjórn félagsins og ávallt látið eins og hann talaði í nafni stjórnar félagsins, sem oftast hafði enga hugmynd, fyrirfram, hvar og hvenær varaformanninum þóknaðist að tjá skoðanir sínar opinberlega.
Þannig vinnubrögð eru ekki sæmandi fyrir stærsta verkalýðsfélag landsins og aflar því hvorki virðingar né trausts.
![]() |
Lýsa yfir vantrausti á varaformann VR |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.12.2009 | 11:17
Engin efnahagsstjórn
Hvergi á Evrópska efnahagssvæðinu mælist önnur eins verðbólga og á Íslandi, sem er nánast óskiljanlegt þar sem eftirspurn er nánast engin, atvinnuleysi mikið og gengi krónunnar haldist tiltölulega stöðugt undanfarna mánuði.
Mörg ríki, sem eiga í svipuðum efnahagserfiðleikum og Ísland, búa nú við verðhjöðnun, en ekki verðbólgu, eða eins og segir í fréttinni: "Í nóvember mældist vísitalan 12,4% á Íslandi en var 13,8% í október. Næst mest er verðbólgan, samkvæmt samræmdi mælingu, í Ungverjalandi eða 5,2%. Verðhjöðnun er hins vegar í sex ríkum sem tekin eru með í mælingunni. Verðhjöðnunin er mest á Írlandi eða 2,8%."
Það sem aðallega hefur knúið verðbólguskrúfuna hérlendis er skattabrjálæði ríkisstjórnarnefnunnar, en hvergi þar sem kreppa ríkir, dettur nokkrum í hug að skattleggja þjóðina út úr vandræðunum, nema íslenskum vinstri mönnum.
Eftir áramótin mun skattahækkanabrjálæðið skella á af fullum þunga og þá mun verðbólgan taka nýjan kipp upp á við og um leið hækka öll lán fyrirtækja og almennings og þykir þó flestum nóg komið í þeim efnum.
Það er orðið lífsnauðsynlegt að hérlendis verði farið að stjórna efnahagsmálunum.
Það fer að verða fullreynt, að núverandi ríkisstjórnarnefna mun ekki vera fær um það.
![]() |
Langmest verðbólga á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2009 | 08:43
Hrun Landsbankans hófst í Bretlandi
Nú er að koma í ljós, að hrun Landsbankans hófst í raun í Bretlandi, þann 3. október 2008, eða nokkrum dögum áður en Fjármálaeftirlitið íslenska yfirtók bankann hér á landi.
Breska fjármálaráðuneytið setti bankanum svo ströng rekstrarskilyrði þann 3. október, fyrir starfseminni í Bretlandi, að útibúið varð raunverulega óstarfhæft, því sett var svo há bindiskylda lausafjár á útibúið, að ógerningur var að standa við hana og þar að auki voru allar eignir bankans í Bretlandi í raun kyrrsettar.
Þetta sýnir að Bretar voru löngu búnir að gera sér grein fyrir hættunni af Icesave reikningum bankans í Bretlandi og hefðu því átt að vera búnir að grípa í taumana löngu fyrr, enda höfðu þeir til þess heimild í breskum lögum, sem þeir svo beittu, en alltof seint.
Með hliðsjón af þessu, hefðu Bretar átt að sjá sóma sinn í að axla sína ábyrgð á Icesave, en ekki þvinga henni upp á íslenska skattgreiðendur, sem þurfa að þræla fyrir þessari skuld einkabankans næstu áratugina.
Þessar nýjustu upplýsingar ættu að duga, ásamt staðreyndum sem þegar lágu fyrir, til þess að Alþingi hafni þrælasamningnum um Icesace, með 63 samhljóða atkvæðum.
![]() |
Kyrrsettar fyrir hryðjuverkalög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.12.2009 | 00:11
Ótrúlegar vinagreiðslur
Í svörum við fyrirspurn á Alþingi upplýsti Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, um ótrúlegar upphæðir, sem greiddar hafa verið til vina og velunnara, fyrir ótrúlegustu hluti.
Til dæmis um greiðslur úr Fjármálaráðuneitinu kemur fram að: " Þar af fékk Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, tæpar tíu milljónir kr. greiddar fyrir ráðgjöf vegna bankamála, svo sem uppgjör milli gömlu og nýju bankanna. Þá fékk Jón Sigurðsson, formaður samninganefndar um Norðurlandalán, átta milljónir kr. fyrir ráðgjöf um gjaldeyrislán frá öðrum ríkjum."
Varðandi bankamálin, þá var og er finnskur sérfræðingur á fullum launum við að veita ráðgjöf varðandi endurreisn bankanna, en hefur að vísu kvartað yfir því, að seint hafi gengið í þeim efnum og flest verið vitlaust gert. Því er óskiljanlegt fyrir hvað var verið að borga Þorsteini.
Seðlabankinn og allar bankastofnanir landsins eru uppfull af sérfræðingum í erlendum lántökum og fram að þessu hefur ekkert vantað upp á kunnáttu landsmanna um töku gjaldeyrislána og því með ólíkindum, að greiða hafi þurft Jóni Sigurðssyni átta milljónir fyrir slíkar upplýsingar.
Ef þessar og aðrar upphæðir sem um ræðir væru ekki svona fáráðlega háar, væri þetta allt saman nokkuð fyndið.
Allavega er víst, að viðkomandi einstaklingar hafa skellihlegið alla leiðina í bankann.
![]() |
Fjármálaráðuneytið greiddi 40 milljónir króna í sérverkefni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)