Vinstri stjórnin að brjóta niður velferðarkerfið

Á stjórnarárum Sjálfstæðisflokksins var stöðugt unnið að því að efla og styrkja velferðakerfið, en á stuttum valdatíma Samfylkingar og Vinstri grænna hefur skipulega verið unnið að því að skera kerfið niður við trog.

Fyrst voru skertar allar bætur aldraðra og öryrkja og nú er ráðist á fæðingarorlofsgreiðslurnar.  Ekki var þar um sérstaklega háar greiðslur að ræða, en verða nú skertar verulega, eins og fram kemur í fréttinni:

"Samkvæmt frumvarpi  félagsmálaráðherra lækka hámarksgreiðslur úr 350 þúsund krónum í 300 þúsund krónur, að sögn Ríkisútvarpsins. Foreldrar, sem hafa meira en 200 þúsund krónur í mánaðarlaun, fá 75% af tekjum sínum frá ríkinu  meðan á fæðingarorlofi stendur í stað 80%. Fæðingarorlof verður áfram níu mánuðir og skiptist á milli foreldra."

Ef vinstri mönnum þykir svona mikil nauðsyn að ráðast á fæðingarorlofskerfið, hefði verið nær að skerða eingöngu greiðslur til feðranna, því nýburarnir hafa meiri þörf fyrir móðurina fyrstu mánuðina, heldur en feðurna.

Búið var að boða skerðingu á barna- og vaxtabótum, en á síðustu stundu fundu stjórnarflokkarnir upp nýjan eigarskatt, sem réttlættur var með því að hann yrði látinn renna óskertur til að halda þessum bótum óskertum.

Viljann vantar hinsvegar greinilega ekki til að brjóta niður það velferðarkerfi, sem búið var að byggja upp á meðan þjóðin bjó við almennilega ríkisstjórn.


mbl.is Ætla að skerða greiðslur í fæðingarorlofi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt á sömu bókina lært

Sérstakur saksóknari hefur gert húsleit hjá Byr sparisjóði og MP banka og yfirheyrslur standa yfir vegna viðskipta með stofnbréf sparisjóðsins eftti bankahrunið í fyrra, en þá var öllum brögðum beitt, af hálfu stjórnenda sjóðsins, til þess að halda völdum í stjórn Byrs.  Væntanlega til þess að halda öðrum frá því, að komast í upplýsingar um viðskipti Byrs á liðinni tíð, m.a. vegna stofnfjáraukningar og arðgreiðslna til ýmissa fjármálaberserkja, m.a. Jóns Ásgeirs og felufélaga hans.

Þessi viðskipti, á þessum tíma, voru ótrúleg flétta, eins og vel kemur fram í fréttinni: 

"Málið snýst um 1,1 milljarðs króna lán sem Byr veitti Exeter Holding í tveimur hlutum, í október og desember 2008, eftir bankahrunið, til þess að kaupa 1,8 prósenta stofnfjárhlut í Byr á yfirverði, en ekkert hefur verið greitt af láninu.

Á þessum tíma var markaður með stofnfjárbréf lokaður og verð bréfanna hafði lækkað mikið. Seljendur bréfanna voru meðal annarra MP banki og tveir stjórnarmenn í Byr, Jón Þorsteinn Jónsson, þáverandi stjórnarformaður Byrs, og Birgir Ómar Haraldsson stjórnarmaður. MP banki hafði eignast sín bréf m.a. eftir veðkall á eignarhaldsfélag í eigu Ragnars Z. Guðjónssonar, sparisjóðsstjóra Byrs, og annarra stjórnenda sparisjóðsins."

Þetta er dæmigerð frásögn af því, hvernig kaupin gerðust á eyrinni á tímum banka- og útrásarruglsins og stjórnendur Byrs héldu leiknum áfram eftir hrun og virðast hafa haldið að hægt væri að komast upp með svínaríið endalaust.

Útrásarrugludallarnir léku þennan sama leik í öllum sínum viðskiptum, þ.e. að taka hundruðmilljarða lán og hafa aldrei endurgreitt eina einustu krónu til baka.  Endurgreiðslur lána heita á þeirra tungumáli endurfjármögnun, sem þýðir auðvitað, að ný lán eru einfaldlega tekin til að greiða þau gömlu.

Nú er verið að leika þennan leik í Arion banka vegna Haga og 1998 ehf.

Baugsfeðgar og bankaelítan hafa engu gleymt og ekkert lært.


mbl.is Yfirheyrslur standa yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnin hefur engar áætlanir

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherralíki, segist ekkert vera að hugsa um til hvaða ráða eigi að grípa, ef svo færi, að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu, að neyðarlögin stæðust ekki stjórnarskrána.

Mat flestra lögfræðinga er, að lögin standist fullkomlega, en reynslan sýnir, að ekkert er öruggt um lagatúlkanir, fyrr en Hæstiréttur hefur kveðið upp endanlegan úrskurð.

Þrátt fyrir, að Gylfi geri ráð fyrir að lögin haldi, væri öruggara af honum, að hafa einhverja áætlun tilbúna um framhaldið, ef svo ólíklega færi, að lagasetningin yrði dæmd ógild.  Því myndi fylgja mikil flækja og kostnaður, segir hann, en samt ætlar hann ekki að búa sig neitt undir að svo gæti farið.

Gylfi mætti hafa í huga, að gott er að vona það besta, en vera ávallt viðbúinn því versta.

Það ættu menn að minnsta kosti hafa lært af hruninu, að betra er að vera búinn undir það, að allt fari á versta veg.

Ef til þess kæmi, að þessi flækja og kostnaður kæmi upp, er óvíst að Vinstri grænir gætu fundið nógu margar skattahækkunarleiðir til að greiða þann viðbótarkostnað.

Enda yrði þá enginn eftir til að borga þá viðbótarskatta, sem kæmu ofan á alla aðra viðbótarskatta, sem þegar er búið, eða fyrirhugað, að skattpína almenning með.


mbl.is Miðað við að neyðarlögin haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja auðvitað hækka útsvarið

Drífa Snædal, fulltrúi Vinstri grænna í Velferðarráði Reykjavíkurborgar, er afar óhress með að meirihluti borgarstjórnar skuli ekki vilja minnka velferð borgarbúa með hækkun útsvarsprósentunnar.

Í bókun Drífu í velferðarráði er m.a. þessi klausa:  "Tilgangur útsvars er að fjármagna sameiginlegan rekstur borgarbúa og því eðlilegt að þegar harðnar í ári dreifist kostnaðurinn með sanngjörnum hætti á borgarbúa. Fullnýtt útsvarsprósenta gæti skapað borginni 630 miljónir króna í tekjur árið 2010."

Vinstri grænir réttlæta allar sínar brjálæðislegu hugmyndir um skatta og skattahækkanir með því að þær séu svo sanngjarnar og næst hljóta þeir að gera tillögu um þrepaskipt útsvar til samræmis við "sanngjarna" þrepaskiptingu tekjuskattsins.  Þá loksins yrði skattkerfið svo flókið, að Vinstri grænir myndu ekki einu sinni skilja það sjálfir og eru þeir þó heimsins skilningríkustu skattaálögusérfræðingarnir.

Að vita til þess, að hægt væri að ná 630 viðbótarmilljónum úr vasa Reykvíkinga, er óbærileg tilhugsun fyrir skattahækkanabrjálæðingana sem kenna sig við vinstri grænt.

Öllum öðrum finnst sjálfsagt og eðlilegt að Reykvíkingar fái sjálfir að ráðstafa þessum peningum á þessum erfiðu tímum, t.d. til matarkaupa fyrir heimilin.


mbl.is Ósátt við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn sem má treysta

Það sannast hvað eftir annað, að ríkisstjórnarnefnu vinstri manna má treysta í skattamálunum.  Vitað var fyrirfram, að skattagleði og skattahugmyndaflug þeirra væri mikið, enda er ekkert svo smátt í sniðum í þjóðfélaginu, að ekki megi skattleggja það og það sem skattlagt var áður, verður að sjálfsögðu skattlagt ennþá meira.

Þó vitað væri að skattagleðin væri mikil, hefur hún nú orðið að hreinu skattabrjálæði og nýjasta flugan, sem fjármálajarðfræðingurinn hefur fengið í höfuðið, er að skattleggja heita vatnið, sem lýðurinn lætur sér detta í hug að ylja sér við í vetrarkuldunum.

Réttlætingin kemur fram í fréttinni á þennan veg:  "Steingrímur sagði að í fjármálaráðuneytinu væri núna verið að skoða skattlagningu á hitaveitur. Verð á heitu vatni væri mismunandi á milli hitaveitna, en almennt væri verðlagning á heitu vatni lág."

Ef einhversstaðar finnst lágt verðlag, þá finnst þessum köppum sjálfsagt að hækka það með skattlagningu.  Til hvers að hafa eitthvað ódýrt, ef hægt er að hafa það dýrt?

Næst er að skattleggja kalda vatnið og súrefnið sem lýðurinn andar ótæpilega að sér.      


mbl.is Nýtt gjald á heitt vatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband