Ósannindi og falsrök

Finnur Árnason, duglegur forstjóri Haga, hefur sent frá sér yfirlýsingu til að mótmæla fréttum Moggans af málefnum Haga, eiganda þess 1998 ehf., og "eigendum" þess félags, sem eru Baugsfeðgar.  Flest sem kemur fram í yfirlýsingunni er ónákvæmt, villandi eða beinlínis rangt.

Hvergi hefur komið fram í umfjöllunum undanfarið, að til standi að fella niður skuldir af Högum, en hinsvegar hefur verið fjallað um skuldastöðu 1998 ehf. og hugsanlega skuldaniðurfellingu þess félags.  Finnur fullyrðir að "Hagar sé eina þvert á móti eina fyrirtæki landsins sem hafi á s.l. 18 mánuðum greitt upp að fullu með vöxtum skráðan skuldabréfaflokk, sem var meginhluti skulda félagsins.  Hagar séu nú vel fjármagnað félag til langs tíma."  Það mun vera rétt að félagið greiddi upp skuldabréfaflokk, sem skráður var í Kauphöll, en til þess notaði félagið ekki sitt eigið fé, heldur hefur komið fram, að skuldabréfin voru greidd upp með nýju langtímaláni frá Kaupþingi og Íslandsbanka.

Finnur lætur einnig eins og Mogginn berjist fyrir því, að Bónus verði án Jóhannesar í Bónus, þó ekki sé hægt að muna, hvar það hafi komið fram í blaðinu, en hins vegar hefur enginn barist harðar fyrir því að Bónus verði rekinn án Jóhannesar, en hann sjálfur og Jón Ásgeir, sonur hans.  Vörumerkið "Jóhannes í Bónus" er löngu búið að missa alla tiltrú og ekki hægt að sækja á mið þjóðarvorkunnar lengur út á það.

Þeir feðgar eru búnir að tapa hundruðum milljarða króna á brölti sínu, síðan þeir stofnuðu Bónus fyrir tuttugu árum og hefur fáum tekist að skapa aðra eins fjármálaóreiðu á stuttum tíma og þeim feðgum.  Sennilega yrði öllum fyrir bestu að ekkert fyrirtæki yrði framar rekið með þá feðga innanborðs.

Þjóðin er nú að súpa seyðið af gjörðum þeirra og annarra útrásarglæframanna.

Þeir sjálfir drekka bara Diet Coce og eru alsælir með það.


mbl.is Engar skuldir Haga afskrifaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sífelld ónákvæmni

Áróðursbragð stjórnarflokkanna endurtekur sig í sífellu, en það felst í því, að boða fyrst afar slæm tíðindi og koma svo fram skömmu síðar og segja, að sem betur fer sé útlitið nú ekki eins slæmt og það hafi litið út áður. 

Þessum áróðri er beitt hvað eftir annað, til þess að reyna að sætta fólk betur við þær arfavitlausu skattahækkunarbrjálæðistillögur, sem ríkisstjórnin er að reyna að koma sér saman um, en aðeins hefur náðst samstaða innan flokkanna og milli þeirra um hvað heildarskattheimtan skuli verða há, en ekki hvernig í ósköpunum eigi að vera hægt að leggja slíkar byrðar á þjóðina.

Nú segir Steingrímur J. að halli á rekstri ríkissjóðs verði ekki jafn mikill og talið hafi verið fyrir rúmum mánuði síðan og það séu mikil gleðitíðindi.  Þó hefur komið fram að hallinn á ríkisrekstrinum muni verða 500 milljarðar á árunum 2008 - 2011.  Sjálfsagt er að taka undir að það yrðu gleðitíðindi, ef ríkisstjórnarnefnunni tækist að halda hallanum innan þessara marka og enn meiri gleðitíðindi, ef henni tækist að spara í ríkisrekstrinum, en það er eitur í beinum vinstri manna. 

Skattpíningarleiðin er miklu auðveldari og alltaf hægt að friða almúgann, með því að segja að "byrðunum verði dreift á réttlátan og sanngjarnan hátt", þannig að þeir efnameiri verði látnir borga meira.  Þá gleðjast allir, en skilja ekki að "breyðu bökin" eru bök almennings.

Steingrímur sagði keikur í þinginu í dag:  "Þá væru atvinnuleysistölur heldur betri en útlit var fyrir sem þýddi að ekki þyrfti að leggja Atvinnuleysistryggingasjóði til jafn mikið fé og áætlað var. Loks væru tekjur ríkisins heldur að styrkjast á nýjan leik og virðisaukaskatturinn að gefa meiri tekjur sem sýndi að umsvifin séu að aukast í þjóðfélaginu á ný."

Allar spár benda til að atvinnuleysi muni aukast á næsta ári og fréttir, sem birtust í dag, sýna að velta í smásöluverslun heldur áfram að dragast saman, mánuð eftir mánuð, og ekkert útlit fyrir annað en að hún muni minnka enn, með sískertum kaupmætti almennings.

Fjármálaráðherra lætur svoleiðis smámuni ekki hafa nokkur áhrif á sig.


mbl.is Dregur úr halla ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bragð er að þá barnið finnur

Samfylkingin og hennar áhangendur, hafa hangið á því, eins og hundar á roði, að íslenskir skattgreiðendur skulduðu breskum sparifjáreigendum fullar bætur fyrir þær innistæður, sem þeir áttu hjá einkafyrirtækinu Landsbanka, í Englandi, við bankahrunið í fyrra.

Fram að þessu, hefur ekki heyrst ein einasta efasemdarrödd frá Samfylkingarliðinu, um málið, heldur hefur það allt gengið glatt í gegnum svipugöng Breta og Hollendinga og látið hýða sig duglega, enda litið á sig sem sakborninga í málinu og þar fyrir utan hafi þetta verið nauðsynleg fórn fyrir greiða inngöngu Íslands í ESB.

Nú kemur fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, seint og um síðir, og lýsir íslenska skattgreiðendur sýkna af kröfum kúgaranna, eða eins og segir í viðtali hennar við Sölva Tryggvason:  „Núna þegar við erum að reyna að semja okkur í gegnum Icesave, þá finnst mér svolítið eins og við komum fram eins og hinn seki.....göngum til samninganna eins og sakamaðurinn, en hins vegar séu bresk stjórnvöld laus allra mála, þau eru það auðvitað ekki.“

Einnig er þessi yfirlýsing Ingibjargar merkileg í ljósi framgöngu flokkssystkina hennar:  "Ingibjörg segir að sér finnist að íslenska samninganefndin hafi ekki lagt nógu mikla áherslu á ábyrgð Breta og ábyrgð Evrópusambandsins. Við séum að vinna samkvæmt „dirctívi" frá Evrópusambandinu sem sé meingallað, sérstaklega þegar komi að alþjóðlegum bönkum."

Er þetta ný vitrun innan Samfylkingarinnar?

Vita Jóhanna og Össur um um þetta?


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Komum fram eins og sá seki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veröld sem var?

Í grein Páls Kolbeins í Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra, koma fram margar fróðlegar upplýsingar um framtaldar tekjur, eignir og skuldir vegna ársins 2008.  Þar sem banka- og útrásarmatadorinn hrundi undir árslok 2008, lýsa þessar tölulegu upplýsingar frekar veröld sem var, en þeirri veröld sem nú er.

Til dæmis verður fróðlegt að bera niðurstöður fyrir árið 2009 við þessar tölur, t.d. þessa niðurstöðu:  "Fjölskyldur sem eiga meira en 150 milljónir eiga samtals 468 milljarða í framtaldar eignir. Það er 1.281 fjölskylda sem á þessar miklu eignir. Þetta eru 0,8% af öllum fjölskyldum í landinu, en hópurinn á 12,8% af öllum eignum."  Það er spurning hvort inni í þessum eignum séu talin t.d. hlutabréf, eða önnur verðbréf, sem síðan hafa orðið einskis virði vegna hrunsins.

Aðrar merkilegar upplýsingar eru t.d. þessar:  "79.149 fjölskyldur telja ekki fram neinar skuldir, þar af eru 67.433 einhleypingar og 11.706 hjón. Eignir þessa hóps námu 845 milljörðum. Um 60% fjölskyldna skulda innan við fimm milljónir eða ekki neitt."

Þetta verður einnig fróðlegt að bera saman við tölur vegna 2009, þegar þær liggja fyrir, því ekki er vitað hvernig þessi hópur hefur komið út úr kreppunni, en a.m.k. hafa verðbætur og gengishækkanir skulda ekki átt að hafa komið illa niður á þessu fólki.

Samkvæmt greininni áttu ýmsir í erfiðleikum, en það er eftir sem áður mikill minnihluti þjóðarinnar, sem eru auðvitað betri niðurstaða, en margur hefði reiknað með, en afleiðingar hrunsins endurspeglast að litlu leyti í þessari skýrslu.

Vonandi eru þetta þó vísbendingar um að afleiðingar kreppunnar á meirihluta þjóðarinnar, verði léttbærari, en þeir svartsýnustu hafa búist við.

 


mbl.is Þær ríkustu skera sig úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband