Í greipum vinstrimanna

"Við erum í höndum visnstrimanna og við vitum öll hvað þeir vilja gera við landið.  Við vitum að 72% fjölmiðlanna eru til vinstri.  Þjóðmálaþættir og aðrir þættir í ríkissjónvarpi sem almenningur borgar fyrir eru til vinstri."

Þegar þessi orð eru lesin, er fyrsta hugsunin sú, að einhver Íslendingur sé að lýsa ástandinu hérlendis, en svo er ekki, heldur er það forsætisráðherra Ítalíu sem talar.   Fjölmiðlalandslagið er greinilega líkt með löndunum tveim, þó annað sé í suðuhluta Evrópu, en hitt lengst í norðri.

Íslendingurinn hefði reyndar bætt því við, að allt atvinnulífið væri að komast í hendur vinstri manna og þeir gerðu allt sem í þeirra valdi stæði, til að drepa niður það litla sem eftir er af lífsneista þeirra fyrirtækja, sem ekki eru nú þegar komin í þeirra umsjá.

Eina ríkisstjórnin á vesturhveli jarðar sem virðist viljandi vera að lengja kreppuna og dýpka hana, situr á Íslandi, enda athlægi um víða veröld. 

 


mbl.is Í greipum vinstrimanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar tala út og suður í sama viðtalinu

Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, og Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, voru í viðtali við BBC í tilefni af ársafmæli hrunsins og töluðu út og suður, eins og þeirra var von og vísa.

Jóhanna sagði, eins og venjulega, að eina bjargráðið væri ESB og þar með Evran, en Steingrímur J. reynir að klóra í bakkann, með því að vitna í "suma" um að aðalbjargvætturinn í þessu ástandi væri krónan, eða eins og segir í fréttinni:  "Jóhanna, sem talar íslensku í fréttinni, segir m.a. að það sé mjög mikilvægt fyrir íslensku þjóðina að fá sem fyrst aðild að Evrópusambandinu. Steingrímur svarar m.a. spurningu um evruna og segir að sumir telji, að sveigjanleiki íslensku krónunnar kunni að hjálpa til þegar Íslendingar vinna sig út úr kreppunni."

Vonandi hefur ruglið í Jóhönnu ekki verið þýtt á ensku fyrir Bretana, enda ekki víst að þeir hefðu skilið það, hvort sem var.

Stefna Samfylkingarinnar er óskiljanleg á hvaða tungumáli sem er.


mbl.is Ísland í brennidepli á BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðavæðing Samfylkingarinnar

Árni Páll Árnason, ESB- og félagsmálaráðherra hélt hátíðlega ræðu á þingi Starfsgreinasambandsins og beindi máli sínu fyrst og fremst til Samfylkingarfélaga sinna, sem þar sátu, enda ekki margir aðrir, sem taka Árna mjög alvarlega.  Helsta hvatning Árna til félaganna hljóðaði svo:  „Barátta fyrir alþjóðavæddu atvinnulífi og samvinnu við nágrannaríki er hin nýja stéttabarátta vorra tíma – barátta okkar fyrir öruggri lífsafkomu, áhrifum og jafnrétti.“ 

Þó þingfulltrúar hafi sjálfsagt ekki hlegið upphátt undir ræðu Árna, af kurteisisástæðum, hefur áreiðanlega mörgum verið hlátur í hug, ekki síst við þennan kafla ræðunnar:  „Við stöndum á tímamótum. Í efnahagslífi okkar í dag erum við að fást við efnahagslegt ójafnvægi sem stafar fyrst og fremst af því að innviðir samfélagsins – og þá sérstaklega gjaldmiðillinn – eru ekki nógu sterkir til að bera alþjóðavæðingu hluta efnahagslífsins. Bankakerfið og viðskiptalífið reyndist of opið og of stórt fyrir þennan litla gjaldmiðil."

Ekki verður annað skilið af þessum orðum Árna, en að bankarnir og útrásin stæðu enn í miklum blóma, eingöngu ef Ísland hefði verið komið í ESB og búið að taka upp Evruna.  Þá hefðu krosseignatengsl, að ekki sé talað um krossskuldatengsl, ekki skipt neinu máli og banka- og útrásargarkar væru enn að leggja undir sig lönd og álfur, eins og ekkert hefði í skorist.  

Bankar og efnahagslíf í Evrulöndum hafa gengið í gegnum miklar hremmingar undanfarin misseri og eingöngu geysisterkir ríkissjóðir í sumum landanna hafa bjargað mörgum bönkum frá sömu örlögum og þeir íslensku lutu.  Árni Páll hefur ekkert um þetta frétt og vill endilega endurreisa banka- og útrásarruglið með nýjum gjaldmiðli.  Jafnvel með inngöngu í ESB, fengist sá gjaldmiðill ekki fyrr en eftir áratugi, en það stoppar ekki Árna Pál í fagurgalanum.

Alltaf léttur og fyndinn, hann Árni Páll.  Það má hann eiga.

 


mbl.is „Nú þarf að velja rétt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskýring Kristjáns mistókst

Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, var að flytja pólitíska barátturæðu fyrir endukjöri sínu í embætti og eins og vinstri manni sæmir, falsar hann allar staðreyndir um orsök fjármálahrunsins á síðasta ári og kennir "frjálshyggjutilraun síðustu tveggja áratuga" um hvernig fór.

Ekki útskýrir hann það nánar, eða sýnir fram á hvaða hugmyndafræði brást, því efnahagshrunið einskorðast ekki við Ísland, heldur varð það um nánast allan heim og hvergi annarsstaðar í veröldinni, en á Íslandi, dettur nokkrum manni í hug að kenna stjórnmálamönnum, hvað þá einstökum stjórnmálaflokkum um ástandið, enda ríkisstjórnir samsettar úr öllu litrófi stjórnmálanna við völd í hinum ýmsu löndum.

Það sem var verra hér á landi, en vísast annarsstaðar, var að stærstum hluta banka- og braskfyrirtækja var stjórnað af sið- og lögblindum glæframönnum, og starfsemi þeirra má helst líkja við skipulagða glæpastarfsemi erlendis, eins og Mafíuna og önnur slík glæpafélög, sem fæst eru þó skráð sem hlutafélög, eða einkahlutafélög, eins og þau Íslensku.

Að bendla slíka starfsemi við pólitík er gjörsamlega út í hött og þeim til skammar, sem það stunda.

Formaður Starfsgreinasambandsins er maður að minni eftir þessa framboðsræðu.

 


mbl.is „Tilraunin mistókst“ með herfilegum afleiðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnlegur þingflokksfundur

Ráðherrar draugaríkisstjórnarinnar hafa átt "gagnlega fundi" út um allar jarðir undanfarið, eins og bloggað var um hérna fyrir stuttu, en árangur "ganglegu fundanna" hefur enginn orðið, annar en sá að það þurfi að halda fleiri "ganglega fundi".

Í gærkvöldi hélt þingflokkur VG afar "ganglegan" fund um þá "gagnlegu" fundi sem Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, átti við hina ýmsu fulltrúa herraþjóðanna, Breta og Hollendinga, og virðist niðurstaða þeirra allra hafa verið sú, að funda þyrfti fljótlega aftur, til að reyna að þoka málum áfram.

Svipuð niðurstaða varð á þingflokksfundi VG, eða eins og Ögmundur, brottrekinn heilbrigðisráðherra, sagði eftir fundinn:  "Aðspurður sagði hann þó að ekkert nýtt hefði komið fram á fundinum sem gerði honum auðveldara að styðja málstað ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu. „Nei, það var ekki. En það var heldur ekkert sem kom fram sem gerði málið verra í mínum augum.“

Ekki er hægt að lýsa niðurstöðu "gagnlegs" fundar betur en þetta.


mbl.is „Búið að lægja ólguna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband