Færsluflokkur: Bloggar
6.9.2016 | 13:01
Hvað getur svona grín gengið lengi?
Stjórn Pírata hefur gefið út að átján af þeim tuttugu sem "smalað" var til þátttöku í prófkjöri Pírata í norðvesturkjördæmi hafi einungis merkt við einn frambjóðanda, þ.e. "smalann" og því hafi borið að ómerkja prófkjörið og endurtaka það með þátttöku allra landsins Pírata.
Nú loksins hafa verið birtar tölur úr prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu og samkvæmt ótrúlega fullkomnu, en að sagt er flóknu, talningakerfi þeirra fékk Birgitta, sjóræningjakafteinn, aðeins 15,5% atkvæða (160 alls) í fyrsta sæti. Það þætti léleg útkoma í öllum öðrum kosningum.
Það furðulega kemur einnig fram að 81 kjósandi, eða 7,8%, merktu aðeins við einn frambjóðanda og miðað við skýringarnar á ógildingu prófkjörsins í norðvesturkjördæmi hlýtur kosningin á höfuðborgarsvæðinu að verða ógilt líka og kosið upp á nýtt og þá á landsvísu auðvitað.
Þetta stjórnmálagrín hófst allt saman með "Besta flokknum" í borgarstjórnarkosningunum árið 2010 og nú hefur Pírataflokkurinn haldið fíflaganginum á lofti á Alþingi undanfarin ár og verður að telja að nú fari kjósendur að fá leið á uppistandinu, enda ekkert fyndið lengur.
![]() |
Oddviti Pírata fékk 15,5% í fyrsta sætið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.9.2016 | 12:35
Ætli þetta sé Pírötunum að þakka?
Matsfyrirtækið Moody´s hefur hækkað lánshæfismat ríkissjóðs Íslands um tvo flokka og er það nú í A-flokki og þar með sett á stall með öðrum ríkjum sem vel er stjórnað fjárhagslega og horfur taldar góðar í þeim efnum í næstu framtíð.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, er ein þeirra sem tjáð hafa sig um þennan einstæða árangur ríkisstjórnarinnar og segir þetta stórhækkaða lánshæfismat ekki koma á óvart, miðað við stöðu ríkissjóðs og góða efnahagsstjórn undanfarinna ára.
Ásdís segir m.a: "Batnandi lánshæfi endurspeglar hversu sterk staðan er orðin í íslensku hagkerfi, þá eru efnahagshorfur góðar, ríkissjóður áformar að skila afgangi á rekstri sínum á komandi árum, skuldir ríkisins hafa lækkað og gert er ráð fyrir þær muni lækka enn frekar á næstu árum."
Stutt er nú til kosninga og vonandi gera kjósendur sér grein fyrir því hverjir hafa komið ríkissjóði í þessa góðu stöðu og láti t.d. flokk fjármálaráðherrans njóta þess þegar í kjörklefann kemur. Aðrir flokkar reyna að gera lítið úr þessum árangri og þykjast hæfir til að taka við stjórnartaumunum og þá muni smjör fara að drjúpa af hverju strái og allt verði gert fyrir alla án nokkurrar fyrirhafnar eða skattpíninga.
Þó furðulegt sé, eru Píratar ennþá í öðru sæti, á eftir Sjálfstæðisflokki, í niðurstöðum skoðanakannana fyrir komandi kosninga, þó þar fari flokkur sem ólíklegastur er allra að verða til stórræðna við stjórn landsins og þarf þá ekki annað en að líta til frammistöðu fulltrúa þess flokks á líðandi kjörtímabili.
Staða ríkisstjóðs og batnandi kjör landsmanna hafa komist í núverandi hæðir án aðkomu Píratanna og vonandi muna kjósendur eftir að þakka þeim er þakka ber þegar tækifæri gefst til þess í komandi kosningum.
![]() |
Kom skemmtilega á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
30.8.2016 | 17:08
Hækka laun á kostnað hádegisverðarins
Furðuleg verða að teljast þau rök Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, að vegna samnings borgarstjórnarmeirihlutans og kennara um hækkun launa verði að spara í öðrum rekstri leik- og grunnskólanna.
Allan annan reksturskostnað yrði að skera niður og þar á meðal að rýra fæði barnanna, sem þó hefur ekki verið talið til neinna sérstakrar fyrirmyndar í gæðum.
Launakostnaður skólanna er sagður vera um 85% af heildarkostnaði við skólastarfið og því með ólíkindum að ætlast sé til þess að launasamningar skuli fjármagnaðir með niðurskuði á þeim 15% sem fara í allan annan rekstrarkostnað.
Þessi frammistaða borgarstjórnarmeirihlutans í málefnum barnanna er ömurlegur vitnisburður um fjármálastjórn borgarinnar sem viðgengist hefur síðustu ár.
Óstjórnin byrjaði fyrir alvöru í stjórnartíð "Besta flokksins" og ekkert bendir til að núverandi meirihluti sé að ná nokkrum tökum á ástandinu.
![]() |
Hitafundur í Ráðhúsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2016 | 23:36
Vísitalan er ekki vandamálið, en vaxtaokrið er það
Nú þegar vísitala neysluverðs hefur hækkað sáralítið tvö ár í röð ætti fólk að vera farið að sjá að verðtryggingin er ekki það vandamál sem plagar skuldara mest, enda ekki mikið talað um hana í þjóðfélaginu um þessar mundir.
Vaxtaokrið, sem viðgengist hefur hér á landi undanfarna áratugi, er hins vegar það vandamál sem almenningur ætti að sameinast um að mótmæla og berjast gegn af öllum kröftum.
Að lána óverðtryggð húsnæðislán með 6-7% vöxtum er svívirðilegt okur og ekki síður að lána verðtryggð lán með 4% vöxtum. Slík lán ættu ekki að bera meira en 1,5-2% vexti og óverðtryggð lán ættu að hámarki að vera með 4% vöxtum.
Seðlabankinn heldur uppi vaxtaokurssvíviðingunni með brjálæðislega háum stýrivöxtum (nú 5,25%) á sama tíma og nánast allir aðrir seðlabankar eru með slíka vexti á bilinu 0-2%.
Með því að rífast endalaust um verðtrygginguna er lánastofnununum gefinn friður til að stunda vaxtaokrið óáreittum, enda ótrúlega lítilli athygli beint að því í umræðunum um lánamál heimilanna.
![]() |
Vísitala neysluverðs hækkar um 0,34% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.7.2016 | 13:47
Hættum að tala heilbrigðiskerfið niður
Undanfarin ár hefur það nánast verið eins og "þjóðaríþróttt" að tala niður allt sem íslenskt er og látið eins og hér sé allt ómögulegt í samanburði við önnur lönd og varla búandi á Íslandi vegna skelfilegs ástands á öllum sviðum.
Ekki síst hafa opinberir starfsmenn verið iðnir við þessa íðju og ekki síst sem lið í kjarabaráttu sinni og þá hafa ekki verið spöruð stóryrðin um hve illa væri komið fyrir viðkomandi starfsemi, sem bæði væri orðin illa mönnuð, illa launuðu fólki og tækja- og húsakostur allur í rúst og í raun handónýtur.
Starfsfólk heilbrigðiskerfisins hefur yfirleitt ekki látið sitt eftir liggja í að tala niður sitt umhverfi og ekki sparað stóryrðin í því sambandi. Þess vegna er grein þriggja hjartalækna í Mogganum í dag kærkomin tilbreyting frá niðurrifsvælinu, en greinin er birt í tilefni af fyrirhugarði einkasjúkrahússbyggingu í Mosfellsbæ, sem reyndar er ólíklegt að nokkurn tíma verði byggð miðað við þær fréttir sem birst hafa af fyrirhuguðum fjárfestum.
Í grein sinni segja læknarnir m.a: "Síðustu ár hefur verið gert átak innan hjartalækninga í að bæta mönnun innan sérgreinarinnar. Allmargir yngri sérfræðingar með mismunandi bakgrunn og öfluga sérþekkingu hafa bæst í hópinn, og er mönnun hjartalækna nú mjög góð. Enn fremur hafa hjúkrunarfræðingar og allt annað starfsfólk sem hefur sinnt sjúklingum á legudeildum hjartalækninga, Hjartagátt og hjartaþræðingastofum verið einvala starfslið sem samhent vinnur að lausn flókinna vandamála á hverjum einasta degi. Sú reynsla og teymisnálgun sem við það skapast er afar mikilvæg. Verulegt átak hefur einnig verið gert í að bæta tækjabúnað hjartalækninga, til að mynda hafa tvær nýjar hjartaþræðingastofur verið teknar í notkun á síðustu þremur árum, og er tækjakostur hjartadeildar nú almennt mjög góður. Kannanir benda til að sjúklingar séu almennt ánægðir með þjónustuna hvort sem er á Hjartagátt, legudeildum hjartalækninga eða hjartaþræðingadeild. Erlendir ferðamenn sem fá hér meðferð hafa einnig almennt verið mjög ánægðir með þá alúð sem þeir mæta og læknisþjónustuna sem þeir fá. Mjög góður árangur hefur náðst undanfarna mánuði í að stytta biðlista í hjartaþræðingar og það er lykilverkefni að fækka á löngum biðlista eftir brennsluaðgerðum vegna takttruflana. Á þeim vettvangi hefur mikið verið lagt í að bæta mönnun, laga aðstöðu og fá fjármagn til að fjölga aðgerðum verulega. Þetta hlýtur að vera öllum ánægjuefni og eru frekari áform um að efla þjónustu við hjartasjúklinga á LSH."
Vonandi verður umræðan um ástandið í íslensku þjóðfélagi á þessum jákvæðu nótum í framtíðinni og við sjálf förum að meta það sem vel er gert á hverjum tíma og hættum niðurrifsstarfsseminni.
Ætli ánægjan með lífið og tilveruna verði ekki meiri og heilsusamlegri fyrir andlegt ástand þjóðarinnar, væri umtalið um þjóðfélagsmálin sanngjarnari en hún hefur verið lengstum.
![]() |
Gjörbreyting á íslenskri heilbrigðisþjónustu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.7.2016 | 11:21
Pírati hótar valdaráni
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hótar að hún og flokkur hennar muni standa fyrir valdaráni á Alþingi Íslendinga á næstunni, fari lýðræðislega kosinn meirihluti á þinginu ekki að þeirri kröfu að tilkynna um kjördag um leið og þingið kemur saman.
Málþóf og annað ofbeldi minnihluta þingmanna hverju sinni til að trufla og tefja störf löggjafans er algerlega óþolandi og almenningur löngu búinn að fá nóg af slíkum vinnubrögðum, enda virðing þingsins og þingmanna í algeru lágmarki meðal þjóðarinnar. Þingmenn geta engum um það kennt nema sjálfum sér og eigin framkomu og vinnubrögðum.
Samkvæmt viðhangandi frétt mun Ásta Guðrún hafa skrifað á Facebooksíðu sína eftirfarandi: "Það er alveg kýrskýrt af hverju það þarf að boða til kosninga og það er vegna þess að fólk er komið með nóg af mikilmennskubrjálæði, lögleysi og siðleysi stjórnmálamanna. Þetta er kúltúr sem við erum að reyna að uppræta. Það er ekki lengur hægt að komast upp með allt og halda áfram eins og ekkert sé. Stundum þarf að taka afleiðingum gjörða sinna."
Skrif hennar eiga mæta vel við hennar eigin siðleysi og mikilmennskubrjálæði og lýsir ekki síður vinnubrögðum minnihlutans á þingi en vinnubrögðum þeirra sem hún þykist vera að gagnrýna.
Ástandið á þinginu og jafnvel þjóðfélaginu öllu væri mun skárra ef þingmenn tækju meira mark á sjálfum sér og sýndu öðrum með því gott fordæmi í frmkomu og vinnubrögðum.
Umræðu"menning" á samfélagsmiðlunum og annarsstaðar þyrfti á slíkri fyrirmynd að halda.
![]() |
Hótar því að öll mál verði stöðvuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
19.7.2016 | 22:27
Hrun ferðamennskunnar upphaf að allsherjarupplausn í Tyrklandi?
Hryðjuverkahrinan, sem gengið hefur yfir Tyrkland undanfarin misseri hefur orðið til þess að hrun blasir við ferðamannaiðnaðinum þar í landi og enn syrti í álinn við valdaránstilraunina einkennilegu í síðustu viku.
Erdogan, forseti Tyrklands, og pótintátar hans virðast hafa verið iðnir við persónunjósnir um þegnana fyrir þessa valdaránstilraun og hafa þeir kumpánar brugðist við með því að handtaka þúsundir manna úr hernum, dómara, saksóknara, kennara ásamt því að reka tugþúsundir opinberra starfsmanna fyrirvaralaust úr störfum sínum.
Fordæmið frá Írak ætti að hræða, en einmitt svipaðar aðgerðir gegn stuðningsmönnum Saddams Hussein eru, a.m.k. að hluta til, talin hafa ýtt undir ógnaröldina sem þar hefur ríkt og ekki hafi upplausnin í stjórnkerfinu við fjöldauppsagnirnar bætt úr skák í þeim efnum.
Ekki er ólíklegt að hefndarþorsti Erdogans, eða jafnvel sviðsetning hans sjálfs á hinu misheppnaða "valdaráni" muni leiða til óaldar og jafnvel aukinna hryðjuverka í Tyrklandi, sem Erdogan og félagar munu svo stigmagna með enn hertum aðgerðum gegn almenningi og ekki síður Kúrdum og öðrum minnihlutahópum í landinu.
Til viðbótar gæti hreinlega farið svo að Daesh, eða svokallað Ríki Islams, hrektist undan herjum Íraks og Sýrlands og stuðningsþjóða þeirra inn í Tyrkland og þar með næðu vandamál Evrópu vegna flóttafólks nýjum hæðum og yrðu líklega algerlega stjórnlaus.
Ekkert í þessari atburðarás í Tyrklandi fram til þessa eykur neina bjarsýni á framtíðina, hvorki fyrir mið-austurlönd né Evrópu.
![]() |
Rothögg fyrir túrismann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.7.2016 | 10:46
Ótrúleg viðbrögð við enn furðulegra "valdaráni" í Tyrklandi
Fyrir nokkrum dögum var gerð tilraun til valdaráns í Tyrklandi og lítur út fyrir að hluti hersins hafi ætlað að taka völdin og koma í veg fyrir að Erdogan forseta tækist að gera sjálfan sig að einræðisherra landsins.
"Valdaránið" var svo illa skipulagt að Erdogan þurfti ekki annað en að skora á stuðningsmenn sína að flykkjast út á götur Istanbul og kveða þannig "valdaránið" niður og tóku margir stuðningsmanna hans ákalli hans svo alvarlega að "uppreisnarmenn" voru drepnir í þó nokkrum tilfellum á hrottalegan hátt án dóms og laga.
Miðað við viðbrögð Erdogans virðast þúsundir manna í hernum og opinberum störfum hafa tekið sig saman um að gera byltingu í landinu og tekist að fara svo hljótt með málið að hvorki leyniþjónusta Erdogans né nokkur önnur í veröldinni höfðu nokkurn pata af málinu, enda kom það öllum heiminum gjörsamlega á óvart.
Líklegasta skýringin á þessu "valdaráni" er að Erdogan hafi sjálfur staðið á bak við allt saman og eina raunverulega valdaránið sé einmitt að eiga sér stað þessa dagana á meðan Erdogan er að festa sjálfan sig í sessi sem einræðisherra Tyrklands og ekki lofa fyrstu dagarnir góðu um framhald þess stjórnarfars sem virðist í uppsiglingu í landinu.
Öll viðbrögð Erdogans og hans manna við "valdaráninu" virðast hafa verið undirbúin löngu áður en tilraunin til "valdaránsins" var gerð, enda öll viðbrögð við því vandlega undirbúin og listar tilbúnir yfir þúsundir manna, jafnvel tugþúsundir, sem handteknir hafa verið og ásakaðir um andstöðu við einræðisherrann væntanlega.
Tyrkland virðist vera á leið til borgarastyrjaldar og lenda í flokki með Írak og Sýrlandi og er sú framtýðarsýn eins og algjör martröð fyrir vestræna leiðtoga, sem ekki hafa þorað annað en sitja og standa eftir duttlungum Erdogans fram að þessu.
Ef til vill endurskoða fljótlega einhverjir þeirra þessa vægast sagt illa grunduðu eftirlátssemi við Erdogan undanfarin ár.
![]() |
103 hershöfðingjar handteknir eftir valdaránstilraunina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2016 | 21:54
Bálreiður Gylfi bregður brandi
Gylfi Arbjörnsson, formaður Alþýðusambands Íslands, segir allt fara í bál og brand í þjóðfélaginu setji ríkisstjórnin ekki lög umsvifalaust til að afturkalla launahækkanir sem kjararáð skammtaði ríkisforstjórum og fleiru hálaunafólki í störfum fyrir ríkisbáknið.
Kjararáð segist vera að endurmeta laun þessara aðila með tilliti til áður framkominna launahækkana annarra í þjóðfélaginu og með tilliti til þreytu þessara starfsmanna þegar þeir loksins komast heim til sín algerlega úrvinda í lok vinnudags.
Í hvert sinn sem kjararáð sendir frá sér nýja úrskurði byrjar sami söngurinn í forystusauðum stéttarfélaganna, þ.e. að úrskurðirnir séu algerlega úr takti við allt sem sé og hafi verið að gerast á vinnumarkaði undanfarna mánuði og ár. Á sama hátt er skýring kjararáðs alltaf sú að ráðið hafi einmitt verið að taka mið af kjarasamningum undanfarinna mánaða að teknu tilliti til þessa eða hins sem hafi breyst embættismönnunum í óhag síðan síðasti úrskurður hafi verið kveðinn upp.
Almenningur verður alltaf jafn bálreiður og Gylfi og aðrir launþegaforingjar og yfirleitt er erfitt að sjá hvorir eru fljótari að gleyma öllu saman, slökkva bálin innra með sér og slíðra brandana.
Núna eru liðnir tveir eða þrír dagar frá því að úrskurður kjararáðs var kveðinn upp og flestir búnir að jafna sig á reiðikastinu og hinir verða nokkuð örugglega búnir að gleyma öllu saman strax eftir helgina, a.m.k. ef veðrið helst sæmilegt.
![]() |
Allt fari í bál og brand |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.6.2016 | 19:40
Snillingurinn Lars reyndist sannspár um frestun starfsloka sinna
Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson hafa náð ótrúlegum árangri með íslenska landsliðið í knattspyrnu og auðvitað eiga liðsmennirnir sjálfir stóran þátt í þeim ótrúlegu úrslitum sem náðst hafa í aðdraganda EM og á mótinu sjálfu.
Lars mun láta af störfum sem þjálfari eftir EM en reyndist sannspár um að leikurinn gegn Austurríki yrði ekki lokaleikur hans með liðinu, svo sannfærður var hann um að strákarnir næðu að komast í sextán liða úrslit keppninnar, en að það skuli hafa gerst er í raun lyginni líkast.
Í fréttinni er m.a. haft eftir þjálfaranum um liðið: "Minnumst þess að þetta er þeirra fyrsta stórmót og andlegi styrkurinn í liðinu er algjörlega magnaður."
Auðvitað eiga leikmennirnir sjálfir stærsta þáttinn í stórkostlegum árangri liðsins, en hlutur þjálfaranna er líka stór enda vinnast sigrarnir ekki nema með góðri leiðsögn og forystu þjálfarateymisins.
Árangum liðsins og þjálfaranna vakti mikla athygli í knattspyrnuheiminum strax og tekist hafði að tryggja þátttökuréttinn á HM og Lars og Heimir taldir með bestu þjálfurum ársins 2015, eins og sjá má hérna: http://www.mbl.is/sport/efstadeild/2015/12/31/lars_og_heimir_a_medal_theirra_bestu/
Næsti leikur liðsins verður á mánudaginn gegn Englandi og án efa munu strákarnir berjast eins og ljón í þeim leik, þó varla sé raunhæft að reikna með sigri þeirra. Úrslitin á mótinu til þessa eru svo stórkostleg að hvernig sem fer í næsta leik verður frammistaða liðsins og þjálfaranna í minnum höfð meðan fótbolti verður spilaður í landinu.
![]() |
Lars: Ekki lokaleikur minn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)