Hrun ferðamennskunnar upphaf að allsherjarupplausn í Tyrklandi?

Hryðjuverkahrinan, sem gengið hefur yfir Tyrkland undanfarin misseri hefur orðið til þess að hrun blasir við ferðamannaiðnaðinum þar í landi og enn syrti í álinn við valdaránstilraunina einkennilegu í síðustu viku.

Erdogan, forseti Tyrklands, og pótintátar hans virðast hafa verið iðnir við persónunjósnir um þegnana fyrir þessa valdaránstilraun og hafa þeir kumpánar brugðist við með því að handtaka þúsundir manna úr hernum, dómara, saksóknara, kennara ásamt því að reka tugþúsundir opinberra starfsmanna fyrirvaralaust úr störfum sínum.

Fordæmið frá Írak ætti að hræða, en einmitt svipaðar aðgerðir gegn stuðningsmönnum Saddams Hussein eru, a.m.k. að hluta til, talin hafa ýtt undir ógnaröldina sem þar hefur ríkt og ekki hafi upplausnin í stjórnkerfinu við fjöldauppsagnirnar bætt úr skák í þeim efnum.

Ekki er ólíklegt að hefndarþorsti Erdogans, eða jafnvel sviðsetning hans sjálfs á hinu misheppnaða "valdaráni" muni leiða til óaldar og jafnvel aukinna hryðjuverka í Tyrklandi, sem Erdogan og félagar munu svo stigmagna með enn hertum aðgerðum gegn almenningi og ekki síður Kúrdum og öðrum minnihlutahópum í landinu.

Til viðbótar gæti hreinlega farið svo að Daesh, eða svokallað Ríki Islams, hrektist undan herjum Íraks og Sýrlands og stuðningsþjóða þeirra inn í Tyrkland og þar með næðu vandamál Evrópu vegna flóttafólks nýjum hæðum og yrðu líklega algerlega stjórnlaus.

Ekkert í þessari atburðarás í Tyrklandi fram til þessa eykur neina bjarsýni á framtíðina, hvorki fyrir mið-austurlönd né Evrópu.


mbl.is Rothögg fyrir túrismann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Til að bæta gráu ofan á svart, hefur evrópusambandið nýlega gert samkomulag við tyrki sem galopnar fyrir ferðir þeirra innan Schengen. Það eru viðsjárverðir tímar framundan, eins og þú bendir réttilega á Axel.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 20.7.2016 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband