Færsluflokkur: Bloggar

Aðför að málfrelsinu, sem þó er illa notað

Akureyreyrarbær hefur gert óþolandi árás á tjáningar- og skoðanafrelsi Snorra Óskarssonar í Betel, með því að víkja honum úr starfi vegna skrifa hans um samkynhneigð, sem hann álítur vera synd og algerlega óréttlætanlega þess vegna.

Snorri á auðvitað að hafa fullt leyfi til að tjá þessar skoðanir sínar og það verður að teljast algerlega óréttlætanlegt í lýðfrjálsu landi, þar sem málfrelsi á að heita í hávegum haft, að hrekja menn frá lifibrauði sínu þó þeir láti í ljós skoðanir sem öðrum gætu fundist óviðeigandi.

Skoðanir Snorra á samkynhneygð eru reyndar fornar og algerlega úr takt við þann hugsunarhátt sem tíðkast nú á tímum, enda stór hluti þjóðfélagsins löngu hættur að hugsa á sömu nótum og Snorri og þykir samkynhneigð ekkert tiltökumál og öllum þykir sjálfsagt að viðurkenna réttindi samkynhneigðra til jafns á við aðra þjóðfélagsþegna.

Snorri Óskarsson gerir sjálfum sér og söfnuði sínum, eða kristninni yfirleitt, engan greiða með prédikun þessara fornaldarviðhorfa, en eftir sem áður á hann að njóta allra réttinda til að tjá þær, án þess að verða fyrir ofsóknum þeirra vegna, að ekki sé þar talað um atvinnuþvinganir af hálfu opinberra aðila.

Slíkar ofsóknir eru miklu verri en ofsóknir Snorra gagnvart samkynhneigð.


mbl.is Snorri sendur í leyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í tárvota yfirlýsingu Ólafs Ragnars

Frá því að Ólafur Ragnar hélt áramótaræðu sína hefur verið augljóst að hann muni bjóða sig fram til forseta í fimmta sinn, enda gaf hann sterklega til kynna í ræðunni að hann óskaði eftir formlegum áskorunum á sig til þess að slíkt myndi líta betur út á yfirborðinu, enda enginn forseti setið lengur á Bessastöðum en fjögur kjörtímabi
Samkvæmt óskum Ólafs Ragnars hófu vinir hans og samstarfsmenn að safna áskorunum á hann að bjóða sig fram enn og aftur og nú hafa safnast nálægt þrjátíuþúsund nöfn á listann og mun þessari söfnun ljúka um miðjan mánuðinn.

Þar með styttist óðum í að Ólafur Ragnar, grátklökkur af ást og elsku þjóðarinnar í sinn garð, muni gefa út yfirlýsingu um áframhaldandi setu á forsetastóli, enda ekki nokkur leið að hafna svo eindreginni ósk svo ástríkrar þjóðar á forseta sínum.

Helgislepjan og véfréttastíllinn mun vafalaust ná nýjum hæðum í þessu væntanlega ávarpi.


mbl.is Nálgast 30.000 undirskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Whitney Houston er látin en minningin lifir

Minning hinnar frábæru listakonu, Whitney Houston, mun lengi lifa og í raun er söngur hennar ódauðlegur, þó hún sjálf hafi látist í gær, aðeins 48 ára gömul.

Það er sorglegra en tárum tekur þegar áfengi og eiturlyf eyðileggja líf fólks og draga það jafnvel til dauða langt um aldur fram.

Listamenn, ekki síður en aðrir, hafa margir hverjir orðið þessum örlögum að bráð í blóma lífsins og alltaf er jafn erfitt að meðtaka og sætta sig við slíkt.

Blessuð sé minning Whitney Houston.


mbl.is Whitney Houston látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyris"sjóðir" eða lífeyristryggingafélög?

Umræða um lífeyrissjóðina hefur verið mikil og fjörgug eftir hrun, ekki síst vegna margra furðulegra fjárfestinga þeirra á árunum þar á undan, jafnvel "víkjandi lán" til bankanna en nafnið eitt á þessum lánum og eðli þeirra hefði átt að hringja öllum viðvörunarbjöllum og hefðu reyndar átt að setja í gang brunavarnarkerfin sem hefðu átt að vera byrjuð að sprauta vatni á eldana sem löngu voru farnir að loga í fjármálakerfinu.

Ekki síður hefur umræðan magnast um að félagar lífeyrissjóðanna ættu að hafa rétt til að kjósa sína fulltrúa í stjórnir sjóðanna, en hvorki vinnuveitendur né verkalýðshreyfingin hafa tekið slíkt í mál fram að þessu. Þeir sem hafa mikil völd láta ógjarnan af þeim, jafnvel þó þeir geri stór og mikil mistök, játi þau jafnvel, en axla sjaldnast ábyrgð sína og hvað þá að þeir láti af þeim störfum sem þar sem þeir viðurkenna að hafa verið "afar skammsýnir" á sínum tíma.

Í almennri umræðu er oftast rætt um lífeyrissjóðina sem "eign" sjóðsfélaganna, en það eru þeir í raun og veru ekki þar sem þeir eru sameignarsjóðir og sumir fá miklu minna út úr þeim en þeir hafa greitt til þeirra og aðrir miklu meira. Allt fer það eftir langlífi og heilsufari inngreiðendanna og því eru félagarnir miklu frekar að kaupa sér ákveðin lifeyrisréttindi en að safna í sjóð. Slík söfnun á við um séreignarlífeyrissjóðina en ekki sameignarsjóðina.

Eftir sem áður er sjálfsagt að auka lýðræði í stjórnarkosningum sjóðanna og séreignarsjóðirnir ættu að vera algerlega í höndum sjóðfélaganna einna og aðilar vinnumarkaðarins ættu þar hvergi að koma nærri.


mbl.is Vilja áfram eiga aðild að stjórn lífeyrissjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin ekki tekin alvarlega hjá ESB

Utanríkismálanefnd ESB þingsins mun vera að undirbúa áskorun á ríkisstjórn Íslands að taka upp sameiginlega innlimunarstefnu að ESB, enda væri hún varla viðræðuhæf eins sundruð og hún er í þessu efni.

Ríkisstjórnin og tilburðir hennar eru greinilega ekki hátt skrifuð af kommisörunum í Brussel og varla að undra.

Líklega er hlegið hátt og mikið á kaffistofum sambandsins þegar íslenska ríkisstjórnin berst þar í tal.


mbl.is Ríkisstjórnin móti sameiginlega ESB-stefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æra Jóns Ásgeirs ærir óstöðuga

Jón Ásgeir, foringi Baugsklansins, lýður ekki nokkrum manni að tala óvarlega um sig og sínar og kærir hvern þann sem lætur einhver orð falla um sína persónu og sínar gerðir, sem honum mislíkar.

Í kærumáli hans gegn Birni Bjarnasyni heldur verjandinn því fram að málið snúist alls ekki um æru Jóns Ásgeirs, heldur um hefnd og sé um leið fyrirbyggjandi aðgerð til að sýna öðrum fram á að betra sé að halda sér á mottunni í ummælum um "stórmennið" og athafnir þess.

Í huga almennings er Jón Ásgeir löngu orðinn ærulaus maður vegna eigin aðgerða og framkomu og því mun niðurstaða þessa meiðyrðamáls ekki skipta nokkru máli varðandi æru eða æruleysi hans.

Það er hins vegar alveg til að æra óstöðuga að fylgjast með þessum tilburðum.


mbl.is Snýst ekki um æru Jóns Ásgeirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð fjárfesting í lélegum fyrirtækjum

Samkvæmt því sem Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir um fjárfestingar lífeyrissjóðanna, þá voru þær allar mjög skynsamlegar og hefðu verið afar arðbærar ef fyrirtækin sem fjárfest var í hefðu ekki verið eins léleg og raun bar vitni.

Engum lífeyrisbraskara datt hins vegar í hug að eitthvað væri athugavert við ótrúlega útþenslu bankanna og annarra helstu fyrirtækja sem flest voru í eigu sömu gengja og bankarnir sjálfir og þöndust út á sama hraða, enda gegnu þau nánast ótakmarkað í fjármagn bankanna, sem voru notaðir eins og einkasparibaukar eigendanna.

Vegna þess að allar fjárfestingarnar voru afbragðsgóðar, en það voru bara bankarnir sem fóru á hausinn og þar með bólufyrirtækin, sem nærðust á bankabraskinu, þá ber auðvitað enginn ábyrgð á neinu og enginn þarf að axla ábyrgð á gerðum sínum.

Almennir starfsmenn fyrirtækja eru miskunnarlaust reknir fyrir smávægilegar yfirsjónir, enda eru þeir yfirleitt á lágum launum og því látnir bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Það á að sjálfsögðu ekki við um toppana með milljónalaunin. Þeir bera svo mikla ábyrgð að þeir eru algerlega ómissandi.


mbl.is Ekki tilefni til að víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirskriftalisti án undirskrifta

Bigitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur tekið upp á þeirri nýjung að fara af stað með undirskriftalista sem hún hvorki reiknar með, eða ætlast til, að nokkur maður skrifi undir.

Þingmaðurinn auglýsti rækilega að hún væri að safna undirskriftum innan þingsins til að geta bylt forseta Alþingis úr embætti og sagði upphaflega að hún myndi opinbera listann þegar takmarkinu væri náð, þ.e. undirskriftum 32 þingmanna.

Nú segir Birgitta að aldrei hafi verið ætlunin að nokkur maður myndi leggja nafn sitt við þetta furðuuppátæki, þó einstaka þingmenn eins og Mörður Árnason hafi stokkið til og skráð sig í andspyrnuhreyfinguna gegn þingforsetanum, enda ekkert mál svo auðviriðlegt að Mörður sé ekki albúinn að leggja því lið.

Engin nöfn hafa bæst á listann frá því að hann var auglýstur og sýnir það talsverðan félagsþroska þingmanna, að undanskildum Birgittu, Merði og sex öðrum sem ekki þora að viðurkenna undirritun sína.


mbl.is Býst ekki við að ná 32 nöfnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrt nám lífeyrisbraskaranna

Forkólfar lífeyrissjóðanna, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar, hafa þegið himinhá laun fyrir "ábyrgð" sína og "sérfræðiþekkingu" á fjárfestingum og meðferð þeirra fjármuna sem þeim hefur verið treyst til að ávaxta fyrir sjóðfélaga.

Nú er komið í ljós, sem allir vissu reyndar fyrir, að lífeyrissjóðirnir töpuðu hundruðum milljarða króna á braski sínu í samstarfi við bankabraskarana á árunum fyrir hrun og áttu reyndar sinn þátt í hversu hrunið varð mikið og afdrifaríkt, með því að ausa fé í hlutabréf og skuldabréf bankanna.

Sumir lífeyrissjóðirnir lánuðu jafnvel "víkjandi lán" til bankanna en slík lán eru utan og ofan við aðar skuldir og haldið utan við útreikninga um raunverulegan fjárhagslegan styrk þess fyrirtækis sem slík lán fær, en lánin eru einmitt nefnd "víkjandi lán" vegna þess að þau víkja fyrir öllum öðrum skuldum, lendi fyrirtæki í gjaldþroti, eins og raunin varð á um bankana.

Nú segja forkólfar lífeyrissjóðanna að þeir þurfi að læra af þeim mistökum sem þeir gerðu á árunum fyrir hrun og er óhætt að segja að þar sér ekkert ofsagt.

Þetta hlýtur að teljast dýrasta námskeið Íslandssögunnar og ekki virðist einn einast af þessum "nemendum" ætla að láta af starfi sínu, þó útskrifaðir hafi verið með algerri falleinkunn.


mbl.is Verðum að læra af reynslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæludýr haldi sig heima

Nokkrir þingmenn hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um "vegabréfaútgáfu" fyrir gæludýr, þannig að hægt verði að taka þau með í ferðalög a.m.k. til Evrópulanda, enda sé það í samræmi við tilskipanir og reglugerðir ESB.

Slíkar ESBreglur eiga þó alls ekki við um Ísland, enda landið eyja í norðuhöfum og á ekki landamæri að nokkru öðru landi ögugt við Evrópulöndin, þar sem fólk getur ekið landa á milli án nokkurs eftirlits. Þar að auki flakka mörg dýr yfir landamæri og fara hvort sem er ekki að nokkrum lögum eða reglum sem ESB dytti í hug að setja.

Íslendingar eiga þvert á móti að halda sig við harðar reglur um innflutning dýra og matvæla, ekki síst hrámetis og annarra afurða sem smithætta getur stafað af. Í þeim efnum ætti frekar að taka Ástralíu og Nýja Sjáland til fyrirmyndar, en þar gilda svo stífar reglur um slíkan innflutning að fólki er þar bannaður allur innflutningur dýraafurða, hvort sem þær eru hráar, soðnar eða á fæti. Þetta gildir einnig um ferðamenn, en þeim er nánast algerlega bannað að taka nokkuð með sér sem ætt gæti talist.

Þar sem Ísland er fjarri öðrum löndum er flutningur dýra bæði fyrirhafnarmikill og skepnunum erfiður og engin ástæða til að slaka á reglum sem um þetta gilda nú.

Umhverfissinnar og dýravinir ættu að láta í sér heyra vegna þessa frumvarps.


mbl.is Skiptar skoðanir um vegabréf gæludýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband