Færsluflokkur: Bloggar

Styður Merkel Samfylkinguna?

Angela Merkel, Þýskalandskanslari, hefur lýst yfir eindregnum stuðningi sínum við framboð Sarkozys til embættis forseta í FRAKKLANDI og það meira að segja áður en hann hefur sjálfur lýst því formlega yfir að hann muni gefa kost á sér til endurkjörs.

Einhverntíma hefðu það þótt stórtíðindi að einn þjóðarleiðtogi væri að skipta sér af kosningum, eða innanríkismálum yfirleitt, í öðru þjóðríki en sínu eigin en innan ESB virðist þetta þykja eðlilegasta mál, enda ræður Þýskalandskanslari öllu því sem hann vill ráða innan stórríkisins væntanlega. Stundum þó í samráði við Frakklandsforseta og þess vegna vill sá þýski ekki fá hvern sem er í æðstu embætti annarra héraða stórríkisins.

Haldi íslenska ríkisstjórnin lífi út kjörtímabilið munu verða kosningar til Alþingis eftir rúmt ár og ef fer sem horfir verður fjöldi flokka í framboði, gamlir og nýjir.

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort Merkel og jafnvel Sarkozy líka munu lýsa yfir stuðningi við Samfylkinguna, eða hvort einhver annar flokkur sem í framboði verður muni hugnast þeim betur.


mbl.is Merkel styður Sarkozy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin og Landsdómur

Samfylkingin er eitthvert mesta furðufyrirbæri íslenskra stjórnmála og hefur klaufaskapur, stjórnleysi og innanflokksátök verið aðalsmerki flokksins allt þetta kjörtímabil.

Hefur þetta komið fram í hverju málinu á eftir öðru og nægir að benda á Icesave, ráðherrakapla, skuldavanda heimilanna og Landsdómsmálið, rétt til að nefna nokkur mál af handahófi.

Ákæra á hendur ráðherra fyrir Landsdómi á ekki og getur ekki verið flokkspólitískt mál, heldur á það eingöngu að snúast um sannfæringu þingmanna, sem í þessu tilfelli eru ákærendur og saksóknarar, um líklega sekt viðkomandi ráðherra, enda er það mannréttindabrot að ákæra fólk sem engin sannfæring er fyrir að hafi framið refsiverðan verknað.

Samfylkingin og Vinstri grænir hafa hins vegar fallið á þessu einfalda prófi, að örfáum þingmönnum þessara flokka undanteknum, og snúið málinu gegn Geir H. Haarde upp í stórpólitískt stríð, ekki eingöngu gegn Sjálfstæðisflokknum heldur ekki síður þeim þingmönnum innan eigin raða, sem hafa viljað halda málfrelsinu og samvisku hvers og eins þingmanns í hávegum á Alþingi.

Vandræðagangur stjórnarflokkanna ríður ekki við einteyming, enda varla við öðru að búast hjá flokkum sem búa við jafn arfaslaka forystu og þessir tveir.


mbl.is Landsdómsmálið fleygur íhaldsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórríki ESB í stöðugri og örri þróun.

Financial Times, sem er eitt virtasta fjármálarit veraldar, skýrir frá því að samkvæmt tillögu Þjóðverja eigi kommisarar ESB í Brussel að taka yfir stjórn Grikklands, sem með því yrði fyrsta landið innan sambandsins sem lyti að fullu og öllu undir framkvæmdastjórn ESB.  

Þessi ráðstöfun er skref í áttina að formlegri stofnun stórríkis Evrópu þar sem núverandi aðildarríki yrðu aðeins héruð sem stjórnað yrði af ESBkommisörunum, sem aftur tækju beinum fyrirmælum frá Þýska og Franska héraðinu, a.m.k. á meðan ráðamenn þeirra gætu komið sér saman um stjórnun stórríkisins.

Eftirfarandi úr fréttinni segir það sem segja þarf um þetta mál:  "Ef tillögunni verður hrundið í framkvæmd fæli það í sér algerlega nýtt skref í valdaframsali frá þjóðríki til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Tillagan felur í sér að ESB fengi neitunarvald varðandi fjárlagafrumvarp Grikklands ef það er ekki í takti við markmið sem leiðtogar sambandsins setja. Jafnframt er gert ráð fyrir að fjármálaráðherrar evrulandanna tilnefni umsjónarmann sem fylgist með öllum stærri ákvörðunum í sambandi við útgjöld."

Þróun stórríkisins er í mikilli gerjun um þessar mundir og varla verður aftur snúið úr þessu. 


mbl.is ESB taki yfir fjármál Grikkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráða dómstólarnir ekki við fjármálagerninga?

Tiltölulega einfalt mál, að því er virðist, hefur verið að þvælast á milli héraðsdóms og Hæstaréttar undanfarin ár vegna þess að dómarinn í héraðsdómi virðist ekki hafa á hreinu hvernig eigi að meðhöndla ágreiningsefnið sem til umfjöllunar er.

Héraðsdómur hafði áður sýknað í málinu en Hæstiréttur ógilt þann úrskurð og vísað málinu aftur í hérað til efnislegrar umfjöllunar, en þá var dómarinn ekki betur inni í þeim lögum sem gilda um hans eigin dómstól og kvaddi því ekki til meðdómendur eins og honum bar samkvæmt lögunum.

Enn á ný hefur því Hæstiréttur ógilt dóm héraðsdóms og vísað málinu aftur til umfjöllunar hans í þriðja sinn og vonandi tekst héraðdómi að komast skammlaust frá málinu að þessu sinni, enda væntanlega farinn að þekkja málið allvel eftir fyrri tvo dóma sína.

Hins vegar leiðir þetta hugann að því hvort dómstólarnir séu hreinlega ekki færir um að fjalla um og kveða upp dóma í málum sem snerta flókna fjármálagerninga, þegar svona óhönduglega tekst upp með "smærri" málin.


mbl.is Héraðsdómur fór ekki að lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólga í boði hins opinbera

Verðbólgan heldur áfram að belgjast út og hefur ekki verið meiri frá því í maí 2010. Það er í raun stórmerkilegt að svona mikil verðbólga skuli vera viðvarandi í kreppuástandi, miklu atvinnuleysi og gjaldeyrishöftum.

Skýringin á hækkunni nú felst aðallega í skattahækkanabrjálæði opinberra aðila með ríkissjóð í broddi fylkingar. Steingrímur J. hefur hælt sér af því að hafa tekist að minnka hallann á ríkissjóði umtalsvert og jafnvel líkt sjálfum sér við kraftaverkamann í því efni.

Lausnir hans hafa þó einfaldlega verið að velta sífellt þyngri byrðum yfir á herðar skattgreiðenda og eina kraftaverkið í því efni er hugmyndaauðgin við að finna upp sífellt nýja og nýja skattstofna.

Til viðbótar æ þyngri skattbyrði þurfa svo skuldarar að taka á sig sífellt meiri vísitöluhækkanir á lán sín vegna þessarar auknu skattheimtu.

Með því bitnar skattabrjálæðið á landsmönnum með tvöföldum þunga.


mbl.is Ekki meiri verðbólga í 20 mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Glæsileg niðurstaða" fljótlega

Loksins geta ESBaðdáendur tekið gleði sína því Steingrímur J. ætlar að drífa í því að klára að ganga frá innlimunarskilmálum stórríkisins væntanlega, enda "nennir hann ekki að hanga yfir þessu lengur" frekar en að hann og senditík hans þegar hin "glæsilega niðurstaða" fékkst í fyrsta og langversta uppgjafaskilmála Breta, Hollendinga, ESB og AG vegna Icesave.

Þá sagði Steingrímur J. að enginn samningur lægi fyrir og ekkert væri hægt að segja til um hvenær hann myndi liggja fyrir, en mætti síðan til Alþingis þrem dögum síðar og krafðist þess að þingmenn samþykktu uppgjafaskilmálana óséða og það ekki seinna en strax.

Nú segir Steingrímur J. að ekkert sé hægt að segja um það hvenær ESB verði búið að semja innlimunarskilmála Íslands, en miðað við "fyrri störf" Steingríms og félaga við móttöku afarkosta erlendra ríkja, kæmi ekkert á óvart þó hann birtist á Alþingi í næstu viku með leyniplagg til samþykktar, óséð og til hraðafgreiðslu.

Steingrímur J. vill klára málið sem allra fyrst, enda mikill stuðningsmaður innlimunarinnar, þó hann viðurkenni það auðvitað aldrei sjálfur opinberlega.


mbl.is „Alvöruviðræður“ að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundar Hagfræðistofnun "pólitískt hagsmunafúsk"

Hagsmunasamtök heimilanna ásaka Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um pólitískt hagsmunafúsk vegna skýrslu stofnunarinnar um möguleika á frekari niðurskrft á skuldum heimilanna, eða eins og fram kemur í fréttinni: "Segja samtökin, að greinargerðin sé hagsmunafúsk eða í besta falli áróðursplagg stjórnvalda."

Þetta eru grafalvarlegar ásakanir á vinnu Hagfræðistofnunar og nú stendur upp á hana að svara fyrir sig, því varla getur fræðasamfélagið í landinu setið undir slíkum ákúrum um þjónkun við ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma og að þau sendi frá sér pöntuð álit en láti fræðimennsku lönd og leið.

Hagsmunasamtökin hafa nú gefist upp á frekara samstarfi við ríkisstjórnina, eins og allir aðrir, en hyggst leita til Ólafs Ragnars og fara þess á leit að hann beiti sér fyrir frekari aðgerðum í skuldamálunum, væntanlega með þeirri heimild í stjórnarskránni að forseti geti lagt frumvörp fyrir Alþingi og krafist umföllunar og afgreiðslu þess á þinginu.

Enginn forseti hefur fram að þessu látið sér detta í hug, svo vitað sé, að leggja frumvörp fyrir Alþingi og nú verður fróðlegt að sjá hvort Ólafur Ragnar verður við slíkri áskorun.  Honum væri alveg trúandi til þess, enda myndi athyglin og umræðan sem slíkt tiltæki ylli verða eins og vítamínssprauta fyrir athyglissýki forsetans og ekki síður góð næring fyrir óseðjandi sjálfsdýrkunina.

Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum beggja, þ.e. Hagfræðistofnunar og forsetans. 


mbl.is „Pólitískt hagsmunafúsk"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt haturssamsæri afhjúpað af gerendunum sjálfum

Því hefur lengi verið haldið fram, að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar á Alþingi haustið 2010 þegar samþykkt var að Geir H. Haarde skyldi stefnt fyrir Landsdóm en öðrum ráðherrum ekki, hafi verið pólitískur skollaleikur og hatursherferð gegn Sjálfstæðisflokknum og Geir verið gerður að blóraböggli í þeim hráskinnaleik.

Samfylkingin og Vinstri grænir stóðu fyrir þessum ógeðfelldu vinnubrögðum, en hafa allta tíð síðan neitað því staðfastlega að nokkuð annað en réttlætisást hafi ráðið gjörðum sínum við þá atkvæðagreiðslu.

Á síðustu dögum hefur hins vegar komið glögglega í ljós hvernir málin voru í pottinn búinn og hafi einhver verið í vafa áður um tilgang málsins, þá hafa einstakir þingmenn stjórnarflokkanna algerlega svipt hulunni af því hvernig að málum var staðið og hvaða bolabrögðum var beitt til að fullnægja pólitísku hatri einstakra forystumanna Samfylkingarinnar og VG.

Steingrími J. og Jóhönnu hefði mátt vera ljóst frá upphafi, hefðu þau ekki verið blinduð af þessu pólitíska hefndaræði, að samsærið myndi upplýsast fljótlega, enda ekki hægt að halda slíkum skipulögðum svikaprettum leyndum til lengdar, þegar stór hópur fólks er neyddur til að taka þátt í þeim gegn raunverulegum vilja sínum.

Það sannast enn og aftur að upp komast svik um síðir.


mbl.is Forystumenn lögðust á sína menn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að greiða skuld eða skatt

Hagfræðistofnun Háskólans hefur komist að þeirri niðurstöðu eftir rannsókn á skuldamálum heimilanna, að svigrúm bankanna sem þeir höfðu eftir millifærslu lánanna úr gömlu bönkunum sé fullnýtt og því sé ekkert svigrúm til frekari niðurfellinga á húsnæðislánum.

Stofnunin finnur tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna ýmislegt til foráttu, t.d. að þær gangi gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og verði farið að ráðum samtakanna muni a.m.k. tvöhundruðmilljónir króna lenda á skattgreiðendum, en þessi upphæð nemur hátt í 40% af árlegum útgjöldum ríkissjóðs.

Allir geta séð að ríkissjóður, eða réttara sagt skattgreiðendur, hvorki geta né eiga að taka á sig slíkar álögur og því hlýtur niðurstaðan að vera sú, að hver skuldari verði að leysa úr sínum málum í samvinnu við lánveitendur sína, en líklegt er að margur muni ekki ráða við afborganir lána sinna eftir sem áður.

Ef ríkissjóður ætti að koma frekar að þessum skuldamálum væri líklega eina ráðið að "sérstakar vaxtabætur" yrðu teknar upp fyrir þá skuldara sem tóku húsnæðislán á tímabilinu 2005- 2008 og yrðu þá látnar ganga beint inn á höfuðstól lánanna sem aukaafborgun.

Slíkt fyrirkomulag gæti gilt í tíu til fimmtán ár, enda er fjárfesting í húsnæði langtímafjárfesting og lánin í mörgum tilfellum til allt að fjörutíu ára.


mbl.is Líklegt að ríkið myndi bera kostnað við niðurfellingu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindagjald fari ekki beint í eyðsluhítina

Nefnd um stefnumörkun í auðlindamálum leggur til að innheimt verði svokölluð auðlindarenta af öllum afnotum auðlinda landsins og er það að sjálfsögðu ekkert annað en sjálfsagt mál. Sjálfsagt verða menn svo aldrei sammála um hversu hár slíkur skattur á að vera á hverjum tíma.

Nefndin leggur hins vegar til að auðlindarentan renni beint í ríkishítina og verði að mestu leyti til ráðstöfunar í eyðslugleði þeirrar ríkisstjórnar sem að völdum situr hverju sinni. Samkvæmt fréttinni gerir nefndin þó þessa undantekningu á því: "Um eiginlega sjóðssöfnun geti hins vegar verið að ræða þegar tekjur stafa af auðlindum sem augljóslega eru ekki endurnýjanlegar. Þannig yrði búið í haginn fyrir komandi kynslóðir sem ekki nytu góðs af sömu auðlindum."

Heillavænlegra væri að leggja allt auðlindagjaldið í sérstakan auðlindasjóð sem eingöngu yrði gripið til við sérstakar aðstæður, t.d. efnahagserfiðleika í kjölfar aflabrests, náttúruhamfara o.s.frv., eða bara ef til álíka hruns kæmi og gerðist á árinu 2008.

Engar auðlindir eru í raun endurnýjanlegar, því vatnsföll geta breyst eða þornað upp vegna náttúruhamfara, aflabrestur getur orðið nánast hvenær sem er eins og dæmin sanna í gegn um tíðina og enginn veit fyrir víst hvort eða hvenær heitavatnsæðar geta breyst eða kólnað.

Íslendingar þyrftu að læra af fortíðinni og safna varasjóðum til framtíðarinnar í stað þess að eyða öllum tekjum jafnóðum og þeirra er aflað, ásamt því að skuldsetja sig upp fyrir haus í eintómu neysluæði. 


mbl.is Vilja stofna auðlindasjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband