Góð fjárfesting í lélegum fyrirtækjum

Samkvæmt því sem Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir um fjárfestingar lífeyrissjóðanna, þá voru þær allar mjög skynsamlegar og hefðu verið afar arðbærar ef fyrirtækin sem fjárfest var í hefðu ekki verið eins léleg og raun bar vitni.

Engum lífeyrisbraskara datt hins vegar í hug að eitthvað væri athugavert við ótrúlega útþenslu bankanna og annarra helstu fyrirtækja sem flest voru í eigu sömu gengja og bankarnir sjálfir og þöndust út á sama hraða, enda gegnu þau nánast ótakmarkað í fjármagn bankanna, sem voru notaðir eins og einkasparibaukar eigendanna.

Vegna þess að allar fjárfestingarnar voru afbragðsgóðar, en það voru bara bankarnir sem fóru á hausinn og þar með bólufyrirtækin, sem nærðust á bankabraskinu, þá ber auðvitað enginn ábyrgð á neinu og enginn þarf að axla ábyrgð á gerðum sínum.

Almennir starfsmenn fyrirtækja eru miskunnarlaust reknir fyrir smávægilegar yfirsjónir, enda eru þeir yfirleitt á lágum launum og því látnir bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Það á að sjálfsögðu ekki við um toppana með milljónalaunin. Þeir bera svo mikla ábyrgð að þeir eru algerlega ómissandi.


mbl.is Ekki tilefni til að víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Veruleikafyrring framkvæmdastjóra LSR er slík, að hann getur ekki einu sinni gert greinarmun á boðsferð og ekki boðsferð! Það er í þessu sem öðru, í þessu blessaða þjóffélagi ( ekki prentvilla) okkar, að það virðist aldrei nokkurn tíma neinn, bera ábyrgð á neinu. Manni sundlar orðið, dag hvern vegna þessa alls og ekki hjálpa lítilsverðir fjölmiðlar mikið til við að lappa uppá ástandið, frekar en þeir hvorki sáu né heyrðu neitt óeðlilegt fyrir hrun. Meira að segja forsvarsmaður samtaka lífeyrissjóða er staurblindur og einhvernveginn úti á þekju þegar hann er spurður um álit sitt á niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar um lífeyrissjóðina. Svarar eins álfur út úr hól og heldur að landsmenn séu fávitar. Ef til vill erum við öll bölvaðir hálfvitar. Hverjir aðrir en hálfvitar láta svona lagað yfir sig ganga, þegjandi og hljóðalaust?

Halldór Egill Guðnason, 6.2.2012 kl. 23:16

2 Smámynd: Jón Óskarsson

Enginn af forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna tekur alvarlega megininntak skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem hvetur menn til að láta af "söguskýringum" heldur taka upp ný vinnubrögð, nýjar siðareglur, nýja skilgreiningu á ábyrgð.   Allir sem einn með "varðhund" lífeyrissjóðakerfisins nr. 1, Gylfa Arnbjörnsson, í broddi fylkingar, tyggja innihald barnabókarinnar "Litla gula hænan" og segja "ekki ég, ekki ég", en virðast ekki kunna barnaskólastærðfræði, sbr. grein Gylfa á netmiðlum í gær.

Væri framkvæmdastjóri LSR ekki jafn veruleikafirrtur og hans yfirlýsingar bera vott um, þá hefði maður í hans stöðu sagt starfi sínu lausu áður en dagur var að kveldi kominn, þegar skýrslan var gerð opinber.   Hann hefði þá verið maður að meiru og sýnt gott fordæmi.   En ekki er við því að búast að þessir ómissandi ofurlaunamenn fari sjálfviljugir úr sjóðunum.

Jón Óskarsson, 7.2.2012 kl. 20:57

3 Smámynd: Brynjólfur Sigurbjörnsson

Heldur þú Jón að maður sem hefur yfir 18 milj. í árslaun hendi því út um gluggann nei hann ver launastöðu sína til síðust stundar

Brynjólfur Sigurbjörnsson, 7.2.2012 kl. 21:22

4 Smámynd: Jón Óskarsson

Nákvæmlega Brynjólfur.   Fólk sem kemst í þessa ofurstöðu með launakjör (þessi árslaun eru reyndar ekki nema um 26% af mánaðarlaunum fyrrum forstjóra Kaupþings), það er búið að missa alla jarðtengingu við almenning í landinu.  Fólk sem hefur svona mikla peninga á milli handanna verður ónæmara fyrir stórum tölum hvort sem um er að ræða "loftbóluávöxtun" eða tap á "góðum fjárfestingum í illa reknum fyrirtækjum".   Hjá þessu fólki er enginn munur á 100 þúsund kalli og 100 milljónum.

Menn sem starfa hjá lífeyrissjóðunum ættu að afla sér starfsreynslu sem fjármálastjórar skuldsettra fyrirtækja í stöðugum lausafjárvanda.   Það reynir á útsjónarsemi og ráðdeild til að láta enda ná saman og forðast óþarfa aukakostnað.   Menn með slíkan bakgrunn hugsa öðru vísi um fjármál en þeir sem fæðast með silfurskeið í munni og þá trú að ávöxtun fjármuna sé óendanleg...

Jón Óskarsson, 7.2.2012 kl. 22:21

5 Smámynd: Brynjólfur Sigurbjörnsson

Athyglisvert að sjá í fréttum að lífeyrissjóður bankamanna tapaði minnstu í hruninu sérkennilegt þar sem bankamenn ráðlagði öðrum gerðu þeir ekki sjálfir.

Brynjólfur Sigurbjörnsson, 8.2.2012 kl. 19:52

6 Smámynd: Jón Óskarsson

Í tengslum við fréttir um Lífeyrissjóð bankamanna er rétt að minna á að Baldur fyrir ráðuneytisstjóri hefur fengið dóm fyrir að hafa vegna upplýsinga sem hann hafði gert ráðstafanir til að bjarga eigin fjárhagsstöðu frá því að hrynja eins og spilaborg, fyrir Landsdómi er fyrrum forsætisráðherra ákærður fyrir að hafa ekki brugðist við vegna upplýsinga sem hann kann að hafa haft.  Sömuleiðis er sjóðsstjóri í Landsbankanum fyrir dómi vegna þess að hann færði til hliðar fjármuni sem hann taldi að annars myndu glatast.

Á sama tíma og ég er ekki í vafa um að Baldur og Geir höfðu sennilega mun meiri upplýsingar um stöðu bankakerfisins og stöðu efnahagsmála almennt en venjulegir menn út í bæ eins og ég hafði, þá er ég heldur ekki í neinum vafa um að þeir voru ekki einir um það og að sá hópur var mjög stór sem vissi meira en menn vilja láta í veðri vaka.   Margir þeirra vinna ennþá í góðum stöðum í opinbera geiranum, eru ennþá í pólitík, eru í góðum stöðum í fjármálakerfinu (bönkum, verðbréfafyrirtækjum, lífeyrissjóðum og fl.) og vinna jafnvel við ráðgjöf sem snýst mest um að beina sjónum manna annað.

Vilji menn ákæra menn fyrir að opinbera ekki svona upplýsingar, fyrir að hafa nýtt sér svona upplýsingar til persónulegs ávinnings, fyrir sína skjólstæðinga og fyrir aðra skylda hluti, þá er ærið starf framundan hjá Sérstökum og hans fólki við slíkar rannsóknir og ákærur.

Dæmið með Lífeyrissjóð bankamanna, að maður tali nú ekki um einkalífeyrissjóð Sigurjóns bankastjóra (og ef menn halda að hálfopinbert viðurnefni hans stafi af vaxtarlaginu, þá er það misskilningur, það snýst um digran lífeyrissjóð), sýnir að fulltrúar sjóðsins vissu meira og höfðu aðgang að betri upplýsingum um stöðu bankakerfisins en fulltrúar annarra lífeyrissjóða í landinu.

Jón Óskarsson, 9.2.2012 kl. 09:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband