Færsluflokkur: Bloggar
18.9.2017 | 12:05
Eru umsagnir "valinkunnra manna" ekki allar af sama toga?
Vegna afgreiðslu erinda um "uppreist æru" hefur verið farið fram á umsagnir þriggja "valinkunnra manna" um skikkanlega hegðun viðkomandi glæpamanns eftir afplánun fangelsisvistar, oftast í a.m.k. fimm ár eftir tugthússvistina.
Umsagnir þessara "valinkunnu" eru ekki réttlæting af neinu tagi á verknaði glæpamannanna, né ábyrgð á því hvernig þessir menn muni haga sér til framtíðar, en vottunin snýr eingöngu að því að lýsa eftir bestu vitun um óaðfinnanlega hegðun á undangengnum árum, að viðkomandi hafi tekið á sínum málum og jafnvel verið duglegir og samviskusamir í vinnu.
Allt ferlið er hugsað sem aðstoð við viðkomandi afturbataglæpamann að verða virkur í samfélaginu á ný, enda ávallt talað um að fangelsun eigi ekki eingöngu að vera refsins heldur betrun afbrotamannsins. Sem sagt allt á að snúast um að endurhæfa viðkomandi og gera hann á ný að nýtilegum borgara í þjóðfélaginu, þó það sé fyrst og fremst í hans eigin höndum að vinna sér traust samborgaranna aftur.
Allt væri þetta auðskiljanlegt ef ekki hefði upp á síðkastið nánast verið glæpavætt að hafa skrifað slíkar umsagnir um fyrrum glæpamenn og jafnvel reynt að gera einstaka stjórnmálaflokka ábyrga fyrir þeim glæp umsagnaraðilanna að hafa viljað taka þátt í að aðstoða afturbataglæpamenn í ferli þeirra til að betrumbæta líf sitt.
Það undarlega við umræðuna í þjóðfélaginu er að svo virðist sem hinir "valinkunnu" fái misjafna meðhöndlun eftir því hvaða stjórnmálaflokk þeir hafi stutt samkvæmt áliti þeirra sem mest fjalla um málin á samfélagsmiðlunum.
Það virðist sem sagt annað gilda um umsagnir Tolla Mortens en Benedikts Sveinssonar, þó enginn efnislegur munur sé á umsögnum þeirra og báðir að vitna um breytta hegðun manna sem höfðu afplánað fangelsisdóm fyrir viðurstyggilega glæpi.
![]() |
Gögn aftur til 1995 afhent |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.9.2017 | 08:04
Syndir feðranna......
Björt framtíð hefur fundið sér tilefni til að hlaupa frá ríkisstórnarsamstarfi, sem flokkurinn hefur aldrei verið fær um að axla.
Tilefnið sem flokkurinn nýtir er að fram hefur komið að faðir forsætisráðherra var einn "valinkunnra" manna sem vitnaði um að kynferðisafbrotamaður sem aplánað hafði sinn dóm hefði hagað sér skikkanlega, eftir því sem hann best vissi, eftir tugthússvistina.
Í allt sumar hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu um úrelt lög um "uppreist æru" glæpamanna ákveðnum árum eftir afplánun og vélræna afgreiðslu ráðuneytisins slíkra mála. Fram að þeim tíma hafði þessum málum verið lítill gaumur gefinn í þjóðfélaginu, enda sami háttur verið hafður á slíkum málum áratugum saman og öll mál afgreidd á sama hátt, hver sem í hlut átti.
Eftir að umræðan fór af stað í sumar jókst krafa um að upplýst væri hverjir þessir "valinkunnu" menn væru í því máli sem hæst bar í umræðunni á þeim tíma. Ráðuneytið taldi sig ekki geta upplýst um þessi mál, fyrr en eftir að kærunefnd upplýsingamála hefði lagt blessun sína yfir hvaða upplýsingar mætti veita vegna svona mála.
Af einhverjum ástæðum stigu hinir "valinkunnu" ekki fram og einfaldlega skýrðu frá sinni aðkomu að málunum, enda fyrst og fremst um umsagnir um hegðun brotamannanna eftir afplánun að ræða. Hefðu hinir "valinkunnu" einfaldlega stigið fram er ólíklegt að umræðan um þeirra að komu hefði orðið eins og hún varð, með allri þeirri heift, stóryrðum og dylgjum og raunin varð.
Nú er komið í ljós að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna forsætisráðherra, var einn hinna "valinkunnu" vegna umsóknar kynferðisglæpamanns um "uppreist æru" og í fyrsta lagi er fuðulegt að hann skuli hafa lagt nafn sitt við slíka umsókn vegna stöðu sonarins og ekki síður að hann skuli þá ekki hafa stigið fram strax í sumar og birt það afsökunarbréf sem hann hefur nú sent frá sér.
Meðmæli föðurins hefur nú orðið til þess að Björt framtíð hefur gripið það sem hálmstrá til að slíta ríkisstjórninni.
Þar með sannast enn og aftur að "syndir" feðranna bitna á börnum þeirra, eins óverðskuldað og það er nú alla jafna.
![]() |
Slíta samstarfi við ríkisstjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2017 | 10:19
Ósvífin skattahækkanaáform fjármálaráðherra
Með fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra fyrir árið 2018 eru boðaðar svívirðilegar skattahækkanir á mörgum sviðum, t.d. hækkun skatta á áfegni og tóbak og ótrúlega bíræfnar hækkanir á bifreiðasköttum, sem þó er alls ekki ætlað að renna til vegaframkvæmda.
Óli Björn Kárason og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst efasemdum um að meirihluti sé á þinginu fyrir þessum skattahækkunum og verður að treysta því að þeir berjist með oddi og egg gegn þessum ófyrirleitnu áformum fjármálaráðherrans.
Stjórnarandstöðunni finnst aldrei nóg að gert varðandi skattahækkanir og því er alls ekki ótrúlegt að hún sameinist um að styðja fjármálaráðherrann í þessu efni og þannig kæmi ráðherrann álögunum í gegn um þingið í óþökk meirihluta þjóðarinnar og vonandi þingmanna Sjálfstæðisflokksins.
Kæmi þessi staða upp í þinginu væri ríkisstjórnin auðvitað fallin og í framhaldinu yrði þá vonandi boðaða til nýrra kosninga, þó hugsanlegur möguleiki yrði á nýrri vinstri stjórn undir forsæti VG með þátttöku allra flokka á Alþingi, annarra en Sjálfstæðisflokksins.
Stjórnarslit, frekar en skattahækkanir, er sá möguleiki sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins verða að velja til að standa undir stefnu flokksins og væntingum kjósenda flokksins. Þar er ekki hægt að semja um neina afslætti, aðra en afslætti á núverandi skattlagningu, þ.e. með lækkun skatta í stað hækkunar.
Framundan eru kjarasamningar og með tekjuskattsinnheimtu sinni mun ríkissjóður gleypa hátt í fjörutíu prósent þeirra launahækkana sem um semjast til handa launþegum. Sá tekjuauki ríkisins hlýtur og verður að duga óseðjandi fíkn stjórmálamanna í aukna hlutdeild í ráðstöfunartekjur almennings.
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki látið þessar hótanir um skattahækkanir yfir sig ganga án harkalegrar mótspyrnu.
![]() |
Eru efins um þingmeirihluta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.9.2017 | 15:36
Læra þarf af reynslunni vegna straums hælisleitenda
Fyrir tæpum tveim árum greip Alþingi fram fyrir hendur þeirra stjórnsýslustofnana sem með framkvæmd málenfna hælisleitenda fara og samþykkti að veita tveim albönskum fjölskyldum ríkisborgararétt, sem áður hafði verið synjað um landvist.
Núna hafa einstakir þingmenn lýst því yfir að þeir ætli að leggja fram frumvarp til laga um að veita tveim fjölskyldum ríkisborgararétt vegna þess að þær falla ekki innan ramma laga og reglna um skilyrði til landvistar.
Fljótfærni Alþingis, sem auðvitað byggðist á vorkunn með bágum aðstæðum viðkomandi fjölskyldna, hafði það í för með sér að straumur "hælisleitenda" frá Albaníu, Rúmeníu, Makedóníu og jafnvel fleiri löndum margfaldaðist, enda flaug fiskisagan fljótt um þessi lönd af þessum ótrúlegu viðbrögðum löggjafaþingsins sem auðvitað hafa hvergi verið leikin eftir í veröldinni svo vitað sé.
Allir geta verið sammála um að þeir einstaklingar, sem mikið hefur verið fjallað um upp á síðkastið, séu alls góðs maklegir, en ótrúlegt er að hlusta á og lesa um að Þýskaland sé svo mannfjaldsamlegt land að þangað sé ekki óhætt að senda nokkurn mann, jafnvel þó hann hafi áður verið búinn að sækja þar um landvist.
Afar áríðandi er að um þessi mál séu skýr lög og reglugerðir um framkvæmd þeirra, samræmi sé í afgreiðslu stjórnsýslunnar og ekki sé sköpuð hætta á fordæmum sem jafnvel margfaldi fjölda hælisleitenda til landsins, sem þó er ærinn nú þegar og að verða óviðráðanlegur.
![]() |
Verður að ganga jafnt yfir alla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.8.2017 | 14:17
Risastór bylting, sem ótrúlega lítið fer fyrir
Nokkrir nýsmíðaðir togarar hafa verið að koma og eru væntanlegir til landsins og hefur útlit sumra þeirra vakið athygli. Alveg nýtt útlit á stefni þeirra eitt og sér er mikil breyting frá algengastu skipshönnun áður fyrr.
Risafréttin við komu þessara skipa er ekki útlitið eitt og sér, heldur sú algera bylting í útgerðarsögu heimsins sem er að verða með tækninni sem notuð verður við frágang afla skipanna, sem bæði mun stórauka aflaverðmætið og létta störf áhafnanna. Ekki verður lengur þörf á því að ísa fiskinn þar sem hann verður kældur með nýrri tækni og lestarnar verða mannlausar, en sjálvirknin mun sjá um að fylla fiskikörin og ganga frá þeim í lestunum.
Skaginn 3X hefur hannað og smíðað og forritað öll þessi tæki sem eru þvílík nýjung í fiskiskipaútgerð, að hún hefur vakið heimsathygli og líklegt að þessi tæknibylting verði nýtt alls staðar í veröldinni, þar sem alvöru fiskiskipaútgerð er fyrir hendi á annað borð.
Þó nokkuð hafi verið fjallað um þetta stórmál í fjölmiðlum, hefur það ekki fengið nærri því eins mikla athygli og það á skilið, enda upphaf nýrrar aldar í fiskiskipaútgerð í veröldinni og hugvitið og framleiðslan alíslensk. Það er ekki á hverjum degi sem íslenskar nýjungar og tækni bylti jafnvel heilu altvinnugreinunum í heiminum öllum.
Í Morgunblaðinu í dag segir Vilhjálmur forstjóri Granda um þetta tækniundur: "Þetta sjálfvirka lestarkerfi er stærsta breyting í útgerð ísfisktogara frá því að skuttogararnir komu á áttunda áratugnum." Það eru engin smámeðmæli að forstjóri eins stærsta útgerðarfélags landsins skuli segja þetta vera mestu byltingu í útgerðarsögunni í hart nær hálfa öld.
![]() |
Líkir búnaði Engeyjar við komu skuttogaranna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2017 | 12:45
Fjármálaráðherra beygður í duftið á mettíma
Fáránlegasta hugmynd sem komið hefur frá ráðherra í manna minnum var kveðin í kútinn á mettíma og traustið á fjármálaráðherranum, sem ekki var sérstaklega mikið, hvarf eins og dögg fyrir sólu. Eftir þessa útreið verður erfitt fyrir hann að endurvinna það traust og verða tekinn alvarlega framvegis.
Hugmyndin arfavitlausa gekk út á að taka alla tíuþúsund króna seðla úr umferð og síðan fimmþúsund króna seðlana í framhaldinu. Hefði það komist í framkvæmd yrði eittþúsund króna seðillinn sá verðmesti sem í umferð yrði, þó einhversstaðar í kerfinu sé líklega til tvöþúsund króna seðill sem sjaldan sést. Fyrir þá sem ekki hafa greiðslukort, annaðhvort vilja þau ekki eða af öðrum ástæðum, hefði þá eina ráðið verið að nota mynt með þúsundkallinum og líklega hefðu einhverjir valið að reiða fram hestburði af hundaðköllum í öllum stærri viðskiptum.
Aðrar hugmyndir, sem sumar hverjar virðast ágætar, til að sporna við skattsvikum, falla algerlega í skuggann fyrir þessari ótrúlega vitlausu um seðlaafnámið og verða síður teknar alvarlega eftir rassskellingu fjármálaráðherrans með tíuþúsundkallavendinum.
Með tilliti til þess að þessi sami fjármálaráðherra berst fyrir því að Ísland verði hjáleiga í ESB og tekin verði upp evra sem gjaldmiðill hér á landi gerir hugmyndina um seðlaafnámið enn undarlegra, þar sem til eru fimmhundruð evru seðlar, sem jafngilda tæpum sextíu þúsund íslenskum krónum og því erfitt að sjá hvernig Benedikt myndi afnema stóru seðlana frá ESB, enda eru þar notaðir 500, 200, 100 og 10 evru seðlar sem yrðu íslenskum skattsvikurum til frjálsra afnota í sínum svörtu viðskiptum, eins og skattsvikurum og öðrum glæpamönnum innan ESB.
Gönuhlaup Benedikts fjármálaráðherra verður lengi í minnum haft og spurning hvort honum verður hreinlega sætt í embættinu áfram eftir þessa sneypuför.
![]() |
Tíu þúsund kallinn ekki á förum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
16.6.2017 | 14:06
Costco afhjúpar langvarandi okur á flestum sviðum
Okur hefur viðgengist á Íslandi lengur en elstu menn muna og þrátt fyrir háværar kvartanir um það verðsamráð, okur og jafnvel hreinan fautaskap í verðlagningu sem tíðkast hefur hafa ekki haft meiri áhrif en þegar vatni er stökkt á gæs.
Samkeppni hefur verið í skötulíki og margoft verið bent á að lágvöruverðsverslanirnar skoði verð hver hjá annarri og stilli svo verðin af svo að ekki muni mikið meiru en einni krónu eða tveim á hverri einingu og alveg sérstaklega á þeim vörum sem oftast eru teknar með í verðkönnunum ASÍ.
Lengi vel var tollum, vörugjöldum og flutningskostnaði kennt um háa verðið á Íslandi og eftir að tollar og vörugjöld voru felld niður hefur söngurinn um verðmuninn snúist um flutningskostnaðinn og háa vexti. Gríðarleg styrking krónunnar hefur hins vegar komið seint og illa fram í vöruverði og janfvel alls ekki orðið til að skapa verðhrun á innfluttum vörum, sem þó hefði átt að verða.
Til gamans má nefna eina vörutegund sem seld er í Costco, innflutt frá Bandaríkjunum, en nákvæmlega sams konar vara er framleidd og seld á Íslandi og því skemmtilegt að bera saman verðin. Hér er um vinsælan gosdrykk að ræða sem seldur er í hálfs lítra plastflöskum, nákvæmleg eins framleitt í báðum löndum og innihaldið eingöngu kolsýrt vatn með bragð- og litarefni.
Flaskan sem seld er í Costco kostar sextíukrónur stykkið en í lágvöruverðverslununum er íslenska gosflaskan seld á eitthundrðaþrjátíuogeina krónu og á bensínstöðvum á þrjúhundruðogfimmtán krónur. Eftir að Costco kom til skjalanna hafa Krónan og Bónus sést auglýsa tilboð á svona drykk og þá eru seldar níu flöskur saman á "aðeins" áttatíuogníu krónur stykkið.
Íslenskir gosdrykkjaframleiðendur verað að útskýra þetta gosdrykkjaokur, sem jafnvel má kalla verðníð, því ameríski vatnsdrykkurinn er framleiddur nákvæmlega eins og sá íslenski og þar að auki fluttur á milli landa um langan veg með öllum þeim flutningskostnaði sem ávallt er notaður sem afsökun fyrir háu verði innfluttra vara.
Íslensku framleiðendurnir hljóta að útskýra þetta okur, ásamt öllum hinum sem stundað hafa verðníð gagnvart neytendum undanfarna áratugi. Þetta gosdrykkjadæmi er aðeins neft til gamans þar sem um algerlega hliðstæða framleiðslu er að ræða. Okur á öllum öðrum sviðum er ekki minna og jafnvel alvarlegra.
Meira að segja forstjóri Ikea á Íslandi viðurkennir að fyrirtækið hafi okrað á landanum undanfarið og hagnaðurinn sé orðinn "fullmikill".
![]() |
43% Íslendinga hafa farið í Costco |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.5.2017 | 15:32
Við erum ekki kaupóð þjóð, heldur algerlega snargeggjuð.
Við Íslendingar erum frægir austan hafs og vestan fyrir kaupgleði og höfum lengi farið í sérstakar verslunarferðir til útlanda, bæði á eigin vegum og ekki síður í skipulögðum innkaupaferðum með þotum sem leigðar hafa verið sérstaklega til síkra ferða.
Varla er opnuð verslun í Reykjavík að ekki myndist biðraðir og örtröð á opnunardegi og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða opnun verslunar sem selur byggingavörur, fatnað, leikföng o.fl. Jafnvel myndast langar raðir, jafnvel frá miðnætti fyrir opnun, þegar hafin er kleinuhringjasala í kaffihúsakeðjum sem hasla sér völl hérlendis.
Út yfir allan þjófabálk tekur þó brjálæðið sem heltekið hefur okkur mörlandana við opnun amerísku allrahandaverslunarinnar Costco Wholesale, sem lofar lágu verði á öllum þeim þúsundum vöruflokka sem þar verða til sölu.
Venjulega stendur mesta kaupæðið stutt eftir opnunardag viðkomandi verslunar, þó undantekningar séu vissulega þar á, en æðið virðist hins vegar ekki gera neitt annað en aukast eftir því sem opnunardögum Costco fjölgar. Þar er biðröð eftir því að fá að komanst inn í búðina til þess að fá að líta dýrðina augum og komast svo í biðröðina við afgreiðslukassana með allan sparnaðinn sem skapast með eyðslunni.
Sálfræðingar hljóta að taka okkur sem þjóð til sérstakrar hóprannsóknar í tilefni af þessu nýjasta æði, ef þeir hafa þá ekki byrjað slíkar rannsóknir fyrir löngu.
![]() |
Allt útpælt hjá Costco |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.5.2017 | 13:43
Starfsmenn fá ekki afhentar eignir þrotabúa
Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi forstjóri og núverandi sósíalisti, segir að nú þegar bankinn hafi tekið til sín það sem hann hafði tryggt með veðum munu allar eigur búsins, þegar félagið fer í gjaldþrot, renna til starfsmanna. Þeir hafa forgangskröfur í allar eigur blaðsins og útistandandi reikninga.
Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur hjá sósíalistanum núverandi, eða tilraun til blekkingar, því starfsmenn eiga kröfu í þrotabúið vegna ógreiddra launa, orlofs og launa á uppsagnarfresti ásamt því að skattar starfsmanna og lífeyrissjóðsframlög eru forgangskröfur í þrotabúið, hafi verið um vanskil að ræða.
Lífeyrissjóðsskuldir, staðgreiðsluskattar og virðisaukaskattur hafa lengi verið kölluð "rimlagjöld" vegna þess að forsvarsmenn fyrirtækja eru persónulega ábyrgir fyrir því að staðin séu skil á þeim, að viðlögðum sektum og fangelsisvist. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort sósíalistanum núverandi verður gerð refsing vegna slíkra vanskila.
Á vef VR má sjá stuttar leiðbeiningar til starfsmanna vegna launakrafna í þrotabú. Þær má sjá hérna: https://www.vr.is/kjaramal/uppsogn/vegna-gjaldthrots-fyrirtaekis/
Rétt er að benda sérstaklega á lokasetninguna í þeim leiðbeiningum, en hún er eftirfarandi: "Með þessum reglum er Ábyrgðarsjóður launa að fara fram á ákveðinn feril hvers launþega sem sækir um bætur til sjóðsins. Ef ekki er farið í einu og öllu eftir þessum tilmælum stjórnar sjóðsins áskilur sjóðurinn sér allan rétt til að hafna greiðslum."
![]() |
Fréttatíminn fer í gjaldþrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.4.2017 | 12:24
Búseta í Evrópu eykur ekki lýðræðisást Tyrkja
Undanfarin ár hefur Erdogan forseti Tyrklands unnið að því öllum ráðum að auka persónuleg völd sín og beitt til þess ýmsum misvafasömum meðulum og í mörgum tilfellum ofsóknum og fangelsunum þeirra sem hann hefur talið andstæðinga sína, eða flækst gætu fyrir einræðisáætlunum hans.
Til að láta líta út fyrir að þær stjórnarskrárbreytingar sem nauðsynlegar eru fyrir hann til að tryggja einveldi sitt endanlega væru með vilja þjóðarinnar var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillöguna og var hún eftir mikla og óheiðarlega kosningabaráttu Erdogans og fylgifyska samþykkt naumlega.
Það sem vekur hins vegar mesta athygli er að Tyrkir, sem búsettir hafa veið í lýðræðislöndum Evrópu árum og áratugum saman, virðast vera meiri stuðningsmenn einræðistilburða Erdogans en þeir sem búa í heimalandinu. A.m.k. samþykktu þeir sem í lýðræðisríkjunum búa tillöguna með meiri mun en almennt gerðist heimafyrir. Jafnvel í stærstu borgum Tyrklands var tillagan felld, en samþykkt af þeim sem búa í stórborgum lýðræðisríkjanna.
Þetta má sjá glögglega í meðfylgjandi frétt, t.d. af þessu: "Um 5% þeirra sem voru á kjörskrá búa utan Tyrklands, eða um 2,9 milljónir Tyrkja. Um helmingur þeirra býr í Þýskalandi og þar greiddu 63% atkvæði með stjórnarskrárbreytingunni. Í Austurríki sögðu um 73,5% kjósenda já og rúmlega 75% í Belgíu og 71% í Hollandi. Helst voru það þeir Tyrkir sem eru búsettir í Sviss sem vildu halda óbreyttu ástandi, en þar greiddu aðeins 38 prósent atkvæði með breytingunni."
Þetta bendir ekki til að lýðræði falli sérstaklega vel í geð tyrkneskra innflytjenda í Evrópu og hljóta menn að velta fyrir sér ástæðum þess.
![]() |
Meirihluti Tyrkja í Evrópu sagði já |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)