Við erum ekki kaupóð þjóð, heldur algerlega snargeggjuð.

Við Íslendingar erum frægir austan hafs og vestan fyrir kaupgleði og höfum lengi farið í sérstakar verslunarferðir til útlanda, bæði á eigin vegum og ekki síður í skipulögðum innkaupaferðum með þotum sem leigðar hafa verið sérstaklega til síkra ferða.

Varla er opnuð verslun í Reykjavík að ekki myndist biðraðir og örtröð á opnunardegi og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða opnun verslunar sem selur byggingavörur, fatnað, leikföng o.fl.  Jafnvel myndast langar raðir, jafnvel frá miðnætti fyrir opnun, þegar hafin er kleinuhringjasala í kaffihúsakeðjum sem hasla sér völl hérlendis.

Út yfir allan þjófabálk tekur þó brjálæðið sem heltekið hefur okkur mörlandana við opnun amerísku allrahandaverslunarinnar Costco Wholesale, sem lofar lágu verði á öllum þeim þúsundum vöruflokka sem þar verða til sölu.

Venjulega stendur mesta kaupæðið stutt eftir opnunardag viðkomandi verslunar, þó undantekningar séu vissulega þar á, en æðið virðist hins vegar ekki gera neitt annað en aukast eftir því sem opnunardögum Costco fjölgar.  Þar er biðröð eftir því að fá að komanst inn í búðina til þess að fá að líta dýrðina augum og komast svo í biðröðina við afgreiðslukassana með allan sparnaðinn sem skapast með eyðslunni.

Sálfræðingar hljóta að taka okkur sem þjóð til sérstakrar hóprannsóknar í tilefni af þessu nýjasta æði, ef þeir hafa þá ekki byrjað slíkar rannsóknir fyrir löngu.


mbl.is „Allt útpælt“ hjá Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Finnst þér þetta skrítið?, það er loksins komin samkeppni en því miður bara í 1 verslun, það kemur því ekki á óvart að fólk fer þangað til að versla það sem það þarf. Ef costco væri með jafn margar verslanir og t.d. bónus eða hagkaup þá væri ekki slíkar raðir, það myndi deilast á þessar verslanir.

Halldór (IP-tala skráð) 26.5.2017 kl. 21:22

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég er ákaflega kátur með alla samkeppni í verslun og vona að Costco verði til þess að okur annarra verslana minnki frá því sem verið hefur.  Það sem mér finnst hins vegar vera með algerum ólíkindum er þessi múgsefjun sem virðist grípa um sig í hvert sinn sem ný verslun opnar í Reykjavík.

Þetta er nefninlega ekki í fyrsta skipti sem svona geggjun grípur um sig, en hún er þó með allra mesta og versta móti núna.

Axel Jóhann Axelsson, 26.5.2017 kl. 22:24

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Einhver lýsti þessu fári með því að við værum alltaf á vertíð,bara nokkuð til í því.

Helga Kristjánsdóttir, 26.5.2017 kl. 23:52

4 identicon

Það er vissulega athyglisvert hvernig Íslendingar taka nýjum verslunum. (Toys"R"Us, Dunkin og fleiri). En það þarf engan snilling (með gráðu) til að greina þetta. Þjóðfélagið er mjög sérstakt, og því miður, nokkuð sjúkt. Það má reyndar helst ekkert segja upphátt. Við erum jú stoltir einstaklingar, og höfum langflest okkar ekkert til að skammast okkar fyrir. (les; duglegt og úrræðagott fólk, svona upp til hópa) Eftir búsetu í öðru landi á annan áratug þá er samanburðurinn sá að búseta þarna á skerinu gengur hreinlega EKKI upp. Og er ég þá að tala um þann hóp fólks sem þarf að LIFA á LAUNUNUM sinum. Svona hversdags einstaklingar sem eru ekkert tengdir útgerðarættum, eða öðru liði á landinu sem hefur tekjur sínar í "áskrift", með einum hætti eða öðrum. Hér eru þrír svona "áskriftar" valkostir. Sam´s, BJ´s og Costco. Þar fyrir utan eru fínar verslanir eins og Publix og Target (Hagkaup), Home Depot (Byko), Lowes (Húsasmiðjan), Best Buy (Elko) og svo framvegis. Allar lifa þetta af, samkeppnin er hörð og raunveruleg. reyndar virðist "samkeppnin" í bensíninu vera á svipuðum nótum og heima. Lítil sem engin. Og kannski ein af fáum vörum hér sem eru með svona dagprísa. En gleymum ekki að samkeppnin hér er sennilega háð frá lægri mörkum í stað hæstu. Hef margt um þessa hluti að segja, og ekki pláss fyrir það allt hér. En leyfi mér að segja hér að það er ekkert, akkúrat EKKERT mál með þokkalega skynsemi í farteskinu að lifa af launum venjulegs einstaklings. (Ég er ekki að tala um aumingja og afætur. þeir eru til beggja vegna hafsins).

Örfá dæmi, gróf, en staðreynd; Matur, orkureikningur (vatn og rafmagn reyndar saman). Um helmingur.

Farartæki; Um helmingur.

Bensín (og diesel), næstum einn þriðji.

Húsnæði; Úff, þarna er stóra naglaspýtan. Varla hægt að ræða ógrátandi.

Bankar; Lögleidd glæpastafsemi (á Íslandi). Þyrfti stóran og sterkan erlendan banka til að kenna íslensku bankaumhverfi hvernig þetta er gert. Sem er undarlegt, margt af okkar unga fólki hefur varið nokkrum árum erlendis til mennta og veit nákvæmlega hvernig þetta er gert. En ekki nokkur leið að leiðrétta þegar heim er komið.

Það er margt "best í heimi" á landinu okkar. Ekki spurning. En yfirhöfuð er það ekki tengt fólkinu sem "ræður og stjórnar" þarna. Það er náttúran, hreinleikinn (á undanhaldi reyndar) og okkar frábæru sumur. Þau eru hreinlega engu lík. Og það vita kannski þeir einir sem reynt hafa rök og heit sumur í "útlöndum". Þau geta verið ansi erfið okkar þykka blóði. Svo ég tali nú ekki um "mauraleysið". Þvílík blessun!

En auðvitað eru þetta bara mínar hugleiðingar. Ég or orðinn alvanur öðru umhverfi. Allt öðru. En við erum samt að ræða um svipaða gerð þjóðfélags. Í hinum vestræna heimi. Þessari opnun Costco á Klakanum ber að fagna. Ekkert íslenskt "afl" getur hróflað við þeim. Hvorki Ólafar né Viðeyingar. Ekki einu sinni hróflað við þeim. Ísland verður líklega aldrei eins (aftur), sem BETUR FER!! Íslandi þarf að breyta, hvorki meira né minna!!!!!

Bestu kveðjur.

GÞB.

Guðmundur Þór Björnsson (IP-tala skráð) 27.5.2017 kl. 03:51

5 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þnnig er, að þeir sem gripu tækifærin hér uppi á Íslandi, þeir lifðu af. Hinir sem ekki gripu tækifærin, þeir dóu, eða lifðu á þeim sem höfðu gripið tækifærin.

 Sumir eru prúðir og aðrir misprúðir, en það er ekki öllum gefið að reka olnbogana í samferðamanninn.    

Hrólfur Þ Hraundal, 27.5.2017 kl. 07:15

6 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Gott að fá kjarabót í auknum kaupmætti. Ekki vanþörf á slíku, hér á samkeppnislagabrotanna skattpíningar þrælaeyjunni. Hef ekki komið í þessa nýju verslun ennþá, en sá myndir og ummæli á netinu í gærkvöldi. Þessi verslun er víst komin til að vera, svo ekki liggur mikið á að fara í verslunarferð. 

Það virðist meira að segja vera hægt að kaupa sér ódýrt bílskýli. Væri athugandi fyrir þá sem eru svo sviknir hér á Íslandi að hafa ekki einu sinni möguleika á þaki yfir höfuðið, eftir að okurskatta og lífeyrisránskrumlurnar hafa stolið megninu af láglaununum?

Sálfræðingar heimsins ættu kannski að beina athygli sinni að þeim valdmisbeitingar embættislögmönnum sem eru svo sárþjáðir og sjúkir af lög/valdmisbeitingarþörf, græðgi og auðsöfnunaráráttu, að það virðist ekkert kvikt hafa möguleika til að geta lifað heilbrigðu lífi. Hvorki í kringum þá né í stórum radíus frá þeim?

Það er minnst einnar rannsóknar vert verkefni!

Gangi annars öllum sem best í heiðarlegri samkeppni. Jóhannes heitinn í Bónus sagði að það væru ekki góð viðskipti nema báðir væru sáttir eftir viðskiptin. Ég ætla að trúa því að einungis heiðarleg markmið séu á bak við hugmyndir og viðskipti Costco. Alla vega þar til eitthvað annað kemur í ljós.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 27.5.2017 kl. 10:45

7 identicon

Ég held að fjölmiðlar séu að gera mikið úr þessum fáu hræðum sem hafa mætt á svona "múgsefjunar" viðburði, 20-50 manns í röð er ekki eitthvað sem ég myndi ætla á alla Íslendinga sem múgsefjun íslendinga, heldur örfárra einstaklinga hér á landi, í hvert skipti sem það kemur út nýr iphone í útlandinu góða þá er fólk þar sem situr í röð í marga daga til að ná fyrsta símanum, aftur þá eru þetta örfáir einstaklinga sem eru sjúkir í að fá sitt eintak en endurspegla enganveginn þjóðina sem það kemur frá og allt saman blásið upp af fjölmiðlum sem hafa ekkert betra að gera en að búa til fréttir úr engu.

Halldór (IP-tala skráð) 27.5.2017 kl. 10:54

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Vonandi mun Costco hafa þau áhrif að okrinu linni í íslenskum verslunum, eða það minnki a.m.k. verulega.  Það er reyndar strax farið að koma í ljós á ýmsum sviðum, svo sem í verði dekkja, raftækja o.fl.  Það sama hlýtur að gerast varðandi allan þurr- og pakkamat, ekki síst innfluttann, sem ekki hefur lækkað mikið þrátt fyrir styrkingu krónunnar um 40% á síðustu tveim árum.

Allar innfluttar vörur hljóta að lækka verulega á næstunni og þeir sem ekki lifa af án okurs verða þá bara að skella í lás og hinir taka við viðskiptunum sem geta látið sér duga eðlilega álagningu og eðlilegan gróða án hömlulausrar græðgi.

Innkoma Costco á markaðinn mun verða neytendum til góða og sama verður væntanlega uppi á teningnum þegar H&M opnar sínar verslanir síðar á árinu.

Þessar verslanir verða til frambúðar í landinu og algerlega ástæðulaust að taka þátt í þeirri geggjun sem grípur um sig nánast í hvert sinn sem ný erlend keðja opnar í borginni.

Axel Jóhann Axelsson, 27.5.2017 kl. 11:24

9 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Hey, við getum ekki geymt pening.  Ekki safnað til elliáranna meina ég - þessu verður öllu stolið, ef ekki af ræíkinu, þá aðilum því tengdu.  Svo við verðum að eyða þessu.  Pningar fara, en við höfum einhverja smá stjórn á í hvað.

Ekki nöldra yfir þessu, þetta er lærð hegðun, lærð kynslóð fram af kynslóð.  Ja... eða bara af biturri reynzlu á svona 20-25 árum.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.5.2017 kl. 00:39

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þessi hegðun hefur þjóðin ekki tamið sér á síðustu 20-25 árum.  Þetta er hálfgerður vertíðarhugsunarháttur sem er miklu eldri.  Kaupæðið sem greypt er í þjóðarsálina á sér sögu aftur til þess tíma að vöruskortur var í landinu og þeir fáu sem komust til útlanda keyptu nánast allt sem hönd á festi enda verðlagið yfirleitt gott.  

Síðan er það orðið fast í sálinni að ef eitthvað býðst ódýrt einhversstaðar er um að gera að kaupa það strax, enda hætta á að það hækki síðar.  Verðbólguhugsunin er sterk og það tekur margar kynslóðir að breyta henni.

Axel Jóhann Axelsson, 28.5.2017 kl. 11:27

11 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ég sagði ekki að *þjóðin* hefði tamið sér þetta á 20-25 árum.  Ég meinti að *einstaklingur* *mun* temja sér þetta *viljandi* hafi hann búið hér undanfarin 20-25 ár (eða bara hvaða 25 ára tímabil sem er) vegna þess hvernig systemið hér virkar.

Það virðist enginn átta sig á hvað veldur, og fólk vill ekki breyta þessu af einni eða annarri ástæðu.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.5.2017 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband