Færsluflokkur: Bloggar
8.4.2014 | 12:25
Frændur eru frændum verstir
Norðmenn, sem telja verður nánustu frændþjóð Íslendinga, hafa löngum verið meðal hörðustu andstæðinga íslensku þjóðarinnar þegar deilur hafa sprottið vegna einhverra málefna í samskiptum nágrannaþjóða.
Öllum er í fersku minni hvernig Norðmenn komu fram við Íslendinga í Icesavemálinu og þar voru þeir manna harðastir í að reyna að knésetja þjóðina og koma henni í efnahagslegan þrældóm Breta og Hollendinga næstu áratugina a.m.k.
Í makríldeilunni hafa Norðmenn barist með öllum ráðum við hlið ESB gegn réttmætum veiðum Íslendinga í sinni eigin landhelgi og nánast hvatt til efnahagsþvingana gegn Íslendingum til að kvésetja þá í réttmætri baráttu fyrir nýtingu eigin auðlinda.
Í sextíuogþrjú ár hefur Óslóarborg sent Reykvíkingum jólatré til að lífga upp á Austurvöll í svartasta skammdeginu, en segja nú að slík gjöf sé allt of dýr fyrir fjárhag borgarinnar og nú geti Íslendingar bara sjálfir séð um sín jólatré, eins og annað. Slíkt eigi ekkert að hafa áhrif á vináttu þjóðanna, enda geti Norðmenn svo sem stjórnað dansi í kringum jólatréð eða skemmt Reykvíkingum á annan hátt við tendrun hins íslenska jólatrés.
Borgarstjóri Óslóar segir að áfram muni borgin gefa London jólatré, enda Bretar miklir vinir Norðmanna og þeir vilji allt gera til að viðhalda og efla þann vinskap.
Vináttan er greinilega misjafnlega mikils metin í Ósló.
![]() |
Íslendingar fá ekki fleiri jólatré |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.4.2014 | 18:39
Tímamót í málefnum framhaldsskólanna
Samkvæmt fréttum dagsins hefur náðst góð niðurstaða í kjaradeilu framhaldsskólakennara sem með breytingum á skólastarfi og væntanlega styttingu náms til stúdentsprófs mun skila kennurum allt að 29% launahækkunum í lok samningstímans.
Samninganefnd framhaldsskólakennara lítur greinilega á svo á að ríkisstjórnin og ekki síst menntamálaráðherra hafi haft góðan skilning á málefninu og að góð sátt sé um breytingar á skólastarfinu í framtíðinni, eða eins og segir í fréttinni: "Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, sagði að um væri að ræða merkan áfanga í umbótum á öllu skólastarfi innan framhaldsskólanna. Þegar upp er staðið höfum við náð mjög merkum áfanga, að okkar mati, í umbótum á kjörum kennarastarfsins, sem er afar þýðingamikið fyrir allt samfélagið. Baráttan hefur snúist um almannahagsmuni, að auka virðingu fyrir kennarastarfinu - sem það á svo sannarlega skilið - og styrkja skólakerfið í landinu, sagði hún."
Það er alveg sérstakt fagnaðarefni að við völd eru stjórnvöld sem hægt er að semja við á vitrænum grundvelli, en það hefur greinilega ekki verið álit kennarasambandanna að síðasta ríkisstjórn væri í raun viðræðuhæf, enda voru mörg félög opinberra starfsmanna með lausa samninga í allt að heilt ár áður en sú ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum.
Væntanlega munu nú öll önnur stéttarfélög koma í kjölfar þessa samnings og krefjast sambærilegra "leiðréttinga" á launum sinna félagsmanna.
![]() |
Þetta er tímamótasamningur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2014 | 19:29
Verður er kennarinn launa sinna
Framhaldsskólakennarar hafa verið í verkfalli undanfarna daga til að knýja á um kjarabætur stéttarinnar og útlit er fyrir verkföll fleiri félaga ríkisstarfsmanna á næstu mánuðum.
Flest, eða öll, félögin benda á að "aðrir" hafi fengið meiri hækkanir en þeirra eigin félagar og því þurfi að "leiðrétta" launabilið á ný og þannig ganga kaupin á eyrinni varðandi kjarabaráttuna árum og áratugum saman.
Ekkert stéttarfélag getur unað öðru að fá meiri launahækkun en það sjálft og því gengur kjarabaráttan nánast eins fyrir sig árum og áratugum saman, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að lægstu laun skuli hækkuð umfram önnur, en þegar til á að taka sættir sig enginn við minni hækkun en "aðrir" hafa fengið.
Hvað sem öðru líður er kennarastarfið með þeim mikilvægustu í þjóðfélaginu og menntun að verða sífellt nauðsynlegri hverjum manni til að takast á við lífið í æ flóknara og tæknivæddara þjóðfélagi. Í hverju starfi eru gerðar sífellt meiri og meiri kröfur um menntun og hver sá sem heltist úr skólalestinni á sífellt minni möguleika á góðu framtíðarstarfi.
Kennarar eiga því og þurfa að fá góð laun fyrir sín störf og á móti á og verður að gera miklar kröfur til þeirra, enda ábyrgðin mikil á að skila unga fólkinu út í lífið tilbúið til að takast á við lífið og tilveruna án vandkvæða.
Kennaranámið ætti að vera ekki síðra eða minna í það lagt en t.d. læknanám og vera launað í samræmi við það.
![]() |
Samingur til 2½ árs líklegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.3.2014 | 17:21
Seðlabankinn á ekki að vera pólitískt leikfang
Fyrsta verk Jóhönnu Sigurðardóttur var að flæma þrjá seðlabankastjóra úr starfi til í heiftúðugum hefndaraðgerðum sínum gegn Sjálfstæðisflokknum og Davíð Oddssyni, eftir að henni tókst að kaupa VG til ríkisstjórnarþátttöku eftir bankahrunið haustið 2008.
Heiftin var slík að ekki var einu sinni hægt að undirbúa málið almennilega, heldur voru lög brotin með því að skipa erlendan mann seðlabankastjóra á meðan að Már Guðmundsson væri að losa sig frá starfi sínu erlendis, svo hann gæti tekið við starfi seðlabankastjóra til frambúðar.
Í millitíðinni, þ.e. eftir að Már var ráðinn með loforði um ákveðin starfskjör, datt Jöhönnu í hug að setja lög um að enginn opinber embættismaður mætti hafa hærri laun en hún sjálf, enda farinn að líta svo á að enginn í landinu væri verðugur hærra starfsmats en hennar hátign.
Með þessari geðþóttaákvörðun voru fyrri launaloforð til handa Má svikin og hans eina ráð til að kanna réttarstöðu sína var að stefna bankanun (auðvitað sem staðgengli Jöhönnu) til að fá botn í réttarstöðu sína í málinu. Eins og Már segir sjálfur, ekki eingöngu launaupphæðarinnar vegna heldur "Hitt skiptir mig miklu máli hvernig að þessu öllu var staðið."
Það er nefninlega hárrétt hjá Má, að það var með eindæmum hvernig ríkisstjórn Jóhönnu stóð að þessu máli, eins og flestum öðrum. Allt þetta mál var eintómt klúður og Lára V. Júlíusdóttir gerði örugglega ekkert varðandi þetta mál nema að viðhöfðu nánu samráði við flokksformann sinn, Jóhönnu Sigurðardóttur.
Það er svo eftir öðru, að Selabankinn borgi brúsann og í raun ekki við öðru að búast, enda klúðrið bankans og ríkisstjórnarinnar, en ekki Más Guðmundssonar sem í raun er fórnarlamb ruglsins.
Það þarf að koma Seðlabankanum í skjól frá pólitískum fíflagangi, að ekki sé talað um hefnarþorsta einstakra ráðherra.
![]() |
Hefði annars látið málið niður falla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.3.2014 | 16:44
Vantar fátækrahverfi í Reykjavík?
Á tíma seinni heimstyrjaldarinnar og árin eftir hana flykktist fólk af landsbyggðinni til Reykjavíkur vegna þeirrar atvinnu sem þar stóð til boða og skapaðist af þessu mikill íbúðaskortur og var því nánast hver kompa sem hægt var að komast yfir nýtt til íbúðar.
Braggahverfin, sem herinn skyldi eftir sig, fylltust af "nýbúum" og Höfðaborgin var byggð sem "bráðabyrgðahúsnæði" fyrir hina aðfluttu og víða var búið í húsnæði sem varla var fólki bjóðandi, t.d. Pólunum og fleiri slíkum stöðum.
Með sameiginlegu átaki aðila vinnumarkarðarins og stjórnvalda tókst að útrýma þessu heilsuspillandi húsnæði og bjóða íbúunum gott og traust húsnæði til frambúðar. Því miður er aftur orðið talsvert um að verið sé að bjóða upp á nánast óíbúðarhæft húsnæði til leigu vegna þess húsnæðisskorts sem hrunið leiddi af sér og verða margir að láta sér slíkt lynda, þar sem ekki er annað að hafa miðað við þá greiðslugetu sem fyrir hendi er.
Hugmyndir um að reisa íbúðahverfi úr gömlum innréttuðum gámum væri risaskref til fortíðar, ef af yrði, þar sem slík hverfi myndu strax minna á fátækrahverfi erlendra stórborga, fyrir utan að varla væri fólki bjóðandi að búa í slíkum hrófatildrum, enda hæpið að slíkir gámar gætu talist mannsæmandi bústaðir eða að þeir stæðust nútímakröfur um hollustuhætti og aðbúnað íbúa til langs tíma.
Það sem vantar líklega síst af öllu í Reykjavík er gámahverfi sem myndi ekki minna á neitt meira en skúrahverfi stórborga með öllum þeim vandamálum sem slíkum hverfum fylgja.
![]() |
27 m² íbúðir á 80 þúsund á mánuði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2014 | 22:42
Þjóðar- (atkvæðagreiðslu-) sátt
Lengur en elstu menn kæra sig um að muna hefur ESBumræðan skapað gríðarlegt ósætti meðal þjóðarinnar, þó mikill meirihluti hennar hafi aldrei, samkvæmt skoðanakönnunum, viljað tengjast ríkjasambandinu meira en nú þegar er með samningnum um evrópska efnahagssvæðið.
Eftir að VG keypti ráðherrastóla af Samfylkingunni gegn samþykkt innlimunarbeiðni að ESB hafa deilurnar magnast og nú keyrir úr hófi í þeim efnum eftir að núverandi ríkisstjórn hefur lagt fram tillögu um að draga beiðnina til baka og láta málið niður falla.
Talsverður fjöldi ESBsinna sættir sig ekki við þá niðurstöðu síðustu Alþingiskosninga að flokkarnir sem beiðnina lögðu fram og ráku málið við ESB töpuðu svo stórkostlega að annað eins hefur hvergi sést á byggðu bóli í nokkrum kosningum og halda uppi háværum kröfum um að aðildarferlinu verði lokið áður en þjóðin verði spurð álits á því hvort hún kærir sig um aðildina eða ekki.
Eina færa leiðin til að ljúka þessu máli virðist vera að skjóta því til þjóðarinnar og þá með algerlega kristaltærri og skýrri spurningu, sem ekki væri hægt að hártoga eða mistúlka á nokkurn hátt eftirá. Spurningin gæti t.d. hljóðað svo: "Vilt þú að Ísland gerist aðili að ESB?" Telji einhver að þessi spurning sé ekki nógu skýr, mætti bæta við: ".. að því tilskyldu að viðunandi niðurstaða fáist fyrir þjóðarhag Íslendinga, t.d. varðandi yfirráð sjávarauðlindanna."
Fengist niðurstaða sem samninganefndin teldi að þjónaði þjóðarhag landsins á viðunandi hátt, yrði hún að sjálfsögðu lögð fyrir þjóðina til staðfestingar eða höfnunar.
![]() |
Rætt um Evrópumálin á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.2.2014 | 14:39
Vill einhver taka þátt í þessu sukki?
Eins og venjulega er ESB gert afturreka með bókhald sitt vegna fjármálaóreiðu og sukks, sem engar skýringar fást á, en virðist vaxa ár frá ári. Síðast liðin nítján ár hafa endurskoðendur ESB neitað að skrifa upp á bókhaldið vegna þess að engan veginn er hægt að fá tekjur og gjöld til að stemma saman og munar þar engum smáupphæðum.
Þrátt fyrir fögur fyrirheit vex óráðsían ár frá ári og við neitun á samþykkt ársreikninga fyrir árið 2012 benda Hollendingar, Bretar og Svíar t.d. á að misfærslurnar hafi vaxið úr 3,9% árið 2011 i 4,8% árið eftir. Við afgreiðslu fjárlaga á Íslandi þykir það gríðarlegur niðurskurður ef ríkisstofnunum er gert að spara sem nemur 1,5% af árlegum rekstrarkostnaði, þannig að sé það sett í samhengi við þessi 4,8% sem engar skýringar finnast á hjá ESB sést best hvílíkt fjármálasvínarí á sér stað þar á bæ.
Nú hefur Hagfræðistofnun Háskólans sent frá sér skýrslu um stöðu innlimunarferils Íslands að ESB og þeim breytingum sem þar á bæ hafa orðið undanfarin ár og framtíðarhorfur. Þrátt fyrir að niðurstaðan sé sú sem allir vissu reyndar fyrirfram, þ.e. að ekki væri eftir neinu að kíkja í "pakkanum" enda hefði hann verið opinn öllum til skoðunar í mörg ár og ekkert óvænt þar að sjá, láta innlimunarsinnar sér ekki segjast og halda áfram blekkingarleik sínum varðandi innlimunina og láta enn eins og eitthvað leynist á botni "pakkans" sem jafnvel yfirstjórn ESB viti ekki um.
Þó vitað hafi verið í tvo áratugi um sukkið, svínaríið og spillinguna í fjármálum ESB hafa innlimunarsinnar ekki látið þær fréttir hafa minnstu áhrif á tilraunir sínar til að blekkja þjóðina til að láta stjórn fiskveiða við landið í hendur þessara spillingarfursta sem ríkjum ráða innan ESB.
Hvað sem öllum skýrslum um ESB líður og fréttum af spillingunni þar innandyra mun sjálfsagt ekkert breytast í blekkingaráróðri innlimunarsinna.
![]() |
Neita að samþykkja reikninga ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.2.2014 | 21:17
Mörður heldur þjóðinni í ógnarspennu, eða hitt þó heldur
Undanfarið hefur fámennur hópur öfgamanna staðið fyrir ótrúlega óþverralegum árásum á Innanríkisráðherra vegna meints leka á upplýsingum um málefni hælisleitanda sem sendur hefur verið úr landi, eins og flestir aðrir sem ekki uppfylla skilyrði um hæli hér á landi.
Mogginn og Fréttablaðið birtu upplýsingar úr hinu meinta minnisblaði ráðuneytisins, en þar kom m.a. fram að umræddur flóttamaður væri grunaður um vafasamt athæfi og jafnframt að hann ætti von á barni hérlendis.
Eftir að maðurinn var sendur úr landi hefur fámennur en hávær hópur ofstopafólks reynt að æsa almenning gegn ráðherranum og beitt ósvífnum aðferðum til að bola honum úr embætti. Þetta upphlaup hópsins hefur hins vegar ekki borið nokkurn árangur, enda fordæmir fólk, hvar í flokki sem það skipar sér, svona ódrengilegar og ósiðlegar ofsóknir.
Málið er löngu hætt að snúast um hælisleitandann og orðið að pólitískum ofsóknum geng ráðherranum og er framganga Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi vitnisburður um það. Mörður segist hafa umrætt minnisblað undir höndum og ef það er raunin ber honum auðvitað skylda til að afhenda það lögreglunni, sem er að rannsaka hinn meinta leka úr ráðuneytinu og öllum löghlýnum borgurum hlýtur að renna blóðið til skyldunnar og aðstoða við rannsóknina ef þeir hafa einhverjar upplýsingar undir höndum sem að gagni gætu komið.
Það sama hlýtur að gilda um þingmenn, jafnvel Mörð Árnason.
![]() |
Tilbúinn að sýna réttum aðilum minnisblaðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.2.2014 | 18:52
Dómstóllinn loksins fundinn
<p>Þegar deilurnar hófust um tilraun ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. til að selja íslenska þjóð í áratuga fjárhagslega ánauð Breta og Hollendinga var því haldið fram af ýmsum aðilum að ekki væri hægt að leysa úr ágreiningi um málið fyrir dómstólum, því enginn dómstóll væri til sem gæti tekið málið til meðferðar.
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og Íslendingar hrundu efnahagsinnrás Breta, Hollendinga með stuðningi innlendra bandamanna þeirra og Eftadómstóllinn tók málið til skoðunar og felldi að lokum þann dóm að engin ríkisábyrgð hefði verið á innistæðutryggingasjóðum, þrátt fyrir að það væri einmitt krafa hinna erlendu kúgara.
Á sínum tíma var bent á (m.a. á þessari bloggsíðu eins og sjá má hérna: http://axelaxelsson.blog.is/blog/axelaxelsson/entry/901843/ ) að sá dómstóll sem bæri að stefna íslenskum aðilum fyrir, væri Héraðsdómur Reykjavíkur.
Því voru ekki allir sammála á sínum tíma, en nú hafa hinir erlendu kúgarar séð ljósið. </p>
![]() |
Krafan er góð áminning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2014 | 18:53
Svona gabb er ekkert grín
Tugir, eða hundruð, björgunarsveitarmanna hafa leitað við erfiðar aðstæður á Faxaflóa vegna neyðarkalls um að bátur væri að farast og áhöfnin væri að klæðast björgunargöllum til þess að vera viðbúin því að lenda í köldum sjónum í því tiltölulega slæma veðri sem á flóanum var í gærdag.
Til viðbótar öllum þeim fjölda manna og kvenna sem allt erfiðið hefur lagt á sig við leitina hefur mikill floti björgunartækja verið í notkun við leitina, t.d. hefur landhelgisgæslan verið með skip og þyrlur á svæðinu, ásamt því að finnskar björgunarþyrlur sem hér eru staddar fyrir tilviljun hafa aðstoðað við leitina, sem og fjöldi annarra sem að leitinni hefur komið.
Nú bendir allt til þess að þetta neyðarkall hafi verið gabb og að einhver, eða einhverjir, hafi skemmt sér við að fylgjast með störfum björgunarfólksins við þessar erfiðu aðstæður. Hvergi þykir fyndið, og allra síst á Íslandi eða öðrum strandríkjum, að ljúga upp sjóslysum og að sjómenn væru að berjast fyrir lífi sínu á hafi úti.
Sá, eða þeir, sem stóðu að þessu óhæfuverki finnast vonandi og verða látnir gjalda þess lögum samkvæmt. Sé um sjúkan hug að ræða, fær hann vonandi viðeigandi meðhöndlun á til þess gerðri stofnun.
![]() |
Gabb gæti verið refsivert |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)