16.10.2012 | 09:30
"Áreiti" björgunarsveitanna
Framkvæmdastjóri Kringlunnar segir að viðskiptavinir eigi að geta gengið um opin svæði Kringlunnar án þess að vera áreittir í hverju horni hússins af sölufólki.
Væntanlega þykir honum nóg um "áreitið" sem viðskiptavinir verða fyrir frá kaupmönnum í húsinu og að ekki sé ástæða til þess að gefa t.d. góðgerðarfélögum tækifæri til að "áreita" fjárhag viðskiptavinanna áður en þeir komast alla leið inn í búðirnar sjálfar.
Til þess að sporna við slíku "áreiti" góðgerðarfélaga er tekið hátt gjald af þeim til þess að "stýra" því hver áreitir hvern og hvenær.
Flestir viðskiptavina Kringlunnar líta hins vegar ekki á það sem áreiti þegar góðgerðarfélög safna til starfsemi sinnar og þeir sem það geta leggja glaðir fram svolitla styrktarupphæð til þeirra málefna sem áhugi er á annað borð fyrir að leggja lið. Hinir sem ekki treysta sér til að leggja af mörkum í það og það sinnið láta það bara vera, án þess að líta á slíkar beiðnir sem árás á einkalíf sitt.
Það er Kringlunni til minnkunnar að skattleggja slíka starfsemi og framkvæmdastjóranum ætti að vera í lófa lagið að úthluta slíkum fjáröflunarleyfum án þess að taka stóran hluta innkomunnar í hússjóð Kringlunnar.
![]() |
Leigja pláss í Kringlunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
12.10.2012 | 19:03
Efnahagsþvinganir gegn ESB?
Fiskistofnar undir yfirráðum ESB eru ofveiddir og er svo komið að yfir 90% þeirra er talinn í alvarlegri útrýmingarhættu verði ekki gripið til tafarlausra verndunaraðgerða. Til viðbótar þessari ríkisstyrktu ofveiði kaupir ESB fisk í þeim eina tilgangi að henda honum til þess að halda uppi verði til neytenda í löndunum innan sambandsins.
Evrópuþingmaðurinn Chistofer Fjellner bendir á þessa staðreynd í blaðagrein og segir þar m.a: "Árin 2008-2010 voru eyðilögð meira en 40.000 tonn af ferskum fiski í Evrópu. Í Svíþjóð var það ýsa, makríll, rauðspretta og rækjur. Ekkert bendir til þess að ástandið sé að batna, heldur þvert á móti."
Þetta sama ESB hefur nýlega samþykkt reglur sem beita má til að beita Íslendinga efnahagsþvingunum vegna makrílveiða innan sinnar eigin lögsögu með þeirri röksemd að makrílstofninn sé ofveiddur af Íslendingum og Færeyingum.
Með hliðsjón af framferði ríkjanna innan ESB, bæði hvað varðar ofveiði nánast allra sinna fiskistofna og ekki síður meðferðarinnar á hluta aflans eftir að hann er kominn á land, hlýtur að koma til greina af hálfu allra ríkja utan ESB að setja viðskiptabann á sambandsríkin þangað til þessum málum verði komið í viðunandi horf.
![]() |
Kaupa fisk til að kasta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2012 | 22:24
Að yfirgefa sökkvandi skip
Sagt er að af einskærri eðlisávísun sé ákveðin dýrategund fyrst til að yfirgefa sökkvandi skip.
Þetta flaug í hugann við úrsögn Róberts Marshalls úr Samfylkingunni.
Ekki fara neinar sögur af því að dýrategundin sem þjóðsagan er um, stökkvi strax um borð í annað skip í sjávarháska, en sjálfsagt reynir hún að komast á hvaða brak sem til næst í von um björgun.
Hún er sterk eðlishvötin um að halda sér á floti eins lengi og mögulegt er.
![]() |
Róbert til liðs við Bjarta framtíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.10.2012 | 22:08
Álfheiður talar af sér og uppljóstrar um leynimakk
Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega að ríkisstjórnin hafi leynilega gefið embættismönnum og forstöðumönnum ríkisstofnana fyrirskipanir um að halda að sér höndum vegna atvinnuuppbyggingar í landinu og reyndar tefja og svíkja öll fyrirheit sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa gefið aðilum atvinnulífsins í þeim efnum á valdatíma sínum.
Þetta komst upp þegar Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, talaði af sér á Alþingi og uppljóstraði um þessar leynifyrirskipanir, eða eins og ASÍ orðar það: "Álfheiður sagði að þegjandi samkomulag ríkti um að ríkisfyrirtæki héldu að sér höndum í virkjanamálum, á meðan rammaáætlun hefði ekki verið afgreidd á Alþingi."
Auðvitað þarf þessi uppljóstrun ekki að koma neinum á óvart vegna margítrekaðra svika ríkisstjórnarinnar á munnlegum og skriflegum loforðum og samningum um að greiða fyrir því að uppbygging gæti hafist af fullum krafti við að auka atvinnu í landinu og minnkun atvinnuleysisins, en allt frá árinu 2009 hefur ríkisstjórnin svikið öll þau fyrirheit sem gefin hafa verið til ASÍ og SA um atvinnumál.
ASÍ, undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar Samfylkingarmanns, hefur margoft mótmælt svikum stjórnarinnar á gerðum samningum og mikið þarf til að jafn dyggur stuðningsmaður beiti sér fyrir jafn harðorðum samþykktum og sambandið hefur ítrekað sent frá sér.
Þegar meira að segja Gylfa ofbýður svik samflokksmannna sinna og þeirra samstarfsmanna er fokið í flest skjól "velferðarstjórnarinnar".
![]() |
Leynisamkomulag stjórnarflokkanna ólíðandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.10.2012 | 19:21
Sósíalismi andskotans
Svíar státa sig af miklum jöfnuði í landi sínu og íslenskir aðdáendur ríkissósíalisma líta jafnan með mikilli aðdáun til Svíþjóðar og láta sig dreyma um að taka upp sem mest af sænskum reglum á Íslandi.
Þegar upp komst að kokkur nokkur í Svíþjóð hafði tekið upp á því að bjóða upp á betri, hollari og næringarríkari mat en gegnur og gerist í skólum landsins, datt skólayfirvöldum landsins ekki í hug að gera kröfur um úrbætur í skólamötuneytum almennt, heldur kröfðust þess að umræddur kokkur dragi úr gæðum síns matar og kæmi honum niður á sama plan og matur væri á í öðrum skólum.
Yfirvöldin töldu það "ósanngjarnt" að börnum í þessum tiltekna skóla væri boðið upp á betri mat en í öðrum skólum og þá skyldi "jafnað" niðurávið til þess að öll börn gætu borðað álíka "vondan og lélegan" mat dags daglega.
Þetta er ágætt dæmi um það sem kallað hefur verið "sósíalismi andskotans".
![]() |
Þótti bjóða upp á of góðan mat |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.10.2012 | 19:16
Þingmaðurinn Þór Saari dæmdur lögbrjótur
Ráðherrar hafa, nánast i hrönnum, verið að fá á sig dóma fyrir lagabrot af ýmsum toga og enn bætist í hóp lagabrjóta á Alþingi með dómi Héraðsdóms Reykjaness yfir Þór Saari, þingmanni Hreyfingarinnar, fyrir meiðyrði gegn Ragnari Árnasyni, prófessor við Háskólann.
Þór Saari hafði á prenti haldið fram þeim ósannindum að Ragnar hefði verði á launum til fjölda ára hjá LÍÚ og því væri ekkert að marka rannsóknir hans og skrif um sjávarútvegsmál, enda mútuþegi útgerðarmanna.
Virðing fólks fyrir Alþingi hefur ekki verið mikil upp á síðkastið og ekki bæta meiðyrðadómar vegna orðasóða og ósannindamanna gegn þingmönnum þar úr.
![]() |
Þór Saari dæmdur fyrir meiðyrði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.10.2012 | 20:03
Hefndin er sæt
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, hefur undanfarna daga verið í krossferð gegn Sveini Arasyni, ríkisendurskoðanda, og ætlar sér greinilega að bola honum úr starfi.
Tilefnið er skýrsludrög um rannsókn ríkisendurskoðunar á bókhalds- og mannauðskerfi ríkisins, sem greinilega hefur verið meingallað, a.m.k. til að byrja með, sem dagaði uppi hjá ríkisendurskoðun og virðist hafa gleymst í kerfinu, bæði af þeim sem báðu um skýrsluna og hjá ríkisendurskoðun.
Þrátt fyrir að slíkur trassaskapur sé ámælisverður hefur stríð Björns Vals gegn ríkisendurskoðanda vakið furðu og eitthvað þótt byggja að baki annað en trassagangur þings og ríkisendurskoðunar vegna þessarar skýrslu.
Viðhangandi frétt skýrir líklega hvað að baki þessum stríðsrekstri býr, en það er harðorð gagnrýni ríkisendurskoðunar um ýmsar gerðir og starfshætti ráðherra VG á stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar.
Allt bendir því til þess að hér sé um að ræða hefndaraðgerðir ráðherra VG og eins og venjulega sé Birni Val beitt í skítverkin.
![]() |
Erfið samskipti við ráðherra VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
30.9.2012 | 12:51
Hver gaf Höskuldi 1. sætið?
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er æfur yfir því að formaður flokksins skuli ætla að gefa kost á sér í 1. sæti listans í Norðausturkjördæmi, eða eins og segir í fréttinni: "Höskuldur hefur lýst því yfir að ekki komi til greina að gefa fyrsta sætið eftir til Sigmundar Davíðs."
Það er alveg furðulegt að nokkur maður skuli telja sig eiga ákveðin sæti á listum stjórnmálaflokkanna, því það eru stuðningsmenn flokkanna sem ákveða hverjir skipi hvaða sæti. Þannig virkar lýðræðið og ekkert er eðlilegra en að tekist sé á um sæti á listum, fari sú barátta fram á heiðarlegum og málefnalegum grunni.
Enn furðulegra við viðbrögð Höskuldar er að hann var alls ekki í fyrsta sæti á lista flokks síns í þessu kjördæmi eftir prófkjör fyrir þingkosningarnar árið 2009, heldur fékk hann aðeins um 350 atkvæði í það sæti, en Birkir Jón Jónsson fékk vel á sjöttaþúsund atkvæða í fyrsta sætið.
Viðbrögð Höskuldar vekja þá spurningu á hvaða forsendum hann telur sig eiga fyrsta sætið og telji sig geta gefið út þá yfirlýsingu að hann ætli ekki að gefa það eftir til formannsins.
Nú, þegar Birkir Jón hefur gefið út tilkynningu um að hann ætli að hætta þátttöku í stjórnmálum í bili, verður Höskuldur að svara því hvernig stendur á því að hann telur sig sjálfskipaðan eftimann hans í fyrsta sætið.
Telur Höskuldur að lýðræði eigi ekki við þegar kemur að uppstillingu listans fyrir komandi kosningar.
![]() |
Hafa ekki rætt saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.9.2012 | 10:32
Ólga í vatnsglasi Björns Vals?
Mikill hávaði hefur orðið í þjóðfélaginu eftir umfjöllun Kastljóss, sem var í miklum æsifréttastíl, um kostnað vegna upptöku og rekstur Oracle bókhalds- og upplýsingakerfis ríkisins. Var sú umfjöllun öll með ólíkindum og blandað saman stofn- og rekstrarkostnaði og jafnvel látið í skína að um stórkostleg fjársvik hafi verið að ræða í sambandi við þetta mál, allt frá árinu 2001.
Jóhanna Sigurðardóttir, þá óbreyttur þingmaður, lagði árið 2004 fram fyrirspurn í þinginu til þáverandi fjármálaráðherra um innleiðingu kerfisins og svaraði hann þar skilmerkilega um gang mála og áfallinn kostnað, eða eins og fram kemur í fréttinni: "Jóhanna spurði út í kostnað við kerfið, bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað og hvort hann hefði verið í samræmi við áætlun. Fram kemur í svarinu að heildarkostnaður til ársloka 2003 hafi numið 1.536 milljónum kr. en fjárheimildir námu 1.585 milljónum kr."
Vafalaust má finna ýmislegt athugavert við upptöku og rekstur bókhalds- og upplýsingakerfis ríkisins, enda risavaxið og flókið, eins og flest allt annað sem opinberir aðilar koma nálægt, en í þessu tilfelli hefur þó komið í ljós að árlega hefur verið gert ráð fyrir þessum kostnaði á fjárlögum og samkvæmt upplýsingum núverandi fjármálaráðherra hefur sá rekstur ávallt verið innan fjárheimilda, sem alls ekki verður sagt um alla liði fjárlaganna.
Allt bendir til þess að má þetta sé uppskrúfuð æsifréttamennska og flokkist ekki einu sinni undir að teljast vera stormur í vatnsglasi. Líklegra er að hér sé aðeins um að ræða örlitla ólgu í glasi Björns Vals Gíslasonar.
![]() |
Svaraði Jóhönnu um kerfið 2004 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.9.2012 | 20:24
Undarlegt að nokkur skuli undrast svik ríkisstjórnarinnar
Samtök álfyrirtækja gerðu skriflegan samning árið 2009 við ríkisstjórnina um fyrirframgreiðslu tekjuskatta og tímabundinn raforkuskatt, sem falla skyldi niður eftir að árið 2012 yrði liðið í aldanna skaut.
Nú er komið í ljós að ríkisstjórninni dettur ekki í hug að efna samninginn frekar en aðra samninga sem hún hefur gert á valdatíma sínum, hvort heldur sem er við verkalýðshreyfinguna eða atvinnurekendur.
Svona samviskulaus er ríkisstjórnin þrátt fyrir að Steingrímur J. hafi ítrekað árirð 2010 að við samninginn yrði staðið, en það gerði hann til þess að blekkja Alcan til stækkunar álversins í Straumsvík.
Samál er líklega eini aðilinn á Íslandi og þó víðar væri leitað sem ennþá er undrandi á því að ríkisstjórnin svíki þá samninga sem hún gerir. Jafnvel þá sem eru skriflegir.
![]() |
Ríkið svíkur samning við stóriðjuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)