27.10.2009 | 08:20
Ríkisstjórn svikanna
Ríkisstjórnarnefnan, sem nú situr við völd í landinu, illu heilli, er sannkölluð ríkisstjórn svikanna.
Hún sveik þjóðina með samningnum við Breta og Hollendinga um Icesave skuldir Landsbankans. Hún sveik þjóðina aftur í sama máli, þegar hún hunsaði lög Alþingis um fyrirvara við þrælasamninginn.
Nú er hún að svíkja samninginn sem hún gerði við aðila vinnumarkaðarins um skatta, niðurskurð ríkisútgjalda, atvinnuuppbyggingu og stöðugleika. Það er fáheyrt, að taka þurfi upp viðræður við ríkisstjórn, til þess að reyna að fá hana til að standa við sína eigin samninga, sem eru þó ekki nema fjögurra mánaða gamlir.
Stöðugleikasáttmálinn, eða réttara sagt svik stjórnarinnar á honum, er enn einn naglinn í líkkistu þessarar ríkisstjórnarnefnu, sem með verkleysi sínu og verkkvíða, hefur unnið að því að lengja og dýpka kreppuna, frá því sem annars hefði orðið.
Því fyrr, sem kistan verður fullsmíðuð, því betra.
![]() |
Hafa ekkert nálgast niðurstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2009 | 14:55
Ríkisstjórnin fer úr landi og málin taka kipp
Fram hefur komið í fréttum að Jóhanna, forsætisráðherralíki, hafi stokkið úr landi og tekið með sér fjármálajarðfræðinginn og tvær aðrar ráðherranefnur. Eins og hendi væri veifað fóru að berast fréttir af því að a.m.t. tvö mál hafi tekið að þokast áfram, um leið og staðfest var, að þessar ráðherranefnur væru komnar um borð í flugvélina, sem flutti þá af landi brott.
Fyrst komu fréttir af því, að AGS hefði sett málefni Íslands á dagskrá stjórnarfundar í vikunni og svo bárust þau stórmerku tíðindi, að stjórnardruslan hefði náð að ljúka drögum að yfirlýsingu vegna stöðugleikasáttmálans. Sérstaklega ber að athuga, að um drög er að ræða, enda nær þessi stjórn yfirleitt ekki að ljúka nokkru máli fullkomlega.
Miðað við þessar upplýsingar, ber að fagna flótta ríkisstjórnarinnar úr landinu, en samkvæmt Dyflinarsáttmálanum verður henni örugglega vísað aftur til heimalandsins áður en langt um líður.
Íslendingar geta samt lifað í þeirri von, að nokkur tími muni líða, áður en ráðherranefnurnar koma til landsins aftur.
![]() |
Fundað um yfirlýsingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.10.2009 | 13:28
Bólar ekki á ríkisstjórninni frekar en venjulega
Eins og ávallt áður, eru viðbrögð ríkisstjórnarnefnunnar við hverju máli þau, að svör muni verða gefin seinna í dag, á morgun eða fyrir helgi. Þetta sagði Jóhanna, forsætisráðherralíki, á miðvikudaginn í síðustu viku, þegar hún hafði meðtekið síðustu svipuhögg þrælahaldaranna í Haag og London, um afgreiðslu AGS á annarri endurskoðun efnahagssáttmála AGS og Íslands, en þá fullvissaði hún þjóðina um að ekki væri lengur nein tengsl milli afgreiðslunnar og Icesave og nú myndi AGS afgreiða málin í "næstu viku".
Nú er sú vika runnin upp og stöðugleikasáttmálinn ekki komin á birta dagskrá stjórnar sjóðsins næstu tvær vikurnar. Í gær gáfu ráðherranefnurnar út, að yfirlýsingar þeirra vegna stöðugleikasáttmálans yrði að vænta fyrir kvöldið, en sú yfirlýsing hefur ekki sést ennþá, en gæti komið seinna í dag, á morgun eða a.m.k. fyrir helgi.
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ lætur hafa eftir sér: En það er alveg ljóst að innan okkar raða eru vaxandi sjónarmið í þá veru að það hafi ekki mikinn tilgang að halda þessum samskiptum við stjórnvöld áfram á þeim nótum sem þau hafa verið upp á síðkastið.
Þegar ASÍ er búið að gefast upp á "stjórn hinna vinnandi stétta", þá á ríkisstjórnarnefnan hvergi vini lengur.
ASÍ er farið að lýsa aumingjaskap ríkisstjórnarnefnunnar með miklu sterkari orðum en stjórnarandstaðan á þingi og þegar svo er komið, þarf ekki aðra stjórnarandstöðu.
![]() |
Ekkert bólar á yfirlýsingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.10.2009 | 10:50
Vitrænasta ESB tillagan
Ályktun Hins íslenska tófuvinafélags um ESB aðildarumsóknina er líklega eina vitræna tillagan, sem fram hefur komið vegna inngöngubeiðnarinnar, enda ekki vitað til þess, að ríkisstjórnarnefnan hafi lagt fram neinar kröfur í málinu, aðeins sett allt opinbera apparatið í að svara spurningum frá ESB, en ekki lagt fram neinar kröfur eða spurningar sjálf.
Besti hluti tillögu tófuvinafélagsins er þessi: "Jafnframt gerir félagið það að ófrávíkjanlegri kröfu að skuggabaldrar tilheyri um eilífð íslensku þjóðinni en skoffín megi flytja til Brussel óheft til hagsbóta fyrir gjörvallt Evrópusambandið."
Taki Samfylkingarfólk síðasta hluta setningarinnar til sín persónulega, þá eru það mjög eðlileg viðbrögð, enda dreymir margt af því, að komast í feit embætti í Brussel.
Hvort sá útflutningur verði til hagsbóta fyrir gjörvallt Evrópusambandið er reyndar óvíst.
En fækkun þess hérlendis yrði a.m.k. Íslandi til hagsbóta.
![]() |
Hagsmuna tófunnar verði gætt í Icesave-máli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.10.2009 | 08:35
Ísland ekki með á velmegunarlistanum
Legatum í London hefur birt lista yfir lönd, þar sem þeim er raðað eftir velmegun. Finnland er í efsta sæti og Zimbabawe í því neðsta. Löndunum er raðað á listann, ekki eingöngu eftir fjárhagslegum þáttum, heldur lýðræðisþróun og stjórnarháttum.
Ekki kemur fram í fréttinni af þessu, hversu mörg lönd eru á þessum lista, en Ísland er að minnsta kosti hvergi nefnt á nafn í frétt Financial Times af málinu og er allavega ekki á meðal tuttugu efstu ríkja.
Þó líklegt sé, að bankahrunið hérlendis hafi áhrif á fjarveru Íslands af listanum, er miklu líklegri skýring sú, að stjórnarhættirnir nú um stundir hafi þar miklu meiri áhrif.
Ísland hefur ávallt fram að þessu verið talið í fremstu röð, hvað varðar lýðræðisþróun og stjórnarhætti.
Það er orðið breytt, með þeirri verklausu og skattabrjáluðu ríkisstjórnarnefnu, sem nú er við völd.
![]() |
Velmegun mest í Finnlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2009 | 21:41
Árni Páll talar aldrei í alvöru
Þegar Árni Páll, félagsmálaráðherralíki, tilkynnti að öll íbúðalán yrðu flutt frá bönkunum til Íbúðalánasjóðs, sagði hann að tillögur þar að lútandi myndu verða kynntar síðar þann sama dag, daginn eftir, eða að minnsta kosti fyrir helgi.
Það er reyndar fastur frasi frá allri ríkisstjórnarnefnunni, nánast í hvert einasta skipti, sem eitthvert málefni kemur til umræðu og snertir það, sem ríkisstjórnardruslan ætti að vera að gera, en gerir aldrei.
Hvað Árna Pál snertir sérstaklega, þá hefur aldrei dottið út úr honum vitræn setning, ekki einu sinni óvart.
Enda skiptir það ekki máli, engum myndi detta í hug að taka mark á honum hvort sem er.
![]() |
Aldrei rætt í alvöru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.10.2009 | 17:59
Svör ríkisstjórnar koma í dag eða á morgun eða hinn daginn
Ríkisstjórnin hefur aldrei svör á reiðum höndum um nokkurn skapaðan hlut, heldur er alltaf sagt að eitthvað muni gerast seinna í dag, á morgun eða í síðasta lagi fyrir næstu helgi. Þetta hafa menn þurft að hlust á allt þetta ár, t.d. varðandi niðurstöðu í Icesavemálinu.
Á fundi með aðilum vinnumarkaðarins vegna stöðugleikasáttmálans, hafði ríkisstjórnin engar lausnir í farteskinu, en gaf það út að hún myndi líklega kynna sína afstöðu í kvöld, á morgun eða bara einhvern tíma seinna.
Þjóðin er löngu orðin hundleið á ráðaleysi þessa ríkisstjórnarlíkis og ráðherranefnanna, sem í því sitja. Allir eru líka dauðleiðir á þeim svörum, að eitthvað muni gerast í kvöld, á morgun eða seinna.
Það þarf lausnir núna. Ekki á morgun eða hinn.
Lágmarkskrafa er að ríkisstjórnarlíkið hætti að flækjast fyrir atvinnuuppbyggingu og baráttu gegn atvinnuleysinu og kreppunni.
Nóg er að þessi ríkisstjórnarhörmung svíki þjóðina með Icesaveþrældómi, þó hún vinni ekki öllum árum að því að gera kreppuna sársaukafyllri, lengri og dýpri, en hún annars hefði orðið.
![]() |
Þetta mjakast áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.10.2009 | 11:59
Blaðamaður á eftir tímanum
Áður fyrr var klukkunni breytt tvisvar á ári hérlendis, þ.e. klukkunni var breytt um eina klukkustund eftir vetrar- eða sumartíma. Þessu er löngu hætt hérlendis, en er enn við lýði annarsstaðar í heiminum.
Hins vegar er þetta svolítið ruglingslegt og fólk ekki alltaf með það á hreinu, hvað klukkan er á hverjum stað og ekki bætir úr skák, þegar klukkan er færð fram og aftur eftir árstíma. Á miðnætti s.l. var klukkan færð aftur um eina klukkustund í Evrópu, þegar vetrartími tók þar gildi. Þetta ruglaði blaðamann mbl.is. í ríminu, eins og sést af þessu: "Það þýðir, að klukkan er nú það sama á Íslandi og á Bretlandseyjum og einum klukkutíma á eftir íslenska tímanum í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.
Þarna er blaðamaðurinn ekki alveg með tímaskinið í lagi, því í Danmörku, Svíþjóð og Noregi er klukkan einum klukkutíma á undan íslenska tímanum en ekki á eftir. Til að glöggva sig á hvað tímanum líður, vítt og breitt um veröldina, má t.d. skoða þessa síðu, sem sýnir hvað klukkan er á hinum ýmsu stöðum.
Ekki er vert að rugla fólk meira í ríminu með hvað tímanum líður á hverjum stað, en tímaflakkararnir bjóða sjálfir upp á.
![]() |
Vetrartími í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.10.2009 | 11:30
Fljótfærni Alþingis
Alloft hefur komið fyrir að Alþingi afgreiði frumvörp til laga með þvílíkum hraða og hroðvirkni, að þau hefur þurft að taka upp og leiðrétta nokkrum vikum eða mánuðum eftir samþykkt þeirra. Stundum hefur þetta hroðvirknislega vinnulag haft alvarlegar afleiðingar og þá hefur afsökunin verið, að þetta og hitt sé ekki í "anda laganna".
Andi laganna hefur ekkert gildi fyrir dómstólum, aðeins hinn ritaði og samþykkti texti. Nú brá svo við, að við afgreiðslu laga um greiðslujöfnun lána, þurfti við lokaumræðu frumvarpsins, að fella út grein um skattfrelsi á niðurfelldum skuldum, vegna þess að greinin hefði opnað fyrir stórkostlegar skattfrjálsar niðurfellingar kúlulána bankajöfra og jafnvel útrásargarka.
Í fréttinni segir: "Samkvæmt heimildum hefðu þessar tillögur óbreyttar heimilað skattfrjálsar afskriftir risastórra kúlulána, sem tekin voru vegna hlutabréfakaupa og koma tilgangi laganna ekkert við." Frumvarpið hafði farið með slíkum hraða í gegnum nefndarvinnu, að enginn tími gafst til að lesa það, eða skilja, áður en því var vísað til lokaumræðu í þinginu.
Hefðu ekki komið til athugasemdir Péturs Blöndals, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Þórs Saari, þingmanns hreyfingarinnar, hefði frumvarp Árna Páls, félagsmálaráðherra og atvinnulífsrógbera, farið óbreytt til lokaatkvæðagreiðslu.
Það verður að vera hægt að treysta því, að lög frá Alþingi séu með vitrænu innihaldi og í þeim standi það sem ætlast er til að þau nái yfir.
Andi laganna gufar fljótt upp, rétt eins og vínandi.
![]() |
Hætt við breytingu á skattalöggjöf í skyndi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.10.2009 | 10:36
Flestir munu greiða að fullu
Lög voru samþykkt á Alþingi í gær um greiðslujöfnun lána, bæði húsnæðis- og bílalána og mun greiðslubyrði húsnæðislána lækka að meðaltali um 17% frá og með 1. desember n.k. Jafnframt er gert ráð fyrir allt að þriggja ára lengingu lána, frá upphaflegum lánasamningi.
Líklegt er að með þessum aðgerðum, þ.e. að miða afborganir við greiðslujöfnunarvísitölu, muni flestir ná að greiða upp allt sitt húsnæðislán, jafnvel á upphaflegum lánstíma, sem í mörgum tilfellum er fjörutíu ár. Annað verður líklega upp á teningnum varðandi bílalánin, þar sem þeirra lánstími er miklu styttri en húsnæðislánanna og því verður örugglega talsvert um afskriftir vegna þeirra, að liðnum þriggja ára lánalengingunni.
Ef ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar kemst í lag á næstu árum og þróunin verður svipuð og hún hefur verið undanfarna áratugi mun það misgengi, sem nú hefur orðið milli launa og neysluverðvísitölu, breytast til hins betra og laun hækka umfram verðlag, eins og var t.d. undanfarin tuttugu ár. Um þennan mismun á milli launa- og neysluverðsvísitölu var t.d. bloggað hérna
Af samanburðinum í blogginu, sem vísað var til hér að framan, sést að greiðslubyrði verðtryggða lána léttist umtalsvert á þessum tuttugu árum, sem tekin eru til viðmiðunar, en margir virðast standa í þeirri trú, að verðtryggingin hafi verið allt að drepa á undanförnum árum.
Oft hefur orðið misgengi á milli launa og verðlags um skamman tíma, en launahækkanir hafa ávallt orðið meiri til langs tíma, enda ekki hægt að líkja kaupmætti núna við það sem var fyrir tuttugu árum.
Með skárri ríkisstjórn, en nú situr, kemst aftur á jafnvægi í þessu efni á nokkrum árum.
![]() |
Lenging greiðslujöfnunar að jafnaði 3 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)