Ekki mikil vísindi

Rannsóknir hámenntaðara háskólamanna hafa sýnt, að stór hluti ungs fólks sem hefur hætt í skóla og er atvinnulaust, líður illa og er með brotna sjálfsmynd.  Niðurstaðan er sú, að þessi atvinnulausu ungmenni komi verst út úr öllum mælikvörðum.

Svo virðist, sem atvinnuleysinu sé kennt um þessa vanlíðan og brotnu sjálfsmyndina, en auðvitað hlýtur skýringin að vera allt önnur.  Það hljóta að vera einhver vandamál, sem valda því að þetta unga fólk flosnar upp úr skóla, án þess að hafa að nokkru öðru að hverfa.

Skýringarinnar hlýtur því að vera að leita annarsstaðar en í atvinnuleysinu, sem þó er mikill bölvaldur og ekki skal gera lítið úr því.  Vandamálið sem þarf að komast til botns í, er hvers vegna þetta unga fólk, nánast fleygir frá sér framtíðinni með því að hætta skólagöngunni, því nú á dögum á enginn glæsta framtíð fyrir sér, án nokkurrar menntunar.

Skýringanna á vanda þessara unglinga verður að leita á réttum stöðum.

 


mbl.is Þeim sem hætta í skóla og fá ekki vinnu líður verr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krofuhafarnir yfirtaki Byr

Kröfuhafar í Byr sparisjóð, aðallega íslelnskir lífeyrissjóðir, haf hafnað tilboði ríkisins um að fá greitt 40% af kröfum sínum, sem ríkið bauð og ætlaði síðan að yfirtaka sparisjóðinn.

Nóg er komið af fyrirtækjum, sem ríkið hefur yfirtekið, beint og aðallega óbeint í gegnum Landsbankann og kominn tími til að allra annarra leiða verði leitað, en að ríkið komi að öllum uppgjörum fyrirtækja í landinu.

Eðlilegast væri að kröfuhafarnir sjálfir yfirtækju Byr og gerðu sjálfir sem mest úr sínum kröfum, annaðhvort með sölu hans, eða með því að eiga hann áfram og ná þannig inn höfuðstól sínum á löngum tíma.

Einhverntíma mun ára betur á ný og þegar rofa tekur, verður ömurlegt til þess að hugsa, að nánast allur rekstur í landinu verði beint og óbeint á vegum hins opinbera.

 


mbl.is Ríkið vill eignast Byr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umskurð kvenna verður að kveða niður

Það er hreit og beint ótrúlegt, að á 21. öldinni skuli umskurður kvenna ennþá viðgangast og að í heiminum séu a.m.k. 150 milljónir kvenna, sem hafa orðið að þola þessar misþyrmingar.  Eins er alveg óskiljanlegt, að allt að 90% kvenna í ákveðnum löndum, eins og Mali, vera umskornar.

Fyrir nokkrum árum kom hér út þýdd bók, eftir þekkta fyrirsætu frá Sómaliu, sem hafði þurft að þola svona limlestingar, þegar hún var ung stúlka, og afleiðingunum af þessari hroðalegu aðgerð.  Hún hafði aldrei borið þess bætur og gat t.d. ekki stundað kynlíf, eins og aðrar konur.

Ekki er þetta framkvæmt af trúarlegum ástæðum, því ekki boðar kristin trú þetta og ekki islam, þannig að þetta eru afleiðingar af eldgömlum kreddum feðraveldisins, sem tóku upp á þessum ótrúlegu aðgerðum, til þess að koma í veg fyrir að dætur þeirra færu að stunda kynlíf fyrir giftingu.

Svona forneskju verður að berjast gegn, með öllum tiltækum ráðum og sennilega er eina leiðin, að fræða karlmenn í þeim löndum, þar sem þetta viðgengst, um hvílíkum skaða aðgerðin veldur, bæði líkamlega og andlega.

Greinilega er þetta miklu útbreiddara vandamál, en flestir hefðu getað ímyndað sér.


mbl.is Karlar verða að berjast gegn umskurði kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna er ótrúlega skarpskyggn

Í tilefni af eins árs afmæli ríkisstjórnarnefnunnar lagðist Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherralíki, undir feld og eftir mikla og djúpa hugsun, uppgötvaði hún, að ekki væri hægt að reka ríkissjóð með gengdarlausum halla, ár eftir ár.

Þessa uppgötvun sína útskýrði hún á heimasíðu Samfylkingarinnar, sem enginn les, nema dyggustu flokksfélagar og hefur þessi tímamótauppgötvun Jóhönnu eflaust komið þeim gjörsamlega á óvart, enda héldu þeir að allann vanda ríkissjóðs væri búið að leysa með nýafstöðnu skattahækkanabrjálæði.

Nú er Jóhanna, sem sagt búin að sjá það ljós, að frekar verður ekki gengið fram í skattabrjálæði og því verði ríkið að fara að spara, ekki á þessu ári, heldur tveim næstu.  Þá á líka að skera hraustlega niður í ríkisrekstrinum, án þess þó, að það komi nokkurs staðar niður, eða að nokkur maður muni finna fyrir því.  Þannig útskýrir Jóhanna þetta og er viss um að a.m.k. Samfylkingarfólk trúi henni.

Ef svona heldur áfram, þá mun Jóhanna áður en yfir lýkur finna það út, að huga þurfi að endurreisn atvinnulífsins, til þess að draga úr atvinnuleysinu og jafnvel gæti hugsast, að henni dytti í hug að heimilin í landinu eigi við verulega erfiðleika að glíma, um þessar mundir.

En eins og kellingin sagði, þá lagast þetta allt saman, þegar búið verður að reka Davíð, sækja um aðild að ESB, skrifa undir stöðugleikasáttmála og stórhækka skattana.


mbl.is Verður að ná niður hallarekstri ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf ekkert að ræða við Noreg

Steingrímur J. segist ekkert hafa rætt "formlega" við Noreg um lán til að borga Bretum og Hollendungum skuldir Landsbankans, enda á hann ekki að ræða við einn eða neinn um slík lán.

Sá aðili, sem er ábyrgur gagnvart innistæðueigendum á Icesave í Bretlandi og Hollandi, er Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta, sem er sjálfseignarstofnun á ábyrgð bankanna sjálfra, en ekki skattgreiðenda á Íslandi.

Því þarf ekki að semja um lán til að greiða þetta, tryggingasjóðurinn greiðir út, það sem í honum var við bankahrunið og á síðan kröfu í þrotabú Landsbankans fyrir því, sem upp á vantar að hann geti greitt Icesave innistæðendueigendum lágmarkstrygginguna, sem er 20.887 evrur.

Breskir og Hollenskir innistæðueigendur verða að sætta sig við að bíða, á meðan eignum Landsbankans verður komið í verð, þannig að þrotabúið geti greitt tryggingasjóðnum sína kröfu, sem er forgangskrafa í búið.  Eigi sjóðurinn ekki kröfu í búið fyrir vöxtum af þessu fé, þá er það tap innistæðueigendanna, en ekki íslenskra skattgreiðenda.

Málið er svo afskaplega einfalt, að það kemur ríkissjóði, eða íslenskum skattgreiðendum nákvæmlega ekkert við.


mbl.is Ekki formlega rætt við Noreg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollendingar ræddu við drauga

Enginn í Viðskiptaráðuneytinu kannast við að hafa rætt við Hollendinga, hvorki Fjármálaeftirlit Hollands, og hvað þá seðlabanka þeirra, ekki fyrir árið 2008, á því ári, eða síðar, hvorki satt orð eða logið.

Fjármálaeftirlitið íslenska kannast heldur ekkert við að hafa logið einu eða neinu að kollegum sínum í Hollandi, enda sendi það eingöngu tölvupósta um veðrið, fossana, fiskana og fjöllin bláu.

Hollendingarnir virðast því hafa verið í sambandi við andaheiminn, enda vita allir, að hér á landi eru á kreiki alls kyns andar, álfar og tröll af ýmsum gerðum og stærðum.

Sérstakur grunur beinist þó að draugunum í Fjármálaeftirliti Íslands, en þar eru þó eingöngu á ferð góðir draugar, sem aldrei hafa angrað nokkurn mann, hvað þá banka.

 


mbl.is Áttu ekki samskipti við Hollendinga vegna bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betur má ef duga skal

Vöruskiptajöfnuður við útlönd nam um 10 milljörðum króna í janúar samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar.  Á síðasta ári var jöfnuður að upphæð 87 milljarða króna.

Verði meðaltal allra mánaða ársins 2010 það sama og var í janúar, verður vöruskiptajöfnuður ársins um 120 milljarðar króna.  Það er auðvitað óraunhæft að reikna með svo miklum jöfnuði alla mánuði ársins, því innflutningur er með allra minnsta móti í janúar. 

Lítill innflutningur er til marks um þá kreppu, sem ríkir, og lítinn kaupmátt landsmanna og vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar, er ekki hægt að gera ráð fyrir neinum bata á því, það sem eftir lifir ársins. 

Með því að ríkisstjórnin haldi landanum við hungurmörk áfram, eru nokkrar líkur á að vöruskiptajöfnuður ársins verði um 100 milljarðar króna.

Í áætlunum AGS vegna erlendra skulda þjóðarbúsins, er reiknað með 160 milljarða vöruskiptajöfnuði á hverju ári næstu áratugi.

Svo það megi verða, þarf þjóðin nánast að hætta öllum innflutningi.


mbl.is Afgangur af vöruskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðkunningjar Sérstaks saksóknara?

Síbrotamenn, þ.e. venjulegir afbrotamenn, hafa í gegnum tíðina verið kallaðir "góðkunningjar lögreglunnar", en með nýjum og breyttum tímum verður væntanlega farið að tala um "góðkunningja Sérstaks saksóknara" og "góðkunningja Efnahagsbrotadeildar", að ekki sé minnst á "góðkunningja skattrannsóknarstjóra".

Fjórir af fyrrum stjórnarmönnum 365 hf. flokkast líklega í hóp góðkunningja allra þessara aðila, en þeir eru Jón Ásgeir í Bónus, Pálmi Haraldsson í Iceland Express, Þorsteinn M. Jónsson og Magnús Ármann.  Fimmti stjórnarmaðurinn sagði sig úr stjórninni, vegna andstöðu við vafasama fjármálagerninga fjórmenninganna og fellur ekki í góðkunningjahópinn, en það er Árni Hauksson.

Landsvaki hyggst kæra þessa stjórnarmenn og gera þá persónulega ábyrga fyrir að skjóta eignum undan þrotabúi 365 hf., en fjórmenningarnir komu öllum fjölmiðlahluta félagsins í hendur Jóni Ásgeiri í Bónus, en skildu skuldirnar eftir í gamla félaginu, sem nú er gjaldþrota.

Þetta er sami leikur og þessir menn hafa leikið hvað eftir annað, í þeim félögum, sem þeir hafa komið nálægt og verði þeir kærðir fyrir aðferðir sínar í einu félagi, má gera ráð fyrir raðréttarhöldum yfir þeim vegna samskonar mála.

Arion Banki er um þessar mundir að hjálpa Jóni Ásgeiri í Bónus og meðreiðarsveinum hans, að losa sig við skuldir 1998 ehf. með nýstárlegri aðferð, þ.e. að gefa eftir skuldir í einu félagi, en gefa Baugsveldinu kost á að kaupa Haga hf., með þeim peningum, sem annars hefðu átt að ganga til greiðslu á skuldunum.

Vegir fjármálakerfisins eru órannsakanlegir, en Sérstakur saksóknari og Eva Joly reyna þó.


mbl.is Stjórn 365 gæti borið ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður tryggt að fyrri eigendur nái ekki meirihluta?

Sú ákvörððun Arion banka, að setja Haga hf. á hlutabréfamarkaðinn og gera fyrirtækið þannig að almenningshlutafélagi, er snjöll leið til þess að leyna þeim raunverulega tilgangi, sem að baki býr.

Til þess að þurfa ekki að blanda niðurfellingu allra skulda af 1998 ehf. inn í sölu Haga, er sú leið farin að gefa stjórnendum félagsins forkaupsrétt á 15% hlut í upphafi og 85% verða sett í almenna sölu, sem fagfjárfestar og almenningur mega kaupa.  Þar með vonast bankinn og Bónusfeðgar til þess að minni athygli vekji, þegar 1998 ehf. verður sett í gjaldþrot, félagið er algerlega eignalaust og Arion banki mun þurfa að afskrifa allar skuldirnar, sem nema a.m.k. fjörutíu milljörðum króna.

Að skömmum tíma liðnum munu fyrri eigendur verða búnir að kaupa nógu stóran hlut á markaðinum, til þess að ná aftur meirihluta í félaginu, því enginn þarf að efast um að einhversstaðar leynast nægir fjármunir til þeirra kaupa, eftir allar arðgreiðslurnar sem sogaðar voru út úr þeim Baugsfeðgafyrirtækjum, sem nú eru gjaldþrota.

Þetta mun gerast hægt og rólega, svo lítið beri á, en að lokum munu menn vakna upp og sjá til hvers hrútarnir voru skornir.


mbl.is Mun styrkja hlutabréfamarkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norska ríkisstjórnin skammast sín

Thomas Vemes, blaðamaður hjá ABC Nyheter í Noregi, hefur upplýst, að norska ríkisstjórnin hafi kúvent í afstöðu sinni til afgreiðslu láns til Íslendinga, því nú sé ekki lengur sett það skilyrði, að samþykkt á þrælasölu íslenskra skattgreiðenda til Breta og Hollendinga verði frágengin, áður en lánin verði afgreidd.

Þessu neita norsk stjórnvöld og halda því fram, að slíkt skilyrði hafi aldrei verið sett af sinni hálfu.  Þetta segja þau, þótt marg staðfest hafi verið af norskum ráðherrum, að engin lán yrðu veitt, fyrr en ríkisábyrgðin á skuldum Landsbankans hefði verið samþykkt.

Greinilegt er, að einörð afstaða íslensks almennings gegn þrælasamningnum og væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla, sem mun kolfella lögin, hefur breytt afstöðu Norðmanna, eins og svo margra annarra erlendis að undanförnu.

Norska ríkisstjórnin er augljóslega farin að skammast sín, fyrir stuðninginn við þrælasölu nágranna sinna til erlendra kúgunarþjóða.

Nú er bara að vona að sú íslenska fari að skammast sín og hefji baráttu fyrir málstað eigin landsmanna.


mbl.is Stendur við fréttina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband