Mjög ásættanleg niðurstaða

Fundi íslensku samninganefndarinnar með sendiboðum fjárkúgaranna, bresku og hollensku, sem haldinn var í London í dag, lauk með mjög ásættanlegri niðurstöðu fyrir íslenska skattgreiðendur, því á meðan ekkert gerist á þessum fundum, semur nefndin ekki af sér á meðan.

Fyrri samninganefnd Steingríms J., undir forystu Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar, nennti ekki að hafa málið hangandi yfir sér, eins og Svavar orðaði það, og skrifaði því undir allar þær kröfur, sem kúgararnir gátu látið sér detta í hug að setja á blað fyrir þá.  Hefði Svavar nennt að hanga lengur yfir málinu, hefði samningurinn sjálfsagt orðið enn verri, því þá hefðu ofbeldisseggirnir haft lengri tíma til að hugsa upp enn meiri og vitlausari kröfur, til að láta þá kumpána skrifa undir.

Því fleiri "samningafundi" sem nýja nefndin situr, því meiri hætta er á, að hún gefist upp fyrir fjárkúgun Breta og Hollendinga og skrifi undir eitthvað, bara eitthvað, ef það gæti orðið til að ljúka málinu, svo hægt verði að falla frá þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem mun án vafa. sýna yfirburða niðurstöðu gegn fjárkúguninni, mun enginn samningur verða í gildi og íslenskir skattgreiðendur það með lausir allra mála.


mbl.is Fundi lokið án niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartnætti framundan að mati ASÍ

ASÍ hefur sent frá sér nýja hagspá og dregur hún vægast sagt upp dökka mynd af efnahagslífinu næstu tvö ár a.m.k.  Hagdeildin spáir 5% samdrætti landsframleiðslunnar á þessu ári, en samdrátturinn var 7% á síðasta ári.  Þá er því spáð, að atvinnuleysi verði yfir 10% á þessu ári og því næsta.

Það, sem dregur spána niður, eru m.a. tafir á stóriðjuframkvæmdum, en ríkisstjórnin hefur barist gegn þeim með kjafti og klóm og segir ASÍ, að þetta hafi þau áhrif á heimilin í landinu, að sadráttur í kaupmætti verði meiri en ella og lífskjör fari versnandi. 

Furðulegt verður að telja, að ríkisstjórn nokkurs ríkisis, skuli berjast gegn bættum lífskjörum og minna atvinnuleysi og á sú íslenska sér enga líka á þessu sviði, frekar en öðrum.

Verðbólgan er meiri en áður var spáð og lengra verður, þangað til hún byrjar að lækka og stafar það helst af skattahækkunarbrjálæði ríkisstjórnarinnar og mun það verða til þess, að verðbólga verður ekki orðin viðunandi fyrr en á næsta ári, en í kreppu eins og hér ríkir ætti frekar að vera verðhjöðnun, en verðbólga, ef ekki kæmi til óstjórn í efnahagsmálunum.

Spá Hagdeildar ASí er ekki upplífgandi og spáir í raun að svartnætti sé framundan í efnahagslífinu og kaupmætti heimilanna.


mbl.is Spá 5% samdrætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknarnefndin skoði skilanefndir og banka, eftir hrun

Gylfi Magnússon, starfsmaður í Viðskiptaráðuneytinu, segir að margt gott verkið hafi verið unnið í nýju bönkunum, en enginn hafi frétt af því, væntanlega vegna þess, að aldrei hefur verið sagt frá þessum góðu verkum.

Þrátt fyrir endalaust stagt yfirvalda um opið og gegnsætt stjórnkerfi og "að allt skuli vera uppi á borðum", þá hefur pukrið og leyndin sjaldan verið meiri, bæði hjá yfirvöldunum sjálfum, að ekki sé talað um fjármálastofnanirnar, bæði gömlu og nýju bankana.

Það fréttist ekkert af störfum þessara aðila, nema eitt og eitt atriði, sem lekið er í fjölmiðla, yfirleitt vegna þess, að einhverjum í kerfinu blöskrar það sem verið er að framkvæma í það sinnið.

Nú styttist í að Rannsóknarnefnd Alþingis skili skýrslu sinni um það sem gerðist í viðskiptalífinu fyrir bankahrun og þó hún verði enginn endanlegur dómur um þau mál, mun örugglega margt koma þar fram, sem áður var hulið almenningi og yfirvöldum.

Þegar sú skýrsla liggur fyrir, þyrfti að framlengja störf nefndarinnar og fela henni að fara rækilega ofan í kjölinn á því, hvað skilanefndir gömlu bankanna hafa verið að aðhafast eftir hrun og einnig hvernig nýju bankarnir hafi tekið á málum skuldara sinna og hvort jafnræðis hafi þar verið gætt.

Andrúmsloftið verður ekki hreinsað, nema með upplýsingum til almennings um hvað hefur verið að gerast í fjármálakerfinu eftir hrun, ekki síður en um það sem gerðist fyrir hrunið.


mbl.is Margt gott gert innan bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verið að prenta fyrir sorphaugana?

Kjörseðlar vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru nú tilbúnir frá prentsmiðju og verið að undirbúa sendingu þeirra út á kjörstaði, vítt og breitt um landið.

Á sama tíma er róinn lífróður til að ná einhvers konar nýjum samningi við Breta og Hollendinga með það yfirlýsta markmið að aflýsa þjóðaratkvæðagreiðslunni.  Af einhverjum dularfullum ástæðum eru íslensk stjórnvöld algjörlega andvíg því að atkvæðagreiðslan verði látin fara fram, en vitað er að Bretum og Hollendingum er ekki eins illa við neitt og þá staðreynd, að lögin verði felld með afgerandi meirihluta.

Þjóðaratkvæðagreiðslan yrði sterkasta vopn Íslands í baráttunni við fjárkúgarana og myndi vekja heimsathygli á sanngjörnum og löglegum málstað Íslendinga.  Hvers vegna yfirvöld vilja kasta frá sér sínu besta vopni er vægast sagt undarlegt.

Er verið að eyða stórfé í undirbúning kosninganna til einskis og verið að prenta kjörseðla fyrir sorphaugana?


mbl.is Kjörseðlar prentaðir og í dreifingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið atvinnuleysi í Þýskalandi

Í sterkasta efnahagskerfi ESB, Þýskalandi, mælist nú 8,7% atvinnuleysi, sem er svipað og það er nú hér á landi, í mestu efnahagskreppu sem Íslendingar hafa þurft að glíma við frá lýðveldisstornun.

Hérlendis hefur atvinnuleysi lengst af varla verið neitt og allar vinnufúsar hendur getað unnið, og oftast valið úr atvinnutilboðum og aukavinnu, ef fólk hefur kært sig um.  Atvinnuleysi í Þýskalandi hefur hins vegar verið viðvarandi, á svipuðum nótum og núna, en stjórnvöld þar hafa ausið peningum í atvinnumál, til þess að forðast aukið atvinnuleysi.  Í flestum öðrum löndum ESB er atvinnuleysi meira en í Þýskalandi og hefur svo verið undanfarna áratugi.

Ætli Íslendingar sér að samþykkja að landið gerist hreppur í stórríki ESB, er eins gott að gera sér grein fyrir því fyrirfram, að með því væri verið að festa það mikla atvinnuleysi, sem hér er nú, í sessi til næstu áratuga og líklegast myndi það aukast, frekar en minnka.

Við innlimunina í stórríkið yrðu hér gífurlegar breytingar í atvinnuháttum, sérstaklega í sjávarútvegi og landbúnaði, ásamt afleiddum störfum vegna þessara greina.  Störf sem þar myndu tapast skipta þúsundum og þrátt fyrir að einhver ný störf myndu skapast við verlsun og þjónustu, myndi það ekki gera neitt til að slá á atvinnuleysið.

Fólk verður að hafa heildarmyndina í huga, þegar það íhugar kosti og galla þess að verða áhrifalaus hreppur í stórríki.


mbl.is Atvinnuleysi mælist 8,7% í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða skattalagabrotin það eina sem sannast?

Rannsóknarteymi frá skattrannsóknarstjóra hefur unnið að því í marga mánuði, að fara yfir alla gjörninga gömlu bankanna, með tilliti til þess hvort tekjum hafi verið skotið undan skatti, vegna margskonar starfsemi bankanna sjálfra og ekki síður vegna ýmissa gjörninga þeirra fyrir viðskiptavini sína.

Sérstakur saksóknari er að rannsaka tugi mála, sem snerta bankana, eigendur þeirra og útrásartapara, sem í mörgum tilfellum eru sömu aðilarnir.  Í þeim rannsóknum munu milli 50-70 manns hafa stöðu sakbornings, en ekkert er vitað hvenær þessum rannsóknum lýkur, eða hvort hægt verður að stefna fólki fyrir dómstóla á grundvelli þeirra. 

Baugsmálið fyrsta sýndi svart á hvítu hvernig hægt er að tefja mál og toga fyrir dómstólum og í því máli náðist ekki sakfelling, nema í nokkrum smærri atriðum ákærunnar, vegna snilldar verjendanna við hártogun ákæranna.

Á bannárunum í Bandaríkjunum var Al Capone helsti glæpaforingi þar í landi, en þrátt fyrir mikinn eltingaleik yfirvalda við hann, náðist aldrei að fá hann dæmdan fyrir neina af glæpum sínum.  Að endingu tókst skattayfirvöldum að hanka hann á skattsvikum og endaði hann ævi sína innan fangelsismúra vegna þeirra.

Ef til vill verður það sama uppi á teningnum hérlendis, að það eina sem hægt verði að sakfella banka- og útrásartaparana fyrir, verði skattsvik. 


mbl.is Möguleg skattalagabrot bankanna rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenski tryggingasjóðurinn fái algeran forgang

Nú er áætlað, að hægt verði að innheimta 1.172 milljarða króna af útistandandi kröfum Landsbankans, þannig að unnt verði að greiða 89% af innistæðukröfum á bankann, sem aðallega eru vegna Icesavereikninganna í Bretlandi og Hollandi.

Íslenski tryggingasjóðurinn á að greiða um 680 milljarða króna vegna lágmarkstryggingarinnar, sem er 20.887 evrur á hvern reikning, þannig að ekki ætti að vera vandamál, að greiða þá upphæð eftir því sem kröfur innheimtast í þrotabúið.  Svo einfalt er þó málið ekki, því Bretar og Hollendingar greiddu innistæðueigendunum út miklu hærri upphæð, en lágmarkstryggingin sagði til um og snillingar Steingríms J., þeir Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, sömdu svo hroðalega af sér í fjárkúgunarsamningnum, að sú viðbótarkrafa er gerð jafnrétthá kröfu íslenska sjóðsins, þannig að íslenski sjóðurinn fær aðeins 53% af því sem innheimtist, en Bretar og Hollendingar fá 47% í sinn hlut strax.

Það hljóta allir að sjá, að íslenski sjóðurinn á að hafa algeran forgang fram yfir viðbótargreiðslurnar, því kúgararnir gera kröfu um að fá greidda vexti af allri upphæðinni, alveg þangað til síðasta pundið og evran verður greidd, sem þýðir gífurlega aukna vaxtabyrði frá því sem annaras hefði orðið, ef snillingarnir hefðu ekki samið svona gjörsamlega af sér.

Reyndar fellur sá svikasamningur úr gildi, eftir að kjósendur hafna Icesavelögunum í þjóðaratkvæðagreiðslunni, því ofbeldisseggirnir voru búnir að hafna þeim fyrirvörum, sem fylgdu Icesave I og þar með verður málið komið á byrjunarreit aftur.

Ef á að taka upp nýjar samningaviðræður, þá á lágmarkskrafan að vera sú, að íslenski tryggingasjóðurinn njóti algers forgangs í þrotabú Landsbankans og að ekki verði greidd ein einasta evra eða pund í vexti. 

Það sem eftir verður af eignum bankans geta fjárkúgararnir hirt upp í umframgreiðslur sínar, enda eru þær íslenska tryggingasjóðnum óviðkomandi.


mbl.is Meira fæst upp í kröfur á LBI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollendingar mega bíða til eilífðar

Hinn nýji fjármálaráðherra Hollands, Jan Kees de Jager, segir að hollenska samninganefndin vegna Icesave fari ekki til London fyrr en Íslendingar hafi fallist á grunnforsendur síðasta útspils kúgaranna í deilunni, en það hafi verið "lokaboð" af þeirra hálfu.

Hollendingar og Bretar mega bíða til eilífðar eftir því að þessi lokafjárkúgunarkrafa þeirra verði samþykkt, því íslenskir skattgreiðendur munu aldrei samþykkja að greiða eina krónu í þrælaskatt til Breta og Hollendinga, vegna þeirra ólöglegu þvingana, hótana og hreins ofbeldis sem þei hafa beitt gagnvart smáþjóð.

Það, sem er verra, er að íslensk samninganefnd skuli vera farin til London og ætli að bíða þar, eins og barðir rakkar, eftir því að þessum yfirgangsþjóðum þóknist að tala við hana.  Þetta lýsir algerum undirlægjuhætti gagnvart þessum kvölurum og eftir þessa síðustu yfirlýsingu de Jagers ætti nefndin að taka fyrsta flug heim.

Íslendingar eiga ekki að láta sína nefnd bíða í Reykjavík eftir því að Bretar og Hollendingar lýsi því yfir, að þeir séu reiðubúnir til að ræða málin á þeim lagagrundvelli sem um þetta mál gildir, þ.e. íslensk lög og tilskipanir ESB.

Það versta, sem gert er, er að semja við fjárkúgara og hryðjuverkamenn.  Það leiðir yfirleitt ekki til farsællar niðurstöðu, því þeir drepa fórnarlömb sín oftast, hvort sem er.


mbl.is Hollendingar bíða átekta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. hefur opnað hugann

Steingrímur J. segir við Bloomberg fréttastofuna að hann vonist til að Bretar og Hollendingar komi til viðræðna við Íslendinga með opnum huga, þrátt fyrir að hafa reynt að kúga fé af íslenskum skattgreiðendum síðast liðna 17 mánuði, með hótunum og hreinu ofbeldi.

Þetta er ákaflega fróm ósk af hálfu Steingríms J., en betra hefði verið, ef hann hefði ekki sjálfur verið með gjörsamlega lokaðan huga og fastur í baráttunni fyrir hagsmunum kúgaranna og jafn staðfastur í baráttunni gegn lögvörðum réttindum sinnar eigin þjóðar.

Hann hefur varið þrælasamning félaga sinna, Svavars og Indriða H., alveg fram í síðustu viku, þegar hann lokst viðurkenndi að hvergi í íslenskum lögum eða tílskipunum ESB, væri að finna stafkrók um ábyrgð ríkissjóða á tryggingasjóðum innistæðueigenda í Evrópu.

Baráttumenn fyrir réttindum og hagsmunum íslensku þjóðarinnar fagna auðvitað nýjum liðsmönnum, hvaðan sem þeir koma, ekki síst hverjum liðsmanni fjárkúgaranna, sem snýst hugur og yfirgefur herbúðir óvinanna.

Vonandi verður Steingrímur J. með opinn huga, alveg fram yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna og lætur ekki einkennilegar hugrenningar um að fella hana niður, loka huga sínum aftur.


mbl.is Komi til viðræðna með opnum huga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðfestir ábyrgð tryggingasjóðanna

Sé það rétt, að bankastjórar Landsbankans og yfirmenn fjármálaeftirlitsins í Bretlandi hafi verið að ræða flutning á Icesavereikninunum úr úitbúi Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag, til þess að ábyrgð á innistæðunum flyttust yfir í tryggingasjóð innistæðueigenda í Bretlandi, þá staðfestir það, að allt sem sagt hefur verið um að enginn hafi talið sjóðina ríkistryggða fyrir bankahrunið.

Ef þetta hefur verið svona í pottinn búið, hefur yfirmaður fjármálaeftirlitsins breska alls ekki reiknað með því að innistæðurnar ættu að falla á íslenska skattgreiðendur, heldur á tryggingasjóð innistæðueigenda og flutningur reikninganna undir tryggingasjóð Breta átt að vera til að tryggja innistæðurnar betur, enda breski sjóðurinn margfalt sterkari, fjárhagslega, en sá íslenski.

Hafi það átt að kosta Landsbankamenn aðein 40 milljarða króna, að flytja innistæðurnar í breska lögsögu, er algerlega ófyrirgefanlegt af stjórnendum bankans, að hafa ekki gengið frá málinu umsvifalaust, enda upphæðin sem til þurfti ekki hærri en þeir voru að ausa í algerlega ótrygg lán til útrásarmógúla, nánast á hverjum degi.

Hefðu þeir verið menn til að ganga frá þessu á sínum tíma, hefði það sparað þjóðinni mikinn tíma, mikið fé og mikla fyrirhöfn vegna fjárkúgunartilrauna Breta og Hollendinga vegna þessara reikninga.  


mbl.is Rannsóknarnefndin með upptöku af samtali bankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband