26.3.2010 | 08:39
Jón Gnarr verður borgarstjóri samkvæmt skoðanakönnun
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Fréttablaðsins fengi Sjálfstæðisflokkurinn tæp 40% atkvæða, ef kosið yrði til borgarstjórnar nú, en grínframboðin fengju samtals rúm 60%, sem skiptust þannig að Samfylkingin fengi rúm 26%, vinstri grænir fengju rétt rúm 14%, Besti flokkurinn hlyti tæp 13%, Framsóknarflokkurinn væri með tæplega 6% og önnur framboð minna.
Verði niðurstaða kosninganna eins og þessi skoðanakönnun sýnir yrði Besti flokkurinn í oddastöðu við myndun meirihluta í borgarstjórn og þar með fengi Jón Gnarr væntanlega sitt draumastarf um þægilega innivinnu, góð laun og ýmis fríðindi.
Sjálfstæðisflokkur yrði að fá stuðning Besta flokksins til þess að halda sér í meirihluta og þá myndi vinsælasti borgarstjóri í langan tíma, Hanna Birna Kristjánsdóttir, væntanlega verða að gefa starfið eftir til Jóns Gnarr, sem hefur lýst því yfir að hans grín snúist aðallega um stól borgarstjórans.
Hinn möguleikinn á meirihlutasamstarfi er, að allir grínflokkarnir þrír tækju upp samstarf eftir kosningar og enn yrði Jón Gnarr í aðstöðu til að krefjast þess að fá uppfyllta kröfu sína um innivinnunna þægilegu og hinir grínistarnir yrðu væntanlega að sætta sig við minni hlutverk í farsanum.
Svona niðurstaða skoðanakannana sýnir hvað Reykvíkingar geta nú verið gamansamir á erfiðum tímum, en öllu gríni fylgir alvara og ótrúlegt verður að teljast, að fólk mæti í stórum stíl í kjörklefann, eingöngu til að fíflast.
Þegar á hólminn verður komið, verða Reykvíkingar ábyrgari en svo.
![]() |
Jón Gnarr vinsælli en framsókn og frjálslyndir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
25.3.2010 | 20:17
Beðið eftir Godot
Niels Redeker, talsmaður hollenska fjármálaráðherrans. segir að Bretar og Hollendingar bíði eftir að Íslendingar komi skríðandi til þeirra og þá muni þeir vera tilbúnir til að lækka örlítið fjárkúgunarkröfur sínar, en þó muni þeir ekki ræða neitt nýtt, aðeins spjalla nánar um kröfuna, sem sett var fram af þeirra hálfu í október s.l.
Alveg virðist hafa farið framhjá þessum kónum, að Íslendingar felldu þann samning í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 6. mars s.l. með 98,1% atkvæða þeirra sem afstöðu tóku í kosningunni. Þar með var þeim fjárkúgunartexta algerlega rutt út af borðinu af hálfu íslensku þjóðarinnar og ekki kemur einu sinni til álita, að nefna það plagg aftur, hvorki við Breta og Hollendinga eða nokkra aðra, svo sem norðurlöndin og AGS.
Bretar og Hollendingar þurfa ekkert að bíða eftir Íslendingum til viðræðna, enda ekkert til að ræða um. Það sem þeir þurfa að bíða eftir er uppgjör þrotabús Landsbankans, en þaðan mun íslenski tryggingasjóðurinn fá þá peninga sem hann mun nota til að gera upp lágmarkstryggingu Icesave reikninganna.
Bið fjárkúgaranna verður eins og biðin eftir Godot, en eins og menn muna úr leikritinu, kom Godot aldrei.
![]() |
Bíða eftir Íslendingum í Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2010 | 15:46
Minni launamunur hérlendis en í "velferðarríkjum" ESB
Áætlað er að 10% þjóðarinnar, eða um 31 þúsund manns, lifi af tekjum sem teljast undir "tekjumörkum", en þau voru 160 þúsund krónur á mánuði á árinu 2009 fyrir einstakling. Telst þetta vera mjög lágt hlutfall í samanburði við önnur lönd, ekki síst ESB lönd, en þar er hlutfallið yfirleitt á bilinu 10-20%.
Þessu hlutfalli verður varla náð mikið neðar á meðan einhver launamunur er á milli manna í landinu, því útreikningurinn er þannig að þeir sem eru með minna en meðaltekjur, teljast alltaf vera undir "tekjumörkum" og því verður sá hluti landsmanna, sem lægst hafa launin, alltaf undir "tekjumörkum".
Útreikningarnir sýna þó, að launamunur er miklu minni hér á landi en í nágrannalöndunum og verður það að teljast nokkuð gott, því sum þeirra státa sig af því að vera mikil jafnréttis- og velferðarríki.
Þetta sýnir líka svart á hvítu, að engin sérstök ástæða er til að keppa að því að komast í ESB klúbbinn, þar sem atvinnuleysi og "tekjumörk" eru viðvarandi meiri en hvort tveggja er hér á landi í einni mestu kreppu sem yfir þjóðina hefur komið.
![]() |
Tíu prósent undir tekjumörkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2010 | 10:51
Öfug Keflavíkurganga
Gylfi Magnússon, lausráðinn starfsmaður Viðskiptaráðuneytisins, og Steingrímur J., aðstoðarmaður Indriða H. Þorlákssonar, skattmanns, munu eiga fund með Dominiq Strauss-Kahn, alræðisherra Íslands og framkvæmdastjóra AGS, á morgun og munu þar grátbiðja herra sinn og drottnara um að drífa nú af endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS og útskýra fyrir honum að þrátt fyrir að Íslendingar hafi algjörlega hafnað því í þjóðaratkvæðagreiðslu, að gerast skattaþrælar Breta og Hollendinga næstu áratugi, hafi ekki orðið heimsendir, eins og þeir félagar hafi verið búnir að segja þjóðinni að yrði, ef hún gengist ekki undir fjárkúgunina.
Það sem er þó jafnvel merkilegra við ferðina er, að þeir félagar ætla að ganga á fund fulltrúa bandarískra stjórnvalda og fulltrúa þeirra í stjórn AGS til að reyna að endurheimta vináttu Bandaríkjamanna eftir að Össur og Ólafur Ragnar nánast slitu stjórnmálasambandi við Bandaríkin með því að lítilsvirða fráfarandi sendiherra þeirra svo stórlega fyrir ári síðan, að enginn hefur verið skipaður í staðinn.
Bandaríkjamenn munu örugglega hafa gaman af því, að ræða við Steingrím J. og Indriða H. um Keflavíkurgöngurnar, sem þeir marseruðu í, ár eftir ár, til þess að mótmæla bandaríska hernum á Miðnesheiði og sambandi Íslands við Bandaríkin. Þeir félagar munu þá geta tekið lagið fyrir gestgjafa sína og sungið fyrir þá gömlu baráttusöngvana úr göngunum og öðrum mótmælaaðgerðum þeirra í þá daga.
Þessi betliganga núna er nokkurskonar öfug Keflavíkurganga.
![]() |
Staðfesta fund með Strauss-Kahn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2010 | 05:31
Minnihlutastjórn kyrrstöðu og svika
Öll spjót standa nú á ríkisstjórninni vegna þeirrar kyrrstöðu sem hún stendur fyrir í atvinnulífinu og svika hennar á öllum helstu loforðum sem hún gaf og undirritaði við gerð stöðugleikasáttmálans í júní á síðasta ári og endurnýjaður var í október s.l.
Útgerðarmenn eru æfir vegna svikins loforðs um að skötuselsfrumvarpið færi fyrir sáttanefndina um fiskveiðistjórnunina og samtök launamanna gagnrýna stjórnina fyrir svik hennar í öllum málum, sem hún lofaði vegna atvinnuuppbyggingar.
Nýjasta gagnrýnin kemur frá ASÍ vegna svika um að lögfesta starfsendurmenntunarsjóð, sem var eitt af undirrituðum loforðum stjórnarinnar í stöðugleikasáttmálanum. Það er algjört einsdæmi, að ríkisstjórn standi ekki við gerða samninga við aðila atvinnulífsins, að ekki sé talað um samninga sem tengjast beint við kjarasamninga, en framlenging þeirra var hluti stöðugleikasáttmálans.
Það sem kemur í ljós í þesu máli, er staðfesting á því, sem fram hefur komið æ ofan í æ, en það er að ríkisstjórnin nýtur ekki einu sinni stuðnings eigin flokka á Alþingi og að hún er í raun minnihlutastjórn. Það hefur hún nú staðfest sjálf við fulltrúa ASÍ og er rétt að enda á tilvitnun fréttarinnar í forseta sambandsins og er engu hægt við hana að bæta:
"Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að á fundum sambandsins með stjórnvöldum í vikunni hafi ráðherrar fullyrt að ekki væri meirihluti fyrir slíkri breytingu meðal þingflokka stjórnarflokkanna. Hann segir sambandið ekki sætta sig við að stjórnvöld standi ekki við gerða samninga."
![]() |
ASÍ segist svikið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2010 | 16:35
Ekki vel rökstutt álit Talsmanns neytenda
Talsmaður neytenda segir hæpið að niðurfellig hluta af höfðustól skulda sé skattskyldur, þrátt fyrir að í 7. gr. tekjuskattslaga segi að skattleggja skuli sérhverjar aðrar tekjur eða ígildi tekna sem eigi eru sérstaklega undanskildar í lögum þessum eða sérlögum. Skattayfirvöld hafa hingað til verið afar hörð á því að skattleggja allt, sem hægt er að skattleggja og dálítið er hæpið að halda því fram að niðurfelling skulda myndi ekki aukna eign hjá þeim, sem slíkrar fyrirgreiðslu nytu.
Talsmaðurinn rökstyður mál sitt, að því er virðist, aðallega með því að við niðurfellingu skulda sé ekki um að ræða "ívilnun eða eignaauka - heldur staðfestingu á rétti neytenda". Þessi "réttur neytenda" hefur hvergi verið staðfestur, eða viðurkenndur í lögum og því vafasamt af talsmanninum, að vekja falskar vonir hjá umbjóðendum sínum, án frekari rökstuðnings.
Fjölmargir bíða og hafa beðið lengi eftir því að vera skornir niður úr skuldasnörunni, sem þeir smeygðu um háls sér á tímum "lánærisins", ekki síst þeir sem voru svo óforsjálir að taka há lán í erlendum gjaldmiðlum, sem hækkuðu mikið í lok "gróðærisins".
Þangað til Talsmaður neytenda bendir á traustari rök fyrir máli sínu, verður að hafa mikla fyrirvara á þessu útspili hans.
![]() |
Niðurfærsla skulda ekki skattskyld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.3.2010 | 13:57
Allt betra en kyrrstaðan
Framsóknarflokkurinn boðar nýjar hugmyndir að þjóðarsátt til að koma brýnustu verkefnum þjóðarbúsins úr þeirri kyrrstöðu og doða sem ríkisstjórnin hefur haldið þjóðfélaginu í, undanfarið ár.
Allar tillögur til að koma hreyfingu á staðnað efnahagslífið eru vel þegnar, en ólíklegt verður að telja að Vinstri grænir fallist á nokkrar hugmyndir sem leitt gætu til aukinnar atvinnusköpunar og minnkunar atvinnuleysis, miðað við þá geysihörðu andstöðu sem flokkurinn hefur rekið gegn hvers konar tilraunum og jafnvel hugmyndum að nýjum atvinnutækifærum.
Fróðlegt verður að sjá tillögur Framsóknarflokksins og vafalaust munu þar leynast ýmis nýtileg ráð, en eins og áður sagði, þá hefur allt slíkt verið barið niður með harðri hendi af VG og sennilega til of mikils ætlast, að sá flokkur fari að vinna að úrlausn brýnustu hagsmunamála.
Á þeim bæ eru hugsjónir sósíalismans metnar hærra en þjóðarhagur.
![]() |
Framsókn boðar þjóðarsátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2010 | 09:04
Er ESB ekki annað en Stór-Þýskaland?
ESB hefur verið lýst sem bræðralagi þjóða, sem vinni saman að settum markmiðum í sátt og samlyndi og þar séu allir jafnir og mál leyst í samvinnu og sátt milli allra bræðralagsþjóðanna. Fram til þessa hafa þó stóru ríkin, Þýskaland, Frakkland, Bretland, Spánn og Ítalía verið jafnari en önnur aðildarríki og þau smærri sætt sig við það, vegna molanna sem hrotið hafa af borðum hinna jafnari.
Nú er hinsvegar að koma berlega í ljós að Þýskaland er orðið jafnast af öllum ríkjum ESB og hin þora ekki annað en sitja og standa eins og Kanslari Þýskalands segir þeim. Þetta kemst upp á yfirborðið núna, þegar Grikkir eru búnir að sigla öllu í strand heima fyrir og evrusambandið þar með komið í mikla hættu, en eins og allir vita er evran arftaki þýska marksins, sem önnur ESB ríki hafa náðasamlegast fengið aðgang að, með ströngum skilyrðum.
Evrusamstarfið er að bresta, vegna efnahagserfiðleika Grikkja og þá er það Kanslari ESB, afsakið Þýskalands, sem tekur af skarið og leggur línurnar, án nokkurs samráðs við sýslur og hreppa, sem undir embættið heyra. Þetta kemur vel í ljós í fréttinni, en þar segir: "Samkvæmt breska blaðinu Financial Times setja stjórnvöld í Berlín það skilyrði fyrir efnahagsaðstoð Evrópusambandsins að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði kallaður til og settar verði harðari kröfur á evrusvæðinu um efnahagsstjórn aðildarríkja."
Þjóðverjar eru að verða ófeimnari við að sýna hver raunverulega stjórnar ESB, enda er klikkt út í féttinni með þessum orðum: "Ljóst má vera að erfitt verður fyrir önnur ríki að andmæla skilyrðum þýskra stjórnvalda fyrir efnahagsaðstoðinni vegna þess að þau myndu bera hitann og þungann af allri efnahagsaðstoð ESB handa Grikkjum."
Þjóðverjar töpuðu seinni heimstyrjöldinni, en hafa nú unnið friðinn.
![]() |
Þrjú skilyrði Þjóðverja fyrir neyðaraðstoð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Við opnun tilboða í þau örfáu og tiltölulega smáu verkefni, sem boðin hafa verið út undanfarið, hafa lægstu tilboð verið ótrúlega lág, raunar svo lág, að lægstbjóðanda getur ekki verið greiði gerður með því að taka tilboði hans.
Tilboðsupphæðir hafa farið alveg niður í 45% af kostnaðaráætlun verks og nú var verið að opna tilboð í stækkun Mjólkárvirkjunar og þar reyndist lægsta tilboð vera 57% af áætlun verkkaupa, eða 70.383.000 en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 122.598.807.
Nánast algild regla er að taka lægsta tilboði í öllum útboðum, enda hefur það gerst æ ofan í æ, að verktakar ráða ekkert við að ljúka verkum á svona lágum verðum og endar sagan oftar en ekki með gjaldþroti verktakans og þar með auknum kostnaði verkkaupa, þegar hann þarf að ráða nýjan aðila til að ljúka verkinu.
Tiltölulega litlum verktökum er enginn greiði gerður með því að taka tilboði sem er á bilinu 45-90% af kostnaðaráætlun verkkaupa, því afar litlar líkur eru til þess, að hægt sé að ljúka verkinu án mikils taps, sem smáir verktakar geta alls ekki tekið á sig.
Reglum um útboð verður að breyta, þannig að ekki sé sjálfgefið að lægsta og venjulega óraunhæfasta tilboði sé alltaf tekið í útboðin verk. Slíkt hefur stórskaðað verktakamarkaðinn og reyndar furðulegt að nokkrum detti í hug að drepa fyrirtæki sitt með svona rugltilboðum.
Útboðsreglum verður að breyta, til að koma í veg fyrir að svona óraunhæfum tilboðum sé tekið.
![]() |
Buðu 57% af áætlun í Mjólká |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.3.2010 | 14:44
Ofstjórn og bannárátta Alþingismanna
Alþingi hefur samþykkt lög, sem banna nektarsýningar og kemur það í beinu framhaldi af því að banna kaup á vændi, þó sala þess sé lögleg, enda eru þessi bönn hugsuð til að útrýma vændi úr landinu, en það hefur viðgengist hér, sem annarsstaðar, lengur en allra elstu menn muna. Enginn hefur þó getað sýnt fram á að vændi sé stundað á þessum fáu súlustöðum landsins og hvað þá mansal, sem vitsmunabrekkurnar á Alþingi segja að sé fastur fylgifiskur nakinna kvenna.
Fram að þessu hafa kvennahreyfingar barist hart fyrir því, að konur eigi að ráða líkama sínum sjálfar og þar með að ákveða t.d. hvort þær fari í fóstureyðingu, þegar það hentar, en þegar kemur að því að sýna líamann, þá virðast gilda allt önnur viðhorf og þá þykir sjálfsagt að taka sjálfsákvörðunarréttinn af konunum.
Auðvitað á að berjast hart gegn mansali og öllu sem því fylgir, en hvort konur stundi kynlíf ókeypis, eða gegn greiðslu, eiga þær að fá að ákveða sjálfar, að ekki sé nú minnst á að sveifla sér allsberar í kringum járnstöng, ef einhver hefur áhuga á að horfa á það. Konurnar eiga að fá að ráða líkama sínum sjálfar á öllum sviðum, ekki bara til að ákveða hvort þær láti fjarlæja úr honum fóstur.
Ofstjórninni og bannáráttunni vex sífellt fiskur um hrygg og nú er komin fram hugmynd í ríkisstjórn um að banna unglingum innan átján ára aðgang að ljósastofum, eins og þESSI frétt sýnir, en þá hugmynd á engin önnur en Álfheiður Ingadóttir og á því þarf enginn að vera hissa. Líklega verður þetta bann til þess, að ljósabekkir verði vinsælasta fermingargjöfin á næstu árum, nema þeir verði bannaðir í heimahúsum, því opinbert eftirlit þarf jú að hafa með líkömum fólks.
Hvað ætlar þetta bannáráttufólk að láta sér detta í hug næst.
![]() |
Alþingi bannar nektardans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (56)