Er Jón Gnarr að semja sig inn í "gamla" kerfið?

Jón Gnarr lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali á kosninganóttina og endurtók í Silfri Egils, að honum fyndist það hluti af "gamla" kerfinu að skipta borgarfulltrúum í meiri- og minnihluta, þvert á móti ætti að fara nýjar leiðir og allir borgarfulltrúar ættu að vinna saman í þágu borgarinnar.

Einnig sagði hann í Silfri Egils í dag, að honum þætti stjórnmálamenn oft flýta sér að afgreiða ýmis stór og afdrifarík mál og hann og félagar ætluðu ekki að rasa að einu eða neinu og gefa sér góðan tíma til að meta stöðuna eftir kosningarnar.

Rúmum hálfum sólarhring eftir að kjörstöðum var lokað birtast fréttir af því, að flokkur Jóns Gnarr sé kominn í formlegar meirihlutaviðræður við Samfylkinguna, viðræður gangi vel og þeim verði haldið áfram á morgun.

Þetta eru skemmtilegar fréttir og virðast sýna að Besti flokkurinn sé orðinn alvöru stjórnmálaflokkur og ætli að verða fljótur að læra á og vinna innan þess kerfis, sem flokkurinn var stofnaður gegn.

"Welcome to the revulution" sagði Jón Gnarr hróðugur við félaga sína á kosninganóttina. 

Skyldi þeim takast að bylta Samfylkingunni?


mbl.is Viðræður halda áfram á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna er sigurvegari

Þrátt fyrir mikinn og oftast óverðskuldaðan áróður gegn Sjálfstæðisflokknum á undan förnum misserum, sérstaklega eftir hrunið, sem orsakaðist vegna meintra glæpaverka banka- og útrásarrugludalla, en ekki vegna þeirra laga sem stjórnmálamenn eru ábyrgir fyrir, þá kom Sjálfstæðisflokkurinn nánast ótrúlega vel út úr kosningunum til sveitarstjórna víðast hvar um landið.

Flokkurinn fékk þó skell sumstaðar, t.d. á Akureyri, en vann góða sigra annarsstaðar.  Í Reykjavík fékk flokkurinn um 10% minna fylgi en í síðustu sveitarstjórnarkosningum, eða um 34%, sem þó var mikil aukning frá kosningunum til Alþingis í fyrra, þegar flokkurinn fékk aðeins um 22% atkvæða í borginni.

Samfylkingin í Reykjavík tapaði tæpum 30% atkvæða sinna frá borgarstjórnarkosningunum 2006 VG beið mikið afhroð í borginni og Framsóknarflokkurinn þurrkaðist út og Ólafur F. og önnur minni framboð komust varla á blað.  Öll óánægjan sem í gangi hefur verið í Reykjavík og er aðallega tilkomin vegna svika ríkisstjórnarinnar í málefnum heimilanna og atvinnulífsins, fór til "Besta" brandarans, sem marg sýndi í kosningabaráttunni, að hann hafði ekki minnstu hugmynd um, um hvað sveitarstjórnarmál snerust og hvað þá að örlað hafi á nýjum hugmyndum til stjórnar borgarmálanna.

Fyrir kosningar sýndi Hanna Birna, borgarstjóri, að hún bar höfuð og herðar yfir keppinauta sína um forystuhlutvert í borginni og ekki síður hefur það sýnt sig í umræðuþáttum eftir kosningaúrslitin, hver hátt hún skarar yfir aðra forystumenn þeirra framboða, sem fulltrúa fengu í borgarstjórnina.

Hanna Birna er framtíðarleiðtogi þjóðarinnar og myndi verða landi og þjóð til sóma, gefi hún kost á sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins, sem haldinn verður í lok júní.

Ekki er minnsti vafi á að hún myndi hljóta glæsilega kosningu og reyndar vafasamt að nokkur myndi bjóða sig fram gegn henni.


mbl.is Hanna Birna ekki á leið í formannsframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin að gefast upp á stjórnmálunum

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, lýsir því yfir að afhroð flokksins í Reykjavík og víðar í sveitastrjórnum, væri fyrirboði þess að hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir myndu líða undir lok.  Ekki sagði formaðurinn neitt um það, hvað hún sæi koma í staðinn við val á þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum, ef ekki verður boðið fram í nafni flokka, því ef breyting á að verða á því, þarf að gjörbylta allri kosningalöggjöf landsins.

Jóhanna hefur auðvitað ekki umboð til að tala fyrir aðra flokka en Samfylkinguna og því verður að taka ummæli hennar sem algera uppgjöf hennar í stjórnmálaþátttöku og væntanlega er hún þar að tala fyrir sjálfa sig og Samfylkinguna, sem stjórnmálafokk.

Ekki er líklegt að aðrir flokkar muni líta á hin stóreinkennilegu úrslit borgarstjórnarkosninganna sem dauðadóm yfir flokkum sínum, því engar líkur eru á að leikhús fáránleikans geti haldið sýningu sinni gangandi fyrir fullu húsi í heilt kjörtímabil, hvað þá lengur.  Því mun það framboð og sigur þess í Reykjavík ekki valda neinum sérstökum tímamótum í íslenskri pólitík til langrar framtíðar.

Aðrir flokkar en Samfylkingin, a.m.k. Sjálfstæðisflokkurinn, munu skýra stefnu sína, gera þá endurnýjun í mannvali sem þörf er á og blása síðan til nýrrar og öflugrar sóknar, með skýr markmið og framtíðarsýn fyrir fólkið í landinu og gefa því nýja von um bjartari tíma.

En tími Jóhönnu er kominn og farinn og eins og hún segir sjálf, er líklegast að Samfylkingin hverfi með henni af sögusviðinu, því ástæðulaust er að reikna ekki með að hún verði sannspá um afdrif eigin flokks.


mbl.is „Endalok fjórflokkakerfisins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hera Björk var frábær

Hera Björk og íslenski hópurinn í Eurovision stóðu sig frábærlega vel í keppninni, þótt stigagjöfin hafi ekki skilað sér sem skyldi.  Þó lagið hafi ekki fallið Evrópubúum nógu vel í geð, breytir það ekki því, að lagið var gott og flutningurinn frábær.

Stigagjöfin í Eurovision er oft algerlega óútreiknanleg og í þetta skipti vann Þýskaland með afgerandi hætti, öllum að óvörum og að margra mati óverðskuldað.  Mörg góð lög fengu fá stig, t.d. Portúgal og Írland, sem bæði voru með góð lög og frábærar söngkonur.

Burt séð frá úrslitunum var íslenski hópurinn landi og þjóð til sóma.


mbl.is Stoltur og ánægður með Heru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðlaus

Í fyrsta sinn í langan tíma verður maður orðlaus. 

Fyrstu tölur frá Reykjavík eru að mörgu leyti svolítið undarlegar, en gefa örugglega nokkuð rétta mynd af því hvernig úrslitin verða.

Fyrstu viðbrögð er tilfinning skammar og niðurlægingar Reykjavíkur og íbúa hennar.

Jóni Gnarr og félögum skal hér með óskað til hamingju með vel heppnaða leiksýningu, sem greinilega hefur náð til áheyrenda.


mbl.is Fyrstu tölur í beinni á mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð kjörsókn er vonandi ávísun á sigur skynseminnar

Undanfarið hefur því verið spáð að óánægja með stórnmálamenn og flokka væri svo mikil, að kjörsókn yrði mjög dræm og til þess hafa skoðanakannanir bent.  Í ljós virðist vera að koma, að þessar spár rætist ekki, því kjörsókn stefnir í að verða svipuð og í kosningunum fyrir fjórum árum.

Stjórnmálafræðingar hafa verið með þær spár á lofti, að dræm kjörsókn væri leikhúsi fáránleikans í hag, en góð kjörsókn myndi benda til þess að alvöruframboð græddu á kosnað vitleysunnar.  Þessi góða kjörsókn verður til þess, að spennan eftir fyrstu tölum úr Reykjavík verður enn meiri en ella hefði orðið og gæti jafnvel stefnt í spennandi kosninganótt.

Það eina sem hægt er að vona, er að skynsemi Reykvíkinga verði ofaná í þessum kosningum og stjórnleysi og upplausn sem fylgja myndi ef margir leikarar úr leikhúsi fáránleikans kæmust inn í borgarstjórn.


mbl.is Fleiri kosið í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagadagur í lífi Reykvíkinga

 

Kosningarétturinn er helgur og hverjum manni dýrmætur í lýðræðisríki.  Að hafa kosningar í flimtingum er alvarleg atlaga að lýðræðinu og hreint skemmdarverk, að breyta þeim í leikhús fáránleikans í anda Dario Fo, sem líklegt er að margir muni ekki eftir og geri sér því ekki grein fyrir samlíkingunni.

Hér á blogginu og víðar hefur mátt lesa endalaust stagl um að allir stjórnmálamenn séu nautheimskir glæpamenn, stjórnmálflokkarnir séu bófaflokkar og kjósendur með hugsjónir og sterkar lífsskoðanir séu ekkert annað en heimskir viðhlæjendur, en slíkt stagl er ekki til marks um neitt nema vanþroska og hittir engan fyrir, nema staglarann sjálfan.

Ekki örlar á neinni málefnalegri umræðu, t.d. frá væntanlegum kjósendum "Besta"brandarans, öll kosningabaráttan er rekin með svívirðingum og óhróðri um aðra frambjóðendur og þá kjósendur, sem hafa sterkar lífsskoðanir og fylgja þeim í einlægri von um bætt þjóðfélag og betra líf í landinu.  Fólk með alvöru skoðanir á þjóðmálum og heilbrigða sjálfsvirðingu, leyfir sér ekki að misvirða kosningaréttinn með fíflagangi og skítmokstri yfir allt og alla.

í dag mun koma í ljós, hvort festa og styrk stjórn verður áfram við völd í Reykjavík, eða hvort stefnir í fjögurra ára glundroða og vandræðagang með sameiginleg hagsmunamál borgarbúa.

X við D tryggir stöðugleika og að Reykvíkingar geti áfram unnið saman, stétt með stétt.

Í dag móta Reykvíkingar sjálfir sína framtíðarsýn um þá borg sem þeir vilja búa og starfa í.


mbl.is Sveitarstjórnakosningar hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna ber af eins og gull af eiri

Forystumenn flokkanna sátu fyrir svörum á Stöð2 í lok frétta þar og eru nú í Kastljósi sjónvarpsins og hefur Hanna Birna, borgarstjóri, borið höfuð og herðar yfir meðframbjóðendur sína, sem í þáttunum hafa komið fram.

Hanna Birna hefur sýnt með óyggjandi hætti hvers vegna fólki er óhætt að treysta henni og D-listanum fyrir stjórn borgarinnar á næsta kjörtímabili, enda hefur stjórn borgarinnar gengið ótrúlega vel síðustu tvö ár, eftir að Hanna Birna tók við borgarstjórastólnum og hefur tekist að sameina bæði meiri- og minnihluta til góðra verka í þeirri erfiðu stöðu sem þjóðfélagið hefur verið í eftir hrun.

Jón Gnarr hefur komið út úr þessum þáttum nánast eins og kjáni, hvort sem hann er að gera sér það upp, eða hann er bara svona gjörsamlega laus við alla þekkingu á borgarmálum og algerlega hugmyndalaus um við hvaða málaflokka er unnið hjá borginni og hvernig það er gert.

Eftir þessa sjónvarpsþætti þarf enginn að velkjast í vafa um að farsælast er fyrir framtíð Reykjavíkur að kjósa D-listann á morgun.


mbl.is Horfast þarf í augu við ruglið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Besti"brandarinn er orðinn leiðigjarn og fylgið dalar hratt

Með hverri skoðanakönnunni sem birtist kemur í ljós að fylgi "Besta"brandarans dalar stöðugt, enda brandarinn orðinn leiðigjarn og hreinlega leiðinlegur, enda ekkert leiðinlegra en langdreginn og síendurtekinn skrítla.

Því miður er samt útlit fyrir að ekki verði allir orðnir nógu leiðir á fíflaganginum, til þess að þessi nýjasti stjórnmálaflokkur landsins, sem byggður er upp í kringum rugl og fíflagang, fái ekki svona 4 borgarfulltrúa.  Það eru alltof margir borgarfulltrúar, en þó ekki fleiri en svo, að þeir verði til teljandi skaða á næstu fjórum árum, því ábyrgðin á rekstri borgarinnar mun þá hvíla á 10-11 ábyrgum alvöruborgarfulltrúum, sem taka hlutverk sitt alvarlega.

Það er mikið gleðiefni að æ fleiri skuli sjá í gegn um vitleysuna og ætli ekki að vanhelga kosningarétt sinn á morgun.


mbl.is Besti flokkurinn með 6 fulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir ákveða sig í kjörklefanum

Samkvæmt rannsóknum ákveður 10-15% kjósenda, ef prósentan er nokkurn veginn rétt munuð, sig ekki endanlega við hvaða framboð þeir krossa, fyrr en eftir að komið er í kjörklefann.  Þetta á við um allar kosningar, en núna segjast reyndar talsvert fleiri vera óákveðnir en venjan er, þegar svo stutt er til kosninga.

Fyir sveitarstjórnarkosningarnar núna hefur verið ótrúlegur áróður í gangi gegn stjórnmálamönnum almennt og þeir upp til hópa sagðir einskis nýt fífl, eiginhagsmunapotarar og hreinir glæpamenn.  Í manna minnum hefur aðdragandi kosninga aldrei komist í hálfkvisti við það sem nú er að gerast, enda virðist nokkur hluti þjóðarinnar hafa gjörsamlega hafa tapað áttum eftir hrunið, þannig að auðvelt hefur fyrir óvandaða menn að stjórna hjarðhugsuninni, sem vanalega nærist á neikvæðum og ósönnum slefburði.

Ótrúlega margir virðast láta slíkan áróður villa sér sýn og fylgja hjörðinni í algerri blindni og án nokkurrar sjálfstæðrar hugsunar, eins og sést vel nú um stundir, þegar þriðjungur Reykvíkinga, eða meira, segjast ætla að kjósa nýjan stjórnmálaflokk til áhrifa í borginni, sem stofnaður er í algeru gríni og hæðist mest að kjósendum sjálfum, sem þó virðast ekki átta sig á því.

Kosningarnar á morgun munu leiða í ljós hvort Reykvíkingar vilji áfram styrka, vandaða og örugga stjórn á sínum málum, eða hvort þeim sé í mun að rífa allt niður, sem gert hefur verið og skapa nýja upplausn og stjórnleysi í borginni.

Þetta verða kosningar sem skera úr um getu og ábyrgð kjósenda til að velja sér forystu, sem treystandi er til að reka borgarsjóð á ábyrgan hátt, en ekki leikhús fáránleikans í anda Dario Fo.


mbl.is Margir enn óákveðnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband