17.1.2011 | 10:49
Skandall í skilanefnd
Það getur ekki flokkast undir neitt annað en hneyksli af stærri gerðinni og jafnvel hreina spillingu, að Jóhannes Rúnar Jóhannsson, lögmaður, sem sæti á í skilanefnd Kaupþings skuli jafnframt vera verjandi Ívars Guðjónssonar, fyrrv. forstöðumanns eigin viðskipta Landsbankans, sem nú situr í gæsluvarðhaldi vegna gruns um stórfellda markaðsmisnotkun og annað vafasamt brask í tengslum við lánveitingar til nokkurra félaga til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum og hafa með því áhrif á verð hlutabréfanna í Kauphöllinni.
Samkvæmt fréttinni er starf Jóhannesar í í undirnefnd skilanefndarinnar hlelst þetta: "Nefndin hefur það hlutverk að endurskoða ýmsar óvenjulegar lánveitingar til aðila sem tengdust bankanum ásamt því að sjá um samskipti skilanefndarinnar við embætti sérstaks saksóknara."
Svo heldur þessi forherti skilanefndarmaður því fram að störf hans fyrir skilanefndina skarist á engan hátt við starf hans sem verjanda fyrir meintan sakamann, sem einmitt liggur undir grun um samskonar afbrot og skilanefndarmaðurinn á að vera að rannsaka fyrir Kaupþing.
Hvernig á Jóhannes að sjá um að koma gögnum til Sérstaks saksóknara um meinta glæpi í Kaupþingi og vera svo verjandi gagnvart Sérstökum saksóknara vegna samskonar brota í öðrum bönkum? Að telja þetta ekki vera skörun er algert dómgreindarleysi og spurning hvort ofurlaunin fyrir skilanefndarstörfin séu farin að spilla skilanefndunum eins og fyrirrennurum þeirra við stjórnun bankanna.
Fyrsta verk Fjármálaeftirlitsins í kjölfar þessara frétta af Jóhannesi þessum hlýtur að vera að setja hann af sem skilanefndarmann og setja síðan í gang rannsókn á öllum störfum og gerðum skilanefnda eftir bankahrun.
![]() |
Verjandi situr í eftirlitsnefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.1.2011 | 06:21
Breyting á kvótakerfinu
Mikið er rætt og ritað um kvótakerfið og ekki síst kvótaframsalið og virðast flestir vera á þeirri skoðun að gagngerra breytinga sé þörf á þessu kerfi. Fiskveiðistjórnunarkerfið var og hlýtur að vera ennþá, hugsað til þess að vernda fiskistofnana, en ekki til að vernda hagsmuni einstakra útgerða. Flestir eru sammála því, að nauðsynlegt sé að stjórna veiðunum, en ágreiningurinn snýst um hvernig það verði gert.
Núverandi kvótahafar virðast ekki geta hugsað sér neinar breytingar, en þeir sem eiga kvótalausa báta krefjast breytinga og er einna helst að skilja, að þeir vilji helst leyfa óheftar veiðar. Óheft sókn í fiskisstofnana og stjórnlausar veiðar munu auðvitað ekki koma til greina og uppboð á kvótum til eins árs í senn gengur ekki heldur, því það myndi gjörsamlega eyðileggja allan stöðugleiga undir útgerð og fiskvinnslu.
Spurning er, hvort ekki mætti breyta kerfinu þannig innan samningaleiðarinnar svokölluðu, að kvóta yrði úthlutað til skipa til eins árs í senn og yrði þá byggt á veiðireynslu síðustu þriggja ára á undan, þ.e. að skip fengju úthlutað kvóta fyrir þeim afla, sem þau veiddu sjálf síðustu þrjú ár að meðaltali, en ekki tekið tillit til kvóta sem þau hefðu selt eða látið frá sér á þeim tíma.
Veiðiskylda skipa yrði 80% af úthlutuðum kvóta, en 20% mætti nota til að skipta á tegundum við aðrar útgerðir, en slík skipti myndu þá að sjálfsögðu hafa áhrif við næstu kvótaúthlutun. Sala og leiga á veiðiheimildum yrði algerlega bönnuð að öðru leyti en því að sá kvóti sem eftir yrði þegar búið yrði að úthluta í samræmi við veiðireynslu þriggja síðustu ára, yrði boðinn upp og þar með gætu nýliðar komist inn í greinina. Eina skilyrðið yrði að sá sem fengi úthlutað kvóta á þann hátt ætti bát eða skip, því aðrir gætu ekki fengið úthlutað neinum aflaheimildum.
Með þessu móti myndi allt kvótabrask heyra sögunni til og útgerðirnar yrðu að reka sig eingöngu á tekjum sem fengjust fyrir aflann sjálfan, en ekki af braski með veiðiheimildirnar. Þetta myndi líka skapa ákveðinn stöðugleika fyrir bæði útgerðina og fiskvinnsluna. Greitt yrði auðlindagjald fyrir hvert úthlutað tonn í aflaheimildum og yrði ákvörðun um upphæð þess tekin við kvótaúthlutunina árlegu.
Ekki dugar endalaust að gagnrýna núverandi kerfi og benda ekki á eitthvað annað í staðinn.
Þess vegna er þetta sett fram hér í von um umræðu í stað stóryrða.
(Endurbirt örlítið breytt frá árinu 2009)
![]() |
Standi við sátt um samningaleið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.1.2011 | 13:33
Glæpir Wikileaks í beinni útsendingu
Svissneskur glæpamaður sem stal fjárhagslegum upplýsingum frá a.m.k. þrem bönkum og sem snerta 2000 viðskiptamenn þeirra á árabilinu 2000-2009, ætlar að afhenda Julian Assange, eiganda Wikileaks, þessi gögn á blaðamannafundi á mánudag.
Julian Assange mun hafa sagt að beðið yrði með að birta gögnin á vefnum á meðan að hann og félagar hans kvæðu upp dóma um það hvort um skattsvik þessa fólks sé að ræða, eða ekki. Hvaðan þessum sjálfskipaða siðapostula kemur vald til að kveða upp slíka dóma fylgir hins vegar ekki sögunni, né hverja hann ætlar að kalla fyrir dóm sinn sem vitni, eða hvort sakborningunum verði skipaðir verjendur.
Hafi tilgangur gagnaþjófnaðarins verið að koma upp um skattsvik hefði mátt ætla að þjófurinn skilaði þýfi sínu til viðkomandi skattyfirvalda, sem þá myndu rannsaka málið og vísa málum til almennra dómstóla, ef ástæða væri til. Með því að afhenda Assange tölvugögnin á blaðamannafundi með þeirri auglýsingastarfsemi sem slíku fylgir, er greinilegt að tilgangurinn er allt annar en að koma upp um skattsvikara.
Tilgangurinn með þessum þjófnaði, eins og öðrum slíkum, er greinilega að græða á honum fjárhagslega, því farið er að reka Wikileaks eins og hvert annað gróðafyrirtæki og fyrirtækið stutt af öllum helstu tölvuglæpamönnum veraldar, sem hika ekki við að hakka sig inn í hvaða tölvu sem er, stela þaðan gögnum og jafnvel skemma eða eyðileggja heilu tölvukerfin.
Sómakært fólk þarf að fara að taka upp baráttu gegn Wikileaksglæpalýðnum og snúa sér að baráttu fyrir opnara stjórnkerfi og auðveldari aðgangi almennings að upplýisingum frá opinberum aðilum.
Málið er heiðarleg barátta í stað glæpsamlegrar.
![]() |
Lekur gögnum um ætlaða skattsvikara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (81)
15.1.2011 | 22:18
Icesavelygin afhjúpuð enn og aftur
Ríkisstjórnin með Steingrím J. í fararbroddi hafa logið því óhikað að þjóðinni að gangist hún ekki undir skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga næstu áratugina, fáist enginn erlendur aðili til að fjárfesta á Íslandi og engin lánastofnun í heiminum muni nokkurn tíma veita íslenskum fyrirtækjum lán framar.
Smátt og smátt hefur verið að flettast ofan af þessari lygi, t.d. hafa Marel, Össur og Landsvirkjun fengið risastór lán frá erlendum lánastofnunum til að endurfjármagna eldri lán sín og fjöldi erlendra fjárfesta bíða á hliðarlínunni, tilbúnir til að fjárfesta hér á landi um leið og ríkisstjórnin hættir að standa í vegi fyrir allri atvinnuuppbyggingu í landinu.
Hér hefur því margoft verið haldið fram að ekkert myndi standa á að fá hingað erlenda fjárfesta og erlendar lánastofnanir til að leggja fé í hvert það fyrirtæki sem þætti arðvænlegt og gæti skilað fjárfestingunni til baka á eðlilegum árafjölda.
Það eina sem þarf er ríkisstjórn sem væri hliðholl atvinnulífinu og hefði skilning á því að með því að eyða atvinnuleysinu eyðist kreppan, en með því að stuðla að atvinnuleysi og vera haldin skattahækkanabrjálæði, eins og núverandi ríkisstjórn, mun kreppan ekki gera neitt annað en lengjast og dýpka.
Kaup Spánverja á Vífilfelli er enn ein sönnunin fyrir því að Steingrímur J. og ríkisstjórnin eru á villigötum og að fjárfestar munu stökkva á vænlegar fjárfestingar um leið og möguleiki til þess skapast.
![]() |
Spánverjar kaupa Vífilfell |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.1.2011 | 14:28
Björgunarhetjur
Við Íslendingar búum við að eiga ótrúlega vel þjálfaðar björgunarsveitir, bæði hjá Landhelgisgæslunni og hjálparsveitum sjálfboðaliða vítt og breitt um landið. Ferð þyrlanna frá gæslunni til að sækja skipverja af liháisku flutningaskipi 115 sjómílur út á haf í hvassviðri og mikilli ölduhæð, er nýjasta staðfesting á frábærri þjálfun, áræðni og getu þessara manna.
Í þeim fjárhagslegu hremmingum sem þjóðin á nú við að glíma og niðurskurðinum sem nauðsynlegur er í ríkisrekstrinum, verður að gæta þess að veikja ekki þær stofnanir sem sinna öryggismálunum, en þar er Landhelgisgæslan fremst í flokki, ásamt lögregluliðum landsins. Niðurskurður fjármagns til þessara aðila má ekki verða svo mikill að starfsemin verði lömuð á eftir og reynsla og þekking starfsmanna glatist.
Almenningur stendur þétt að baki björgunar- og hjálparsveitum landsins t.d. með fjárstyrkjum og ekki síst flugeldakaupum um áramót, en flugeldasalan er aðaltekjulind félaganna og fjármagnar starf þeirra að miklu leyti. Því er ömurlegt að sjá aðra en þá sem björgunar- og æskulýðsstörfum sinna kauplaust og af einskærum áhuga og hugsjónum vera að skara eld að eigin köku með flugeldasölu.
Þjóðin er í mikilli þakkarskuld við björgunarhetjur sínar og kann sannarlega að meta þær að verðleikum.
![]() |
Skipið elti mig upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.1.2011 | 21:33
Já, þetta nafn verða menn að muna
Eftir leik Íslendinga og Ungverja á HM segir sænski netmiðillinn nt.se: "Aron Pámarsson. Leggið þettta nafn á minnið", enda stóð drengurinn sig einstaklega vel í leiknum og var verðskuldað valinn maður leiksins.
Við Íslendingar höfum vitað talsvert lengi að þarna sé á ferðinni upprennandi stórstjarna í handknattleiksveröldinni og mun innan tíðar verða íslenska landsliðinu jafn dýrmætur og Ólafur Stefánsson hefur verið því undanfarin ár.
Nafninu Aron mun enginn handknattleiksunnandi í heimi gleyma næstu tvo áratugina, eða svo.
![]() |
Leggið þetta nafn á minnið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.1.2011 | 09:39
Varðhald seint og um síðir
Loksins virðist vera að komast verulegur skriður á rannsóknir Sérstaks saksóknara á ýmsum svikafléttum og glæpsamlegum aðgerðum eigenda og stjórnenda gamla Landsbankans og voru starfsmenn embættisins uppteknir við húsleitir og yfirheyrslur í gær, frá morgni og fram yfir miðnætti.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrv. bankastjóri, og Ívar Guðjónsson, fyrrv. forstöðumaður eigin fjárfestinga bankans, gistu í boði skattborgaranna og í umsjón fangavarða í nótt og er nú beðið úrskurðar dómara um hvort þeir verði "upp á vatn og brauð" næstu daga, á meðan starfsmenn saksóknara ræða málin nánar við þá og fá þá til að skýra satt og rétt frá athöfnum sínum innan bankans á valdatímum sínum þar á bæ.
Velta má fyrir sér tilgangi gæsluvarðhalds þegar svo langt er liðið frá meintum glæpum, eins og raunin er í þessu máli, en skýringin hlýtur að vera sú, að félagarnir séu ekki samstíga í málflutningi sínum og því þyki ástæða til að halda þeim í einangrun og aðskildum á meðan samræmi fæst í frásögn þeirra af því, sem raunverulega átti sér stað í bankanum og hvað varð um allt það fé sem talið er að hafi verið rænt úr bankanum innanfrá á árunum fyrir hrun.
Hvað sem segja má um að setja menn í varðhald svo löngu eftir að brot eru framin er fagnaðarefni að sjá að rannsóknir bankaglæpanna séu í fullum gangi og nú hlýtur að fara að mega reikna með því að fyrstu ákærurnar fari að sjá dagsins ljós og gerendurnir verði látnir svara fyrir sín mál fyrir dómstólunum.
![]() |
Gæsluvarðhaldskrafa tekin fyrir í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.1.2011 | 22:29
Hvaða Icesavevinna?
Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar og snati Steingríms J., segir við mbl.is að "vinnan við afgreiðslu Icesavefrumvarpsins" gegni framar björtustu vonum og brátt sæi fyrir endann á henni.
Þetta er furðuleg yfirlýsing, þar sem allt sem menn þurftu að vita um Icesave er löngu komið fram og lá reyndar ljóst fyrir strax eftir þann glæpasamning sem Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson undirrituðu í umboði Steingríms J. í júní 2009 og ríkisstjórnin ætlaðist svo til að Alþingi samþykkti óséðan og án þess að vita um hverskonar þrælasamning var að ræða.
Eftir mikið japl og jaml og fuður og tilraun númer tvö til að troða kröfum Breta og Hollendinga ofan í þjóðina, tókst henni að snúa vörn í sókn þegar forsetinn vísaði "samningnum" til kjósenda, sem höfnuðu fjárkúgunarkröfunum með eftirminnilegum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars s.l.
Vegna þessa alls, er það hrein móðgun við fólkið í landinu að ætla að reyna í þriðja sinn að selja íslenska skattgreiðendur í þrældóm fyrir útlendinga, þegar þeir hafa algerlega hafnað því sjálfir og munu vafalaust gera það aftur, ef á þarf að halda.
Allir, meira að segja forkólfar ESB, viðurkenna að ekki sé, eigi að vera, eða megi vera, ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðueigenda og því eiga íslenskir skattgreiðendur ekki að bera nokkra ábyrgð á gjörðum óábyrgra bankaglæpona.
Því snýst þetta mál um það grundvallaratriði að Íslendingar mega hreinlega ekki samþykkja ábyrgð á svona uppgjörum og taka á sig tugmilljarða kostnað, sem þeim kemur ekkert við.
Þetta mál snýst um ofbeldi af hálfu ESB þjóða gegn minni máttar, til þess að sýna hvernig smáfuglarnir verði meðhöndlaðir í framtíðinni, því ekki myndu ofbeldisseggirnir samþykkja að setja svona byrðar á sína eigin skattgreiðendur.
Það þarf ekki frekari Icesavevinnu, enda verður því ekki trúað að þjóðin muni líða frekari svik í þessu máli af hálfu ríkisstjórnarinnar.
![]() |
Segir Icesavevinnu ganga vel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.1.2011 | 18:18
Ennþá á hestvagnastiginu
Þjóðir fóru að skipa sendiherra hver hjá annarri fyrir nokkur hundruð árum síðan, enda ekki hægt að fylgjast með því hvað væri að gerast og gerjast hjá hinum, án þess að hafa fólk á staðnum til að fylgjast með á æðstu stöðum.
Þegar eitthvað gerðist, sem sendiherranum þótti merkilegt og þar með þess virði að senda upplýsingar um til heimalandsins, var sendiboði gerður út með fréttirnar og var daga og vikur á leiðinni með skilaboðin, enda samgöngur með því móti að notast þurfti við hesta til að komast ferða sinna á landi og seglskipa til að komast yfir höfin.
Sendiherrar nútímans eru því eins og hver önnur nátttröll og algerlega úrelt fyrirbæri, algerlega óþörf og ekkert annað en rándýrt snobb og sendiráðin aðallega orðin snobbaður bitlingur fyrir vini og vandamenn utanríkisráðherrans hverju sinni, eða afdankaða pólitíkusa, sem losna þarf við á fljótlegan og auðveldan hátt.
Með samgöngum nútímans og síma- og tölvutækninni urðu störf sendiherranna algerlega óþörf, enda berast allar upplýsingar heimshorna á milli, nánast á sömu mínútu og hlutirnir gerast og hægt að fylgjast með öllum fréttum af því sem gerist í heiminum heima hjá sér og meira að segja í utanríkisráðuneytinu.
Með breyttum heimi á auðvitað að leggja staðbundnu sendiráðin niður og láta starfsmenn utanríkisráðuneytisins um sambandið við yfirvöld annarra þjóða og dygði að senda erindreka af og til, til annarra landa vilji ráðherrann spyrja einhverra frétta, sem ekki rata beint í fjölmiðla umsvifalaust.
Sóunina kringum utanríkismálin ætti að stoppa strax.
![]() |
Afhjúpar tilgangsleysi sendiráða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2011 | 09:42
Undirstaða kjarabóta er endurreisn atvinnulífsins
Það er algerlega hárrétt hjá Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra SA, að undirstaða þess að um einhverjar kjarabætur geti orðið að ræða á næstu árum er að undirstöður atvinnulífsins verði treystar og þá ekki síst sjávarútvegsins, sem mestar tekjur skapar í þjóðfélaginu.
Síðan ríkisstjórnin tók við hefur ríkt mikil óvissa um framtíð kvótakerfisins og í þeim efnum hefur hver höndin verið upp á móti annarri innan stjórnarinnar, eins og í flestum öðrum málum öðrum en skattageggjuninni og því hefur verið alger stöðnun í greininni og útgerðir og fiskvinnslustöðvar ekki farið út í neinar fjárfestingar eða meiriháttar viðhald, enda óvissa um framtíð greinanna alger.
Verkalýðsrekendur eru farnir að halda þeirri lygi að fólki, að í komandi samningum verði "sóttar" miklar kjarabætur til atvinnulífsins, en enginn skynsamur maður trúir svoleiðis áróðri, enda verður ekki um neinar kjarabætur að ræða hér á landi á næstu árum og baráttan mun snúast um að halda óbreyttum kaupmætti þeirra sem þó halda vinnu sinni ennþá.
Mesta kjarabót þjóðfélagsheildarinnar á næstu árum verður að minnka atvinnuleysið og koma sem flestum aftur til verðmætaskapandi verka og það er eina leiðin til að auka veltu og hagvöxt í landinu, fyrir utan að snúa ofan af skattabrjálæðinu, sem ríkisstjórnin hefur látið bitna á þjóðinni með vaxandi ofsa ár frá ári.
Því fyrr sem fólk gerir sér grein fyrir því, að kjarabótaloforð verkalýðsrekendanna eru falsloforð og lífskjör batna ekki í landinu fyrr en breytt atvinnustefna nær sér á strik og fleiri og fleiri fái vinnu á þeim kjörum sem nú bjóðast vinnandi fólki í landinu.
Að halda öðru fram eru hreinlega blekkingar, lýðskrum og í flestum tilfellum vísvitandi lygi.
![]() |
Ekki samið án lausnar í útvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)