Björgunarhetjur

Við Íslendingar búum við að eiga ótrúlega vel þjálfaðar björgunarsveitir, bæði hjá Landhelgisgæslunni og hjálparsveitum sjálfboðaliða vítt og breitt um landið.  Ferð þyrlanna frá gæslunni til að sækja skipverja af liháisku flutningaskipi 115 sjómílur út á haf í hvassviðri og mikilli ölduhæð, er nýjasta staðfesting á frábærri þjálfun, áræðni og getu þessara manna.

Í þeim fjárhagslegu hremmingum sem þjóðin á nú við að glíma og niðurskurðinum sem nauðsynlegur er í ríkisrekstrinum, verður að gæta þess að veikja ekki þær stofnanir sem sinna öryggismálunum, en þar er Landhelgisgæslan fremst í flokki, ásamt lögregluliðum landsins.  Niðurskurður fjármagns til þessara aðila má ekki verða svo mikill að starfsemin verði lömuð á eftir og reynsla og þekking starfsmanna glatist.

Almenningur stendur þétt að baki björgunar- og hjálparsveitum landsins t.d. með fjárstyrkjum og ekki síst flugeldakaupum um áramót, en flugeldasalan er aðaltekjulind félaganna og fjármagnar starf þeirra að miklu leyti.  Því er ömurlegt að sjá aðra en þá sem björgunar- og æskulýðsstörfum sinna kauplaust og af einskærum áhuga og hugsjónum vera að skara eld að eigin köku með flugeldasölu.

Þjóðin er í mikilli þakkarskuld við björgunarhetjur sínar og kann sannarlega að meta þær að verðleikum.


mbl.is „Skipið elti mig upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Ég þarf engu að bæta við. Þetta er nákvæmlega það sem mig langar að segja.

Sumarliði Einar Daðason, 15.1.2011 kl. 15:07

2 identicon

Ómetanlegt fólk. Og svona lagað er ekki gripið upp úr rykinu bara si svona.

Jón Logi (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 02:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband