Bloggfærslur mánaðarins, mars 2017
30.3.2017 | 16:20
Siðblindir banksterar og aðrir með (hugsanlega) skárri sýn
Svikaflétta Ólafs Ólafssonar, sem venjulega er kenndur við Samskip, við kaupin á Búnaðarbankanum er svo útsmogin og siðblind að svæsnustu glæpasögur komast varla í hálfkvisti hvað varðar blekkingarvefinn sem ofinn var.
Það á reyndar eftir að útskýra hvernig Ólafi tókst að láta greiða sér og þýska smábankanum sem þátt tók í fléttunni yfir eitt hundrað milljónir dollara í þóknun og umboðslaun eftir að hafa blekkt ríkið, sem seljanda bankans og eftirlitsstofnanir þess, til að ganga til samninga við banksteraklíkuna.
Björgólfur Thor Björgólfsson, sem var einn eigenda Samsonar sem keypti Landsbankans, lætur Ólaf og félaga fá það óþvegið í pistli á netinu og kallar klíkuna Svika-hópinn, sem aldrei hafi átt fyrir kaupverði Búnaðarbankans og því vélað hann til sín með eintómum lygum, svikum og blekkingum.
Sjálfur segist Björgólfur Thor hafa verið þeirrar skoðunar lengi að full ástæða væri til að fara ofan í sölu Búnaðarbaka og Landsbanka og birta almenningi öll gögn varðandi þær sölur og segist sjálfur ekkert hafa að fela og sé tilbúinn til að mæta fyrir rannsóknarnefnd hvnær sem er.
Til að hreinsa þessi mál almennilega í eitt skipti fyrir öll hlýtur að verða sett á fót enn ein rannsóknarnefndin, sem dragi þá fram í dagsljósið allt sem ekki hefur áður verið kunnugt um þetta efni. Líklega er núna komið fram það helsta um siðleysi kaupenda Búnaðarbankans og kaupendur Landsbankans þurfa að ganga í gegn um samskonar skoðun.
Kallar S-hópinn Svika-hópinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.3.2017 | 13:13
Ótrúlegur blekkinga- og siðleysisvefur
Rannsóknarnefnd Alþingis um einkavæðingu Búnaðarbankans afhjúpar ótrúlega bíræfinn og útsmoginn blekkingarvef Ólafs Ólafssonar, sem yfirleitt er kenndur við Samskip, til að sannfæra fulltrúa ríkissjóðs, seðlabanka, ríkisendurskoðunar og almenning um að þýskur banki væri stór þátttakandi í kaupunum, en aðkoma erlends banka var eitt af skilyrðum sölunnar.
Fyrstu fréttir herma að bankanum hafi verið "mútað", eða greidd umboðslaun að upphæð eitt hundrað milljónir dollara og Ólafur hafi náð beint til sín a.m.k. fimmtíu milljónum dollara, sem hann mun hafa stungið í eigin vasa. Að vísu voru allar þessar "þóknanir" greiddar í gegn um óteljandi aflandsfélög til þess að hylja slóðina og jafnvel mætti trúa því að "gleymst" hafi að tilgreina öll þessi viðskipti á skattskýrslum og öðrum greinargerðum til hins opinbera.
Ólafur Ólafsson ber við algeru minnisleysi í þessu máli og lýsir sig algerlega saklausan af öllum áburði um óheiðarleg viðskipti, eins og reyndar í öllum öðrum málum sem hann hefur komið nálægt á "viðskiptaferli" sínum og jafnvel verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir.
Sameiginlegt átak opinberra aðila og almennings hlýtur að verða það, að koma Ólafi Ólafssyni og öðrum álíka banksterum út úr öllu viðskiptalífi landsins og helst að ná af þeim illa fengnum gróða þessara og annarra álíka svikamylla í gegn um tíðina. Nýjustu fréttir af viðskiptaháttum Samskipa, t.d. frá Hollandi og víðar, benda ekki til þess að viðskiptasiðferðið hafi nokkuð skánað með árunum.
"Viðskiptajöfra" af þessari gerð kærir sig enginn um í þjóðfélaginu.
Fléttan stærri en nefndin bjóst við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.3.2017 | 19:53
Banki Vinstri grænna og vogunarsjóða
Á valdatíma Vinstri grænna í fjármálaráðuneytinu var erlendum vogunarsjóðum afhentir tveir bankar og eignarhaldið sett inn í hlutafélög sem hrægammarnir stofnuðu undir stjórn og með stuðningi Steingríms J., þáverandi fjármálaráðherra.
Þessi hlutafélög, sem alfarið eru og hafa verið í eigu vogunarsjóðanna, áttu og ráku tvo af þrem stærstu fjármálafyrirtækjum landsins allt þar til ríkisstjórn síðasta kjörtímabils tókst að neyða gammana til að afhenda ríkissjóði sem hluta af stöðugleikaframlögum Íslandsbanka að fullu og 13% hlut í Aríon banka.
Nú hefur það gerst að hluti þeirra vogunarsjóða sem eiga Arion banka að mestu leyti hafa selt sjálfum sér nokkuð stóran hluta bankans, þannig að nú teljast þeir eiga nálægt því "virkan" eignarhlut í bankanum í stað "óvirka" hlutarins sem þeir áttu áður en þeir keyptu af sjálfum sér.
Vogunarsjóðir hafa ekki gott orð á sér hér á landi, frekar en víða annarsstaðar, enda kallaðir "hrægammar" vegna eðlis síns og í tilfelli þessara "endurnýjuðu" eigenda í bankanum er einn vogunarsjóðurinn a.m.k. sem settur hefur verið í "ruslflokk" af matsfyrirtækjum vegna vafasamra viðskipta í Kongó og víðar í Afríku.+
Íslendingar hafa fyrir all nokkru sett Vinstri græna í pólitískan ruslflokk, þannig að teljast verður að nokkuð jafnt sé á komið með þessum vafasömu viðskipafélögum.
Kaupandi Arion í ruslflokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2017 | 19:19
Siðlaust þing eða þingmenn?
Á Alþingi rífast þingmenn um það hvort þingið eða einstakir þingmenn séu siðlausir vegna samþykktar samgönguáætlunar án þess að láta sér detta í hug að gera ráð fyrir þeim kostnaði á fjárlögum sem þeirri áætlun myndi fylgja.
Þessi vinnubrögð eru reyndar undarleg, þar sem stuttu fyrir samþykkt samgönguáætlunarinnar hafði verið samþykkt fjármálaáætlun til næstu ára án þess að gert væri ráð fyrir nándar nærri nógu miklum fjármunum til að hægt væri að standa við samgönguáætlunina. Til að kóróna delluna voru fjárlög samþykkt án þess að nokkur þingmaður myndi eftir, eða að minnst kosti dytti í hug að standa við, nýsamþykkta samgönguáætlun.
Ráðherrum ber að starfa eftir samþykktum Alþingis og eru fyrst og fremst bundnir af fjárlögum, enda óheimilt að veita fé úr ríkissjóði sem ekki hefur verið ráð fyrir gert við samþykkt fjárlaganna.
Þrátt fyrir þá skyldu ráherra ganga ýmsir þingmenn af göflunum þegar samgönguráðherra reynir að forgangsraða vegaframkvæmdum í samræmi við það fjármagn sem hann hefur til ráðstöfunar samkvæmt samþykktum fjárlögum.
Fjárlög eru lög og áætlanir verða að víkja, geri þingheimur ekki ráð fyrir þeim við samþykkt fjárlaganna.
Sú ályktun sem af þessu má draga er að það sé siðlaust að samþykkja útgjalda- og framkvæmdaáætlanir án þess að gera ráð fyrir tekjum til að fjármagna loforðin.
Vonandi læra þingmenn að innistæðulaus kosningaloforð og að gefa þjóðinni falskar vonir um framkvæmdir séu bæði óþolandi og siðlaus.
Óbreytt ummæli ráðherra grafalvarleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)