Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016

Hættum að tala heilbrigðiskerfið niður

Undanfarin ár hefur það nánast verið eins og "þjóðaríþróttt" að tala niður allt sem íslenskt er og látið eins og hér sé allt ómögulegt í samanburði við önnur lönd og varla búandi á Íslandi vegna skelfilegs ástands á öllum sviðum.

Ekki síst hafa opinberir starfsmenn verið iðnir við þessa íðju og ekki síst sem lið í kjarabaráttu sinni og þá hafa ekki verið spöruð stóryrðin um hve illa væri komið fyrir viðkomandi starfsemi, sem bæði væri orðin illa mönnuð, illa launuðu fólki og tækja- og húsakostur allur í rúst og í raun handónýtur.

Starfsfólk heilbrigðiskerfisins hefur yfirleitt ekki látið sitt eftir liggja í að tala niður sitt umhverfi og ekki sparað stóryrðin í því sambandi.  Þess vegna er grein þriggja hjartalækna í Mogganum í dag kærkomin tilbreyting frá niðurrifsvælinu, en greinin er birt í tilefni af fyrirhugarði einkasjúkrahússbyggingu í Mosfellsbæ, sem reyndar er ólíklegt að nokkurn tíma verði byggð miðað við þær fréttir sem birst hafa af fyrirhuguðum fjárfestum.

Í grein sinni segja læknarnir m.a:  "Síðustu ár hef­ur verið gert átak inn­an hjarta­lækn­inga í að bæta mönn­un inn­an sér­grein­ar­inn­ar. All­marg­ir yngri sér­fræðing­ar með mis­mun­andi bak­grunn og öfl­uga sérþekk­ingu hafa bæst í hóp­inn, og er mönn­un hjarta­lækna nú mjög góð. Enn frem­ur hafa hjúkr­un­ar­fræðing­ar og allt annað starfs­fólk sem hef­ur sinnt sjúk­ling­um á legu­deild­um hjarta­lækn­inga, Hjarta­gátt og hjartaþræðinga­stof­um verið ein­vala starfslið sem sam­hent vinn­ur að lausn flók­inna vanda­mála á hverj­um ein­asta degi. Sú reynsla og teym­is­nálg­un sem við það skap­ast er afar mik­il­væg. Veru­legt átak hef­ur einnig verið gert í að bæta tækja­búnað hjarta­lækn­inga, til að mynda hafa tvær nýj­ar hjartaþræðinga­stof­ur verið tekn­ar í notk­un á síðustu þrem­ur árum, og er tækja­kost­ur hjarta­deild­ar nú al­mennt mjög góður. Kann­an­ir benda til að sjúk­ling­ar séu al­mennt ánægðir með þjón­ust­una hvort sem er á Hjarta­gátt, legu­deild­um hjarta­lækn­inga eða hjartaþræðinga­deild. Er­lend­ir ferðamenn sem fá hér meðferð hafa einnig al­mennt verið mjög ánægðir með þá alúð sem þeir mæta og lækn­isþjón­ust­una sem þeir fá. Mjög góður ár­ang­ur hef­ur náðst und­an­farna mánuði í að stytta biðlista í hjartaþræðing­ar og það er lyk­il­verk­efni að fækka á löng­um biðlista eft­ir brennsluaðgerðum vegna takttrufl­ana. Á þeim vett­vangi hef­ur mikið verið lagt í að bæta mönn­un, laga aðstöðu og fá fjár­magn til að fjölga aðgerðum veru­lega. Þetta hlýt­ur að vera öll­um ánægju­efni og eru frek­ari áform um að efla þjón­ustu við hjarta­sjúk­linga á LSH."

Vonandi verður umræðan um ástandið í íslensku þjóðfélagi á þessum jákvæðu nótum í framtíðinni og við sjálf förum að meta það sem vel er gert á hverjum tíma og hættum niðurrifsstarfsseminni.  

Ætli ánægjan með lífið og tilveruna verði ekki meiri og heilsusamlegri fyrir andlegt ástand þjóðarinnar, væri umtalið um þjóðfélagsmálin sanngjarnari en hún hefur verið lengstum.


mbl.is „Gjörbreyting á íslenskri heilbrigðisþjónustu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pírati hótar valdaráni

Ásta Guðrún Helga­dótt­ir, þingmaður Pírata, hótar að hún og flokkur hennar muni standa fyrir valdaráni á Alþingi Íslendinga á næstunni, fari lýðræðislega kosinn meirihluti á þinginu ekki að þeirri kröfu að tilkynna um kjördag um leið og þingið kemur saman.

Málþóf og annað ofbeldi minnihluta þingmanna hverju sinni til að trufla og tefja störf löggjafans er algerlega óþolandi og almenningur löngu búinn að fá nóg af slíkum vinnubrögðum, enda virðing þingsins og þingmanna í algeru lágmarki meðal þjóðarinnar. Þingmenn geta engum um það kennt nema sjálfum sér og eigin framkomu og vinnubrögðum.

Samkvæmt viðhangandi frétt mun Ásta Guðrún hafa skrifað á Facebooksíðu sína eftirfarandi: "Það er al­veg kýr­skýrt af hverju það þarf að boða til kosn­inga og það er vegna þess að fólk er komið með nóg af mik­il­mennsku­brjálæði, lög­leysi og siðleysi stjórn­mála­manna. Þetta er kúltúr sem við erum að reyna að upp­ræta. Það er ekki leng­ur hægt að kom­ast upp með allt og halda áfram eins og ekk­ert sé. Stund­um þarf að taka af­leiðing­um gjörða sinna."

Skrif hennar eiga mæta vel við hennar eigin siðleysi og mikilmennskubrjálæði og lýsir ekki síður vinnubrögðum minnihlutans á þingi en vinnubrögðum þeirra sem hún þykist vera að gagnrýna.

Ástandið á þinginu og jafnvel þjóðfélaginu öllu væri mun skárra ef þingmenn tækju meira mark á sjálfum sér og sýndu öðrum með því gott fordæmi í frmkomu og vinnubrögðum.

Umræðu"menning" á samfélagsmiðlunum og annarsstaðar þyrfti á slíkri fyrirmynd að halda.


mbl.is Hótar því að öll mál verði stöðvuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrun ferðamennskunnar upphaf að allsherjarupplausn í Tyrklandi?

Hryðjuverkahrinan, sem gengið hefur yfir Tyrkland undanfarin misseri hefur orðið til þess að hrun blasir við ferðamannaiðnaðinum þar í landi og enn syrti í álinn við valdaránstilraunina einkennilegu í síðustu viku.

Erdogan, forseti Tyrklands, og pótintátar hans virðast hafa verið iðnir við persónunjósnir um þegnana fyrir þessa valdaránstilraun og hafa þeir kumpánar brugðist við með því að handtaka þúsundir manna úr hernum, dómara, saksóknara, kennara ásamt því að reka tugþúsundir opinberra starfsmanna fyrirvaralaust úr störfum sínum.

Fordæmið frá Írak ætti að hræða, en einmitt svipaðar aðgerðir gegn stuðningsmönnum Saddams Hussein eru, a.m.k. að hluta til, talin hafa ýtt undir ógnaröldina sem þar hefur ríkt og ekki hafi upplausnin í stjórnkerfinu við fjöldauppsagnirnar bætt úr skák í þeim efnum.

Ekki er ólíklegt að hefndarþorsti Erdogans, eða jafnvel sviðsetning hans sjálfs á hinu misheppnaða "valdaráni" muni leiða til óaldar og jafnvel aukinna hryðjuverka í Tyrklandi, sem Erdogan og félagar munu svo stigmagna með enn hertum aðgerðum gegn almenningi og ekki síður Kúrdum og öðrum minnihlutahópum í landinu.

Til viðbótar gæti hreinlega farið svo að Daesh, eða svokallað Ríki Islams, hrektist undan herjum Íraks og Sýrlands og stuðningsþjóða þeirra inn í Tyrkland og þar með næðu vandamál Evrópu vegna flóttafólks nýjum hæðum og yrðu líklega algerlega stjórnlaus.

Ekkert í þessari atburðarás í Tyrklandi fram til þessa eykur neina bjarsýni á framtíðina, hvorki fyrir mið-austurlönd né Evrópu.


mbl.is Rothögg fyrir túrismann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg viðbrögð við enn furðulegra "valdaráni" í Tyrklandi

Fyrir nokkrum dögum var gerð tilraun til valdaráns í Tyrklandi og lítur út fyrir að hluti hersins hafi ætlað að taka völdin og koma í veg fyrir að Erdogan forseta tækist að gera sjálfan sig að einræðisherra landsins.

"Valdaránið" var svo illa skipulagt að Erdogan þurfti ekki annað en að skora á stuðningsmenn sína að flykkjast út á götur Istanbul og kveða þannig "valdaránið" niður og tóku margir stuðningsmanna hans ákalli hans svo alvarlega að "uppreisnarmenn" voru drepnir í þó nokkrum tilfellum á hrottalegan hátt án dóms og laga.

Miðað við viðbrögð Erdogans virðast þúsundir manna í hernum og opinberum störfum hafa tekið sig saman um að gera byltingu í landinu og tekist að fara svo hljótt með málið að hvorki leyniþjónusta Erdogans né nokkur önnur í veröldinni höfðu nokkurn pata af málinu, enda kom það öllum heiminum gjörsamlega á óvart.

Líklegasta skýringin á þessu "valdaráni" er að Erdogan hafi sjálfur staðið á bak við allt saman og eina raunverulega valdaránið sé einmitt að eiga sér stað þessa dagana á meðan Erdogan er að festa sjálfan sig í sessi sem einræðisherra Tyrklands og ekki lofa fyrstu dagarnir góðu um framhald þess stjórnarfars sem virðist í uppsiglingu í landinu.

Öll viðbrögð Erdogans og hans manna við "valdaráninu" virðast hafa verið undirbúin löngu áður en tilraunin til "valdaránsins" var gerð, enda öll viðbrögð við því vandlega undirbúin og listar tilbúnir yfir þúsundir manna, jafnvel tugþúsundir, sem handteknir hafa verið og ásakaðir um andstöðu við einræðisherrann væntanlega.

Tyrkland virðist vera á leið til borgarastyrjaldar og lenda í flokki með Írak og Sýrlandi og er sú framtýðarsýn eins og algjör martröð fyrir vestræna leiðtoga, sem ekki hafa þorað annað en sitja og standa eftir duttlungum Erdogans fram að þessu.

Ef til vill endurskoða fljótlega einhverjir þeirra þessa vægast sagt illa grunduðu eftirlátssemi við Erdogan undanfarin ár.


mbl.is 103 hershöfðingjar handteknir eftir valdaránstilraunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bálreiður Gylfi bregður brandi

Gylfi Arbjörnsson, formaður Alþýðusambands Íslands, segir allt fara í bál og brand í þjóðfélaginu setji ríkisstjórnin ekki lög umsvifalaust til að afturkalla launahækkanir sem kjararáð skammtaði ríkisforstjórum og fleiru hálaunafólki í störfum fyrir ríkisbáknið.

Kjararáð segist vera að endurmeta laun þessara aðila með tilliti til áður framkominna launahækkana annarra í þjóðfélaginu og með tilliti til þreytu þessara starfsmanna þegar þeir loksins komast heim til sín algerlega úrvinda í lok vinnudags.

Í hvert sinn sem kjararáð sendir frá sér nýja úrskurði byrjar sami söngurinn í forystusauðum stéttarfélaganna, þ.e. að úrskurðirnir séu algerlega úr takti við allt sem sé og hafi verið að gerast á vinnumarkaði undanfarna mánuði og ár.  Á sama hátt er skýring kjararáðs alltaf sú að ráðið hafi einmitt verið að taka mið af kjarasamningum undanfarinna mánaða að teknu tilliti til þessa eða hins sem hafi breyst embættismönnunum í óhag síðan síðasti úrskurður hafi verið kveðinn upp.

Almenningur verður alltaf jafn bálreiður og Gylfi og aðrir launþegaforingjar og yfirleitt er erfitt að sjá hvorir eru fljótari að gleyma öllu saman, slökkva bálin innra með sér og slíðra brandana.

Núna eru liðnir tveir eða þrír dagar frá því að úrskurður kjararáðs var kveðinn upp og flestir búnir að jafna sig á reiðikastinu og hinir verða nokkuð örugglega búnir að gleyma öllu saman strax eftir helgina, a.m.k. ef veðrið helst sæmilegt.


mbl.is Allt fari í bál og brand
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband