Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

"Snjallt útspil" eða örvænting?

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, er venjulega ekki spar á yfirlýsingar varðandi stjórnmálin og fer aldrei í launkofa með vonir sínar og þrár um velferð vinstri flokkanna á Alþingi.

Nú segir hann að það sé snjallt útspil af forsetanum að veita engum sérstökum formlegt umboð til ríkisstjórnarmyndunar, eftir að tvær tilraunir til stjórnarmyndunar hafa runnið út í sandinn á undanförnum mánuði.

Það er hins vegar spurning hversu snjallt þetta er hjá forsetanum og jafnvel líklegra að örvænting ráði för, enda ekkert sem bendir til þess að samkomulag um ríkisstjórnarmyndun sé innan seilingar alveg á næstunni.

Engin starfshæf ríkisstjórn verður mynduð í landinu án Sjálfstæðisflokksins og án þess að VG sé yfirleitt góður kostur til ríkisstjórnarmyndunar er útlit fyrir að ekki verði hjá því komist að þessir tveir flokkar komi sér saman um samstarf að þessu sinni og þá með aðkomu Bjartrar framtíðar.  Til þess að svo geti orðið verður  BF að slíta sig frá þeim dularfullu fjötrum sem flokkurinn hefur flækt sig í með Viðreisnarklofningnum.

Trúlega mun það dragast í einhverjar vikur að meirihlutastjórn verði mynduð og á meðan mun minnihlutastjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks væntanlega sitja og mun fljótlega kalla saman þing og leggja fram fjárlög, eins og lög gera ráð fyrir.

Afgreiðsla fjárlagafrumvarpsins gæti leitt til meirihlutamyndunar sem tæki svo í framhaldi við völdunum af minnihlutastjórninni.


mbl.is „Snjallt útspil hjá forsetanum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni og Katrín hljóta að enda saman í ríkisstjórn

Eins og búast mátti við sleit Bjarni Benediktsson stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í dag, enda aldrei grundvöllur fyrir slíka stjórn.  

Augljósasta ástæðan er auðvitað að slík ríkisstjórn hefði aðeins haft eins manns meirihluta á þingi og það er algerlega óásættanleg aðstaða fyrir þriggja flokka stjórn ólíkra flokka með ólíkar stefnuskrár og áherslur í flestum mikilvægum málum.

Líklega felur forsetinn Katrínu Jakobsdóttur næst að reyna stjórnarmyndun, en engum heilvita manni getur dottið í hug að raunhæft sé að mynda ríkisstjórn, sem ætti líf sitt undir fimm smáflokkum með fjöldann allan af "villiköttum" innanborðs.  Ekki má heldur gleyma því að allt sem slíkri ríkisstjórn dytti í hug að leggja fyrir Alþingi þyrfti að fara í gegn um tölvuspjallkerfi Pírata sem bæði er seinvirkt og óútreiknanlegt um niðurstöður.

Eina raunhæfa leiðin til að mynda sæmilega starfhæfa ríkisstjórn í landinu er að Sjálfstæðisflokkur, Vinstri grænir og Björt framtíð brjóti odd af oflæti sínu og komist að viðunandi stjórnarsáttmála sem dygði til að hægt yrði að stjórna með sæmilegum friði í landinu á næstu árum, eða a.m.k. fram á vorið.

Lítill tími er til stefnu til að koma slíkri ríkisstjórn á koppinn því fjárlög verður að leggja fyrir þingið og samþykkja fyrir áramót ásamt fleiri stórum málum eins og samræmingu lífeyrisréttinda, sem ku vera grundvallarmál ef ekki á allt að sjóða upp úr á vinnumarkaði með vorinu.

Vonandi eyðir Katrín ekki löngum tíma í drauminn um fimm flokka vinstri stjórn, enda óraunhæf hugmynd og þjóðarhagur og lífskjör þjóðarinnar eiga ekki að vera lögð undir í pólitískum hráskinnaleik.


mbl.is Katrín og Bjarni ræddu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð frétt sem fellur í skuggann af pólitíkinni

Fréttamiðlar eru uppfullir af frásögnum af kosningaúrslitum og ber auðvitað hæst niðurstaða forsetakosninganna í Bandaríkjunum og hvernig í ósköpunum stóð á því að ekki skyldi nógu stór hluti kjósenda taka mark á skoðanakönnunum og greiða atkvæði samkvæmt þeim.

Til viðbótar umfjöllunum um Trump og ótrúlegan kosningasigur hans eru innlendir miðlar uppteknir af tilraunum til stjórnarmyndunar og hvort mögulegt sé að einhver geti unnið með öðrum og hverjir það ættu þá að vera.  Ekki er víst að niðurstaða fáist í þau mál fyrr en að mörgum vikum liðnum, ef marka má þær yfirlýsingar sem stjórnmálamennirnir keppast um að senda frá sér um aðra flokka en sína eigin.

Í öllu þessu stjórnmálafári liggur við að fréttir af miklu merkilegri málum en hver gegnir hvaða embætti næstu árin falli í skuggann og vekji litla sem enga athygli.  Dæmi um slík stórtíðindi er viðhangandi frétt um að tekist hafi að endurvekja hreyfingu í útlimum lamaðra apa með rafrænum boðum frá heila með ígræddum tölvukubbi.

Takist að þróa þessa tækni svo hún verði nothæf í fólki er hér um stórkostleg tíðindi að ræða fyrir alla sem við lömun og taugaskaða hafa þurft að glíma, eða eins og segir í lok fréttarinnar:  "„Núna get ég í fyrsta sinn ímyndað mér að lamaður sjúk­ling­ur geti hreyft fót­legg­ina sína í gegn­um þetta sam­spil heil­ans og mæn­unn­ar,“ sagði Jocelyne Bloch, tauga­sk­urðlækn­ir við há­skól­ann í Laus­anne."


mbl.is Lamaðir apar gátu hreyft sig á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegur kosningasigur Trumps

Sá sem hér skrifar hefði ekki kosið Trump hefði hann haft rétt til að taka þátt í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og átti alls ekki von á því að hann myndi standa þar uppi sem sigurvegari, enda bentu skoðanakannanir til þess að hann ætti litla von í þeirri baráttu og tap hans yrði afgerandi.

Framkoma hans og ýmsar yfirlýsingar í kosningabaráttunni gengu gjörsamlega fram af fólki og lýstu þær margar ruddaskap í garð kvenna, ólöglegra innflytjenda, ýmissa trúarhópa og ekki síst "kerfisins", sem hann lagði mikla áherslu á að hefði brugðist verkafólki í iðnaði með auknu atvinnuleysi og fjárhagsvandræðum.  Ekki síður hefði staða millistéttarinnar í landinu versnað undanfarin ár og lofaði Trump nánast byltingu í opinberri stjórnsýslu til að endurreisa landið og gera það sterkt á nýjan leik.

Allir helstu skemmtikraftar Bandaríkjanna tóku stöðu með Hillary Clinton og komu fram á kosningafundum henni til stuðnings, helstu spallþáttastjórnendur í sjónvarpi börðust gegn Trump og spöruðu ekki stóryrðin og virtust þeir keppa um hver gæti verið andstyggilegastur í háðinu og svívirðingunum um persónu hans og allt sem honum viðkom.

Ennfremur sneru flestir framámenn í Rebúblikanaflokknum við honum baki og neituðu að styðja hann og var jafnvel sagt að fyrrverandi forsetar flokksins hefðu kosið Hillary eða skilað auðu.  Trump rak örsmáa kosningamaskínu í samanburði við Hillary, sem hafði yfir að ráða gríðarlegu kosningabatteríi og eyddi tugum milljónum dollara meira í sína baráttu en Trump gerði.

Að teknu tilliti til alls þess sem á gekk í þessari löngu og miskunnarlausu kosningabaráttu verður ekki annað sagt en að Donald Trump hafi unnið ótrúlegan kosningasigur og svo verður fróðlegt að fylgjast með því í framhaldinu hvernig forseti þessi kjafthákur verður á komandi árum.

 


mbl.is 42% kvenna kusu Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Björt viðreisn" segir sjóræningjadrottningin

Birgitta Jónsdóttir, sjóræningjadrottning, lét athyglisverð ummæli falla eftir fund með Bjarna Benediktssyni, en fundurinn átti að snúast um málefni varðandi ríkisstjórnarmyndun en ku einungis hafa verið spjall um daginn og veginn.

Það sem eina sem var athyglisvert við ummæli hennar eftir fundinn var þetta:  "Þetta kem­ur mér alls ekki á óvart, ein­fald­lega vegna þess að Heiða Krist­ín [Helga­dótt­ir], sem var fram­kvæmda­stjóri Bjartr­ar framtíðar, starfar nú fyr­ir Viðreisn og það hef­ur verið tölu­verður sam­gang­ur þarna á milli."

Þessu svaraði hún þegar hún var spurð hvort ekki væri undarlegtr að þessir tveir flokkar hefðu spyrt sig algerlega saman eftir kosningar og kæmu nú fram sem einn flokkur en ekki tveir.

Óljóst er hvort Heiða Kristín (Helgadóttir) hefur einfaldlega verið send út af örkinni til þess að vinna að stofnun útibús fyrir Bjarta framtíð og útibúið sé einungis kallað Viðreisn og sá flokkur sé einfaldlega afsprengi móðurflokksins, en í felulitum.


mbl.is „Er þetta Björt Viðreisn?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESBsinnar hætti blekkingum um "pakkaskoðun"

Áhugasamir stjórnmálamenn úr nokkrum stjórnmálaflokkum hafa lengi haldið því að þjóðinni að hægt sé að sækja um aðild að ESB eingöngu til að fá að "kíkja í pakkann" og athuga hvað í honum sé.  

Jafnvel vinstri grænir eru farnir að taka þátt í leiknum í von um að hann gæti opnað þeim leið inn í ríkisstjórn í annað sinn með með sömu blekkingunum og þeir gerðu við stofnun hinnar fyrstu "tæru vinstri stjórnar" með Samfylkingunni.

Oft hefur verið upplýst að ESB tekur ekki þátt í neinum blekkingarleik með pakka til að skoða ofaní, heldur snúist allt viðræðuferlið um hve hratt og vel innlimunarríkið taki upp lög og regluverk stórríkisins væntanlega.

Vegna áróðurs ESBsinna um "pakkaskoðunina" sendi Sr. Svavar Alferð Jónsson fyrirspurn til ESB um þessi mál og svarið var algerlega skýrt og skorinort, eins og sjá má af þessum hluta þess:  "Regl­ur Evr­ópu­sam­bands­ins sem slík­ar (einnig þekkt­ar sem acquis) eru óumsemj­an­leg­ar; þær verður að lög­leiða og inn­leiða af um­sókn­ar­rík­inu. Inn­göngu­viðræður snú­ast í raun um það að samþykkja hvenær og með hvaða hætti um­sókn­ar­ríkið tek­ur upp og inn­leiðir með ár­ang­urs­rík­um hætti allt reglu­verk ESB og stefn­ur. Inn­göngu­viðræður snú­ast um skil­yrði og tíma­setn­ingu upp­töku, inn­leiðing­ar og fram­kvæmd­ar gild­andi laga og reglna ESB."

Hvenær skyldu innlimunarsinnarnir fara að ræða málið út frá staðreyndum og sleppa blekkingunum?


mbl.is Reglur ESB „óumsemjanlegar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband