Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

Fjölmiðlar í hlutverki "lobbyista"

Erlendis tíðkast víða að þinghús séu nánast umsetin af svokölluðum "lobbyistum" sem sitja um þingmenn og reyna með því móti að hafa áhrif á lagasetningu og fjárframlög í þágu viðskipavina sinna.  

Sumsstaðar, t.d. í Bandaríkjunum, reka þessir "lobbyistar" stórar skrifstofur með fjölda starfsmanna sem taka að sér að reka áróður fyrir fyrirtæki og stofnanir ásamt því að pressa á þingmenn í þágu þessara viðskiptavina sinna, sem oft á tíðum þurfa að greiða stórfé fyrir þjónustuna.  Allt fer það eftir því fyrir hve miklum hagsmunum er unnið.

Hér á landi þrífast "lobbyistar" ekki enda hafa fjölmiðlarnir tekið að sér hlutverk þeirra og þurfa stjórnendur stofana, fyrirtækja og samtaka ekki annað en skrifa tölvupóst til starfsamanna sinna, færslu á fésbókarsíðu eða skrifa innanhúsfréttabréf með "vælum og skælum" um lélega fjárhagsstöðu til þess að fjölmiðlarnir rjúki upp til þjónustu við viðkomandi og kröfurnar sem fram eru settar.

Seinni helmingur hvers einasta árs fer meira og minna í þennan "lobbyisma" fjölmiðlanna og þarf engan að undra þó þingmönnum finnist þessi stöðuga áníðsla líkust andlegu ofbeldi, enda skilja allir og  sjá að svona endalaus átroðningur hlýtur að vera óskaplega þreytandi fyrir utan leiðindin sem hann skapar.

Leiðindin og þreytan vegna þessara margra mánaða árlegu "frétta" af fjárhagsstöðu og þörfum þeirra sem herja á ríkissjóð um framlög bitna ekki eingöngu á þinmönnunum, heldur og ekki síður notendum fjölmiðlanna, sem löngu eru búnir að fá sig fullsadda af þessum "ekkifréttum".


mbl.is Líkir gagnrýni við andlegt ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandóðir bandamenn Íslendinga

Allt bendir til þess að Tyrkir hafi vísvitandi skotið niður sprengjuþotu Rússa til að "mótmæla" loftárásum þeirra á Túrkmena í Sýrlandi, en þeir virðast vera litlu minni glæpalýður en Daesh-morðhundarnir.

Tyrkir halda því fram að sendar hafi verið tíu aðvaranir til rússnesku þotuflugmannanna á fimm mínútum, hvernig sem það gengur upp miðað við að Tyrkir sjálfir segja að þotan hafi verið allt að sautján sekúndur innan lofthelgi Tyrklands.  

Tyrknesku árásarvélarnar hafa því þurft að elta þá rússnesku góðan spöl inn í Sýrland til þess að ná að skjóta hana niður.  Túrkmenarnir, sem Tyrkir þykjast vera að vernda, gortuðu síðan af því að hafa drepið báða rússnesku flugmennina með því að skjóta þá svífandi til jarðar í fallhlífum sínum eftir að hafa "bjargast" úr hrapandi flugvélinni.

Þrátt fyrir að Túrkmenarnir hafi verið að mikla sig af morðum beggja flugmannanna hefur nú komið í ljós að Rússum tókst að bjarga öðrum þeirra í frækilegum björgunarleiðangri inn á svæði glæpahyskisins og getur hann því vitnað um glæpi Tyrkja og hundingja þeirra.

Í framhaldi þessara atburða er skömm NATO mikil, en ráðamenn þess hafa lýst stuðningi við gerðir Tyrkjanna og hefur ekki dottið í hug að biðjast afsökunar fyrir hönd þessa lítilsiglda aðildarríkis.   Ekki hafa þessir herrar heldur fordæmt níðingsverk Túrkmenanna sem myrtu varnarlausan flugmanninn í tilrauninni til að bjarga lífi sínu eftir ruddaverk Tyrkjanna. 

Íslendingar hljóta að senda samúðarkveðjur til rússnesku þjóðarinnar vegna þessa óþurftarverks ásamt fordæmingu á framgöngu samherja síns í NATO.


mbl.is Loftárásir við landamæri Tyrklands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna forsprakkarnir að skammast sín?

Ótrúleg múgæsing greip um sig í þjóðfélaginu í gær eftir að auglýsingasnepillinn, sem kallar sig "Fréttablaðið", spann upp æsingafrétt um meinta nauðgun og hreinlega laug því að annar hinna ákærðu í málinu byggi í íbúð sem "útbúin væri til nauðgana".

Það er ekki nýtt að þessi umræddi snepill og fleiri óvandaðir fjölmiðlar birti fréttir af þessum toga til að vekja á sér athygli, en það furðulega gerðist að ótrúlegasta fólk gekk af göflunum vegna málsins og hreinlega tók hina ákærðu og alla þeirra aðstandendur nánast af lífi án dóms og laga, eins og raunar er vani dómstóls götunnar.  

Viðbjóðurinn sem gekk um samfélagsmiðlana, jafnvel með myndbirtingum og hótunum allskonar, er ótrúlegur og gekk óþverrahátturinn svo langt að boðað var til útifundar við lögreglustöðina við Hlemm þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir hinum grunuðu, án þess að mannsöfnuðurinn hefði nokkrar sannanir eða annað en slúður og kjaftasögur til réttlætingar gerðum sínum.  

Fréttastofur sjónvarpsstöðvanna, sem vilja láta taka sig alvarlega, tóku fullan þátt í uppþotinu með því að birta viðtöl við forsprakka uppþotsins án þess að sýna nokkurn skilning á þeim óhæfuverkum sem þetta lið átti upptök að og æsti til.

Svokallað "Fréttablað" hefur ekki séð sóma sinn í að biðjast afsökunar á sínum þætti þessa hneykslis og varla er að vænta að flestir þeirra sem verst létu geri það heldur. 

Svona óþverraháttur er öllum sem að komu á einhvern hátt til ævarandi skammar og vonandi læra þeir að hugsa áður en þeir framkvæma næst þegar reynt verður að kalla saman dómstól götunnar.


mbl.is „þu munt missa útlimi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband