Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Skógrækt er til mikils skaða sumsstaðar

Gífurlegt átak hefur verið gert í skógrækt hringinn í kringum landið undanfarin ár, ekki síst með svokölluðum "bændaskógum" sem ríkið styrkir og ætlaðir eru til atvinnusköpunar í sveitum landsins.

Þetta er að mörgu leyti ágætis mál, en víða er þessi skógrækt til mikillar óþurftar og jafnvel stórskaða vegna þess landslags sem hún er að kæfa og a.m.k. fela algerlega fyrir þeim sem leið eiga um landið og vilja njóta þeirrar náttúrufegurðar sem ómengað landið hefur upp á að bjóða.

Nægir að benda á Borgarfjörðinn og Fljótsdalshérað, svo aðeins tvö landssvæði séu nefnd sem dæmi um svæði þar sem verið er að fela undurfagrar klettaborgir bak við grenitré sem verða tuga metra há og munu innan fárra ára hverfa algerlega sjónum þeirra sem um landið ferðast.

Flestir þekkja hve leiðigjarnt er að aka um víða erlendis og hafa á tilfinningunni að sífellt sé verið að fara fram hjá sama trénu, jafnvel klukkutímum saman. Bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn vilja ferðast um Ísland án þess að stara endalaust á tré sem byrgja allt útsýni.

Þessa þróun verður að stöðva nú þegar, enda verður það bæði dýrt og fyrirhafnarmikið þegar skaðinn verður endanlega orðinn nánast óviðráðandi.


mbl.is Skógur skyggir á Skógafoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formannsstyrjöld framundan hjá Samfylkingunni

Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar hefur ákveðið að landsfundur flokksins skuli fram fara 1.-3. febrúar n.k., enda verða þingkosningar í síðasta lagi í apríl 2013.

Nokkra athygli vekur að Samfylkingin skuli ákveða dagsetningu landsfundar áður en Sjálfstæðisflokkurinn ákveður dagsetningar síns landsfundar, enda hefur Samfylkingin haldið sína landsfundi á sömu dögum undanfarin ár, til þess að reyna að draga úr þeirri athygli sem stærsti flokkur þjóðarinnar fær jafnan fyrir og eftir sín landsþing.

Næsta vetur munu þingstörfin einkennast af kosningaloforðum og öðru glamri flokkanna, sérstaklega stjórnarflokkanna og ekki mun baráttan um formennsku í Samfylkingunni setja svip sinn á stjórnmálin, en nokkrir kandidatar munu þar berast á banaspjót og beita öllum ráðum til að ná að verma þann stól næstu árin, þrátt fyrir að engar líkur verið á að Samfylkingin verði í ríkisstjórn lengur en fram á næsta vor.

Nokkuð margir munu telja sjálfa sig hæfasta til að leiða þennan einsmálsflokk á ESBeyðimerkurgöngunni miklu, en fáir utan Samfylkingarinnar munu láta sig það nokkru skipta hver gegnir hvaða hlutverki í flokknum í framtíðinni, frekar en að fólk hafi látið sig það nokkru skipta til þessa að öðru leyti en því að bíða betri tíma og þreyja þorrann þar til landinn losnar undan þeirri áþján að búa við núverandi ríkisstjórn.

Eftir sem áður verður bara gaman að fylgjast með þeirri upplausn í flokknum, sem óhjákvæmilega mun fylgja styrjöldinni um formannsembættið í Samfylkingunni.


mbl.is Landsfundurinn í byrjun febrúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að finna sjálfan sig

Leitarflokkar voru kallaðir út til að leita að asískri konu sem álitinn var týnd og tröllum gefin eftir að hún hafði skipt um föt og greitt sér á einum áfangastað ferðar sinnar í skipulagðri hópferð um landið.

Konan tók samviskusamlega þátt í leitinni að sjálfri sér, án þess þó að gera sér nokkra grein fyrir því að vera sjálf sú sem leitað var að og ekki virðast aðrir hafa vitað það heldur, hvorki samferðamenn hennar, fararstjóri, bílstjóri eða hjálparsveitirnar sem kallaðar voru út til leitarinnar.

Sem betur fer fann blessuð konan sjálfa sig að lokum og er það meira en hægt er að segja um margan annan, sem leitar að sjálfum sér allt sitt líf án þess að finna nokkurn tíma nokkuð bitastætt.

Í fæstum tilfellum þarf þó að kalla út hjálparsveitir til að hjálpa fólki að finna sjálft sig.


mbl.is Tók þátt í leitinni að sjálfri sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega glæsilegt sjónarspil

Með því að fylgjast með flugeldasýningunni við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi í gegnum vefmyndavél Mílu, fékk maður í raun aðeins reykinn af réttunum en gat þó vel gert sér í hugarlund hvílíkt sjónarspil þessi sýning hefur verið.í

Varla er hægt að bjóða upp á aðra eins sýningu annarsstaðar á hnettinum, því svo einstakt og glæsilegur er staðurinn sem sjónarspilið fer fram á. Flugeldasýningin var hreint út sagt stórkostleg og stóð í fullan hálftíma og vel hægt að ímynda sér hvernig áhorfendum á staðnum hefur liðið við að fylgjast með þeirri einstöku upplifun sem þessi ljósasýning hefur verið.

Óhætt er að óska öllum aðstandendum til hamingju með afrekið og eins gott að taka daginn frá á næsta ári og reyna að vera á staðnum til að fylgjast með einhverri stórkostlegustu flugeldasýningu sem hægt er að hugsa sér.


mbl.is Flugeldasýning í beinni útsendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski hefur Steingrímur J. líka lært eitthvað

Steingrímur J. segir að lykilatriðið í björgun efnahagslífsins á Íslandi eftir bankahrunið 2008 hafi verið snögg viðbrögð ríkisstjórnar Geirs H. Haarde með setningu Neyðarlaganna og skiptingu bankakerfisins upp í "nýja" banka og "gamla".

Í grein sinni í Financial Times segir Steingrímur m.a: "Á Íslandi hafi innistæðutryggingakerfið verið sambærilegt við önnur Evrópulönd og reynst lítilmegnugt við hrun bankakerfisins. Alþingi hafi með setningu neyðarlaganna veitt innistæðueigendum forgang yfir aðra kröfuhafa og það hafi reynst lykilatriði til að komast út úr kreppunni. Neyðarlögin tryggi að allir kröfum allra innistæðueigenda hafi verið eða verði mætt að fullu, umfram lágmarkið sem Evrópusambandið setur."

Steingrímur J. gerði allt sem í hans valdi stóð á fyrstu mánuðum valdatíma síns í ríkisstjórn til að gera lítið úr Neyðarlögunum og jafnvel að eyðileggja tilgang þeirra, t.d. með hinum ömurlega Svavarssamningi um Icesave, en til allrar lukku tókst almenningi að koma í veg fyrir þær áætlanir í tvennum þjóðaratkvæðagreiðslum.

Eins og sjá má af grein Steingríms J. virðist hann sjálfur hafa lært heilmikið af aðgerðum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, eigin mistökum og forsögn íslensku þjóðarinnar varðandi Icesave.  Nú ráðleggur hann öðrum Evrópuþjóðum að læra af aðgerðum Geirs og hans samstarfsfólks frá árinu 2008.

Batnandi manni er best að lifa, segir gamalt máltæki og á það vel við nú sem áður. 


mbl.is Evrópa geti lært af Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðing bankanna hin síðari

Árum saman hefur ákveðinn hópur verið hávær um að rannsaka þyrfti einkavæðingu bankanna og er þá átt við sölu Búnaðar- og Landsbankans á sínum tíma.

Eftir að Steingrímur J. og samstarfsfólk hans í "norrænu velferðarstjórninni" einkavæddu ríkisbankana sem stofnaðir voru með Neyðarlögunum, ríkisvæðingu SpKef og ríkis- og síðar einkavæðingu Sjóvár hafa kröfur orðið æ háværari um að allan þann dularfulla feril þurfi að rannsaka gaumgæfilega og upplýsa almenning um sannleika þeirra mála allra.

Þá hefur brugðið svo við að allar raddir um rannsókn á fyrri einkavæðingunni hafa hljóðnað og um leið taka þeir sem rannsaka hafa viljað einkavæðinguna fyrri alls ekki undir neinar kröfur um rannsókn einkavæðinganna hinna síðari og verður það að teljast hið einkennilegasta mál.

Er ekki tímabært að setja á fót alvöru rannsókn á öllum þessum bankamálum og draga ekkert undan í því efni og alls ekki vegna þeirra síðari, enda leggur fnykinn af þeim gjörningi langar leiðir og greinilegt að þar hefur verið ótrúlega illa og einkennilega að verki staðið.


mbl.is Fóru ekki eftir neyðarlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin og Rothschild lávarður

Forystumenn Samfylkingarinnar sjá ekki nokkra ástæðu til að endurmeta innlimunaráformin í ESB og upptöku evru sem gjaldmiðils, þrátt fyrir vaxandi erfiðleika innan sambandsins og þá alveg sérstaklega meðal evruríkjanna.  Þessi alvarlegi efnahagsvandi hefur leitt til vaxandi umræðns í Evrópu um ennþá nánari samruna ríkjanna með harðri fjárhagslegri fjarstýringu landanna frá Brussel og þrátt fyrir þá umræðu sjá Samfylkingarforkólfarnir enga ástæðu til að staldra við og endurmeta innlimunarferlið.

Því vekur sérstaka athygli og áhyggjur í Evrópu að málsmetandi fjármálajöfur skuli vera búinn að missa trú á evrunni sem gjaldmiðli, eða eins og segir í upphafi viðhangandi fréttar:  "Rothschild lávarður hefur ákveðið að taka stöðu gegn evrunni upp á 130 milljónir punda samhliða vaxandi áhyggjum af því að evrusvæðið eigi eftir að liðast í sundur."

Nýlega sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra, sem vonast eftir að ná formannssæti í flokknum fljótlega að ekkert gæti leyst efnahagsvanda Íslendinga endanlega nema innlimun í ESB og upptaka evrunnar sem gjaldmiðils í stað krónunnar.

Nú er að sjá hvor er gleggri efnahagssérfræðingur, Rothschild lávarður eða Árni Páll og reyndar aðrir "sérfræðingar" Samfylkingarinnar. 


mbl.is Tekur stöðu gegn evrunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkiskaup stunda lögbrot

Upp er að komast að Ríkiskaup hafa stundað lögbrot á annað ár í sambandi við kaup á flugfarmiðum fyrir ríkisstarfsmenn, en heildarupphæð viðskiptanna mun nema um 800-1000 milljónum króna á ári.

Samkvæmt niðurstöðum útboðs frá í mars í fyrra átti Iceland Express lægsta boð í flutning ríkisstarfsmanna til og frá landinu, en starfsmenn ríkisins eru greinilega mikið á faraldsfæti, eins og ársupphæð viðskiptanna sýnir glögglega. Þrátt fyrir að IE hafi verið með mun hagstæðara tilboð virðast Ríkiskaup eftir sem áður leyfa ríkisstarfsmönnum að kaupa mun dýrari farseðla og þar ræður einfaldlega punktakerfi Icelandair, en starfsmennirnir drýgja eigin tekjur með því að fá punktana á sinn reikning, þrátt fyrir að ríkið greiði ferðakostnaðinn.

Þetta er auðvitað fáheyrð framkoma af hálfu Ríkiskaupa og reyndar ríkisferðalanganna, að látið sé viðgangast að ríkissjóður sé látinn punga út tugum eða hundruðum milljóna króna að óþörfu, eingöngu til þess að ríkisstarfsmenn hygli sjálfum sér á kostnað ríkissjóðs.

Spurning hlýtur að vakna um hvort ríkisstarfsmenn stundi viðlíka eiginhagsmunagæslu við önnur innkaup fyrir ríkissjóð og stofnanir hans.


mbl.is Brotið á Iceland Express
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordómafullur Hörður Torfason

Samtökin 78 veittu þeim aðilum sem að þeirra mati höfðu skarað fram úr á síðast liðnu ári varðandi kynningu á málefnum samkynhneygðra og transfólks og fékk mbl.is-sjónvarp ein þessara verðlauna vegna vandaðra kynningarmynda sem birtar voru á vef mbl.is.

Þessi verðlaunaveiting fór algerlega fyrir brjóstið á Herði Torfasyni, söngvaskáldi, sem hefur gefið sig út fyrir að vera mikill baráttumaður gegn hvers kyns fordómum og mannréttindabrotum og sagði að þessi verðlaunaveiting væri algert hneyksli vegna þess að mbl.is væri hluti af ritstjórn Davíðs Oddssonar á Morgunblaðinu og tengdist þar með Sjálfstæðisflokknum.

Eins og kunnugt er hatar Hörður Torfason ekkert meira en frjálslyndar stjórnmálaskoðanir og fellur því sjálfur í þá fordómagryfju sem hann segist hafa helgað líf sitt til að berjast gegn.

Samtökin 78, sem Hörður Torfason stóð að því að stofna á sínum tíma, hafa sent frá sér yfirlýsingu með hörðum mótmælum við þessum fordómafullu skoðunum Harðar og benda á að réttindabarátta þeirra snúist ekki um flokkapólitík, heldur mannréttindabaráttu og að ekki skipti máli hvaðan gott komi í þeim efnum.

Hörður Torfason verður að láta af fordómum sínum, eða a.m.k. að læra að hemja þá, eins og hann ætlast til að aðrir geri.


mbl.is Standa við mannréttindaverðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlilegt eða arfavitlaust?

Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður VG og formaður utanríkismálanefndar, hefur alla tíð verið ákaflega meðmæltur innlimun Íslands í ESBstórríkið, væntanlega, og aldrei látið á sér bilbug finna á þeirri vegferð. Þar til núna þegar styttast fer í kosningar og hann er farinn að finna fyrir eldinum sem brennur innan VG vegna svika flokksforystunnar í andstöðu við málið.

Allt í einu snýr Árni Þór við blaðinu og segir eðlilegt að "allir flokkar endurmeti afstöðu ti Evrópusambandsaðildar í ljósi umróts í Evrópu". Þessu hlýtur að vera beint alveg sérstaklega að Samfylkingunni, þar sem afstaða annarra flokka er alveg skýr gegn innlimuninni, meira að segja VG þó sá flokkur hafi unnið gegn sinni eigin stefnu í þeim efnum, sem og mörgum öðrum, alla sína ríkisstjórnarsetu.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir hins vegar arfavitlaust að hætta við plan A, þar sem ekki sé til neitt plan B, og á þar við að það eina sem geti bjargað Íslandi frá efnahagserfiðleikum sé innlimum í ESB, þó fáir aðrir skilji hvernig ESB, sem virðist vera í dauðateygjunum, á að geta blásið lífi í þá sem heilbrigðari eru.

Kosningar verða í síðasta lagi næsta vor og byrjunin lofar fjörugum vetri á pólitískum vettvangi.


mbl.is Ekki heiðarlegt að halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband