Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Skattahækkanir vegna Icesave III

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, minnir á í viðtali við mbl.is að daginn eftir samþykkt Icesave III þurfi að hækka skatta um 26,1 milljarð króna vegna þeirrar greiðslu sem ríkið þyrfti að inna af hendi strax á þessu ári í vaxtagreiðlsu venga ólögvörðu kröfunnar, sem með samþykktinni á lögunum yrði að lögvarinni skuld íslenskra skattgreiðenda.

Hræðsluáróðurinn núna gengur út á að allt of mikil áhætta sé við það að fara "dómstólaleiðina" með málið, þrátt fyrir að ALLIR viðurkenni núna að aldrei hafi verið gert ráð fyrir ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðueigenda, hvorki samkvæmt tilskipunum ESB né íslenskum lögum. Þetta hafa meira að segja háttsettir embættismenn Framkvæmdastjórnar ESB staðfest, ásamt öllum lögspekingum íslenskum og erlendum sem um málið hafa fjallað.

Því er algerlega óskiljanlegt hvað á að vera svona hræðilegt við "dómstólaleiðina", þar sem vægast sagt litlar líkur eru á því að hugsanleg dómsniðurstaða gæti orðið Íslendingum óhagstæð og þar að auki myndi dómur EFTAdómstólsins alls ekki vera aðfararhæfur hér á landi. Færi allt á versta veg og mál yrði rekið fyrir íslenskum dómstólum og tapast þar, er ótrúlegt að Bretum og Hollendingum yrðu dæmdir hærri vextir af kröfunni en þeir hafa samþykkt nú þegar.

Það er lágmarkskrafa að þeir sem tala fyrir samþykkt laganna í þjóðaratkvæðagreiðlsunni útskýri í hverju þeir telja þessa miklu áhættu felast og ekki síður verða þeir að segja skýrt og skorinort hvaða skatta á að hækka og hvaða nýja skatta þarf að finna upp til að greiða þessa kröfu, sem aldrei hefur verið á ábyrgð skattgreiðenda og jafnframt af hverju ætti að samþykkja ríkisábyrgð á hana núna, fyrst aldrei var gert ráð fyrir slíku áður.

Einnig verður að útskýra hvers vegna ætti að setja slíkt fordæmi, þar sem meirihluti íslenska bankakerfisins er nú í eigu útlendinga. Vilja þeir sem ætla að samþykkja Icesave III taka á sig ábyrgð á þessum bönkum til ófyrirséðrar framtíðar?

Öllu þessu verða þeir sem fjárkúgunina vilja samþykkja að svara undanbragðalaust.


mbl.is Icesave þýðir hærri skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjör á kaffistofu saksóknara

Settur saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, Alda Hrönn Jóhannesdóttir, hefur kært Helga Magnús Gunnarsson, forvera sinn í starfi, vegna ærumeiðinga, en Helgi Magnús var í haust skipaður varasaksóknari í Landsdómsmáli gegn Geir H. Haarde.  Alda Hrönn kærði vegna ærumeiðinga í sinn garð sem einhver sagði henni að Helgi Magnús hefði viðhaft á göngum embættisins.

Ríkissaksóknar hefur vísað kærunni frá, enda hafi ekkert lögbrot verið framið með þessum meintu ummælum, sem Alda Hrönn heyrði ekki, en eins og oft gerist þegar einhver er baktalaður á göngum efnahagsbrotadeildar, þá kjaftar einhver frá enda frumskylda rannsóknarlögreglumanna, ekki síst efnahagsbrotadeildar, að fylgjast með því hvað hver segir um hvern á göngunum og koma því til skila til þess sem baktalaður er hverju sinni.

Þegar Helgi Magnús tekur aftur við stöðu sinni og Alda Hrönn verður aftur undirmaður hans hlýtur að mega reikna með að fjör færist í leikinn í húskynnum embættisins, bæði á göngunum og ekki síður á kaffistofunni, þar sem allir geta keppst við að segja hver öðrum hvað þessi og hinn sagði um viðkomandi á bak hans.  Umræðuefnin verða sjálfsagt óþrjótandi og kærurnar eftir því. 

Þetta mál varpar skýru ljósi á hvernig fullorðið fólk starfar í opinberum embættum og hvernig andrúmsloftið hlýtur af vera á vinnustöðunum. 

Svo er fólk undrandi á því, að lítið skuli ganga í rannsóknum sakamála í landinu.


mbl.is Kæru vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi, raðmannorðsníðingarnir á DV og bílarnir

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hugleiðir að stefna DV fyrir persónuníð og meiðyrði og er það í sjálfu sér engin frétt, að þeim raðmannorðsníðingum skuli stefnt fyrir slíkar sakir því enginn fjölmiðill hefur verið dæmdur jafn oft fyrir mannorðsníð, svo oft reyndar að enginn kippir sér upp við það lengur.

Athygli vekja hins vegar ummæli Gylfa um bílategundir, en um þær segir hann m.a:  "Ég íhuga það nú mjög alvarlega að stefna DV fyrir persónuníð og meiðyrði vegna þessarar fréttar um mína persónuhagi. Ég get alls ekki unað því að almenningi sé með svo óábyrgum hætti talið trú á að ég aki um á Toyota Land Cruiser jeppa þegar hið sanna er að ég hef lengi verið annálaður Nissan Patrol aðdáandi."

Sem sannur Toyotaunnandi verð ég að íhuga alvarlega að leita réttar míns gagnvart Gylfa, því með þessum orðum sínum gæti hann verið að verðfella átta ára gamlan Rav4 jeppling minn, því ekki er hægt að skilja orð hans á annan veg en þann, að Toyota bílar séu bara druslur í samanburði við Nissan.

Þar sem enginn tekur mark á DV eru litlar líkur til þess að umfjöllun þess blaðs um Gylfa verði honum til tjóns og í því ljósi verður að velta fyrir sér hvort álit Gylfa á jepplingstegundinni minni verði til nokkurs skaða, ef miðað er við það álit sem Gylfi hefur keppst við að ávinna sjálfum sér undanfarið.

En manni getur nú sárnað, þegar gert er lítið úr bílnum manns.


mbl.is Íhugar að stefna DV fyrir persónuníð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræktun eldsneytis

Joule Unlimited, bandarískt líftæknifyrirtæki, hefur upplýst að það sé búið að finna upp tækni til að geta ræktað eldsneyti með sömu þáttum og fá gras til að vaxa. Það sem til þurfi sé eingöngu sól, vatn og koldioxíð og þannig verði hægt að rækta plöntu sem gefur frá sér eldsneyti eða etanól.

Í fréttinni kemur m.a. fram að: "Erfðafræðileg ræktun fyrirtækisins muni gera því kleyft að framleiða eldsneyti á áður óþekktu verði. Heimurinn geti í kjölfarið orðið óháður hefðbundnum orkulindum og tæknin tryggi að ekki muni þurfa að styðjast við olíu og bensín í framtíðinni."  Áður hafa birst fréttir af því að ræktun annarra plantna til að framleiða eldsneyti sé sívaxandi t.d. á repju og er meira að segja byrjað að gera tilraunir með slíka ræktun hérlendis í þeim tilgangi að framleiða olíu sem nota megi til að knýja bíla og skip.

Þessi tækni er auðvitað stórmerkileg, enda eru olíuauðlindir heimsins ekki óþrjótandi og því líklega aðeins tímaspursmál hvenær þær þorna upp og auðvelt er að ímynda sér öngþveitið sem skapast myndi á vesturlöndum og víðar, verði ekki komin fram tækni sem leysa myndi olíuna af hólmi.

Ef rækta ætti allt það eldsneyti sem veröldin mun þarfnast í framtíðinni hlýtur að þurfa til þess gríðarlegt landflæmi og vandséð hvar allt það ræktarland ætti að fyrirfinnast, enda mun mannkyninu fjölga svo ört á næstu átatugum, að skorta mun land til matvælaframleiðslu og hvað þá til eldsneytisræktunar.

Fólk mun þurfa að hugleiða vandlega hvort réttlætanlegt sé að taka dýrmæt og gjöful landssvæði til ræktunar á bíla-, skipa- og flugvélaeldsneyti á meðan helmingur mannkyns sveltur og mikil andstæða er meira að segja við því að auka matvælaframleiðslu með erfðabreytingu jurta, sem myndi auka vaxtahraða þeirra. 

Tækniframförum ber að fagna, en hugsa verður málin frá öllum sjónarhornum. 

 


mbl.is Framleiða eldsneyti úr sól, vatni og koldíoxíði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr til skammar eins og venjulega

Ekki þurfti að spyrja að því að um leið og Jón Gnarr stígur á erlenda grundu, þá þurfa Reykvíkingar að byrja að skammast sín fyrir að hann skuli gegna embætti borgarstjóra í Reykjavík.

Ekki bætir Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi og samstarfsmaður Jóns, um betur, heldur bætir í skömmina með óviðeigandi ummælum um stjórnmálin í gistilandi þeirra félaga um þessar mundir, Írland.

Samkvæmt fréttinni hrutu eftirfarandi molar úr munni þeirra félaga: "Írar ganga nú til þingkosninga og segir Einar Örn í samtali við blaðið að ef marka megi auglýsingaspjöldin vegna kosninganna sé lítil sköpun í stjórnmálunum á Írlandi.Athygli vekur að Jón tekur upp hanskann fyrir ríkisstjórn VG og Samfylkingar með þeim orðum að hún hafi ekki fengið þá viðurkenningu sem hún eigi skilið fyrir viðleitni sína til að rétta þjóðarskútuna af eftir fjármálahrunið."

Fram að þessu hefur það ekki þótt viðeigandi og alls ekki fyndið að vera með opinberar yfirlýsingar um stjórnmálaflokka og kosningabaráttu þeirra í opinberum heimsóknum erlendra fulltrúa og í anda smekkleysunnar bætir svo Jón Gnarr við lélegum brandara um ríkisstjórn Samfylkingar og VG, sem vonlaust er að reikna með að erlendir aðilar skilji.

Einu er algerlega hægt að treysta í sambandi við Jón Gnarr og félaga.  Hvar sem þeir koma eru þeir sjálfum sér og Reykvíkingum til háborinnar skammar. 


mbl.is Jón Gnarr í Dublin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfir í aurana, en kastar krónunum

Atli Gíslason, þingmaður VG, vill skipa 25menningana, sem talið er að hafi fengið flest atkvæði í ólöglegu stjórnlagaþigskosningunum, í stjórnlagaráð sem á að verða ráðgefandi fyrir Alþingi um breytingar á stjórnarskránni. Skýringin er sú að Atli vill ekki eyða mörg hundruð milljónum króna í nýjar kosningar og einnig verðir hægt að spara háar fjárhæðir með því að nýta aðstöðu Alþingis í sumar fyrir fundi þessa ráðgjafaráðs.

Í fréttinni er hins vegar haft eftir Atla: "Tilgangurinn er að breyta stjórnarskránni og menn eru almennt um það að það þurfi að endurskoða stjórnarskrána. Sú vinna er 90-95% búin. Það liggja fyrir tillögur frá fyrri stjórnarskrárnefndum, bæði um auðlindirnar og sitthvað fleira. Það er hlutverk forsætaembættisins og eitt og annað sem þarf að skoða betur. Það er búið að vinna óhemju vinnu í stjórnarskrárbreytingum allt frá árinu 2001, ef ég man rétt. Síðan komu fram tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur og fleira á vorþingi 2009. Hugmyndir liggja fyrir að mjög miklu leyti. Það er hægt að moða úr þeim."

Ekki er ástæða til að rengja Atla með að 90-95% vinnunnar við endurskoðun stjórnarskrárinnar sé þegar búin og að aðeins sé eftir að ganga frá nokkrum atriðum, enda búið að vinna við þessar breytingar frá árinu 2001, ef Atli man rétt.  Með þessar staðreyndir í huga, er alveg með ólíkindum að nokkrum skyldi yfirleitt detta í hug að eyða hundruðum milljóna í stjórnlagaþing, sem síðan stendur til að breyta í stjórnlagaráð.

Þetta kallar maður að spara eyrinn en kasta krónunni.  Auðvitað var ekki við öðru að búast af þessari endemis klúðursstjórn, sem landið er svo ólánssamt að hafa hangandi yfir sér um þessar mundir. 


mbl.is Atli: Horfi bara í aurana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómstóllinn er við Lækjartorg

Það hefur verið furðulegt að fylgjast með umræðum um að vafi leiki á því hvaða dómstóll eigi að fjalla um kröfur Breta og Hollendinga á hendur íslenskum skattgreiðendum vegna uppgjörs á skuldum íslensks einkabanka við einstaklinga í þessum löndum. Um leið og Svavarssamningurinn var undirritaður benti undirritaður á það, líklega fyrstur manna opinberlega, að engin ríkisábyrgð ætti, eða mætti, vera á tryggingasjóðum innistæðueigenda og fjárfesta, enda þyrfti þessar þjóðir þá ekki að beita hótunum og þvingunum til að fá sínu framgengt.

Þó ótrúlegt sé fyrirfundust fjöldi manna sem tilbúnir voru til að styðja ríkisstjórnina í þeirri fyrirætlan hennar að setja þjóðarbúið á hausinn með miklum hraði, en sem betur fór tókst Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki að koma í veg fyrir að Svavarssamningurinn næði fram að ganga. Í framhaldi af umræðunum um ríkisábyrgðina héldu ýmsir því fram, að enginn dómstóll væri til sem hægt væri að láta skera úr um ágreining í þessu efni og fór þar fremstur manna Eiður Guðnason, fyrrverandi þingmaður og sendiherra, en strax 23. júní 2009 var honum og öðrum bent á að varnarþingið væri hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Það blogg má sjá Hérna

Fyrir löngu hafa allir viðurkennt, þar á meðal háttsettir aðilar innan ESB, að engin ríkisábyrgð sé, eða hafi verið, á tryggingasjóðunum og nú hefur fengist yfirlýsing frá fulltrúa ESA um að EFTAdómstóllinn geti ekki dæmt Ísland til greiðslu ólögvarinna fjárkrafna og að slíkt mál yrði að reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Furðulegt hvað einföld mál geta flækst lengi fyrir ólíklegasta fólki.


mbl.is Íslenskir dómstólar hafa síðasta orðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn klúðurs og lögleysu

Með því að ætla að hunsa niðurstöðu Hæstaréttar um ólögmæti stjórnlagaþingskosninganna og láta úrslitin standa óhögguð og halda stjórnlagaþingið, undir dulnefni, eins og ekkert hefði í skorist er ríkisstjórnin að bæta enn einu hneykslinu við langan lista klúðurs og lögleysu í stjórnarathöfnum sínum undanfarin tvö ár.

Í öllum siðmenntuðum ríkjum hefði Innanríkisráðherra sagt af sér eftir að hafa staðið fyrir og borið ábyrgð á kosningu, sem dæmd hefði verið ólögleg af Hæstarétti viðkomandi ríkis, Umhverfisráðherra, sem dæmdur hefði verið vegna lögbrota í stjórnarathöfnum, hefði hvergi verið sætt deginum lengur í embætti í þróuðu réttarríki, Forsætis- og fjármálaráðherrar, sem hefðu í tvígang reynt að selja þjóð sína í áratuga skattaþrældóm fyrir erlend kúgunarríki, hefðu alls staðar annarsstaðar en á Íslandi sagt af sér og boðað til kosninga og svona mætti lengi telja upp klúður og lögleysur þeirrar örmu ráðherra sem illu heilli hanga ennþá við völd hér á landi.

Nýjasta útspilið, þ.e. að skipta einungis um nafn á stjórnlagaþinginu, en láta allt annað standa óbreytt, þrátt fyrir Hæstaréttardóminn, lýsir engu öðru en hroka, staðföstum lögbrotavilja og vanvirðingu við það réttarríki sem álitið hefur verið að væri við lýði.

Hlátur umheimsins vegna klúðraranna í ríkisstjórn Íslands er hljóðnaður.  Vorkunsemi er tekin við.


mbl.is Uppkosning talin eina leiðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurnýting kosningaúrslita

Meirihluti hefur nú myndast á Alþingi fyrir því að endurnýta svokölluð úrslit ólöglegu kosninganna til Stjórnlagaþings með því að skipa þá 25 sem taldir eru hafa fengið flest atkvæði til setu í ráðgefandi Stjórnlagaráði.

Þetta verður að teljast stórmerkilegt og frjótt hugmyndaflug, því aldrei fyrr hefur frést af því að úrslit ólöglegra kosninga hafi verið látin standa óhögguð og það með tilvísun til peningalegs sparnaðar og þess, að kjósendur hafi margt betra við tímann að gera en að vera sífellt að flækjast á kjörstaði.

Einnig er vitnað til þess að þessir 25, sem taldir eru að hafi fengið flest atkvæði í Stjórnlagaþingskosningunum njóti þar með trausts til að setjast í Stjórnlagaráð og því þurfi alls ekki neinar nýjar kosningar, eða nýja frambjóðendur af þessu tilefni.

Með sömu rökum verður hægt að sleppa öllum kosningum næstu áratugi með vísan til þess að hægt verði að endurnýta Stjórnlagaþingskosningarnar, t.d. við val á Alþingismönnum, enda voru frambjóðendur á sjötta hudraðið og flestir notið trausts einhverra kjósenda og þar með væri fullkomlega eðlilegt að skipa 63 þeirra í sérstakt Alþingisráð.

Svona endurnýting kosninga verður að teljast algerlega frábær hugmynd, nú á tímum sjálfbærrar þróunar og hagkvæmni á öllum sviðum þjóðlífsins.

Hugmyndin er svo frábær, að hún ætti að geta orðið verðmæt útflutningsvara til annarra þróunarríkja, jafnvel þeirra sem lengra eru á veg komin en Ísland.


mbl.is Fær sama verkefni og þingið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ALLT upp á borðið

Ríkisstjórnin virðist ætla að láta duga sem kynningu á Icesave III að senda frumvarpið eitt og sér inn á hvert heimili í landinu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem væntanlega verður haldin til staðfestingar eða synjunar á lögunum eigi síðar en 16. apríl n.k.

Alþingi hefur verið að velkjast með þetta mál í meira en eitt og hálft ár og lögin sem samþykkt voru núna síðast voru þriðja útgáfa af samningi við Breta og Hollendinga um skuldir einkabanka, sem engar ríkisábyrgðir skulu vera á, samkvæmt tilskipunum ESB og íslenskum lögum, enda þyrfti ekki að samþykkja slíka ábyrgð núna, hefði slík ábyrgð þegar verið í gildi.

Fram hefur komið í fréttum að Alþingismenn, a.m.k. fjárlaganefndarmenn og jafnvel fleiri nefndarmenn, hafi fengið aðgang að alls kyns leyniskýrslum í tengslum við sína umfjöllun og ákvarðanatöku um hvort samþykkja skuli ríkisábyrgðina eða ekki.  Varla er hægt að gera ráð fyrir að kjósendur geti gert upp sinn hug endanlega á tæpum tveim mánuðum nema fá aðgang að öllum upplýsingum sem til eru um málið, þar með talinn aðgang að skýrslum um allar viðræður sem farið hafa fram milli samningsaðila frá upphafi málsins.

Mest hefur fram að þessu verið talað um hvort rétt hafi verið af forsetanum að vísa málinu til þjóðarinnar eða ekki og hvort hann eða ríkisstjórnin þurfi að segja af sér, eftir því hvort lögin verði samþykkt eða þeim hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni.  Þetta er bara deila um keisarans skegg og algerlega óþörf umræða, því hún ætti eingöngu að snúast um málefnið sem kjósa á um og annað ekki. 

Hvorki verður kosið um stöðu forsetans eða ríkisstjórnarinnar né á að blanda umræðum um stöðu og framtíð þeirra inn í vangaveltur um lagasetninguna.  Hún á að byggjast á upplýsingum um kosti þess að samþykkja lögin eða hafna og annað ekki.

Tilfinningar, pólitískar skoðanir, afstaða til ríkisstjórnarinnar, forsetans, eða hvers annars koma málinu ekkert við.  Upplýsingar um allt sem að Icesavemálinu snúa eiga hins vegar að vera metnar og vegnar af kjósendum og afstaða þeirra til málsins á að byggjast á þeim og öðru ekki.

Til þess að svo geti orðið þarf að senda kjósendum ALLAR upplýsingar, eða a.m.k. benda á hvar þær er að finna, t.d. ef þær eru aðgengilegar á netinu.


mbl.is Ekki áform um frekari kynningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband