Bloggfærslur mánaðarins, október 2010
18.10.2010 | 19:03
Jón Bjarnason reynist ríkissjóði dýr
Sú ákvörðun Jóns Bjarnasonar að gefa rækjuveiðar frjálsar, þ.e að taka rækjuna út úr kvóta, ætlar að reynast ríkissjóði dýr, þar sem Byggðastofnun, sérleg lánastofnun ríkisins, þarf að afskrifa sjö hundruð milljónir króna vegn lána til þriggja útgerðarfélaga, sem áður fengu úthlutuðum rækjukvóta.
Hvaða skoðun sem menn annars hafa á því, hvort rétt eða rangt hafi verið að gera þessa breytingu á sjávarútvegsstefnunni, verður það að teljast stórmerkilegt að einn ráðherra skuli geta kollvarpað heilu fiskveiðistjórnunarkerfi án nokkurs samráðs við aðra ráðherra og hvað þá Alþingi, sem þó á að setja landinu lög og hlutverk ríkisstjórnarinnar að framfylgja þeim.
Jón Bjarnason hefur gefið í skyn að hann ætli að gera hinar og þessar breytingar á kvótakerfinu og virðist ekki heldur ætla að bera þær undir nokkurn mann, né athuga hvort slíkar breytingar gætu kostað Byggðastofnun og ríkissjóð stórfé.
Allt sýnir þetta hverskonar lausatök og persónulegir dyntir einstaklinga ráða miklu við stjórn landsins.
700 milljónir á afskriftareikning | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.10.2010 | 15:32
Geirfuglastríðið mikla
Íslenskur listamaður gerði eftirmynd af geirfugli árið 1988 og setti það upp í Skerjafirðinum, þeim til augnayndis, sem eiga leið framhjá fuglsmyndinni, en aðrir hafa lítið haft af henni að segja síðan hún var sett upp.
Erlendur listamaður hefur nú tekið sig til og gert syrpu af eftirmyndum útdauðra fugla og er geirfugl þar á meðal, sem hann fékk leyfi til að setja upp á Reykjanesinu og mun hún eflaust verða þeim sem þar eiga leið um til augnayndis, eins og geirfuglsmyndin í Skerjafirðinum. Íslenski listamaðurinn brást hins vegar ókvæða við þessari nýju geirfuglseftirmynd og taldi hana vera stælingu á sinni, enda báðar nauðalíkar hinum útdauða geirfugli, sem reyndar var tilgangurinn með báðum verkunum. Þetta furðulega geirfuglastríð verkur upp þá spurningu, hvort einn listamaður geti haft einkaleyfi til að gera eftirmyndir af ákveðinni dýrategund, lifandi eða útdauðri, og enginn annar megi eftir það glíma við að búa til sína eigin eftirmynd af kvikindinu.
Nú eru t.d. styttur af hestum og fleiri dýrategundum, vítt og breitt um veröldina og verður að teljast stórmerkilegt að ekki skuli hafa brotist út stórstyrjaldir vegna slíkrar fjöldaframleiðslu á dýraeftirlíkingum og skýrist það ef til vill af því að þetta hefur tíðkast í árþúsundir og höfundarréttur fyrstu listamannanna sé því lögnu útrunninn.
Ef til vill átti aldrei að taka mark á þessari fáránlegu kvörtun íslenska listamannsins og uppákoman hafi eingöngu verið til gamans gerð í þeirri von að hún gæti komið fólki í gott skap og fengið það til að hlæja dátt.
Hafi það verið tilgangurinn, tókst ætlunarverkið fullkomlega.
Neita að fjarlægja geirfuglinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.10.2010 | 12:02
Heimskreppan sennilega ekki Sjálfstæðisflokknum að kenna
Vinstri menn á Íslandi hafa verið óþreytandi við þann spuna, að kreppan á Íslandi sé algerlega Sjálfstæðisflokknum að kenna og sé algerlega einangrað fyrirbæri og ótengd öllu sem gegnið hefur á í veröldinni í fjár- og bankamálum á undanförnum árum. Það er gamalt ráð frá Herman Göring, eins nánasta samstarfsmanns Hitlers á valdatíma nasistanna, að sé lygi endurtekin nógu oft, endi með því að fólk fari að trúa henni og það ráð hafa vinstri menn á Íslandi nýtt sér dyggilega í þessu efni, sem og svo mörgum öðrum.
Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri AGS, hélt í dag ræðu yfir seðlabankastjórum alls staðar úr heiminum og hvatti til samstöðu þeirra í baráttunni við heimskreppuna, sem enginn þykist þó hafa heyrt af hér á landi og sagði m.a: "Nú er hætt við því að samhljómurinn sem náðist við að ná tökum á fjármálakreppunni leysist upp í ærandi sundurleitan kór, þegar þjóðir heims reyna í auknum mæli að taka einar á málunum. Þessi þróun er vís til þess að leiða okkur öll í verri stöðu."
Hvergi í ræðunni mun Strauss-Kahn hafa minnst á sök Sjálfstæðisflokksins á heimskreppunni og ekki heldur nefnt á nafn nokkurn einasta íslenskan stjórnmálamann, sem hann vildi kenna um að hafa komið öllu í kalda kol í efnahagsmálum heimsins og ekki mun hann heldur hafa talið að hún hafi yfirleitt átt upptök sín á Íslandi.
Íslenskir vinstri menn munu alveg örugglega halda sig við ráð Görings eftir sem áður.
Efnahagsbati heimsins í hættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.10.2010 | 08:42
Asnaeyrnatog
Þegar náttúruhamfarir dynja á landinu, svo sem eldgos eða jarðskjálftar fer allt björgunarkerfi þjóðarinnar af stað til að bjarga og aðstoða þá sem fyrir hamförunum verða, en ekki er hugsað um hina, sem enga hjálp þurfa, enda falla þeir að sjálfsögðu ekki í flokk þeirra sem neyðaraðstoð nær yfir. Sama gildir um þá sem lenda í bifreiðaslysum, björgunarlið er sent á vettvang og jafnvel þó sá sem slysinu olli hafi verið í órétti fær hann neyðaraðstoð og flutning á sjúkrahús, þar sem honum er hjúkrað á sama hátt og hinum, sem fyrir slysinu varð og var í fullum rétti í umferðinni.
Annað virðist vera uppi á teningnum ef fólk lendir í fjárhagslegum slysum, hvort sem þau eru vegna sjálfskaparvítis eða annars, því t.d. Hagsmunasamtök heimilanna berjast harkalega fyrir því, að aðaláhersla verði lögð á að koma þeim til aðstoðar, sem hugsanlega gætu lent í ógöngum með sín skuldamál á næsta ári, eða því þarnæsta, en segjast hins vegar ekki vera að berjast fyrir því "að bjarga öllum", eins og þau orða það svo snyrtilega.
Hefði ekki þótt undarlegt þegar gosið varð í Eyjafjallajökli, ef þeir sem urðu þar fyrir skaða, hefðu verið látnir bíða, en áhersla lögð á að "bjarga" þeim sem hugsanlega gætu orðið fyrir tjóni ef Katla tæki upp á því að gjósa á næsta ári, eða því þarnæsta? Slíkt hefði örugglega þótt fáránlegur hugsunarháttur, en þó í ætt við hugsun HH, sem ekki berst fyrir því að bjarga þeim, sem eru í raunverulegri neyð nú þegar.
Hagsmunasamtök Heimilanna og ríkisstjórnin eru í einhverskonar asnaeyrnatogi fram og til baka, sem engan tilgang hefur og ekkert skilur eftir sig, annað en verk í eyrunum.
Á meðan að á asnaeyrnatoginu stendur bíða þeir sem fyrir skakkaföllum hafa orðið ennþá á slysstað og þrátt fyrir tveggja ára bið bólar ekkert á björgunarliðinu, hvort sem þeir sem um sárt eiga að binda voru í rétti eða órétti.
Engar ákvarðanir enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.10.2010 | 17:22
Leynilegar björgunaraðgerðir
Hagsmunasamtök heimilanna sendu frá sér yfirlýsingu í gær með harðorðum svívirðingum um ríkisstjórnina fyrir að hafa valdið sér sárum eyrnaverk og ekki voru sendingarnar til verkalýðhreyfingarinnar og fleiri mjúkmálli og jafnvel líktu samtökin umboðsmanni skuldara við mús, en töldu sjálf sig hins vegar einskonar asna, sem dregnir væru áfram á eyrunum.
Eins og venjulega, þegar ríkisstjórnin fær það óþvegið, þá lítur hún upp af koddanum og segist ætla að gera eitthvað í áríðandi málum, en auðvitað verður aldrei neitt úr verki, áður en höfuðið dettur niður á koddann aftur og svefninn sígur að á ný.
Þó virðist stjórnin hafa rifið sig framúr í dag, en enginn má vita hvar hún heldur sig og hagsmunasamtökin samþykkja að taka þátt í feluleiknum, enda líta þau stórt á sig og telja sig vera björgunarlið þeirra, sem hugsanlega gætu lent í fjárhagsvandræðum í framtíðinni, en er miklu minna umhugað um þá, sem komnir eru í vandræði nú þegar.
Hvort gefin verði út leynileg tilkynning um leynilegar björgunaraðgerðir skuldara eftir leynifundinn verður að koma í ljós, en a.m.k. tekst ríkisstjórninni að forðast mótmæli almennings fyrir utan fundarstaðinn, en til þess hefur leynileikurinn líklegast verið gerður.
Hagsmunasamtök heimilanna láta hins vegar draga sig á asnaeyrunum bæði leynt og ljóst.
Engar upplýsingar veittar um fund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.10.2010 | 22:02
Íhuga að samþykkja sekt og kaupa sig frá rannsóknum
Sunday Telegraph segir frá því, að Sigurður Einarsson og Sigurður Már, fyrrverandi stjórnendur Kaupþings, séu allra vinsamlegast að hugleiða hvort þeir eigi að samþykkja og greiða sekt, sem breska fjármálaeftirlitið lagði á þá vegna brota á tilkynningaskyldu til eftirlitsins.
Fjármálaeftirlitið breska hefur ekki viljað staðfesta að rannsókn standi yfir á Singer & Friedlander bankanum, sem Kaupþing átti og rak í Bretlandi, en Sunday Telegraph segir einnig frá öðru stórundarlegu máli, fyrir utan að beðið sé eftir samþykki þeirra kumpána á sektinni, en það er eftirfarandi: "En stofnunin muni hafa átt í viðræðum við þá Sigurð og Hreiðar Má um að þeir greiði sektina án þess að viðurkenna neina sök og þar með fái þeir friðhelgi gagnvart frekari rannsókn." Ef minnsti fótur er fyrir þessari fullyrðingu blaðsins er greinilegt að breska eftirlitið ætlar að taka á þeim félögum með silkihönskum og gefa þeim kost á að kaupa sig frá frekari rannsóknum á "viðskiptum" þeirra í Bretlandi.
Það verður að teljast með ólíkindum að hægt sé að kaupa sig frá svika- og glæparannsóknum með þessum hætti í Bretlandi og fréttin ein og sér verður til þess að eyðileggja álit fólks á efnahagsbrotarannsóknum í því landi, a.m.k. rannsóknum fjármálaeftirlitsins.
Ekki verður því trúað, að Sigurður Einarsson hafi náðasamlegast komið til landsins fyrir nokkrum vikum til að reyna að kaupa sig frá frekari rannsóknum hér á landi.
Sagðir íhuga tilboð breska fjármálaeftirlitsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.10.2010 | 18:58
Asnar dregnir á eyrunum
Hagsmunasamtök heimilanna segjast hafa verið dregin á eyrunum, sem þau lýsa sjálf að séu eins og eyru á ákveðnu dýri, af "getuleysi stjórnkerfi" og hljóta þar að vera aðallega að vísa til Jóhönnu Sigurðardóttur, sem lofaði flatri niðurfærslu allra húsnæðisskulda í hræðslukasti vegna tunnusláttar mestu mótmæla í Íslandssögunni gegn nokkru stjórnvaldi.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sá strax í gegn um blekkingarvefinn og lýsti því strax yfir, að boðaðir fundir um málið væru sýndarmennska og ekki stæði til af hálfu stjórnvalda að gera meira í málefnum skuldugra heimila, en þegar hefði verið gert. Líklega munu Jóhanna og ríkisstjórnin þó koma fram með lítilvægar breytingar á þegar samþykktum úrræðum, sérstaklega vegna þess hve flókin og seinvirk þau eru. Einnig mun líklega verða gerð breyting á lögum um innheimtu opinberra gjalda, svo lausn skuldaúrræðanna strandi ekki á innheimtumönnum ríkissjóðs og sveitarfélaga, eins og verið hefur fram að þessu.
Um leið og þær breytingar verða kynntar, mun Jóhanna fara mikinn í ásökunum sínum á alla aðra en ríkisstjórnina og kenna þeim um, að ekki hafi verið farið í flata skuldaniðurfellingu. Þar mun Sjálfstæðisflokkurinn fá sína gusu, sem og lífeyrissjóðirnir, verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og jafnvel almenningur fyrir skilnings- og samstöðuleysi í erfiðum málum.
Sá reiðilestur gegn öllum nema ríkisstjórninni verður fluttur til að reyna að forða því að tunnurnar verði bornar inn á Austurvöll á ný.
Spurningin er hins vegar sú, hvort öll þjóðin ætlar að láta draga sig á eyrunum mikið lengur.
Hagsmunasamtökin dregin á asnaeyrunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.10.2010 | 14:51
Öllum orðið sama um stjórnarskrána?
Ein háværasta krafan í "Búsáhaldabyltingunni" var um nýja stjórnarskrá og létu þá ýmsir eins og bankahrunið væri tilkomið vegna einhverra galla á stjórnarskránni og eins átti það að vera bráðnauðsynlegt að breyta henni, ekki síst vegna þess að hún væri orðin svo gömul.
Mikið var rætt og ritað um nauðsynina á nýrri stjórnarskrá og alls kyns athugasemdir við hana settar fram, sem komu stjórnarskránni í sjálfu sér ekkert við og fjöldi tillagna kynntar til breytinga, sem margar hverjar komu stjórnarskránni heldur ekkert við. Áhugi á stjórnarskrármálefnum virtist vera mjög almennur og "allir" höfðu skoðanir á henni, jafnvel þó þeir hefðu aldrei lesið hana, eða kynnt sér að öðru leyti.
Ríkisstjórnin hljóp eftir kröfum um stjórnlagaþing og nú er komið að því og þá bregður svo við, að enginn áhugi virðist vera lengur á breytingum á stjórnarskránni, lítið sem ekkert er fjallað um málið, fulltrúa á þjóðfund um málið þurfti að dekstra til að mæta og framboð til stjórnlagaþingsins virðast ekki ætla að ná tvö hundruð, þannig að varla koma til með að sitja þar bestu og hæfustu menn þjóðarinnar í stjórnarskrárfræðum.
Tillaga að nýrri stjórnarskrá, sem stjórnlagaþingið mun senda frá sér verður ekki bindandi fyrir Alþingi, þannig að engin ástæða er til að reikna með því, að nokkuð verði gert með niðurstöðuna og þrefið um stjórnarskrána muni halda áfram inni á þingi einhver ár ennþá.
Ef að líkum lætur mun enginn þrýsta á Alþingi að flýta málinu, enda verður almenningsálitið sjálfsagt upptekið af öðrum málum, þegar þar að kemur.
Hálfur milljarður í stjórnlagaþing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.10.2010 | 16:34
Steingrímur J. enn í Bretavinnunni
Steingrímur J. hefur nú staðfest að hann og félagar hans hafi stundað Bretavinnuna samviskusamlega undanfarið og nú "beri lítið á milli" varðandi frágang á fjárkúgunarkröfu Breta og Hollendinga á hendur íslenskum skattgreiðendum vegna fjárglæfra Landsbankans erlendis fyrir hrun, en þeir fjárglæfrar og aðrir slíkir, framdir af banka- og útrásargegnjum orsökuðu einmitt hrunið og voru ekki á ábyrgð íslensks launafólks.
Þrátt fyrir að þjóðin hafi sýnt Steingrími J., Jóhönnu Sig. og erlendum samverkamönnum þeirra að hún sé ekki tilbúin til að selja sig í skattalegan þrældóm fyrir erlendar kúgunarþjóðir næstu áratugina, með ótrúlega glæsilegri útkomu úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór 6. Mars s.l., virðist einbeittur kúgunarvilji íslensku ríkisstjórnarinnar í samvinnu við þær erlendu vera óbreyttur.
Ríkisstjórnin annaðhvort skilur ekki þjóðarviljann, hvort sem hann birtist í kosningum eða tunnuslætti á Austurvelli, eða er nákvæmlega sama um hann, enda virðist ekki eiga að taka nokkurt mark á honum, hvorki varðandi þrælasöluna eða skuldavanda heimilanna í landinu.
Verði gengið að nýjum fjárkúgunarkröfum Breta og Hollendinga, hlýtur það að verða síðasta verk þessarar ríkisstjórnar, því varla mun þjóðin láta bjóða sér meira af svo góðu.
Skriður kominn á Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.10.2010 | 14:10
Er þetta sami Stefán Ólafsson?
Aðalfundur BSRB stendur nú yfir og meðal ræðumanna þar er Stefán Ólafsson, prófessor, sem nýtt hefur menntun sína til pólitískra útreikninga á velferðarkerfinu, eftir því hvaða flokkar eru í ríkisstjórn hverju sinni.
Fréttin af aðalfundinum hefst svona: "Stefán Ólafsson prófessor segir að öflugt velferðarkerfi hafi valdið því að kreppan hitti Íslendinga ekki eins illa fyrir og margar aðrar þjóðir. Velferðarkerfið muni þannig nýtast til að milda höggið sem efnahagshrunið hafði í för með sér. Stefán hélt erindi á aðalfundi BSRB sem stendur nú yfir."
Er þetta ekki alveg örugglega sami Stefán Ólafsson, prófessor, og nýtti hvert tækifæri á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn, til að birta útreikninga sína og skýrslur um hve illa væri farið með elli- og örorkulífeyrisþega og að heilbrigðis- mennta- og velferðarkerfið væri algerlega í rúst og auðvitað væri það allt Sjálfstæðisflokknum að kenna?
Nú segir þessi Stefán Ólafsson, prófessor, að velferðarkerfi Sjálfstæðisflokksins hafi verið svo öflugt, að það bjargi því að kreppan hitti Íslendinga ekki eins illa fyrir og aðrar þjóðir, sem ekki hafi verið svo lánsamar að búa við öflugt velferðarkerfi Sjálfstæðisflokksins.
Það er ekki oft, sem hægt hefur verið að taka mark á Stefáni Ólafssyni, prófessor, en í þetta sinn hefur hann algerlega rétt fyrir sér í því, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið öflugasti velferðarflokkur landsins og líklega á norðulöndunum öllum.
Segir stjórnvöld hafa hlíft þeim lægst launuðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)