9.10.2009 | 14:39
Málaferli best úr því sem komið er
Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, sem á að telja kjark og þor í þjóðina á erfiðleikatímum, hefur nú sent frá sér tilkynningu í þveröfugum tilgangi, þ.e. að reyna að koma þjóðinni í skilning um, að mótþrói hennar við Icesave rugli ríkisstjórnarinnar, verði nánast hennar banabiti.
Lýsingin er svohljóðandi: "Töf á afnámi gjaldeyrishafta, lækkun á lánshæfismati ríkins niður í flokk ótryggra fjárfestinga, líkur á vaxtahækkun, þrýstingur á gengislækkun og þar með aukning verðbólgu ásamt töfum á endurreisn atvinnulífs með vaxandi atvinnuleysi, eru meðal líklegra afleiðinga þess að frekari tafir verði á endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins."
Í fljótu bragði virðist þetta vera lýsing á því ástandi, sem verið hefur hérlendis, frá því að ríkisstjórnin tók við völdum, en verstu lýsingarnar þarna, eru einmitt á því ástandi sem hér hefur ríkt undanfarna mánuði. Áróðurinn er reyndar til að hræða fólk, með því sem gæti gerst í framtíðinni.
Síðan er enn hnykkt á áróðrinum um að þjóðin sé í ábyrgð fyrir Icesave skuldum Landsbankans og sagt m.a: Útilokað er að sjóðurinn geti staðið við lagalegar skuldbindingar sínar verði enn ósamið um Icesave þegar fresturinn rennur út. Sjóðurinn getur því átt von á málssókn á hendur sér og sömuleiðis ríkið fyrir að mismuna innistæðueigendum eftir staðsetningu."
Úr því sem komið er, eru málaferli besti kosturinn í stöðunni, því tilskipun ESB og íslensk lög kveða á um að ríkisábyrgð skuli ekki vera á innistæðutryggingasjóðum. Því máli myndu Bretar og Hollendingar vafalaust tapa fyrir íslenskum dómstólum og það vita þeir sjálfir fullvel.
Varðandi það, að óheimilt sé að mismuna fólki eftir staðsetningu, má benda á að íslenska ríkinu er algerlega heimilt að bæta sínum þegnum tjón, sem þeir verða fyrir, hvers eðlis sem það er, án þess að allur heimurinn geti gert kröfur um sambærilegar bætur frá íslenskum skattgreiðendum.
Hræðsluáróðurinn er að verða nokkuð magnaður og eingöngu til að undirbúa endanlega uppgjöf ríkisstjórnarinnar fyrir gaddasvipum Breta og Hollendinga.
Alvarlegar afleiðingar af frekari töfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Málferlin vegna mismununar felast í því að þessi hörmulegu neyðarlög sem voru ætluð til þess að vernda eigur auðmanna og kvótakónga hér á Íslandi gerðu það að verkum að hér fengu allir sitt á meðan aðilar erlendis fá aðeins það sem á er kveðið í samningunum um tryggingu innistæðueigenda.
Ef ríkið hefði haft dug og þor til að láta draslið rúlla, í það minnsta Landsbankann sem að er okkar versti biti, þá væri það í stöðu til að takast á við málaferli, ekki núna.
Takk Björgólfur...eða nei þú vissir náttúrulega ekkert hvað var að gerast í bankanum þínum, þú áttir hann bara.
Ellert Júlíusson, 9.10.2009 kl. 16:24
Bretar og Hollendingar myndu allavega ekkert græða á málaferlum gegn innistæðutryggingasjóðnum, þar sem hann er í raun gjaldþrota. Spurningin er erfiðari vegna neyðarlaganna, þar ríkissjóður lagði ekkert út vegna innistæðna Íslendinga, heldur voru þær fluttar yfir í nýju bankana og útlán á móti, þannig að þar stóð allt á núlli.
Hugsanlega stæðist það uppgjör ekki án Icesave, en það gæti reynst snúnara, þar sem útlán Landabankans, sem þá þyrfti að yfirfæra í nýja Landsbankann, stæðu sjálfsagt ekki fyrir því, vegna ævintýralegrar útlánastefnu gamla bankans, sem þýðir að mest af útlánunum eru handónýt.
Ekki er víst að það sé Björgólfi að kenna eða þakka, en bankastjórarnir ættu að hafa haft vit í kollinum, sem ekki er þó augljóst, af verkum þeirrra.
Axel Jóhann Axelsson, 9.10.2009 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.