ESB áróður frá ESB

Þessa dagana hellist yfir áróður úr herbúðum ESB um hve Íslendingar séu velkomnir í bandalagið og séu í raun bráðnauðsynlegir félagar til að hafa áhrif á og jafnvel stjórna sjávarútvegsmálum stórríkisins fyrirhugaða.

Stækkunarstjóri, sjávarútvegsstjóri, framkvæmdastjóri, forseti o.fl., o.fl. af framámönnum ESB lýsa þvi yfir hver í kapp við annan að sambandið bíði í ofvæni eftir aðildarumsókn Íslendinga og að allt yrði fyrir þá gert innan ESB, enda yrði Ísland útvörður sambandsins í norðri og síðan gætu Íslendingar vonandi haft vit fyrir Norðmönnum í framhaldi inngöngu sinnar.

Á næstu vikum má gera ráð fyrir að áróður ESB manna fyrir inngöngu Íslands þyngjast verulega, enda nægir peningar í sjóðum ESB til að reka áróður hérlendis til að fegra sambandið fyrir landanum.

Ekki mun heldur standa á Mogganum, Fréttablaðinu, Stöð 2, Ríkisútvarpinu og fleiri fjölmiðlum, að birta áróðurinn athugasemdalaust, enda dyggir aðdáendur fyrirhugaðs stórríkis ESB.

Nú er staglast á því að fiskveiðistefnunni verði breytt, nánast eingöngu vegna hagsmuna Íslands og því sé nauðsynlegt að nýta þekkingu Íslendinga í því skyni.

Trúi því hver sem vill.


mbl.is Sammála um að breyta fiskveiðireglunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Mér finnst þessi grein þín ákaflega döpur.  Ásakar alla um áróður.

Heldur þú virkilega að ESB lifi það ekki af ef Íslendingar ganga ekki í bandalagiðHins vegar hafa þeir margsagt að við værum velkomnir ef við teldum það betri kostinn.

Hver sagði og hvenær var það sagt að fiskveiðistefnu ESB verði breytt nánast eingöngu vegna hagsmuna Íslands.

Hvaða tilgangi þjónar svona tal.  Má flokka það undir "áróður" gegn ESB. 

Páll A. Þorgeirsson, 26.5.2009 kl. 11:57

2 identicon

Manni dettur það helst í hug að þeir séu að breytta fiskveiðistefnu ESB fyrir okkur. Ég tók eftir því að Jóhanna S talaði um að  öll vandamál myndu  leysast hér ef við gengum í ESB það er eitthvað meira enn við virtum, hvað hafa þau verið að gera sem við vitum ekki.

Sigurbjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 13:13

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

ESB hefði áfram tögl og haldir

Sjávarútvegsráðherrar Evrópusambandsins hafa að sögn komizt að þeirri niðurstöðu að sameiginleg sjávarútvegsstefna sambandsins sé handónýt (80% fiskistofna sambandsins eru þannig t.a.m. ofveiddir) og að endurskoða þurfi hana all verulega. Draga þurfi úr miðstýringu við úthlutun aflaheimilda og færa ákvarðanatöku nær þeim sem ákvarðanirnar hafi áhrif á. Það er nefnilega það.
 
Í fyrsta lagi breytir þetta í raun engu varðandi yfirstjórn sjávarútvegsmála innan Evrópusambandsins þar sem sambandinu eru tryggð full yfirráð yfir málaflokknum í fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins (endurskírð Lissabon-sáttmálinn til þess að villa um fyrir almenningi) sem ætlunin er að taki gildi og er forsenda fyrir inngöngu fleiri ríkja, þ.m.t. Íslands. Evrópusambandið hefði áfram tögl og haldir í þessum efnum.

Í annan stað hefur legið fyrir í fjölda ára að sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins væri handónýt og að fiskistofnar þess væru margir hverjir ofveiddir án þess að nokkuð væri aðhafst til þess að koma þeim málum í betra horf. Á meðan hefur vandamálið aðeins orðið meira og verra. Eðlilega vaknar sú spurning hvað verði ef endurskoðuð sjávarútvegsstefna sambandsins reynist handónýt líka? Hversu langur tími mun líða þar til gengizt verður við vandamálinu í það skiptið?

Í þriðja lagi hefur yfirlýsing sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins takmarkað gildi auk þess sem óljóst er hvað þeir hafa nákvæmlega í huga. Af erlendum fréttaflutningi að dæma hefur ekkert afgerandi verið ákveðið í þessum efnum heldur fyrst og fremst verið settar fram almennt orðaðar hugmyndir um umbætur.

Í fjórða lagi verður ekki endanlega ljóst fyrr en 2012 hvort einhverjar umtalsverðar breytingar, eða breytingar yfir höfuð, verða gerðar á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins eða hverjar þær kunni að verða en þá á ný og endurskoðuð sameiginleg sjávarútvegsstefna að líta dagsins ljós.

Í fimmta lagi hafa ráðamenn Evrópusambandsins verið iðnir við að setja fram háfleygar yfirlýsingar í gegnum tíðina sem síðan hefur orðið lítið eða ekkert úr þegar reynt hefur á framkvæmd þeirra. Nægir þar að nefna Lissabon-ferlið svokallað (annað en Lissabon-sáttmálinn) og ítrekaðar yfirlýsingar undanfarin ár um að draga ætti úr reglugerðafargani sambandsins.

Í sjötta lagi er fiskveiðistjórn Evrópusambandsins breytingum háð, það er vissulega hægt að draga úr miðstýringu standi raunverulegur vilji til þess en það er líka hægt að auka hana aftur síðar, t.d. eftir að Ísland væri komið inn í sambandið. Jafnvel þó Ísland væri þar innaborðs væru mörguleikar Íslendingar á því að hafa áhrif þar á bæ litlir sem engir vegna sáralítils vægis innan sambandsins. Þar yrði engin breyting á.

Hjörtur J. Guðmundsson, 26.5.2009 kl. 13:15

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Líklega lifir ESB ekki af, hvort sem Ísland gengur í sambandið, eða ekki.  Innviðirnir eru að molna, ekki síst vegna Evrunnar, þar sem hún þjónar ekki hagsmunum allra ríkjanna jafnt. 

Fiskveiðistjóri ESB hefur sagt að það þurfi að breyta sjávarútvegsstefnunni og gott væri að fá Íslendina til að taka þátt í þeim breytingum vegna kunnáttu sinnar og reynslu af fiskveiðistjórnun.  Dettur einhverjum í hug, að þessi áróður fulltrúa ESB akkúrat núna, sé bara tilviljun.

Svona tal flokkast undir viðvaranir gegn ESB og má vel kallast áróður gegn ESB.

Axel Jóhann Axelsson, 26.5.2009 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband