7.3.2009 | 15:30
Skrilljarðar
Þær upphæðir sem bankarnir hafa lánað útrásarvíkingunum (sem í flestum tilfellum réðu bönkunum) eru gjörsamlega óskiljanlegar venjulegu fólki, sem baslar með sín íbúða- og bílalán og önnur venjuleg heimilisútgjöld.
Því meira sem kemur upp á yfirborðið af þessum ótrúlega köngulóarvef eignarhaldsfélaga garkanna, því ótrúlegra verður að þetta sé allt saman löglegir gerningar, eins og banka- og útrásarliðið heldur fram. Ennþá heyrist ekkert frá skilanefndum, fjármálaeftirliti eða saksóknurum um þessi mál og hefur því þó verið heitið að allt skuli vera "uppi á borðinu" og upplýsingagjöfin skilvirk. Ekkert fréttist, nema það sem fjölmiðlar grafa upp eftir leynilegum leiðum innan úr kerfinu. Við svo búið verður ekki unað lengur.
Það hlýtur að vera deginum ljósara að fjöldinn allur af ákærum verður gefinn út á hendur þessum mönnum áður en langt um líður. Jafn víst er að allt helsta lögfræðingalið landsins mun verja þessa menn með kjafti og klóm og jafnvel takast að þvæla málum þannig að ekkert komi út úr ákærunum.
Baugsmálið svokallaða hefur líklega lamandi áhrif á rannsóknara, þar sem að í því máli voru menn sýknaðir af ákærum sem allir, sem koma nálægt fyrirtækjarekstri, töldu víst að teldust til alvarlegra lögbrota. Saksóknaraembættið hefur c.a. 130 milljónum úr að spila árlega (fékk reyndar 50-60 milljónir í aukafjárveitingu vegna Baugsmálsins), en Bónusfélagar sögðust hafa eytt einum til tveim milljörðum króna í vörnina. Hvernig á ákæruvaldið að ráða við slíkan fjáraustur í þessi mál? Ekki má heldur gleyma andrúmsloftinu í þjóðfélaginu á þessum tíma, en þá var almenningur algerlega á bandi Baugsmanna og taldi allar ákærur á hendur þeim eingöngu lýsa illmennsku yfirvalda.
J. O. Simpson var sýknaður af morðákæru, sem allir "vissu" að hann væri sekur um, vegna þess að hann beitti fyrir sig fremstu lögmönnum Bandaríkjanna, sem tókst að snúa útúr öllum sönnunargögnum og gera þau tortryggileg.
Vonandi tekst íslenskum sökudólgum ekki að leika þann leik aftur.
Lánuðu sjálfum sér milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þorgerður Katrín var sú sem hét því að allt skyldi upp á borðið. Hún fékk fjóra mánuði til þess en borðið var tómt þegar hún yfirgaf ríkisstjórnina. Hvað þurfti hún langan tíma til þess. - Svar óskast.
Það á að taka miljarðakalla og -kellingar til yfirheyrslu og spyrja þá hvernig maður eignast miljarð.
Ps. Leitt að Guðbjörn vinur þinn leyfir ekki lengur fólki með aðrar skoðanir en hans sjálfs að kvitta á síðunni sinni.
Kolla (IP-tala skráð) 7.3.2009 kl. 22:34
Var ekki Þorgerður að fara fram á það sama og allir aðrir, þ.e. að þeir sem með rannsóknina fara, ættu að leggja spilin á borðið og upplýsa almenning. Hún var sjálf ekki í neinum rannsóknarhópi svo vitað sé.
Eina leiðin sem miljarðakallarnir og - kellingarnar virðast hafa notað til að "eignast" milljarðana virðist hafa verið með svikum og prettum. Það er ekki víst að þeir/þær viðurkenni það undanbragðalaust við yfirheyrslur. Vonandi verður hægt að sanna það á annan hátt.
Guðbjörn verður að svara fyrir sig sjálfur, eins og aðrir sem ekki leyfa andstæðum skoðunum að koma fram á sínum síðum, t.d. Þór Jóhannsson (minnir mig að hann heiti), afar vinstri sinnaður, og hann þurrkar út allar skoðanir sem honum eru ekki þóknanlegar.
Hérna blívur málfrelsið, enda er það í sönnum sjálfsæðisanda.
Axel Jóhann Axelsson, 8.3.2009 kl. 12:32
Það hefði verið góð byrjun að Þorgerður legði sín spil á borðið, enda þau hjón nátengd Kaupþingi. Nú á að fá Interpol til aðstoðar við miljarðaleitina, þeir hafa áður verið ónáðaðir þegar íslensk yfirvöld hafa gefist upp á eftirför glæpamanna. Eftirfarandi texti kemur þegar maður vill pósta hjá Guðbirni, þar sem málfrelsið blívur ekki í sönnum sjálfstæðisanda.
Kolla (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 17:51
Þorgerður hefur verið að útskýra sín fjármál að einhverju leyti í fjölmiðlum. Ef það eru ekki réttar skýringar, þá hlýtur það að koma í ljós síðar. Væntanlega gæfi hún ekki kost á sér áfram í pólitíkinni, ef hún hefði eitthvað að fela.
Sammála um að fá Interpol, eða aðra vana menn í rannsóknina á görkunum.
Kannski notar Guðbjörn bloggið til að skiptast á skoðunum við valinn hóp vina sinna og við því er svosem ekkert að segja, frekar en ástæða er til að svekkja sig á því að mega ekki setja inn athugasemdir hjá sumum vinstri mönnum. Hver hefur sitt lag á þessu.
Allir eru velkomnir með sínar skoðanir á því sem hér er skrifað, eins og áður sagði, enda er það í sönnum sjálfstæðisanda.
Axel Jóhann Axelsson, 9.3.2009 kl. 09:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.