IceSave

Glöggt kemur fram í bréfum Viðskiptaráðuneytisins til fjármálaeftirlits Bretlands að ríkissjóður muni standa á bak við Tryggingasjóð innistæðueigenda, svo hann geti staðið við skuldbindingar okkar samkvæmt samningnum við Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. að greiða að hámarki EUR 20.887.  Það er því hrein svívirða af Bretum að beita hryðjuverkalöggjöf sinni gegn Landsbankanum til þess að pína Íslendinga til þess að greiða IceSave innistæður að fullu.

Höfuðið af skömminni bitu svo "samstarfsþjóðir" okkar á ESS með því að styðja Breta í þessari kröfu og nánast setja á okkur viðskiptabann þar til við gengjum að þessum afarkostum.  Meira að segja norðurlandaþjóðirnar, með Norðmenn innanborðs, studdu allar kröfur gegn Íslandi.

Undarlegt er að hér skuli vera til fólk og stjórnmálaöfl sem halda áfram að kyrja sönginn  um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.


mbl.is Lofuðu stuðningi ríkisstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Axel,

  Þetta snýst ekkert um ESB. Af hverju lítur þú ekki á málið eins og Bretar sjá það? Íslenskir ráðamenn lofa að ábyrgjast ALLAR innistæður á Icesave, burtséð frá stöðu tryggingasjóðsins, sem var mjög rýr. Síðan daginn daginn eftir þetta loforð, eða 2 dögum, segjast síðan íslenskir ráðamenn að þeir ætli bara að greiða það sem standi í sjóðnum, og á sama tíma er Landsbankinn að flytja peninga í stórum stíl frá Bretlandi(þeir höfðu reyndar gert það í langan tím, m.a. til að fjármagna útrásina). Hvað í ósköpunum heldurðu að Bretarnir geri?? Þeir voru hreinlega, eins og málið lítur út, nauðbeygðir, því miður, að beita íslensku bankana hörðu. T.d. höfðu þeir verið illa brenndir af falli Lehman Brothers(gríðarmiklir fjármagnsflutningar frá Bretlandi áður en þeir féllu). Það hefðu einfaldlega verið afglöp hjá þeim að gera þetta ekki.

    Ef maður lítur t.d. á Bretland núna, og síðustu mánuði þá er verið að reyna gera allt til að bjarga hlutunum. Málin eru rædd opinskátt, og vandinn viðurkenndur. Hins vegar á Íslandi var allt í himnalagi, þangað til allt fór til helvítis.

         Hvernig skoðanamyndun manna á blogginu er, væri sjálfsagt góð félagsfræðirannsókn. Notfæra sér svona mál(sem ég vona svo sannarlega að við Íslendingar stöndum ekki eins illa og lítur út fyrir), til að búa til grýlu úr ESB.

          Þið ættuð að skammast ykkar!

Jóhannes (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 16:30

2 identicon

Þetta bréf breytti engu. Þingheimur allur tók þátt í innleiða tilskipunina sem kvað á um lágmarksupphæð innstæðutrygginga einstaklinga og þau lög standa. Enda eru þessi bréf frá viðskiptaráðuneyti efnislega nákvæmlega eins og skrifleg yfirlýsing frá forsætisráðherra 8. október: „Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár.“ [http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/3038].

Hér tekur forsætisráðherra af öll tvímæli með að túlkunin um að ábyrgðir takmarkist við eignir sjóðsins stenst engan veginn. Þessu til viðbótar kemur að 11. október undirrituðu stjórnvöld samkomulag við Hollendinga við ábyrgðanna á Icesave og í tilkynningu forsætisráðuneytisins á því segir orðrétt:  „Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur“. [http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/3047].

Loks er það alveg ljóst í efnahagsáætluninni og viljayfirlýsingunni til IMF sem unnin var í október og endanlega undirrituð 3. nóvember af fjármálaráðherra og Seðlabankastjóra er gert ráð fyrir fjármögnun þessara skuldbindinga í samræmi við tilskipun ESB. Í skýringum við áætlunina á vef forsætisráðuneytisins segir m.a. orðrétt: „Í lið 12 er því einnig gert ráð fyrir að inni í áætlaðri lánsfjárþörf ríkisins vegna bankakreppunnar séu lán til að mæta erlendum kostnaði við innstæðutryggingar í samræmi við ákvæði EES samningsins.“

Í nóvember var svo gert formlegt samkomulag á þessum nótum og á þeim grundvelli er verið að semja. Heldur fólk að það sé tilviljun að ENGIN af okkar helstu vina- og frændþjóðum var til í að styðja síðbúna, fráleita og langsótta lagatúlkun. Í ljósi skýlausra skuldbindinga myndi það stappa nærri landráðum að gera þjóðina endanlega ærulausa með því að standa ekki við þjóðréttarlegar skuldbindingar gagnvart einstaklingum, gamlingjum og góðgerðafélögum í Evrópu.

Eins og Jóhannes nefnir þá snerist beiting svokallaðrar hryðjuverkalöggjafar á því að ríkistjórnin lófaði ótakmörkuðum ábyrgðum innanlands en vildi ýmist hafa þakið skv. tilskipuninni fyrir erlenda sparifjáreigendur eða jafnvel láta takmarkast við eignir sjóðsins eftir að þeirri firru hafði verið lætt að fólki eftir á. Þess meintu mismunun ætluðu þjóðirnar að berja á bak aftur og heimtuðu hinar lofuðu ótakmörkuðu ábyrgðir án tillits til þjóðernis. Í ljósi þess að Íslendingar voru löngu búnir að lofa að standa við lágmarkið og beittu neyðarrökum má líka spyrja sig hvorn aðilann ESB "kúgaði" til hlýðni fyrir rest, Íslendinga sem féllust á að borga það sem þeir höfðu boðið með formlegum hætti frá upphafi og samið um bæði við Hollendinga og IMF eða Breta, Þjóðverja og Hollendinga sem vildu ótakmarkaðar ábyrgðir en voru látnir sætta sig hámarkið?

Arnar (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 19:53

3 identicon

Já, það er ágætt að spyrja hvor hafi kúgað hvern? Það er víst rétt að skv. jafnræðissjónarmiði þá er það ekki fráleit krafa af Bretum, Hollendingum og Þjóðverjum að krefjast fullrar verndunnar innistæðna. Ég held samt að þeir hafi séð í gegnum fingur sér varðandi það atriði. Það hefði verið all svakalegt , en samt lagalega verjandi fyrir þá að sækja það.  Nú er bara vonandi að fólk á þessu landi, hætti að láta spila með sig, og fari í að spyrja spurninganna sem spyrja þarf, þ.e. hvernig gerðist þetta(hvort sem það var siðlaust og/eða, ólöglegt, en ekki vera að láta einhverja meinfýsni gagnvart erlendum þjóðum byrgja sér sýn. Það er t.d. stórhættulegt að blanda ESB inn í þetta. T.d. fyndið að skoða þá samþættingu í ljósi þess að Bretar eru líklega mesta vandræðabarnið innan ESB.

Jóhannes (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 09:25

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Bretar beittu hryðjuverkalöggjöfinni til þess að reyna að pína okkur til þess að greiða IceSave að fullu, það var ekki fyrr en eftir það sem Íslendingar sögðust eingöngu ætla að greiða það sem til væri í tryggingasjóðnum.  Það var auðvitað til þess að skapa sér samningsstöðu, en öll aðildarríki ES studdu kröfu bretanna og settu okkur nánast í viðskiptabann.

Það þurfti síðan að semja um að við greiddum samkvæmt ESS ákvæðum, en það var ekki það sem Bretar settu fram sem sínar kröfur og hinar ES þjóðirnar studdu, allar sem ein.

Við höfum ekkert að gera í nánara samstarf við þessar þjóðir.

Axel Jóhann Axelsson, 5.2.2009 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband