6.11.2017 | 20:05
Sigurður Ingi með drauma um forsætisráðherrastólinn
Ýmsir furðuðu sig á því að Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, skyldi taka í mál að fara í viðræður um fjögurra flokka ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Slík stjórn hefði aðeins haft eins manns meirihluta og þar innanborðs hefðu verið ólíkindatólin sem kalla sig pírata.
Líklega hefur þetta einungis verið pólitísk leikflétta hjá Sigurði Inga til þess að búið yrði þá að útiloka píratana frá frekari viðræðum og í framhaldinu yrði farið í að kanna aðra möguleika á ríkisstjórnarsamstarfi.
Sigurður Ingi hefur lagt áherslu á að nú þurfi öfluga ríkisstjórn með sterkan meirihluta til að takast á við þau stóru verkefni sem bíða úrlausnar og þá ekki síst erfiða kjarasamninga, heilbrigðismál, menntamál og velferðarmál. Miðað við þá afstöðu furða sig margir á þessum hálfgerðu sýndarviðræðum við píratana, en þegar betur er skoðað er þetta einföld leikflétta.
Framsóknarmenn vonast eftir að hægt verði að mynda ríkisstjórn undir forsæti Sigurðar Inga með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum, en hvorugur þeirra flokka myndi una hinum að skipa forsætisráðherrastólinn í slíkri ríkisstjórn.
Vegna gamalla og hatrammra væringja milli Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna verður erfitt að koma á samstarfi þeirra og mun ekki ganga eftir fyrr en allt annað verður fullreynt. Þar sem Framsóknarflokkurinn er í kjöraðstæðum í þessum ríkisstjórnarkapli verður skemmtilegt að fylgjast með því hvernig Sigurður Ingi leggur út spilin á næstunni og hvort þessi kapall hans muni ganga upp.
Hann gæti líka misst spilastokkinn út úr höndunum á sér og algerlega tapað af ríkisstjórnarsætis ef öðrum tekst að stokka spilin á annan hátt og sér í hag. Slíkt er þó frekar ólíklegt.
Guðni ræðir við aðra formenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kæmi mér ekki að óvart að Sigurður Ingi endi uppi með svarta Pétur, eins og hann er að haga sér.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 7.11.2017 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.