Sex milljóna grínsekt vegna "skattasniðgöngu"

Stórútgerðarmaður að norðan hefur ekki skilað skattframtölum frá því árið 2004 og látið áætla á sig opinber gjöld öll árin eftir það og oftast verið í hópi skattakónga landsins.

Ekki þarf að efast um að þrátt fyrir þessar háu skattaáætlanir hafi útgerðarmaðurinn talið sig vera að fá á sig minni álögur en gerst hefði við heiðarlegt framtal tekna og eigna.  Auðmenn þessa lands hafa fæstir komist eins vel í álnir og raun ber vitni án þess að kunna að reikna og hvort sem þeir eiga í erfiðleikum með það eða ekki, hafa þeir fólk í sinni þjónustu sem hefur góða kunnáttu á því sviði og ekki síður skattalögum.

Það er því einungis vegna mjög staðfasts brotavilja sem skattframtölum er ekki skilað árum saman og einkennilegt að skattayfirvöld skuli ekki hafa gripið í taumana miklu fyrr en að krefjast einungis sektar fyrir árin 2012 og 2013.  Ólíklegt verður að teljast að minni spámenn hafi fengið slíka silkihanskameðhöndlun af hálfu skattayfirvalda.

"Ég hef svo sem ekk­ert um það að segja nema það að við borg­um þá sekt," segir útgerðarmaðurinn, enda munar hann greinilega ekkert um slíka upphæð, sem virkar eins og hverjir aðrir smáaurar í samhengi við þær upphæðir sem hann þénar í hverri viku.

Aðra eins lítilsvirðingu við lög landsins og þá launþega sem enga möguleika hafa á, jafnvel engan áhuga, að sleppa við eðlilegar skattgreiðslur á að taka föstum tökum og beita sektum sem undan svíður.  

Líklegast er að ýmsir þeir sem "skattasniðgöngu" stunda hlæji hátt og innilega að þessum úrskurði.


mbl.is Útgerðarmaður sektaður fyrir skattalagabrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þar sem skattstjóri fær gögn sem sýna allar launa og arðgreiðslur þeirra hjóna hérlendis þá er ekki verið að svíkja tekjum undan skatti þó hundsað sé að skoða og kvitta undir skattaskýrsluna. Hann var ekki að vinna svart hjá Samherja. Og þar sem ekki er eignaskattur þá eru eignir ekki skattlagðar. En það á samt að gefa þær upp og fyrir þau eignaundanskot er sektin. Ekki var um fjárhagsleg undanskot að ræða heldur trassaskap við upplýsingagjöf. Hefði hann áhuga á þá gæti hann sennilega kært og fengið sektina lækkaða eða fellda niður.

Vagn (IP-tala skráð) 10.11.2017 kl. 16:12

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Vagn hefur rétt fyrir sér.  Tekjurnar eru ekki faldar eða undanþegnar í svona tilvikum - reyndar eru skattframtöl að verða algjör óþarfi, RSK sjálft býður fólki uppá að kvitta bara fyrir fyrirframsamin skattframtöl frá RSK á netinu.  Líklega hefur þessum hjónum aðeins yfirsést sá möguleiki.

Kolbrún Hilmars, 10.11.2017 kl. 16:39

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

 Ef úrskurðurinn er lesinn sést að bæði tekjur (a.m.k. fjármagstekjur) og eignir (m.a. í skattaskjólum) hafi verið faldar fyrir yfirvöldum.

Í úrskurðinum segir ma:  "Á hinn bóginn verður einnig að líta til þess að með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins var leitt í ljós að gjaldendur hafa með vanrækslu sinni á skilum skattframtala ítrekað látið hjá líða að gera grein fyrir tekjum og eignum svo verulegum fjárhæðum nemur. Þá liggur fyrir að gjaldendur hafa ekki, þrátt fyrir rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum þeirra, staðið ríkisskattstjóra skil á skattframtölum vegna umræddra gjaldára. Að þessu virtu og þegar litið er til þess sem fyrir liggur um fjárhagsleg umsvif gjaldenda, einkum þó gjaldanda, A, sbr. 1. mgr. 51. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir sekt gjaldanda, B, hæfilega ákveðin 1.000.000 kr. til ríkissjóðs svo og þykir sekt gjaldanda, A, hæfilega ákveðin 5.000.000 kr. til ríkissjóðs."

Axel Jóhann Axelsson, 10.11.2017 kl. 20:19

4 identicon

Síðan hef ég sjálfur aldrei gefið upp til skatts, og sjaldnast skrifað undir ... enda enginn ástæða til eins og Vagn kemst að orði ... og hvað varðar orðalag dómsins, þá er ríkið stærsti glæpon í öllum löndum.

Farið nú vel í gegnum fjárlög ríkisins, og reiknið út ... hvert peningarnir fara ... það er ekki bara í Bandaríkjunum, sem fé hverfur í geira sem skráðir eru "klósett pappír", eða "ritföng" ... svo að það skiptir triljónum dollara.  En hingað til, er það bara í bandaríkjunum sem "sönnunargögnin" hverfa fyrir tilviljun í 9/11.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 11.11.2017 kl. 11:07

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það verður að viðurkennast að það kemur svolítið á óvart að fólk skuli keppast við að verja skattsvikara og ekki síst þá sem síst ættu að reyna að komast undan eðlilegum sköttum vegna gríðarmikilla tekna og eigna.

Öðru vísi var viðmótið þegar nafn Sigmundar Davíðs var nefnt í Panamaskjölunum þó hann gæti sýnt fram á að allar eignir hefðu alltaf verið taldar fram á skattskýrslum.  Í úrskurðinum vegna útgerðarmannsins kemur fram að hans nafn hafi komið fram í leyniskjölum sem skatturinn keypti af uppljóstrara og þar hafi uppgötvast eignir í skattaskjólum, sem ekki var vitað um áður.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Axel Jóhann Axelsson, 11.11.2017 kl. 14:13

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Mín skoðun er sú að skattleggja eigi tekjur þegar þær falla til, en ekki eignirnar sem myndast af afgangi teknanna.  Þó má eflaust deila um hvort 20% fjármagnstekjuskattur sé nógu hár.  Býst annars við að arðgreiðslur séu skattlagðar jafnóðum þar sem þær falla til innan EES, líkt og hér á landi.

Kolbrún Hilmars, 11.11.2017 kl. 14:40

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sumt var væntanlega hvergi skattlagt, enda segir á einum stað í úrskurðinum:  "Auk framangreindra eigna hefur A vanrækt að gefa upp stórt eignasafn sitt í erlendum bönkum á skattframtölum sínum til skattyfirvalda. Höfðu skattyfirvöld aldrei verið upplýst um þær eignir A."

Axel Jóhann Axelsson, 11.11.2017 kl. 23:18

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það er í rauninni mjög athyglisvert, Axel.  Þegar arður er greiddur út hérlendis, er greiðanda gert að draga frá fjármagnstekjuskattinn og skila honum síðan til tollstjóra.
Ég hélt að EES hefði samræmdar reglur um slíkt.  Hvað varðar eignasöfnin/eignirnar sjálfar þá virðist svo allur gangur á því milli landa hvort þær beri sérstakan eignaskatt. 

Kolbrún Hilmars, 12.11.2017 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband