Íslenskar eyðsluklær eru heimsmeistarar í skuldasöfnun

Við Íslendingar höfum lengi verið montnir af upprunanum og alltaf talið Ísland "stórasta land" í heimi og okkur sjálf meiri og merkilegri en allar aðrar þjóðir jarðarkringlunnar. Oft er gumað af hinu og þessu heimsmetinu og þá gjarnan miðað við höfðatölu, en nokkur heimsmet hafa þó fallið án þeirrar viðmiðunar.

Landinn er víða frægur fyrir ýmsar sakir, en frægastur er hann líklega fyrir eyðslusemi og kaupgleði í erlendum verslunum, enda slíkar opnaðar sérstaklega utan almenns opnunartíma þegar von er á hópum frá Íslandi með greiðslukortin á lofti. Gjarnan birtast fréttir í staðarfjölmiðlunum af þessum innkaupaferðum og hvílík guðsgjöf þær eru fyrir efnahagslífið í viðkomanedi bæjarfélagi og nágrannasveitum.

Samkvæmt samantekt sem fylgir í viðhangandi frétt sést að Íslendingar eiga heimsmet í skuldasöfnun einkaaðila, en þær nema 304% af landsframleiðslu og fáir sem komast með tærnar þar sem við mörlandarnir höfum hælana. Hérlendis hefur enginn verið hræddur við að taka öll þau lán sem í boði hafa verið án sérstakra áhyggna af endurgreiðslunum.

Kjörorð okkar Íslendinga hefur lengi verið orðtakið góða "þetta reddast einhvernveginn" og í þeim takti munum við sjálfsagt lifa enn um hríð, enda nógur tími til að sofa rólegur þegar maður verður dauður.


mbl.is Skuldsettar þjóðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Ekki VIÐ Íslendingar, Axel Jóhann, ég neita að vera í þessum hópi.  Og hef aldrei verið.

Elle_, 3.11.2012 kl. 17:11

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Við erum þjóðin, eða a.m.k. hluti hennar. Þó talað sé um "okkur" Íslendingana á umræðuefnið auðvitað aldrei við hvern einasta Íslending, en eins og sést af skuldasöfnuninni þá þarf nokkuð marga "okkar" til að slá slíkt heimsmet.

Axel Jóhann Axelsson, 3.11.2012 kl. 18:21

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þetta eru mest ríkisskuldir. Skuldir sem hvorugur okkar bað um. Peningur sem fer í tóma vitleysu vegna þess að liðið sem komst til valda er ekki vandað fólk.

Ásgrímur Hartmannsson, 3.11.2012 kl. 21:05

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ásgrímur, hér að ofan var ekki verið að fjalla um ríkisskuldir, heldur skuldir einkaaðila, þ.e. fyrirtækja og einstaklinga.

Axel Jóhann Axelsson, 3.11.2012 kl. 22:42

5 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Einkaskuldir er talað um, hvaða einkaskuldir er verið að tala um og hver á þær...

Er þetta kannski meira og minna einkaskuldir fyrirtækja og einstaklinga ásamt skuldum sveitafélaga...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 4.11.2012 kl. 09:41

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Skuldir ríkis og sveitarfélaga falla ekki undir skuldir einkaaðila. Einkaaðilar eru fyrirtækin og almenningur í landinu og eins og sjá má af því hve gríðarlegar skuldir þetta eru, þá verður þungur baggi að greiða þær til baka og mun taka langan tíma. Eins gott að fólk og fyrirtæki fari að minnka lántökur sínar og snúi sér að því að greiða niður gömlu skuldirnar.

Axel Jóhann Axelsson, 4.11.2012 kl. 14:03

7 identicon

Þetta er skammarleg og lágkúruleg ómenning þetta bruðl, vanvirðing fyrir því sem manni hlotnast af veraldlegum gæðum, og á að fara með til góðs, af forsjálni og sparsemi, svo nóg verði eftir til góðverka, gjafa sem gleðja og að tryggja afkvæmum manns farsæla framtíð, en ekki að eltast við tildur og tísku eins og heilalaus þræll hrakinn áfram af auglýsingu, hégóma og heimskulegri þrá eftir að ganga í augu annarra með ómerkilegum ráðum, sem fara að sjálfsögðu forgörðum hjá öllum hugsandi og eðlilegu fólki. Að þegar lágvöruverslanir, sem flestar hafa svona lágt verð af því þær nota vinnuafl í þriðja heims löndum á lakara kaupi en þrælar hlutu hér áður fyrr, sem býr við hræðileg lífskjör, opni hér útibú frá útlöndum, þá skuli menn hópast þangað eins og hænur og nánast rústa staðnum, það er einstaklega ómenningarlegt og minnir á villimenn og fábjána.

Ævar (IP-tala skráð) 10.11.2012 kl. 03:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband