Sandur til Sahara og ísmolar til Grænlands

Fyrirtækið Íslenskar matvörur hefur hafið innflutning á lambakjöti frá Nýja Sjálandi og segir að það muni verða á svipuðu verði út út búð og íslenska lambakjötið. Ekki er þó um mikið magn að ræða og sagt að um athugun sé að ræða á bragðlaukum landsmanna og hvort þeir finni mikinn bragðmun á lambakjöti frá sitt hvoru "heimshorninu".

Ekki verður alveg séð í fljótu bragði sú nauðsyn að eyða dýrmætum gjaldeyri til innflutnings á kjöti um nánast eins langan veg og mögulegt er á hnettinum ef það verður ekki ódýrara en það íslenska og jafnvel svo svipað að bragðgæðum að erfitt verði að finna mun á kjötinu að öðru leyti.

Íslendingum hefur alltaf þótt íslenska lambakjötið vera það besta í heimi og eina umkvörtunarefnið í sambandi við það hefur verið að fólki finnst það orðið nokkuð dýrt í innkaupum og því vandséð að nýsjálenskt lambakjöt verði frekar fyrir valinu í heilgarsteikina, ekki síst ef verðið verður ekki einu sinni talsvert lægra en á því íslenska.

Svipar þetta ekki til þess að einhverjum kaupahéðni dytti í hug að flytja sand til Sahara eða ísmola til að blanda út í kokteila í Grænlandi (eða jafnvel á Íslandi)?


mbl.is Flytur inn lambakjöt frá Nýja-Sjálandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gamla góða haftastefnan er að líða undir lok. En síðustu leifar hennar tóra ennþá í landbúnaði með ofurtollum og takmörkunum. Hér áðurfyrr fékkst lítið annað en innlend framleiðsla fyrir hinn almenna borgara. Allir gengu í fötum frá Sambandinu eða Hagkaup. Innréttingar og húsgögn eins í öllum húsum. Íslensk hágæða steypa (hærri gæðaflokkur en torf) í öllum húsum, en í mannvirki sem þurftu styrk og endingu þurfti að nota innflutt. Rafha eldavélar í hverju eldhúsi og niðurgreitt lamb eða Ýsa með kartöflum í hvert mál með Vals tómatsósu eða rabarbarasultu. En Íslendingum hefur alltaf verið sagt íslenska lambakjötið vera það besta í heimi, án þess að hafa nokkurn tíman haft einhvern samanburð. Allt þetta Íslenska var sagt það besta í heimi og ekki þörf á að flytja inn óæðri vörur. Í dag fást ekki margar þessar hágæða íslensku vörur sem áður þóttu það besta fyrir íslendinga. Samkeppni þar sem Íslenskum almenningi var boðin betri vara á lægra verði í óþökk þeirra sem notið höfðu verndar og velvilja stjórnvalda sá til þess. 

sigkja (IP-tala skráð) 6.9.2012 kl. 11:34

2 identicon

Ágæti eða ágæta sigkja, þú lætur eins og enginn íslendingur hafi nokkurntíma ferðast erlendis hvað þá búið þar. Fólk er ekki jafn fáfrótt og þú vilt láta. Nú hef ég búið erlendis og gert marga bragðprufuna á hinum ýmsu gerðum af lambakjeti, líka af nýsjálensku lambi. Þar rækta þeir Merino sauðfé sem að er þekkt fyrir ullina, EKKI fyrir bragðgæðin á kjötinu. Þetta er eins og að éta ullarsokkinn sinn enda er lambið alltaf borið fram með minntusósu, til þess að yfirgnæfa ullarbragðið.

Þarna fær fólk að vita hversu gott lambið okkar er og það er bara hið besta mál, verði þeim ullarlagðurinn að góðu. Muna bara að hafa minntusósuna tilbúna :-)

Keli (IP-tala skráð) 6.9.2012 kl. 13:49

3 identicon

Fyrir nokkrum árum var flutt inn talsvert af drykkjarvatni frá Noregi til Íslands. Það var í misstórum pakkningum, allt uppí 5 lítra brúsum. Þetta var hægt að fá t.d. úti á Granda í Reykjavík í verslun, sem heitir að mig minnir Evróprís og er af norskum uppruna. Sjálfur hef ég búið í Noregi. Þar er allt vatn yfirborðsvatn og gjarnan klórað, áður en það er sent til neytenda eftir vatnslögnum sveitarfélaga. Ég hef búið erlendis (í Noregi) en aldrei ferðast erlendis, heldur til útlanda. M.a. hef ég komið til allra landa við Eystrasalt, auk Niðurlanda og Bretlandseyja. Auk þess til Spánar og Morrocco, Venezúela, Thaílands, Singapore og Ástralíu, að ógleymdum báðum ströndum Bandaríkjanna og til Nýfundnalands. Hvergi hef ég smakkað vatn, sem nálgast venjulegt íslenskt drykkjarvatn að gæðum. Í flestum umræddum löndum er eina drykkjarhæfa vatnið, það sem  selt er út úr búð, átappað á flöskum. Ég tel klórað vatn í raun ekki drykkjarhæft. Mér finnst það mikið afrek í kaupmennsku hjá viðkomandi verslun, að henni skyldi takast að selja norskt vatn á Íslandi. Því finnst mér eitthvað vanta uppá kunnáttu íslenskra í kaupmennsku, að þeim skuli ekki takast að selja meira af vatni til útlanda en raun ber vitni. Ef við hefðum góða kaupmenn, gætum við grætt svo mikið á okkar góða vatni (sem gæti dugað fyrir þriðjung jarðarbúa), að við þyrftum ekki að beita sauðfé á eyðimörkina Ísland, en gætum flutt inn allt okkar kjöt og leyft landinu að gróa upp. Ég bý í sveit og veit, að sauðfjárrækt, eins og hún er stunduð á Íslandi árið 2012, er víðast hvar rányrkja. Ef gráðugar rollur væru ekki kjamsandi á öllu sem að kjafti kemur út um allar sveitir, ekki síður á lendum þeirra sem ekki eiga þær og vilja ekkert með þær hafa, væri hægt að skapa mörg störf í sveitum landsins við ræktun ávaxta og berja auk annars jarðargróða, sem í dag er tæplega ábatasamt vegna nauðsynjar þess að girða allan gróður af með rándýrum girðingum til varnar þessum bitvargi. Þegar Ísland verður aftur orðið gróið land, mætti skoða það, að flytja inn skógardýr eins og elgi og dádýr, til að veiða sér til matar, fyrir þá sem eru kjötætur. Eins er hægt að framleiða kjöt af nautgripum og hestum innan girðinga. Með aukinni kornrækt væri hægt að framleiða mestan hluta af fóðri svína og alifugla með innlendu korni. Íslenskt kindakjöt er lúxus, sem landið hefur ekki efni á, ekki miðað við nútíma búskaparhætti. Á Nýja-Sjálandi er kindakjöt framleitt í afgirtum beitarhólfum og samt eru bændur þar færir um að framleiða kjötið án ríkisstyrkja.

Sigvaldi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 6.9.2012 kl. 14:26

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Gamla góða haftastefnan liðin undir lok, segir sigkja. Hvað þýðir það annars?

Innlendur iðnaður hefur hrunið. Sá sem sigkja nefnir réttilega: fataiðnaður, skóframleiðsla, innréttingasmíði, húsgagnasmíði, heimilistækjaframleiðsla.

Við fengum semsagt viðskiptafrelsið og samkeppnina og misstum ekki aðeins við það vinnuna heldur þurfum að nota dýrmætan gjaldeyri að auki.

Endalaust mætti deila um hvað er "betri vara", en skiptir það máli ef fólk endurnýjar vörurnar hvort sem er löngu áður en líftími þeirra er liðinn?

Kolbrún Hilmars, 6.9.2012 kl. 14:38

5 identicon

Keli, á Nýja Sjálandi eru ræktaðir um 18 stofnar af sauðfé og Merino er ekki þeirra algengast, hefur um 4% hlutdeild. Sumt ræktað fyrir ull og annað fyrir ket. Þar er bændum ekki haldið uppi af ríkinu og því verða þeir að framleiða vörur sem markaðurinn vill borga fyrir. Á Íslandi höfum við stofn sem gegnum aldirnar hefur verið ræktaður til að skila mikilli ull og fitu og aðeins á síðustu árum hafa sumir bændur farið að huga að því hvað markaðurinn kallar eftir. Og þar sem það flokkast sem landráð að segja að manni finnist íslenska lambið ógeðslega feitt og frekar bragðvont þá geri ég það ekki. En hver hefur sinn smekk og það sem einum kann að þykja gott er ekki endilega það sem öllum þykir gott. Að hafa val er það sem flestir vilja.

sigkja (IP-tala skráð) 6.9.2012 kl. 15:04

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Einhvers staðar heyrði ég að á Nýja Sjálandi byggju um fjórar milljónir manna en fjárstofninn teldi hins vegar fjörutíumilljónir fjár.

Féð gengur úti allt árið um kring og hvorki þarf að byggja yfir það hús, né hlöður fyrir hey. Hver fjárbóndi á jafnvel hundruð þúsunda kinda, enda kindakjöt flutt um allan heim og auðvitað á góðu verði.

Einu sinni þegar ég var í Færeyjum sagði mér einn innfæddur þar að færeyingar framleiddu svo lítið af lambakjöti sjálfir að það færi nánast allt í skerpukjöt, dags daglega keyptu þeir nýsjálenskt kjöt en á hátíðisdögum hefðu þeir það íslenska í matinn, enda væri það langbest en hins vegar dýrast. Það er náttúrlega stórmerkilegt þar sem það nýsjálenska er flutt um hnöttinn þveran en það íslenska aðeins nokkur hundruð kílómetra. Aðstöðumunurinn við framleiðsluna er svo stjarnfræðilegur að vonlaust er að keppa við þá nýsjálensku í verðum.

Axel Jóhann Axelsson, 6.9.2012 kl. 17:22

7 identicon

Hef borðað NýSjálenskt oftar en einu sinn til að sannfærat um hversu vont það er. Það spænska kemur næst því íslenska hvað bragð snertir.

Keypti íslenskt vatn á flösku í Leifsstð og það var vont. Keypti vatn á flösku á Costa-blanca dagin eftir og það var margfallt betra.

Þetta með frjálsann innflutning og hrun á íslenskum iðnaði. Íslendingar hafa aldrei framleitt samkepnishæfa vöru. Man ennþá eftir enska súklaðikexinu sem ég keypti, í fyrst skipt, hér um árið. Það var himneskt miðað við það innlenda. En, -Það er hægt að venjast öllum ánskotanum-, eins og hann sagði maðurinn um árið og síðan að halda uppi hrokanum og vera staðfastur í vitlaeysunnu.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 6.9.2012 kl. 18:36

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ágúst H Bjarnason, 6.9.2012 kl. 21:10

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Prófa aftur að setja inn krækjuna að fréttinni:

http://www.visir.is/tyrkneskt-vatn-flutt-inn-i-plastfloskum/article/2009339649859

Ágúst H Bjarnason, 6.9.2012 kl. 21:12

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það hlýtur að vera toppurinn, eða líklega frekar botninn, á öllu því vitlausasta sem hægt er að láta sér detta í hug, að flytja vatn frá Tyrklandi til sölu á Íslandi.

Næst hlýtur einhver að láta sér detta í hug að flytja inn ísmola í pokum frá Saudi Arabíu.

Axel Jóhann Axelsson, 6.9.2012 kl. 21:20

11 identicon

En hver græðir mest- Flogið með norskann lax til Tælands og þar er gert sússi úr honum og flogið með það til Noregs og selt þar í verslunum. Íslenska lambakjötið sent til Japan og Rússlands í tonnatali! Hún er ekki öll vitleysan eins.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 6.9.2012 kl. 22:07

12 identicon

Sæll Axel Jóhann

Ég hef ekki áhuga á að ræða hvort rétt eða rangt sé að flytja lambakjöt til Íslands. Geri ráð fyrir því að markaðurinn finni svör við því. Mig langar þó að gera athugasemd við þessi ummæli:

„Íslendingum hefur alltaf þótt íslenska lambakjötið vera það besta í heimi og eina umkvörtunarefnið í sambandi við það hefur verið að fólki finnst það orðið nokkuð dýrt í innkaupum...“.

Umfjöllun um hvort íslenskt lambakjöt teljist það besta í heimi vísa ég til meðfylgjandi vefslóðar þar sem ég hef tekið saman 10 mýtur um sauðfjárrækt. Þetta er einmitt ein af þeim. En að halda því fram að einu eina umkvörtunarefnið snúist um verð finnst mér merkileg staðhæfing. Aftur vísa ég í meðfylgjandi glósur. Ég undrast ef það hefur farið fram hjá upplýstu fólki að til eru Íslendingar sem hafa áhyggjur af illa förnu landi og ofbeit sauðfjár. Einnig er til fólk sem hefur áhyggjur af lausagöngu sauðfjár á þjóðvegum, kostnaði vegna sauðfjárhalds sem lendir á öðrum landeigendum, styrkjum sem veitt er til ræktunarinnar o.s.frv. Því langar mig að setja inn þessa slóð. http://www.facebook.com/notes/sigur%C3%B0ur-arnarson/10-m%C3%BDtur-%C3%AD-sau%C3%B0fj%C3%A1rr%C3%A6kt/228175490563165 Þú þarft að sjálfsögðu ekki að vera sammála þessu öllu en hlýtur þó að samþykkja að til er fólk sem telur að helsta umkvörtunarefnið í sauðfjárrækt snúist um allt aðra hluti en verð á lambakjöti.

Bestu kveðjur

Sigurður Arnarson

Sigurður Arnarson (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 10:17

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Áhyggjur af ofbeit og illa förnu landi er allt önnur umræða en bragðgæði lambakjöts og verð þess. Jafnvel fólk sem hefur áhyggjur af lausagöngu sauðfjár borðar lambakjöt af bestu lyst og þykir það gott, jafnvel best í heimi.

Axel Jóhann Axelsson, 10.9.2012 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband