26.10.2011 | 19:30
Svik og prettir í atvinnumálum
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, metur það svo að nánast ekkert verði um nýja atvinnuuppbyggingu í landinu á næstu árum. Þessa ályktun dregur hann af því sem forstjóri Landsvirkjunar sagði á formannafundi ASÍ, en í máli hans komu fram efasemdir um að Alcoa tækist að fjámagna verkefnið vegna efnahagsástandsins í heiminum um þessar mundir. Jafnvel þó Alcoa tækist að finna fjármagnið, þá gæti Landsvirkjun ekki afhent neitt rafmagn til verksmiðjunnar fyrr en í fyrsta lagi eftir fimm til sex ár.
Það hljóta að teljast vera stórtíðindi að jafnvel þó einhverjir fjárfestar hefðu áhúga á að reisa hér ný fyrirtæki, sem veitt gætu hundruðum manna vinnu, þá sé ríkisstjórnin búin að ganga svo frá málum að ekkert verði hægt að virkja á næstu árum og því ekkert rafmagn til að selja til stórnotenda.
Ástæða er til að vekja sérstaka áherslu á eftirfarandi orðum Vilhjálms: "Þessi niðurstaða, ef rétt reynist, hlýtur að vera gríðarleg vonbrigði fyrir Suðurnesjamenn sem og þjóðina alla, vegna þess að hagvaxtaspár t.d. ASÍ byggjast að stórum hluta á því að þessar framkvæmdir fari á fulla ferð á næstu misserum. Við Akurnesingar þekkjum vel mikilvægi stóriðjunnar og þau sterku áhrif sem stóriðjan hefur á allt samfélagið. Á þeirri forsendu skilur formaður vel áhyggjur Suðurnesjamanna ef af þessum framkvæmdum verður ekki."
Það er ekki ofsögum sagt af því að atvinnu- og mannlíf á Akranesi á nú orðið nánast allt undir stóriðjurekstrinum á Grundartanga og væri ekki hjá svipur hjá sjón án hans.
Einnig er vert að minna á að í júnímánuði árið 2009 lofaði ríkisstjórnin skriflega, að ryðja úr vegi öllum hindrunum þess að uppbygging álvers í Helguvík gæti hafist strax þá um haustið. Þau loforð hafa verið endurtekin nokkrum sinnum síðan og svikin jafnóðum.
Ríkisstjórninni hefur þegar tekist að koma í veg fyrir uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík og útlit fyrir að sagan endurtaki sig með álverið í Helguvík. Ríkisstjórnin misskilur málið algerlega, ef hún heldur að átak í atvinnumálum felist í baráttu gegn uppbyggingu atvinnuskapandi fyrirtækja.
Hverfandi líkur á að álver rísi í Helguvík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er ekkert vandamál við gerum bara "eitthvað annað" því það er til svo mikið af því.
Björn (IP-tala skráð) 26.10.2011 kl. 20:11
http://www.youtube.com/watch?v=zJw6ecTxwYM&feature=player_embedded
Ertu búinn að heyra þetta Axel, ef ekki hlustaðu þá til enda. Ég vildi helst að þetta kæmi fyrir eyru allra landsmanna. M.b.k.
Bergljót Gunnarsdóttir, 26.10.2011 kl. 20:34
Bergljót, þetta er stórmerkilegt viðtal og í því kemur margt fram sem maður hefur verið að blogga um sjálfur, þó maður hafi ekki getað komið því jafn skýrt í orð og Jóhannes Björn gerir.
Það er alveg ljóst að peningakerfi heimsins er hrunið, ekki spurning hvort það sé hrunið heldur aðeins hvenær það verðu viðurkennt.
Peningakerfi, sem byggist ekki upp á verðmætasköpun, heldur skuldavafningum og afleiðuviðskiptum getur auðvitað ekki gengið til lengdar og því fyrr sem fólk gerir sér grein fyrir því og fer að lifa samkvæmt því, því betra.
Axel Jóhann Axelsson, 26.10.2011 kl. 23:39
Jóhannes Björn hefur í áratugi verið glöggskyggnari á þróun peningamála og allar svikamyllurnar en allir pólitíkusar veraldar samanlagt.
Magnús Óskar Ingvarsson, 27.10.2011 kl. 00:17
Hvað um innlenda þáttinn? Sú mynd sem dregin er upp þar, er ekki falleg og virðist eiga sér langan aðdraganda. Allur fjórflokkurinn jafn sekur. Þegar Sjálfstæðismenn og Framsókn hafa lagt drögin, koma hinir inn eins og hlýðnir sauðir sem ganga alsælir til slátrunar.
Hvar erum við eiginlega stödd, þegar engum er að treysta og allt siglir hraðbyri til andskotans?
Bergljót Gunnarsdóttir, 27.10.2011 kl. 07:19
Það sem Jóhannes Björn sagði um innlenda þáttinn í þessum málum er örugglega flest allt satt og rétt. Hafi t.d. vinnubrögðin við fyrri einkavæðingu bankanna verið ámælisverð, þá er afhending tveggja ríkisbanka á silfurfati til vogunarsjóða og ámóta hákarla algert hneyksli og stórdularfullt að ekki skuli vera meira rætt um þann gjörning.
Auðvitað hefði átt að nota "tækifærið" við hrunið 2008 til að stokka allt fjármála- og peningakerfið hér á landi upp frá grunni og ná því einu sinni að setja almennilegt fordæmi, en ekki elta áfram það úr sér gengna, rotna og gjörónýta peningakerfi sem hefur verið að þróast í skjóli fjármálaglæpamanna undanfarna áratugi.
Mistök eru til að læra af, en við Íslendingar höfum yfirleitt verið tregir nemendur, ekki síst í fjármálum.
Axel Jóhann Axelsson, 27.10.2011 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.