Fjárhagsstaða Moggans styrkist á ný

Talsverð umskipti hafa orðið að undanförnu í afkomu Árvakurs hf., rekstrarfélags Morgunblaðisins, sem m.a. kemur fram í jákvæðri framlegð fyrri hluta þessa árs.

Í viðhangandi frétt segir um þennan viðsnúning m.a: "Framlegð (ebitda) af rekstri Árvakurs hf. á árinu 2010 batnaði um 389 milljónir króna frá árinu á undan. Framlegð ársins 2010 var neikvæð um 97 milljónir en var árið 2009 neikvæð um 486 milljónir. Á þessu ári hafa orðið jákvæð umskipti og framlegð á fyrri hluta ársins er jákvæð um 30 milljónir."

Þetta eru afar góð tíðindi og gefa auknar vonir um að Mogginn verði gefin út um ófyrirséða framtíð og leiði umræðuna í þjóðfélaginu áfram, eins og hann hefur gert áratugum saman, sem besti og áreiðanlegasti fjölmiðill landsins.

Mogginn ber af öðrum prentmiðlum eins og gull af eiri og enginn sem vill fylgjast með þjóðmálunum á Íslandi getur verið án þess að lesa blaðið, bæði fréttirnar og ritstjórnarskrifin.  Blaðið var stórveldi í íslensku þjóðfélagi undir stjórn Styrmis og Matthíasar og er á góðri leið með að endurheimta þann sess undir stjórn núverandi ritstjóra.

Þó framlegð segi ekki nema hálfa söguna um endanlega afkomu fyrirtækis, er a.m.k. nauðsynlegt að hún sé jákvæð, ef möguleiki á að vera til þess að greiða niður fjárfestingu og fjármagnskostnað vegna hennar og rekstrarskulda.

Mogganum er óskað alls góðs í framtíðinni og þökkuð samfylgdin á undanförnum áratugum.  Vonandi slitnar sú samfylgd ekki fyrr en dauðinn aðskilur og er þá ekki átt við líftíma Morgunblaðsins. 


mbl.is Rekstur Árvakurs á réttri leið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er gleðilegt að Mogginn, frjáls fjölmiðill, sem er ekki troðið upp á mann eins og sumir aðrir  skuli vera rekinn með hagnaði. Já, Mogginn ber af öðrum fjölmiðlum.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.9.2011 kl. 09:13

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sannarlega. Takk fyrir fróðlega grein, Axel.

Jón Valur Jensson, 1.9.2011 kl. 10:01

3 Smámynd: Björn Birgisson

Þvílík lofrulla! Þeir sem vilja mega trúa því að Mogginn sé rekinn með hagnaði eftir langvarandi bullandi taprekstur. Þeir sem vilja geta líkt núverandi ritstjóra við Matthías og Styrmi, jafnvel talið hann þeim fremri. Hins vegar blasir það við fólki, sem losnað hefur við pólitískan heilaþvott hægri aflanna, að pólitísk skrif Morgunblaðsins, undir stjórn núverandi ritstjóra, minna meira á illa lyktandi rotþró en heilbrigð skoðanaskipti fólks á öndverðum meiði. Lykilorðin eru heift, hatur og hefnigirni.

Björn Birgisson, 1.9.2011 kl. 21:40

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Björn, mér sýnist á öllu að þú hafir sjálfur bent á lykilorðin í þinni eigin athugasemd: "heift, hatur og hefnigirni".

Axel Jóhann Axelsson, 1.9.2011 kl. 22:16

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Björn, reyndar kemur hvergi fram í fréttinni að Árvakur hafi verið rekinn með hagnaði, aðeins sagt að framlegð sé orðin jákvæð. Á þetta benti ég nú einmitt í minni færslu, þar sem sagði:

"Þó framlegð segi ekki nema hálfa söguna um endanlega afkomu fyrirtækis, er a.m.k. nauðsynlegt að hún sé jákvæð, ef möguleiki á að vera til þess að greiða niður fjárfestingu og fjármagnskostnað vegna hennar og rekstrarskulda."

Axel Jóhann Axelsson, 1.9.2011 kl. 22:31

6 Smámynd: Björn Birgisson

Axel Jóhann, ertu 100% sáttur við pólitísk skrif Morgunblaðsins? Er þar ekkert athugavert? Gerir þú þér grein fyrir því að í Staksteinum er aldrei minnst á Sjálfstæðisflokkinn og hvað hann hyggist fyrir, hafi gert, eða hver sé stefna hans yfirhöfuð í nokkru máli. Aldrei. Þar eru aðeins níðskrif um andstæðinga.

Björn Birgisson, 1.9.2011 kl. 22:38

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jú, það er oft minnzt á Sjálfstæðisflokkinn í Staksteinum, Björn.

En þú ert beztur í því sjálfur að auglýsa, hve innilega fáfróður þú ert um Morgunblaðið. Í innleggi þínu kl. 21:40 kemur fram, að þú ímyndar þér, að einungis sé einn ritstjóri á Morgunblaðinu. Þeir eru tveir, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, afar fær maður, fyrrv. ritstjóri Viðskiptablaðsins. Þar að auki er svo aðstoðarritstjórinn Karl Blöndal.

Jón Valur Jensson, 1.9.2011 kl. 23:10

8 Smámynd: Björn Birgisson

Jón Valur, ef þú ávarpar mig aftur, segðu mér þá eitthvað sem ég ekki veit fyrir. Annars hef ég ekki áhuga á þínum ávörpum af sérstökum ástæðum.

Björn Birgisson, 1.9.2011 kl. 23:28

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Björn, oft er nú minnst á Sjálfstæðisflokkinn í Staksteinum, eins og Jón Valur bendir á, en Staksteinar eru ekki einu stjórnmálaskrif blaðsins og alls ekki þau sem mestu máli skipta, þó þau séu oft góð.

Ekki er ég 100% sammála öllum pólitískum skrifum Moggans, en skoðanir mínar og þær sem blaðið stendur fyrir fara saman í mjög mörgum tilfellum.

Mínar skoðanir myndast hins vegar af eigin íhugunum á þeim málum sem til umföllunar eru hverju sinni og hvorki teknar beint upp úr Mogganum eða öðrum fjölmiðlum. Þær mótast eftir lestur og hlustun ýmissa sjónarmiða og eru að lokum á mína eigin ábyrgð, en ekki annarra.

Axel Jóhann Axelsson, 2.9.2011 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband