Vaxtaokrið er verra en verðtryggingin

Lífeyrissjóður veslunarmanna tilkynnti um lækkun vaxta, frá og með morgundeginum, á lánum sem bera fasta vexti, úr 4,9% í 4,5%, um leið og tekið er fram í yfirlýsingunni að sjóðurinn hafi ávallt lánað sjóðfélögum sínum húsnæðislán á hagstæðum kjörum.

Fastir vextir af verðtryggðum lánum upp á 4,9% eru ekki "hagstæð kjör" og það eru 4,5% vextir ekki heldur.  Hér á landi hefur þvílíkt vaxtaokur tíðkast um áratugaskeið, að sumum gæti þótt þetta vera tiltölulega lágir vextir þó þetta séu í raun okurvextir, þó vissulega sé þetta minna okur en ýmsar aðrar lánastofnanir stunda, nú sem áður.

Eðlilegir vextir af verðtryggðum lánum ættu alls ekki að vera mikið hærri en 2-2,5%, enda væru slíkir vextir algerlega eðlilegt endurgjald fyrir slík lán, enda höfuðstóllinn tryggður með verðtryggingunni. Íslendinar hafa hins vegar látið bjóða sér algert vaxtaokur, enda lánaóðir flestir og verið meira en viljugir til að taka öll þau lán, sem í boði hafa verið, án þess að velta vaxtakjörunum nokkurn tíma fyrir sér. 

Enginn berst fyrir eðlilegum vaxtakjörum í landinu, en hins vegar liggja fáir á liði sínu í skömmunum út af verðtryggingunni og láta eins og hún sé allt að keyra um koll í húsnæðislánum landsmanna. Henni er meira að segja kennt um að höfuðstóll lána skuli ekki lækka mikið á fasteignalánum, enda þótt þar sé um endurgreiðslufyrirkomulagið að ræða, þ.e. annuitetslánin, en ekki verðtrygginguna sem því veldur.

Óskandi væri að baráttunni yrði beint að raunverulega vandamálinu, sem er vaxtaokrið og verðbólgan, en ekki eingöngu rætt um verðtrygginguna, enda ekki vandamál  sem slík, ef verðbólga er lítil.  Þar að auki vex kaupmáttur meira en neysluverðsvísitalan í eðlilegu efnahagsumhverfi og algerlega ófært að miða eingöngu við kreppuárin frá 2008.

Kreppunni mun linna áður en yfir lýkur, a.m.k. fljótlega eftir að skipt verður um ríkisstjórn í landinu. 

 


mbl.is Lækka vexti á lánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll; Axel Jóhann !

Hygg; að rétt sé, að HVORU TVEGGJU, séu viðlíka ógeðfelld, í afar illa löskuðu samfélagi, síðuhafi góður.

Ísland er; eins og Skonnorta - marandi, í hálfu kafi, og mun verða, unz takist hafi, að koma skemmdarverka öflum ALLRA 4ra flokka, frá landsstjórninni - beint; og óbeint.

Við verðum; að fá fólk úr framleiðslu- og þjónustugreinum að, til þess að koma mögulegu skikki á mál, að nýju.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.8.2011 kl. 17:26

2 Smámynd: Rafn Guðmundsson

Hvers vegna ætti kreppunni að ljúka "fljótlega eftir að skipt verður um ríkisstjórn í landinu." - ekki sé ég það

Rafn Guðmundsson, 15.8.2011 kl. 17:26

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Rafn, vel má vera að það sé bjartsýnt orðalag að segja "fljótlega", en a.m.k. er alveg víst að ekkert mun gerast til batnaðar í efnahagsmálunum með óbreyttri stjórnarstefnu.

Sjálfsagt mun taka einhvern tíma að rétta kúrsinn af eftir þá áttavillu í efnahags- og atvinnumálum sem hrjáð hefur ráðamenn undanfarin ár.

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2011 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband