10.8.2011 | 19:06
Gnarr pride
Óstjórnin virðist vera orðin svo mikil hjá Reykjavíkurborg að meirihlutanum tekst ekki einu sinni að klára sig af helstu skylduverkum sínum, eins og sést best á því að kalla þarf saman aukafund í Borgarstjórn Reykjavíkur, í fyrsta sinn í sögunni, til þess að afgreiða þriggja ára fjárhagsáætlun, sem skylda er að afgreiða í febrúarmánuði ár hvert.
Þessi þriggja ára áætlun er ekki lögð fram vegna frumkvæðis meirihlutans, heldur að kröfu minnihlutans í borgarstjórn og eftir áminningar innanríkisráðuneytisins og fésektir Kauphallarinnar vegna vanskila á ársreikningi.
Engum fréttamanni virðist lengur detta í hug að taka Jón Gnarr tali vegna málefna borgarinnar, enda til lítils að ræða við hann um þau efni, þar sem hann getur aldrei svarað fyrir nokkurt mál, svo vit virðist vera í. Nú orðið ber mest á borgarstjóranum á Gay Pride, þar sem hann sýnir borgarbúum innsýn í kjólasafn sitt og fer fremstur í Gleðigöngunni í þeim tilgangi að beina sem mestri athygli að sjálfum sér, en skyggja í leiðinni á megintilgang göngunnar, sem er að berjast fyrir jafnrétti samkynhneygðra og jafnvel annarra minnihlutahópa.
Ef til vill dreymir borgarstjórann um að breyta nafni dagsins í Gnarr Pride og gera hann að árlegum degi til hyllingar sjálfs sín. Af því tilefni er rétt að benda á orðabókarþýðingu orðsins Pride: "NAFNORÐ: stolt h.; dramb h.; stærilæti h.; hroki k.; mont h.; ofmetnaður k.; mikilmennska kv.; hátindur k.; hápunktur k.; ljónahjörð kv.;"
Þó samkynhneygðir hafi valið þetta nafn vegna fyrstu merkingar orðsins samkvæmt orðabókinni, þ.e. stolt, hvarflar að sú hugsun að þýðingarnar þar á eftir eigi betur við borgarstjórann.
Borgaryfirvöld áminnt þrisvar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvað er eiginlega að, sem gerið þig svona hatramman út í borgarstjórann. Hann er ekki að gera neitt annað en að sýna samstöðu með samkynhneigðum og veitir ekki af.
Páll Óskar, Jón Gnarr o.fl. ofl. koma þarna fram til að vekja athygli á málstaðnum, en svo er Jón Gnarr pikkaður út sem einhver afæta eða ómerkingur, eða ég veit ekki hvað, af fólki eins og þér fyrir sýna samstöðu með því sem óunnið er, og gleði yfir því sem hefur áunnist. Ef ég ég væri ekki svona kureis myndi ég hreinlega segja þér að skammast þín. Sorry old chap.
Bergljót Gunnarsdóttir, 10.8.2011 kl. 21:40
Ég styð baráttu samkynhneigðra heilshugar og hef mætt á Gay Pride árum saman til að sýna samstöðu og reyndar gengið í göngunni tvisvar, svo varla á ég að skammast mín fyrir það, eða hvað.
Hins vegar þykir mér Jón Gnarr vera sjálfum sér og borgarbúum til háborinnar skammar í borgarstjóraembættinu og þætti fara betur á að hann sinnti því af alvöru og léti fíflaganginn vera, a.m.k. þangað til hann verður farinn að sinna raunverulegum störfum sínum skammlaust.
Axel Jóhann Axelsson, 10.8.2011 kl. 21:59
Kallarðu þá þáttöku í göngunni fíflagang? Eða er Jón Gnarr sá eini sem nýtur þess "heiðurs"? Mér finnst engin ástæða til að blanda þessu saman, enda sé ég ekki að hann sé að gera neitt verri hluti en forverar hans í borgarstjórn, bara öðruvísi.
Bergljót Gunnarsdóttir, 11.8.2011 kl. 20:16
Það væri ekkert síðri stuðningur frá hans hendi, ef hann kæmi einfaldlega fram á þessum degi sem borgarstjóri, en ekki í draghlutverki. Það er alveg sérstök keppni í tengslum við hátíðina í dragi og hafi hann svona mikinn áhuga á þeirri listgrein, væri það vettvangur fyrir hann að fá útrás fyrir þá áráttu.
Ef þetta er hugsað þannig að hann sé að setja sig í einhver sérstök hommaspor, þá skyldi það athugast að ekki hafa allir hommar áhuga á kvenfatnaði, enda var t.d. lögð áhersla á það, í einu atriði göngunnar, að hommar væru ekkert öðru vísi en aðrir karlmenn og þekktust ekkert úr hópnum vegna útlits eða klæðnaðar.
Það er hreinlga fáránlega hallærislegt að sjá borgarstjórann leika homma, sem á að vera að leika kvenmann.
Axel Jóhann Axelsson, 11.8.2011 kl. 20:40
Það eru ekki allir sem klæðast í drag hommar! Bara svona til upplýsingar.
Bergljót Gunnarsdóttir, 11.8.2011 kl. 23:29
Líklega eru þeir ekki margir, borgarstjórarnir í veröldinni, sem klæða sig í drag við opinberar athafnir.
Axel Jóhann Axelsson, 12.8.2011 kl. 13:43
Nei því miður, en mættu vera miklu fleiri, því fleiri, því meiri samstaða um eðlileg mannréttindi.
Bergljót Gunnarsdóttir, 13.8.2011 kl. 02:23
Er þá stuðningur hundrað þúsund manns einskis virði, ef fólkið klæðist ekki dragi?
Gæti Jón Gnarr ekki tekið þátt í stuðningsaðgerðum með réttindabaráttu t.d. litaðs fólks, án þess að mála sig svartan, gulan eða rauðan?
Ég tel mig ekki sýna málstað samkynhneigðra á nokkurn hátt minni stuðning en t.d. Jón Gnarr telur sig gera, þó ég klæði mig aldrei í drag.
Axel Jóhann Axelsson, 13.8.2011 kl. 08:32
Ég er að tala um borgarstjóra um víða veröld. Ef þeir gerðu eitthvað svona eins og Jón Gnarr, til að vekja at athygli umheimsins á málefninu. En ég veit ekki til að Jón Gnarr klæðist í drag við opinberar athafnir.
Við litla fólkið hefðum engin áhrif þó við myndum klæða okkur á þennan hátt, og því ekki til neins að gera það.
Bergljót Gunnarsdóttir, 13.8.2011 kl. 11:04
Jón Gnarr kemur fram á Gay Pride í nafni embættis síns sem borgarstjóri. Hann sér um að það sé vandlega auglýst að borgarstjórinn í Reykjavík taki þátt í göngunni til þess að sýna stuðning embættisins við réttindabaráttu samkynhneigðra. Það kallast að koma fram opinberlega í nafni embættisins.
Reyndar er hann alltaf jafn afkáralegur í allri framgöngu, hvernig sem hann er klæddur og við hvaða tækifæri sem hann kemur fram, svo þessi dragsýning hans sker sig svo sem ekkert úr að því leyti.
Axel Jóhann Axelsson, 13.8.2011 kl. 15:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.