Varnarlausir læknar

Læknum hefur verið legið á hálsi fyrir að gefa of mikið út af lyfjum sem geta verið ávanabindandi og fíklar hafa sótt mikið í, bæði til eigin nota og til endursölu með gríðarlegum hagnaði.

Landlæknisembættið virðist loksins núna vera farið að kanna þessi mál nánar og samkeyra upplýsingar úr lyfjaskrám til þess að finna út hvaða læknar skrifa mest út af þessum lyfjum og ekki síður til að sjá hvaða "sjúklingar" sækja mest í þau.

Í þeirri könnun kemur fram að einstakir aðilar virðast nánast vera í fullu starfi við að heimsækja hina ýmsu lækna til þess að láta skrifa upp á þessi lyf og munu vera dæmi um að sami aðili hafi leitað til allt að 70 lækna á fárra mánaða tímabili til þess að rekja fyrir þeim upplogna sjúkrasögu og fá lyfseðla fyrir sterkum lyfjum, sem vafalaust hafa verið ætluð til sölu á dópmarkaðinum.

Þetta sýnir að læknar hafa í raun verið varnarlausir gagnvart þeim sem staðráðnir eru í því að misnota heilbrigðiskerfið til vímuefnaútvegunar, annað hvort vegna eigin neyslu eða til að nýta sér fíkn annarra í ábataskyni.

Slíka "sjúklinga" verður að setja á "svartan lista", þannig að þeir geti ekki gengið á milli lækna í þeim tilgangi að misnota traust þeirra og vilja til að aðstoða raunverulega sjúkt fólk.

Allir sem þurfa á lyfjum að halda eiga að fá þau, en hinir eru að vinna hrein skemmdarverk á því og koma óorði á lækna sem berskjaldaðir eru fyrir þessum "atvinnulygurum" sem ganga á milli þeirra með upplognar raunasögur.


mbl.is Læknar fá bréf frá landlækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Fullkomnlega sammála, orð í tíma töluð hvað "sjúklingana" snertir.

Það er vont til þess að hugsa að læknar geti átt starfsheiður sinn að veði  þegar svona fólk á í hlut.

Bergljót Gunnarsdóttir, 5.7.2011 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband