2.4.2011 | 08:35
Kvótamál í brennidepli kjaraviðræðna
Eitthvað virðist vera að draga saman í sjónarmiðum útvegsmanna og ríkisins varðandi skipan fiskveiðistjórnunarmála, a.m.k. einhverskonar millilending í bili sem liðkað gæti fyrir gerð kjarasamninga til næstu þriggja ára, en niðurstaða í þessu máli er alger forsenda þess að SA treysti sér til að skrifa undir kjarasamninga til þriggja ára.
Ótrúlegur tími með tilheyrandi pukri, leynd og þvermóðsku, hefur farið í þetta mál hjá Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegsráðherra, sem nú er búinn að veltast með málið í tvö ár og liðið á annað ár síðan nefnd á hans vegum lauk störfum og skilaði af sér "sáttaleið", sem ríkisstjórnin hefur svo aldrei verið sátt við og verið að pukrast síðan með sínar eigin breytingarleiðir, sem enginn fær að vita um hvað snúast, eða hvenær ættu að taka gildi.
Mest óánægja hefur verið með heimildir útgerða til að leigja og selja frá sér kvóta og reyndar alveg með ólíkindum, að ekki skuli vera búið að taka á þeim málum fyrr. Þrátt fyrir alla óánægjuna með framsalið, hefur ekki náðst nein samstaða um hvernig því skuli breytt, eða hvernig hleypa eigi kvótalausum útgerðum inn í kerfið, en vitlausasta hugmyndin í því sambandi er þó sú, að setja allan kvóta á markað og bjóða hann hæstbjóðanda, árlega.
Á þessu bloggi hefur annað slagið verið fjallað um þessi mál og má t.d benda á ÞETTA blogg frá janúar 2010, þar sem stungið er upp á að hvert skip fái kvóta í samræmi við aflareynslu þriggja síðustu ára og þá einnig þeir sem gert hafa út á leigukvóta. Öll sala og leiga á kvóta yrði bönnuð, en skipti á tegundum milli skipa heimiluð, sem þá hefði áhrif á úthlutun næsta fiskveiðiárs.
Sá kvóti, sem afgangs yrði árlega yrði þá settur á markað og leigður hæstbjóðanda, t.d. til þriggja ára, en að sjálfsögðu myndi engum detta í hug að bjóða í slíkan kvóta, nema hafa skip til þess að veiða hann.
Núna verður Jón Bjarnason að brjóta odd af oflæti sínu og höggva á þann hnút sem kjaraviðræðurnar virðast vera komnar í, vegna þessa ótrúlega seinagangs við að kynna fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og þeirrar óvissu sem sjávarútvegurinn er í vegna þess.
Nálgun í útvegsmálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Axel góð grein en hvað finnst þér um að stór pólitískt mál sé nú hneppt utan í kjaraviðræður á almennum markaði. Tvívegis er útgerðin að undirlagi Þorsteins Más Baldvinssonar búin að hóta Ríkisstjórninni að sigla skipunum í land. Í bæði skiptin hikstaði hinn almenni útgerðamaður því beinast lá við að þeir yrðu sviptir veiðileyfunum.
Ég er ekki vinstri maður en ég tel að þjóðin geti ekki liðið samtökum á við LÍÚ, sem búin eru um árabil að fara með ofbeldi gagnvart mönnum í greininni, að nota almenna kjarasamninga til að þvinga rétt kjörna Ríkisstjórn þjóðarinnar á þennan hátt eins og á sér stað núna.
Þú talar um að gefa uppá nýtt. Jú það þarf svo sannarlega að gefa uppá nýtt en hverjum dettur í hug að gefa núna þegar menn komast ekki inní greinina. Þetta var gert fyrstur 3 árin í kvótanum að menn gátu náð sér í nýja reynslu með eins ára sóknarmarki eins og núverandi kvótaúthlutun var framkvæmd og væri það ásættanlega aðferð fyrir þá sem eru án kvóta en hafa reynslu í greininni.
En hvers vegna eru við að reyna að halda áfram með kerfi sem er óréttlátt og brýtur gegn almennum mannréttindum er spillt og setur útgerðina í risa skuldir? Íslendingar voru langt á undan sinni samtíð þegar þeir settu á og þróuðu sóknarmarkið sem virkaði vel og gerði öllum jafn hátt undir höfði, byggði sannanlega upp fiskstofnanna og hámarkaði aflamagnið. Þetta kerfi er hægt að setja á núna með einu pennastriki. Engin Ragnarrök enginn skaði skipin þurfa ekki einu sinni að koma inn.
Velkjumst ekki í vafa um að núverðandi kvóta kerfi var sett á að spilltum stjórnmálamanni sem gekk erinda fárra sem ekki sættu sig við að sitja við sama borð og við hinir. Og eftir að frjálsa framsalið var sett á byrjaði spillingin fyrir alvöru og er það sannanlega ástæða hrunsins. Við horfum á stórkvóta eigendur stela 2,3 milljörðum króna af þjóðinni fyrir framan augun á okkur eftir hrun. Skinney/Þinganes hvers vegna viljum við halda áfram með kvóta kerfi?
Ólafur Örn Jónsson, 2.4.2011 kl. 10:43
Ólafur, ekki er ég að halda því fram að kvótakerfi sé eina rétta lausnin á fiskveiðistjórnuninni, en það er þó það kerfi sem nú er við lýði og allir að rífast um, hvernig á að breyta.
Mesta óréttlætið í núverandi kerfi er úthlutun aflaheimilda umfram það sem hver og einn nýtir á sínum eigin skipum, heldur leigir öðrum, jafnvel án þess að eiga haffært skip sjálfur. Slíkt er auðvitað algerlega óþolandi og a.m.k. til þess að eyða slíku var mín hugsun sett fram í blogginu fyrir meira en ári síðan og nokkrum sinnum eftir það.
Hvort sóknarkerfi væri betra, skal ósagt látið, en að minnsta kosti verður að gera þær breytingar á kerfinu, að sátt náist um það að mestu leyti, en auðvitað verða aldrei allir ánægðir.
Hvað varðar að blanda þessum málum inn í kjarasamnina, þá er það skiljanlegt að því leyti, að ekki er óeðlilegt að útgerðin vilji vita hvernig starfsumhverfi hennar muni líta út á næstu árum, áður en stórar ákvarðanir verða teknar um launahækkanir. Ætli aðrir atvinnurekendur myndu ekki setja fram ámóta kröfur, væri einhverjar stórbreytingar væntanlegar á þeirra starfsumhverfi?
Höggva verður á hnútinn um fiskveiðistjórnina fyrr eða síðar, hvort sem það blandast kjarasamningum, eða ekki. Töfin er þegar orðin allt of mikil.
Axel Jóhann Axelsson, 2.4.2011 kl. 11:35
Já Axel þetta hefur verið í gangi allt of lengi og á engan rétt á sér. Að sjá menn velta sér uppúr vellystingum á sama tíma og sjómenn á leigukvóta skipum eru að vinna á þriðjungs launum. Þetta kalla ég ánauð.
En hvað er útgerðin að fara framá? Það verður áfram fiskað. Þeir hafa staðið í veginum fyrir auknum afla heimildum út af veðunum. Þau mega ekki falla í verði.
Sama með frjálsar handfæra veiðar þá falla leigukvótarnir í verði og þar með veðin. Það þarf engan kvóta á handfæraveiðar! Kvótinn á handfæraveiðar var eingöngu settur á í þeim tilgangi að koma öllum fiski inní kvóta svo hann hefði verð. Ef handfæraveiðar ógna afkomu okkar getum við flutt héðan þegar í stað. Við hlógum að þessari vitleysu þegar þetta var sett á á sínum tíma þetta var svo vitlaust.
Ég sé ekki hvað þeir þykjast vera að sækja annað en að halda hér óbreyttu kerfi þar sem þeir halda stjórn á heildarafla og veðin þ.e. skuldirnar verði afskrifaðar. Útgerðin getur aldrei borgað þessa 500 milljarða. Allra síst í Kvótakerfi.
Ólafur Örn Jónsson, 2.4.2011 kl. 12:15
Kvótakerfinu var komið á vegna mikils aflasamdráttar, áranna þar á undan. Megintilgangurinn var með því var að geta, aukið þorskaflann upp í allt að 500 þús tonn á ári, innan ekki svo margra ára. Þorskaflinn eða aflaheimildir í þorski, eru hins vegar nú, tæpum 30 árum seinna, aðeins einn þriðji af þessum 500 þús tonnum. Á fyrstu árum kvótans fór það hins vegar svo að heildaraflinn hélt áfram að dragast saman og einhverjar útgerðir báru sig ekki, á því hlutfalli af heildaraflanum sem að þeim var úthlutað.
Eftir margar björgunartilraunir Byggðastofnunnar, alls kyns sjóða og ríkisbankanna, var ákveðið að setja lög um framsal á aflaheimildum. Tilgangurinn með þeim lögum var sá að útgerðum var gert kleift að ,,selja" sig út úr greininni, útgerðum var gert kleift að ,,kaupa" sér möguleika til vaxtar í greininni og útgerðum var gert kleift að hagræða hjá sér með þeim hætti, að þær gátu losað sig við tegundir, sem hentuðu rekstrinum illa, í skiptum við tegundir sem hentuðu betur.
Hins vegar efast ég um að nokkur maður hafi gert sér grein fyrir því, hvaða snjóbolta menn voru að ýta niður af fjallinu þegar framsalið var ákveðið. Það þarf því að vinda ofan af bullinu sem að framsalið hefur orsakað. Það eru nokkur atriði sem að menn hafa annað hvort ekki séð fyrir eða ekki viljað sjá fyrir, þegar framsalið var leyft.
1. Það sem þú mátt framselja öðrum (kvóta) það ,,áttu". (eða bátur/útgerð)
2. Það sem þú kaupir (kvóta) , ,,eignastu". (eða bátur/útgerð)
3. Þar sem kvóti skráist sem ,,eign" báts, þá verður báturinn verðmætari. Þar sem ,,eignin" gefur af sér arð. Alltso báturinn hefur ,,rétt" til þess að veiða x mikið og skapa x mikinn arð.
4. Þegar bátur eykur við ,,eign" sína (kvóta), verður báturinn verðmætari, og þar með skapast veðrými á bátinn. Frekari lán tekin með veði í bát, vegna verðmæta sem felast ekki í bátnum sem slíkum, heldur í þeim framtíðartekjum sem báturinn skapar.
Gallinn við þetta allt saman er, að þó svo að fiskurinn í hafinu hér í kring sé þjóðareign, þá er með lögum, búið að gera veiðiréttinn á honum að ,,eign". Það stangast reyndar á úrskurð Mannréttindadómstóls SÞ.
En ætli menn að vinda sér í það að fylgja úrskurði Mannréttindadómstóls SÞ, þá reka þeir sig á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.
Löggjafinn (Alþingi) hefur í rauninni, fest sig í þessum vef, einn og óstuddur.
Kristinn Karl Brynjarsson, 2.4.2011 kl. 13:09
Kristinn Karl, það er mikið umhugsunarefni út af fyrir sig, hvers vegna hrygningar- og veiðistofnar hafa ekki vaxið eins og áætlanir gerðu ráð fyrir, þegar kvótinn var settur á, á sínum tíma. Til samanburðar hefur maður stundum verið að velta fyrir sér grásleppunni, en það er eini stofninn sem veiddur er eingöngu á hrygningartíma og áherslan lögð á að ná hrognunum, en öllu öðru hent lóðbeint í sjóinn aftur. Ætti svona veiðiskapur ekki að útrýma stofninum á örfáum árum, miðað við kenningarnar um hrygningu annarra stofna? Það hlýtur að vera einhver breyta í þessu öllu saman, sem ekki gengur upp.
Varðandi kvótaframsalið, þá voru auðvitað reginmistök að leyfa leigu og sölu á veiðiheimildunum, því einungis hefði átt að leyfa skipti á tegundum á milli skipa og alls ekki úthluta einu einasta grammi til eins eða neins, sem ekki veiddi fiskinn sjálfur á eigin skip. Hugsunin var sú, að menn gætu selt sig út úr greininni og þar með yrði hagkvæmnin meir fyrir þá sem eftir yrðu, en þetta fór allt úr böndunum og fjármagn hefur runnið út úr greininni í stórum stíl og það fjármagn sem útgerðir hafa skuldsett sig til kvótakaupa fór að mestu leyti í alls kyns fjármálabrask í "gróðærinu" og er nú tapað. Einnig tóku mörg þá stöndug útgerðarfyrirtæki mikil lán út á aflaheimildirnar og fjárfestu í útrásarbraskinu og allt er það tapað líka.
Eftir situr atvinnugrein með miklar skuldir, en ágætar rekstrarhorfur jafnvel þó kvótaframsalið verði bannað. Á meðan talið er að takmarka þurfi aðgang að auðlindinni verður engin sátt um aðferðina, en á meðan kvótakerfi verður við lýði verður að úthluta kvóta á skipin eftir veiðireynslu undanfarinna ára, án heimilda til sölu eða leigu, en heimila tegundaskipti milli skipa og með því geta útgerðir og fiskvinnslur lagað sig að kerfinu. Aukningu á veiðiheimildum ætti að úthluta til þeirra sem útgerð hafa stundað, t.d. þrjú síðustu ár, burtséð frá því hvernig þau fengu heimildirnar á þeim árum, en auðvitað aldrei meiri kvóta en þau geta sjálf veitt innan fiskveiðiársins.
Viðbótaraflaheimildir gætu farið í "pott" sem boðinn yrði til leigu til nokkurra ára, en auðvitað eingöngu til skipa sem myndu veiða þann afla, en ekki einhverra sem síðan myndu úthluta honum áfram til einhverra annarra, með sölu eða leigu. Þar á ég t.d. við fiskvinnslustöðvar og sveitarfélög, sem alls ekki ættu að fá að bjóða í slíkan "uppboðskvóta".
Slíkt myndi eingöngu leiða til kerfis nýrra "lénsherra" og margur skipa- og bátaeigandinn losnaði ekkert út út "leiguliðakerfinu". Þá væri betur heima setið, en af stað farið.
Axel Jóhann Axelsson, 2.4.2011 kl. 14:17
Eins og staðan er í dag, þá þarf að skoða þetta í enn stærra samhengi, en einhvers konar stríð LÍÚ við þjóðina. Þessa mánuðina eru bankarnir, samkvæmt samkomulagi, við stjórnvöld að ,,skuldahreinsa" lítil og meðalstór fyrirtæki, sem eiga í greiðsluvanda.
Það er líklegra en ekki, að þar innan borðs eru fyrirtæki í sjávarútvegi, sem og fyrirtæki sem að beinlínis byggja afkomu sína á þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki.
Áðurnefnd skuldahreinsun, hlýtur að fara þannig fram, að rekstrarhorfur fyrirtækjanna allra eru metnar. Spáð fyrir um framtíðartekjur þeirra og fundið út frá þeirri spá, hversu mikið af skuldum, þessi fyrirtæki geti borðið með sér inn í framtíðina.
Það hlýtur hins vegar að þyngja þessa vinnu og í raun gera hana ómarkvissari, á meðan stjórnvöld geta ekki komið sér saman um, hvers konar umhverfi þau ætla að skapa, í þeim hlutum sem að þeim standa. Hversu örugga spá um rekstrarhorfur, er t.d. hægt að gera á meðan í skyn er gefið, að skattar gætu hækkað? Skattar sem að hækka ekki bara skattgreiðslur fyrirtækjanna, heldur einnig margan annan kostnað, eins og t.d. fjármagnskostnað.
Gangi rekstur sjávarútvegsins illa, þá er hætt við því að vinna við endurskipulagningu margra fyrirtækja verði unnin fyrir gýg. Afkoma margra þessara fyrirtækja stendur og fellur með búsetu fólks á þeim stöðum sem þau eru staðsett á. Búseta fólksins stendur svo og fellur með því, að í byggðalaginu sé öflug undirstöðuatvinnuvegur. Í flestum þeirra byggðalaga er sjávarútvegurinn undirstaðan.
Slagurinn ætti því ekki að standa um hverjir fá að veiða fiskinn, heldur á hversu hagkvæman hátt er hægt að veiða fiskinn og búa til úr honum verðmæti. Þessi svokallaði arður og renta þjóðarinnar, af fiskveiðiauðlindinni, verður ekki til, né verður aukinn, með hækkun á auðlindagjaldi eða einhverju slíku. Rentan verður til með arðbærari atvinnugrein, hærri tekjum þeirra sem í henni starfa og í öllum þeim störfum sem skapast í atvinnugreininni og afleiddum störfum.
Kristinn Karl Brynjarsson, 2.4.2011 kl. 15:20
Ef niðurstaðan er sú, hvernig svo sem hún er fengin, að ekki megi veiða nema t.d. 160þúsund tonn af þorki árlega (svo geta menn rifist um þá aðferðafræði til eilífðar), þá eykur það ekki hagkvæmni greinarinnar að fjölga skipum sem veiða þann afla. Auðvitað á að sækja heimilaðan afla á eins fáum skipum eins og möguegt er og með eins litlum tilkostnaði og hægt er að komast af með.
Það er engum í hag að auka sóknarkostnaðinn með fleiri skipum og ekki bætir það kjör sjómanna að fjölga þeim verulega og dreifa tekjunum af fiskveiðunum á fleiri einstaklinga. Um leið og hægt er að auka aflamagnið, þarf að gæta að því að fullnýta þann flota sem fyrir er, áður en allt er opnað fyrir ótakmörkuðum flota, eingöngu til að skapa keppni um að vera sem fljótastur að moka aflanum á land, t.d. með sóknarmarki eða skrapdagakerfi, þó líklega sé hægt að búa til alls konar takmarkanir í svoleiðis kerfum, en eftir sem áður er líklegast að heildarútgerðarkostnaður verði miklu meiri, en hann er núna.
Líklega væri í lagi að auka handfæraveiðar eitthvað og skapa með því aukna vinnu í sjávarþorpum, en við skulum ekki gleyma því að brottflutingingur fólks af landsbyggðinni hófst ekki með kvótakerfinu, heldur hófst hann miklu fyrr og búinn að vera stöðugur í áratugi.
Sjálfur bjó ég í blómlegum sjávarútvegsbæ fyrir daga kvótakerfisins, þar var næga vinnu að hafa fyrir alla, en fólksflutningar voru samt stöðugir í burtu úr bænum og þá aðallega á höfuðborgarsvæðið. Þeim flutningum réðu allt aðrar ástæður en atvinnan, því margur var síst að flytja suður í betri störf, eða betur borguð, en hann hafði á staðnum. Það er bara áróður kvótaandstæðinga, að halda því fram að brottflutningur af landsbyggðinni sé kvótanum að kenna og ruglar bara umræðuna um fiskveiðistjórnunina.
Fólksflóttinn frá landsbyggðinni er hins vegar önnur og flóknari saga, sem ekki á heima í umræðunni um stjórnun fiskveiða. Sú umræða verður að fara fram undir öðrum formerkjum.
Axel Jóhann Axelsson, 2.4.2011 kl. 17:15
"en vitlausasta hugmyndin í því sambandi er þó sú, að setja allan kvóta á markað og bjóða hann hæstbjóðanda, árlega."
Hvað er svona vitlaust við hana?
Auðvitað er ekki verið að tala um að setja allan kvótann á markað árlega, heldur eingöngu einhvern hluta hans, í þeim útfærslum sem hafa verið í umræðunni og voru kynntar þessar nefnd hagsmunaraðila í sjávarútvegi sem átti að vinna að "sáttinni". En þegar margir hagsmunaraðilar koma saman, er hagur almennigns iðulega fyrir borð borinn í atvkæðagerðslum.
Sjá t.d. Jón Steinsson http://www.columbia.edu/~js3204/greinar/leigutilbodsleidinglaerur.pdf
Haukur (IP-tala skráð) 2.4.2011 kl. 19:15
Það vitlausa við það, að setja ALLAN kvóta á markað árlega er, að með því myndi skapast mikil óvissa í sjávarútvegi og enginn hafa hugmynd um framtíðarmöguleika sína til veiða og vinnslu, þar sem engin vissa væri fyrir því að ná nógu miklum kvóta fyrir sitt skip og vinnslu fram í tímann og því engar vitrænar áætlanir hægt að gera fyrir framtíðarrekstur.
Ég nefndi hins vegar að hluti kvótans yrði boðinn upp árlega og með því gætu þeir bætt við sig aflaheimildum, sem ekki fengju nógu miklu úthlutað miðað við afkastagetu síns skips, eða báts.
Eins þyrfti að hafa opnari heimildir til færaveiða, en þær verða þó seint undirstaða sjávarútvegs á Íslandi.
Axel Jóhann Axelsson, 2.4.2011 kl. 20:01
Fyrirgefið þið strákar þið eruð komnir svolítið frá viðfangsefninu. Stjórnun fiskveiða gengur úr á að vernda og byggja upp fiskstofna og hámarka afraksturinn. Kvótakerfið var sett á af því að nokkrir frystihúseigendur (SIS) á norðurlandi sættu sig ekki við að sitja við sama borð og aðrir í samkeppninni um þorskinn. Þess vegna var þessu góða kerfi kastað fyrir róða.
Staðreyndin er að jú 2 síðustu árin 1983 og 84 var lítil þorsk gengd og mikil friðun á smá fiski. Þessari miklu friðun í sóknarmarkinu var eytt á fyrstu tveim árum í kvótakerfinu þegar norðlensku skipin lágu á smá fiski í Berufjarðarál allan veturinn.
Fiskveiðistjórnun bara að ganga út á uppbyggingu og að hámarka veiði. 27 ár í kvóta hefur sýnt að þetta fer ekki saman þess vegna verðum við að fara aftur í Sóknarmagn.
Fleiri skip í Sóknarmarki jú við þurfum fleiri skip en það verða ekki óhagkvæm skip þau skip sem ekki standa sig fara á hausinn hinir sem standa sig á eigin verðleikum. Það verða engar gengis fellingar eða afskriftir lána menn bara standa sig. þau byggðalög sem liggja vel að fiskimiðum munu ekki vera í vandræðum. Allur fiskur á markað tryggir gæði hráefnis.
Því fjær sem svona kerfi kemst frá Ríkinu því betra. Hygla þessum og hygla hinum er búið. Leyfi fyrir 80 togurum og fjölga bátum eitthvað og trillur á frjálsri sókn með skynsemis Sóknardögum yfir veturinn.
Þetta er einfalt og skilvirkt kerfi færir auðlindina til fólksins og peningarnir flæða um æðar þjóðfélagsins. þeir fiska sem róa og hagvöxtur fólksins byrjar aftur í okkar góða landi. Menn verða að forðast miðstýringu sérstaklega í helstu atvinnugrein þjóðarinnar og vona ég að við heyrum aldrei aftur að bankarnir skili meiru en sjávarútvegur í þjóðfélagi.
Ólafur Örn Jónsson, 2.4.2011 kl. 20:16
Ólafur, auðvitað væri draumastaðan að hafa aðganginn að auðlindinni sem frjálsastan og opnastan.
EF takmarka þarf aðganginn vegna hættu á ofveiði, þá vandast hins vegar málið og þá verður að stjórna veiðunum þannig að þær skili mestu mögulegu tekjum í þjóðarbúið.
Ég er ekki alveg sannfærður um að sóknarmark með ótakmörkuðum aðgangi allra, sem mögulega gera komist yfir einhverja fleytu yrði til að auka hagkvæmnina, þó allt leyti jafnvægis að lokum og aðeins yrðu eftir þeir sem klárastir væru í útgerðarrekstri, en hinir færu á hausinn.
Partíið yrði áreiðanlega nokkuð dýrt, a.m.k. á meðan að á því stæði.
Axel Jóhann Axelsson, 2.4.2011 kl. 20:50
Segjum 80 togarar. Eins og var í Sóknarmarkinu þá fóru sumir á hausinn og aðrir tóku við. Samherja frændur kayptu Guðstein út úr gjaldþrota Bæjarútgerð Hafnafjarðar á meðan Ú A og Bæjarútgerð Reykjavikur blómstuðu svo ekki sé minnst á Guðbjörgu og útgerðir á Vestfjörðum og Norðurlandi. Uppá skaga og í Grundafriði. Ísbjörinn átti ekki fyrir olíu þegar Grandi var stofnaður gagn gert til að redda þeim.
En ekkert bull bara 80 togarar og allan fisk á markað. Frystiskip eru nú á markaði. Það má ekki fjölga skipum. Ég man að Kjartan Jóhannsson var búinn að stoppa fjölgun skipa í svipuðum fjölda. Síðan snertir Ríkið ekki við þessu að öðru leiti en að úthluta dögum eftir ráðgjöf Hafró sem byggir eins og best verður komist á núinu og með hliðsjón af ráðgjöf skipstjórnarmanna.
Þetta verður samkeppni um fiskinn og að vera með bestu verðin á mörkuðunum. Þú segir að það verði dýrara en núna útgerðin er gjaldþrota með 500 milljarða skuld getur eitthvað kerfi orðið verra? Alþingi hefur verið áminnt fyrir mannréttinda brot? það eru engin rök að mínu mati að halda áfram með kvótakerfi það er tímaskekkja og hugsanaskekkja.
Ólafur Örn Jónsson, 2.4.2011 kl. 23:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.