Sá Norræni með ógnanir

Norræna fjárfestingabankanum hefur verið beitt miskunnarlaust til að kúga Íslendinga til að taka á sig skattaáþján fyrir Breta og Hollendinga vegna krafna sem aldrei hafa komið íslenskum skattgreiðendum við, enda skuldir glæpsamlega rekins einkabanka sem fór á hausinn án nokkurrar aðkomu almennings.

Í tvö ár hefur sá Norræni neitað að afgreiða lánsloforð til Landsvirkjunar vegna Búðarhálsvirkjunar fyrr en búið yrði að ganga frá þrælasamningnum, sem skattgreiðendum ber alls ekki að borga og ekki verður hægt að borga, nema skera niður heilbrigðis-, mennta-, og velferðarkerfið tvöfalt meira en annars hefði þurft vegna kreppunnar.  Þar með yrði samþykkt þrælasölunnar til þess að lengja og dýpka kreppuna í mörg ár, jafnvel um áratugi.

Núna sendir Norræni fjárfestingabankinn frá sér tilkynningu um samþykkt á láni fyrir 1/3 af áætluðum byggingarkostnaði Búðarhálsvirkjunar með því að gefa til kynna að lánið verði ekki afgreitt nema skattgreiðendur á Íslandi samþykki sína eigin þrælavist í þágu erlendra kúgara.  Algerlega er óþolandi að ríkisstjórnir norðurlandanna, sem auðvitað ráða bankanum, skuli nota aðstöðu sína svona pukrunarlaust á pólitískan hátt til að reyna að hræða og kúga eina af aðildarþjóðum bankans.

Fyrst sá norræni er ennþá við sama heygarðshornið varðandi lánveitinguna, hefði hann átt að hafa rænu á að þegja og leyfa Íslendingum að kljást áfram við sína eigin framtíð í friði fyrir illa dulbúnum hótunum um efnahagsþvinganir.


mbl.is Landsvirkjun fær lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef ég veit rétt þá er það Evrópski Fjárfestingabankinn sem hefur verið með hótanir og tengt Icesave við afgreiðslu á láninu. Norræni Fjárfestingabankinn hefur amk. aldrei opinberlega sagt að svo sé. 1/3 af byggingarkostnaði virkjunarinnar í erlendri mynt fer langt með að standa straum af erlendum aðföngum vegna hennar - eðlilegt er að það sem er innlendur kostnaður sér fjármagnaður innanlands enda er mikill skortur á almennilegum fjárfestingarkostum. En það er vissulega rétt að þetta þarf allt að liggja ljóst fyrir áður en málin fara á fullt skrið.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 13:16

2 identicon

Lánið er skilyrt. Ragna Sara Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, staðfestir þetta.

Landsvirkjun þarf semsagt að að tryggja sér 18 milljarða í viðbót með lánum. Nei við Icesave myndi þýða að aðgangur Íslands að erlendu lánsfjarmagni verður nánast frosinn næstu árin.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 13:30

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Lánveitingar frá Norðulöndunum, hvort sem það er frá þessum banka, eða beint frá ríkjunum sjálfum, hafa alla tíð verið skilyrt með Icesave.  Jafnvel þótt engin ríkissjórna Norðurlandanna hafi haldið því fram opinberlega að Íslendingum bæri að greiða ólögvarðar kröfur Breta og Hollendinga. 

  Við fall Landsbankans og setningu neyðarlaganna, þá öðluðust innistæðueigendur Icesavereikninganna, lögvarða kröfu upp að hámarks tryggingu innistæða, samkvæmt ESB-tilskipun.  Enda er það tekið fram í neyðarlögunum að Tryggingarsjóður innistæðueigenda og fjárfesta (Tif) hafi forgang í þrotabú Landsbankans upp að þeirri upphæð sem (TIF) skuldar innistæðueigendum.

 Bretar og Hollendingar, hins vegar trufluðu það ferli með því að grípa til þeirra neyðarráðstafanna til þess að forða eigin bönkum og eflaust öðrum bönkum í ESBríkjum frá áhlaupi með því að greiða óumbeðnir þessa upphæð.  Það að krefjast ríkisábyrgðar, vegna þessarar björgunar aðgerða sinna, er hins vegar löglaus krafa með öllu.  Íslensku neyðarlögin voru jú neyðarúrræði einnig, til þess að forðast áhlaup á íslenska banka. 

 Fari Icesave fyrir EFTAdómstólinn, þá verða hvorki bresk né hollensk stjórnvöld aðilar máls, nema að ríkissjóðir landanna hafi átt innistæður á Icesave-reikningum.  Það verður tekist á um meint brot íslenskra stjórnvalda, gegn innistæðueigendum, en ekki gegn stjórnvöldum Breta og Hollendinga.  

Kristinn Karl Brynjarsson, 17.3.2011 kl. 13:39

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Lánamarkaðir verða ekkert frosnir næstu árin þó Icesave verði hafnað, jafnvel frekar verði það samþykkt, því þar með væri verið að binda ríkissjóð á tug- eða hundruðamilljarða skuldaklafa aukalega við þær skuldir sem honum ber að borga.

Það hefur marg komið fram að bæði sá Norræni og sá Evrópski hafa neitað að afgreiða lán til Íslands fyrr en búið væri að samþykkja Icesave og þannig tekið þátt í efnahagslegum þvingunum gagnvart íslenskum skattgreiðendum.

Flest stærstu fyrirtæki landsins hafa verið að endurfjármagna sín lán að undanförnu með nýjum lánum frá erlendum lánastofnunum og nægir þar að benda á Landsvirkjun, Össur, Actavis, Bakkavör, Marel o.fl., þannig að lánafyrirgreiðsla til Íslenskra fyrirtækja er ekki í neinu frosti.  Allt tal um slíkt er annaðhvort hrein lygi eða a.m.k. að sá sem heldur slíku fram fylgist ekkert með því sem er og hefur verið að gerast.

Meira að segja Reykjanesbær var að endurfjármagna erlend lán fyrir tvo milljarða króna og ekki myndi nú það sveitarfélag flokkast undir þau traustustu, fjárhagslega, um þessar mundir.

Fjármagn leitar þangað sem ávöxtun er fyrir hendi og fjárfestum og lánastofnunum er nákvæmlega sama um Icesave.

Axel Jóhann Axelsson, 17.3.2011 kl. 13:47

5 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ef að ESB-bankinn og sá norræni segja nei, þá er bara ekkert annað að gera en að snúa sér annað.  Sé það hins vegar svo að menn viti ekki af öðrum fjármálastofnunum, erlendis en þessum tveimur, þá geta menn eflaust gúgglað orðið ,,bank" og fundið einhverja banka sem ræða mætti við.

 Þó það sé eflaust tilviljun, þá er það kaldhæðið svo ekki sé meira sagt, að kasta þurfi 26 milljörðum út úr íslenska hagkerfinu þann 11. apríl, til þess að fá lán að sömu upphæð. 

Kristinn Karl Brynjarsson, 17.3.2011 kl. 13:56

6 identicon

Auðvitað verður aðgangur Íslendinga að erlendu lánsfjármagni frosinn næstu árin ef við höfnum Icesave. Nei við Icesave skapar mikla óvissu um hvað ríkissjóður mun endanlega þurfa að borga vegna Icesave og mun sú óvissa vara með það mál er óútkljáð fyrir dómstólum. Það vill enginn lána þjóð sem hefur þessa óvissu hangandi yfir sér.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 13:59

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki er annað að sjá á nýrri frétt á mbl.is en að forsætisráðherra Írlands standi með sínum þegnum, þó íslenska ríkisstjórnin geri það ekki.  Hann er að berjast fyrir bættum kjörum vegna þeirrar óskaplegu ríkisábyrgðar sem fyrrverandi ríkisstjórn Írlands asnaðist til að samþykkja f.h. skattgreiðenda og mun halda þarlendum á skatta- og skuldaklafa til næstu áratuga.

Samkvæmt fréttinni segir forsætisráðherrann m.a. í viðtali:  "„Það er stórkostlega ósanngjarnt að ætlast til þess að skattborgarar borgi 100 prósent kostnaðarins sem er til kominn vegna óábyrgrar útlánastefnu bankanna,“ sagði Kenny í samtali við Bloomberg fréttastofuna."

Steingrímur og Jóhanna ættu að taka þennan erlenda stjórnmálamann sér til fyrirmyndar.
 

Axel Jóhann Axelsson, 17.3.2011 kl. 14:18

8 identicon

Íslendingar eru einmitt EKKI að borga 100% kostnaðarins vegna óabyrgar útlanastefnu bankanna! Ólíkt Írum sem ábyrgjast sína banka þá gerðum við það ekki. Erlendir kröfuhafar sitja uppi með þúsundir milljarða skaða vegna íslensku bankanna.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 14:28

9 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Já við Icesave eyðir ekki þessari svokölluðu óvissu.  Það eru í besta falli 50/50 líkur á því að íslenski ríkissjóðurinn (skattgreiðendur) komist upp með að borga ca. 50 milljarða eða minna.

 Þó dómsmál sem nú eru rekin fyrir Héraðsdómi eru fráleitt þau síðustu sem rekin verða vegna neyðarlaganna, eða vegna heimta úr búinu.  Dómsmál tefja útgreiðslur úr búinu og hækka vaxtagreiðslur íslenkra skattgreiðenda af Icesavekröfunni. Niðurstaða einhverrra dómsmála, getur meira að segja hnekkt neyðarlögunum og þar með forgangi (TIF) í kröfur búsins. Dómur gæti einnig fallið á þann hátt og sér í lagi ef ríkisábyrgð verður samþykkt, að innistæðueigendur Icesavereikninga er áttu meira inn á reikningunum en 22.000 evrur, fái innistæður sínar greiddar að fullu. 

 Snilld skilanefdarmanna, hefur minnst með það að gera að heimtur úr þrotabúinu verði í takt við það sem spáð er.  Í þeim efnum er nær eingöngu að treysta að dyntir markaðsins, verði okkur hagstæðir og best verð fáist fyrir eignasafn þrotabúsins.  

 Ein stærsta ,,mjólkurkú" þrotabúsins Iceland-fyrirtækið, er samkvæmt mati skilanefndar metið á ca. 200 milljarða, þrátt fyrir að hæsta boð í fyrirtækið, hingað til sé ekki nema 120 milljarðar.   Eitthvað stórkostlegt hlýtur að þurfa að gerast á markaði, svo einhverjum detti það í hug að greiða verð sem er ca. 60% hærra en hæsta tilboð hingað til. 

 Versti EFTAdómurinn er á þann veg, að brotið hafi verið á innistæðueigendum, ekki á breskum eða hollenskum stjórnvöldum, þar sem þau eru varla aðilar máls, enda ekki innistæðueigendur.   Hollensk og bresk stjórnvöld verða svo að geta sýnt fram á það með lögmætum hætti, að þeim hafi borið samkvæmt lögum, greiða þessum innistæðueigendum innistæður sínar.   Ég sé engin rök fyrir því að íslenska ríkinu, beri að greiða öðrum ríkjum bætur fyrir skaða sem að þau valda á sér sjálf.  Hins vegar virðist slíkt vera pólitísk skoðun þeirra er greiða vilja þessar löglausukröfur.   Í öllum lýðræðisríkjum, hefur pólitískt viðhorf lítið í dómsorð að gera.   Niðurstaðadóms byggð á pólitískum viðhorfum, en ekki lögum, er afkvæmi pólitískra réttarhalda.

Kristinn Karl Brynjarsson, 17.3.2011 kl. 14:28

10 identicon

Meira bullið hérna. "Það eru í besta falli 50/50 líkur á því að íslenski ríkissjóðurinn (skattgreiðendur) komist upp með að borga ca. 50 milljarða eða minna" ertu með einhverjar heimilidr fyrir þessu eða er þetta bara einhver tilfinning hjá þér?

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 14:41

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður, eins og Kristinn bendir á, þá var innistæðueigendum á Icesave tryggður forgangur í þrotabú Landsbankans, þ.e. innitryggingasjóðnum fyrir þeirra hönd, og þar með gerði ríkið meira en skyldu sína samkvæmt tilskipunum ESB.  Þess vegna er það algert grundvallaratriði að ganga ekki gegn tilskipunum ESB og samþykkja ríkisábyrgð á málið að auki, enda væri slíkt mismunun gagnvart kröfuhöfum í bú bankans.

Hvers vegna ætti að veita ríkisábyrgð á þessa tegund krafna á hendur bankanna en ekki á kröfur annarra kröfuhafa þeirra?

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður fordæmisgefandi fyrir banka framtíðarinnar, þar á meðal þá erlendu banka sem nú starfa í landinu og þeirra sem hugsanlega kæmu hér síðar og svo auðvitað íslenskra banka.  Er það virkilega það sem þú vilt,  að íslenskir skattgreiðendur verði ábyrgir til framtíðar vegna banka sem hugsanlega yrðu reknir á glæpsamlegan hátt, eins og gömlu bankarnir voru?

Axel Jóhann Axelsson, 17.3.2011 kl. 14:44

12 Smámynd: Magnús Ágústsson

Thad er magnad ad flestir sem eru thraelasinnadir vilja ekki koma undir nafni OK Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) tho svo ad thetta setji nafnid undir segir ekkert sennilega er thetta Steingrimur eda Johanna

Magnús Ágústsson, 17.3.2011 kl. 15:03

13 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ég hef álíka miklar heimildir fyrir ,,50/50" og samninganefndin og skilanefndin.  Ég veit ekki frekar en þessir aðilar, hvernig markaðurinn hagar sér á komandi árum og þar með á hvaða verði eignasafn þrotabúsins fer á endanum. Ég veit ekki frekar en þessir aðilar, hversu margir munu fara í dómsmál vegna þrotabúsins.  Ég veit ekki frekar en þessir aðilar, hversu lengi málaferli, ef til þeirra kemur vara lengi og því veit ég ekki frekar en þeir hversu mikið slíkar tafir gætu kostað.

Kristinn Karl Brynjarsson, 17.3.2011 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband