Icesavegrýlan að missa tennurnar?

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, hefur verið dyggur þjónn Jóhönnu, Steingríms J. og Icesavegrýlunnar og tekið undir svartagallsrausið um allt myndi fara í bál og brand, verði Icesavelögin felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslunni og hingað til lands myndu ekki fást neinir erlendir fjárfestar og alls ekki yrði hægt að endurfjármagna erlend lán og hvað þá að nýjar lántökur yrðu mögulegar.

Flest stærstu fyrirtæki landsins hafa þegar sannað að vandræði við endurfjármögnun erlendra lána eru alls ekki fyrir hendi og á blaðamannafundi í dag dró meira að segja Seðlabankastjórinn talsvert í land með sínar svartsýnisspár í þessum efnum.

M.a. kemur þetta fram í fréttinni: "Þá sagðist Már geta fullyrt, að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-lögin muni ekki tefja birtingu áætlunarinnar um afnám gjaldeyrishaftanna. Allir væru sammála um, að þegar þegar komin væri niðurstaða um áætlunina þá yrði hún birt. „Áætlunin mun einnig gefa mikilvægar upplýsingar fyrir markaðinn og almenning til að skilja hvernig Icesave gæti komið eða ekki komið inn í myndina."

Fram að þessu hafa ráðherrarnir og bankastjórinn margstaglast á því, að afnám Icesavelaganna myndi tefja allar áætlanir um afnám gjaldeyrishaftanna um ófyrirséðan tíma.

Icesavegrýlan er greinilega farin að missa tennurnar, eða a.m.k. er komin mikil skemmd í þær. 


mbl.is Áætlun um afnám hafta mun róa markaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Til stendur að birta áætlun um afnám gjaldeyrishafta þann 25. mars ( 15 dögum fyrir þjóðaratkvæði). Upphaflega stóð til að birta áætlunina þann 11.  mars.

 Auðvitað tefur þjóðaratkvæðið ekki birtingu þessarri áætlun, nema þá um þessar tvær vikur, sem nú þegar er ljóst.  Þessi áætlun verður án efa ein stærsta ,,Grýlan" á lokasprettinum fyrir þjóðaratkvæðið.   Ef að ég þekki áróðurstrikk Bretavinnugengisins rétt, þá verður þetta hin fínasta áætlun.............. En ekki verður samt hægt að hrinda henni í framkvæmd, nema þjóðin undirgangist, löglausar kröfur Breta og Hollendinga og samþykki ríkisábyrgð allt að 1200 milljarða á þessar löglausu kröfur. 

 Þó eflaust verði það ekki svo erfitt að hrekja þann boðskap, þegar hann birtist, þá eru meiri líkur á því að leiðréttingar rangfærslunnar berist ekki jafn mörgum á 15 dögum og þær annars gerðu á 29 dögum.

Kristinn Karl Brynjarsson, 16.3.2011 kl. 12:57

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Í fréttinni frá blaðamannafundinum kemur þetta fram um það sem Már sagði í sambandi við aðgang að erlendu lánsfé:  ""Það er á þeim tímapunkti, sem Icesave kemur upp. Okkar mat er það, að ef niðurstaðan verður já þá mun það flýta fyrir þessum aðgangi. Það er ekki þar með sagt að hann myndi ekki fást einhverntímann, jafnvel þótt niðurstaðan yrði nei," sagði Már." 

Þannig að það er auðvitað strax byrjað að semja hræðsluáróðurinn sem mun fylgja áætluninni um afnám gjaldeyrishaftanna.  Jafnvel þó töf yrði á erlendri lánafyrirgreiðslu, sem engar líkur eru þó á, væri betra að skrimta áfram  án aukinna erlendra lána, heldur en að skrimta áratugum saman vegna skattaþrældóms fyrir Breta og Hollendinga.
 

Axel Jóhann Axelsson, 16.3.2011 kl. 13:18

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Reyndar spurning hvort menn ,,skrimti" eitthvað þó töf verði á lánveitingum frá lánastofnunum, er starfa undir pólitískum hæl ESBríkja.  Vinni menn heimavinnuna sína og framvísa trúverðugri áætlun um góða fjárhagslega afkomu fjárfestingar, þá fæst fé til slíkra verkefna.  Þó svo að menn þurfi jafnvel að brjóta odd af oflæti sínu og skipta við aðra banka, en fjárfestingarbankana evrópsku og skandinavísku.

Kristinn Karl Brynjarsson, 16.3.2011 kl. 13:55

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það átti nú að standa þarna að betra væri að skrimta áfram í skamman tíma án erlendra lána en að skrimta í áratugi vegna skattpíningar.

Auðvitað mun ekki verða neinn skortur á erlendu lánsfé, eða erlendum fjárfestum þó Icesave falli í kosningunum.  Fjármagn leitar þangað sem góðrar ávöxtunar er von og þegar ríkisstjórnin hættir að flækjast fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu mum komast skriður á málin.

Aðilar vinnumarkaðarins eru að reyna að kreista loforð út úr stjórninni um að hún hætti að fæla fjármagn og fjárfesta frá landinu, en hins vegar er hulin ráðgáta hverning þeir ætla að fá hana til að standa við þau loforð, frekar en loforðin í undirrituðum Sólstöðusáttmála frá árninu 2009.

Axel Jóhann Axelsson, 16.3.2011 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband