12.3.2011 | 05:58
Íslenska leiðin gæfulegri en sú evrópska
Í afar óvönduðu viðtali RÚV við Alaistair Darling, fyrrv. fjármálaráðherra Breta, gerðu spyrjandinn og Darling engan greinarmun á einkabönkunum sem voru að fara á hausinn og ríkissjóði Íslands, sem alls ekki var á neinu hengiflugi, þó Darling og sérstaklega Gordon Brown lýstu því yfir í sjónvarpi, við setningu hryðjuverkalaganna á Íslenska efnahagskerfið, að Ísland sem ríki væri orðið gjaldþrota.
Þvælan sem vall upp úr Darling gekk nánast öll út á það að hann og breska ríkisstjórnin hefðu verið tilbúin til að taka þátt í því, ásamt AGS, að bjarga íslenska bankakerfinu og þá væntanlega með lánum til Seðlabanka Íslands, sem hefði svo aftur ausið þeim peningum inn í bankakerfið sem neyðarlánum, enda banki bankanna hér á landi eins og seðlabankar annars staðar.
Hefði þessi "vinsamlega" aðstoð Darlings, Brown og AGS verið þegin á þeim tíma, væri ríkissjóður Íslands skuldugur núna svo næmi tuttuguföldum árlegum þjóðartekjum og þar með auðvitað algerlega gjaldþrota og í ennþá verri málum en Írland er í núna og hefði misst sjálfstæði sitt til erlendra aðila.
Sem betur fer tóku íslenskir ráðamenn ekki þessu "góða" boði Darlings og félaga, heldur völdu það sem nú er kallað í fjármálaheiminum "íslenska leiðin" og allir eru sammála um að mun reynast mun farsælli en "írska leiðin", sem raunar ætti að réttu að vera kölluð "evrópska leiðin".
Það kemur æ betur í ljós að viðbrögð íslenskra ráðamanna við bankahruninu voru rétt og heillavænleg fyrir þjóðina og Ísland væri í hrikalegri stöðu hefði evrópska leiðin verið valin.
Það er mikið þakkarefni fyrir Íslendinga að hafa haft skynsama menn í brúnni þegar bankahrunið varð. Nú naga aðrir sig í handbökin fyrir að hafa ekki valið íslensku leiðina.
Erfiðara fyrir Íra en Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er líka tónninn hjá þeim flestum, sem að viljað hafa samþykkja Icesave, allt frá því að Svavar Gestsson, afrekaði það að sparka Versalasamningunum úr efsta sæti yfir samninga allra tíma, að við hefðum átt að stökkva á lánatilboð Breta, þá með þeim afleiðingum sem þú lýsir. Að í stað þess að setja neyðarlögin, þá hefðu stjórnvöld átt að taka þessi lán og framlengja duglega í ræningjaferli stjórnenda og eigenda íslensku bankanna. Meira að segja Már Guðmundsson, skildi ekkert í íslenskum stjórnvöldum að hafa ekki farið þessa evrópsku leið.
Þessi leið hefði hins vegar engu bjargað, bara seinkað því, sem þá var fyrirsjáanlegt. Hefðu þessi neyðarlán, sem Darling talaði um að hefði verið hægt að fá, bara ef að menn hefðu sagt eins og væri og hefðu beðið um hjálp, hefðu ekki gagnast íslensku bönkunum nema með undanþágu frá frjálsu fjármagnsflæði. Semsagt peningarnir festir inn í bönkunum með lögboði og fjármagnsflutningur eingöngu heimill, vegna afborganna á erlendum lánum.
Í spjalli þeirra Sigrúnar og Darlings, þá var töluvert gert úr setningu neyðarlaganna og ummæli Árna Matt og Davíðs sögð hafa verið vendipunktur í afstöðu Breta. Hins vegar var Darling ekki spurður að því, hvort að honum hafi verið það ljóst, að neyðarlögin tryggðu ekki bara innistæður í bankaútibúum, staðsettum á Íslandi, heldur tryggðu þessi sömu lög forgang í þrotabú Landsbankans upp í Icesavekröfurnar. En eflaust hefur ekki mátt spyrja að því, enda hefði þá vaknað upp sú spurning, af hverju í ósköpunum, Bretar og Hollendingar, bakkaðir upp af ESB, hafi sótt það svo fast að fá ríkisábyrgð á Icesavekröfurnar.
Kristinn Karl Brynjarsson, 12.3.2011 kl. 12:44
Við getum þakkað fyrir það það voru ekki Steingrímur J og Jóhanna Sig í brúnni með Má Guðmundsson í Seðlabankanum og Svavar Gestsson sem aðalsamningamann Íslands!! UFF maður krossar sig bara.
Sveinn Úlffarsson (IP-tala skráð) 12.3.2011 kl. 13:41
Smá misskilningur í gangi.
íslenska leiðin er bull.
Ráðamenn Íslands hefðu gert allt til þess að bjarga bönkunum. Ef einhver þjóð hefði viljað lána okkur pening þá hefði ráðamenn Íslands hent þeim í svarthol fjármálakerfisins. (sést best hvernig þeir sólunduðu fé í peningamarkaðsjóðina).
En þessi íslenska leið koma bara fyrir slysni. Ekki útaf ráðamennirnir voru svo klára heldur vegna þess að enginn vildi fyrir sitt litla líf lána Íslandi.
"íslenska leiðin" er klárlega rétta leiðin. Bara ekki hrósa ráðamönnum íslands fyrir hana. Hún var ekki þeirra fyrsta val.
Sleggjan og Hvellurinn, 12.3.2011 kl. 17:28
Þessi athugasemd nr. 3, er einhver sú alvitlausasta sem sést hefur lengi.
Axel Jóhann Axelsson, 12.3.2011 kl. 18:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.