Fésbókarbyltingar breiðast út

Barátta almennings í Túnis, sem endaði með því að ríkisstjórnin var hrakin frá völdum, hefur sumstaðar a.m.k. verið kölluð Fésbókarbyltingin, enda hófst hún og var skipulögð með boðum manna á milli á þeirri vefsíðu og reyndar fleirum, ásamt auðvitað með smáskilaboðum í gegnum farsíma.

Margar arabaþjóðir, sem og aðrar múslimaþjóðir, hafa búið við einræði og harðstjórn í áratugi og tekist hefur að halda almenningi niðri með aðstoð hers, lögreglu og annarra skipulagðra sveita sem haldið hefur verið við efnið með góðum launum og ýmsum fríðindum, sem hinn almenni borgari hefur ekki einu sinni getað látið sig dreyma um. 

Lítið sem ekkert hefur verið gert í þessum ríkjum til að mennta þjóðinar, heldur hefur þeim verið haldið niðri með menntunarskorti, fáfræði og einhliða áróðri í fjölmiðlum reknum af yfirvöldum, eða a.m.k. þeim þóknanlegum.  Þetta gat gengið þangað til vasasímarinir komu til sögunnar og síðan Internetið með öllum sínum samskiptasíðum, ekki síst Fésbók, þar sem almenningi opnaðist skyndilega farvegur til að kynnast skoðunum annarra og koma sínum eigin á framfæri.

Þrátt fyrir almenna fátækt viða í veröldinni er aðgangur að Internetinu ótrúlega útbreiddur og þó tölvur séu ekki inni á hverju heimili, er víðast aðgangur að þeim á netkaffihúsum og vasasímaeign er orðin ótrúlega almenn, jafnvel í fátækustu þjóðfélögum.  Við þetta allt saman bætast sjónvarpsstöðvar sem senda fréttir um allan heim og einstök stjórnvöld hafa litla möguleika til að hindra greiðan aðgang að þeim. 

Múslimalöndin eru eins ólík og þau eru mörg og því ekkert hægt að alhæfa um þau, en a.m.k. í Norður-Afríku og arabalöndunum mörgum er komin í gang almenn krafa um frelsi og lýðræði, sem ekki verður kveðin niður héðan af, nema þá í stuttan tíma í hverju því landi þar sem slíkt verður reynt.

Fésbókarbyltingin er rétt að byrja.


mbl.is Jemenar kalla eftir byltingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Rétt er að benda fólki á að lesa skrif Jóhönnu Kristjónsdóttur á vefsíðu sinni, sem má sjá HÉRNA en þar hefur hún fjallað um það sem er að gerast í þessum löndum af sinni einstöku þekkingu á málefninu, sem hún hefur öðlast í gengum menntun sína í arabalöndunum, miklum samskiptum við fólk þar og ótal ferðir til landanna.

Jafnframt er fólki bent á að kynna sér þá aðstoð við menntun barna í Jemen sem félagsskapur hennar, Fatimusjóðurinn, hefur staðið að, með þáttöku stuðningsmanna.  Sjóðurinn styrkir nú c.a. 130 börn til skólagöngu í Saana, höfuðborg Jemen, en líklegast hefði ekkert þeirra barna möguleika á að ganga í skóla, ef ekki væri fyrir þennan stuðning.  Ekki síst er lögð áhersla á að styðja við bakið á stúlkunum, því í barnmörgum fjölskyldum er enginn möguleiki að koma öllum börnunum til mennta og þá helst lögð áhersla á elsta soninn, en önnur börn fá þá enga skólagöngu.

Fáir Íslendingar, ef nokkur, eru fróðari um þessi lönd en Jóhanna og því miklar upplýsingar um gang mála að fá á síðu hennar.

Axel Jóhann Axelsson, 13.2.2011 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband