21.1.2011 | 16:35
Fáfræði og heimska er ábyrgðum yfirsterkari
Héraðsdómur hefur kveðið upp þann dóm að tveir stofnfjáreigendur í Sparisjóði Norðlendinga og einn í Byr sparisjóði þurfi ekki að greiða lán sem þeir tóku vegna stofnfjáraukninga í þessum sparisjóðum. Verði þessi dómur staðfestur í Hæstarétti hefur hann gríðalegt fordæmisgildi fyrir alla skuldara landsins, en ekki eingöngu þá sem keyptu stofnfé í sparisjóðum hringinn í kringum landið.
Dómurinn virðist byggjast á þeim rökum að lántakendurnir hafi ekki haft hundsvit á því sem þeir voru að gera og það sé því alfarið á ábyrgð Glitnis banka að hafa lánað slíkum einfeldningum fjármuni, sem þeir höfðu alls engan skilning á og enn síður þeim lánapappírum sem þeir skrifuðu undir og enn síður þeirri ábyrgð sem fylgir því að taka stór lán, allt að eitthundrað milljónum króna.
Þessari niðurstöðu Héraðsdóms hljóta allir kúlulánþegar, banka- og útrásarrugludallar að fagna ákaft, því nú geta þeir borið því við að þeir hafi alls ekki haft nokkurt einasta fjármálavit og því ekki haft hugmynd um hvað þeir voru að gera og bankarnir sem lánuðu þeim peninga til að spila með í loftbóluhagkerfinu verði því að bera einir ábyrgð á sukkinu, enda hafi enginn maður verið með viti í þjóðfélaginu nema í bönkunum og þeir hafi platað og vélað lánum inn á blásaklausa heimskingjana.
Standist það fyrir Hæstarétti að nóg sé að bera fyrir sig heimsku til að losna undan lántökum sínum mun hver einasti skuldari nýta sér þá röksemd til að losna undan skuldunum og þá fer nú slagorð ýmissa lýðskrumara um 20% almenna niðurfellingu skulda að hljóma eins og brandari.
Við heimskingjarnir bíðum nú spenntir eftir niðurstöðu Hæstaréttar.
Stofnfjáreigendur sýknaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú ert ekkert að skafa af hlutunum! Sem er ágætt í þessu tilviki! Undirskrift á sem sagt ekkert gildi að hafa lengur. Því fagna eflaust margir!
Björn Birgisson, 21.1.2011 kl. 16:53
Hefurðu skoðað lánssamningana hjá Glitni, Axel Jóhann? Ég held þú ættir að gera það, áður en þú fullyrðir meira um þetta mál. Stofnfjáreigendur voru nánast blekktir til lántöku með áherzlu Glitnis á það, að stofnfjárbréfin sjálf væru veðið. Það var ekkert fasteignaveð fyrir þessu, en nóg af latínufrösum í firnalöngum (um 6 bls.?) smáleturssamningi, og ekki hjálpuðu þeir fólki til að skilja til hlítar, út á hvað þetta gekk, og ekki var því heldur hjálpað til þess með munnlegum skýringum þjónustufulltrúa, heldur var bjartsýnin boðorðið hjá þeim ekki síður en þeim, sem völdu að auka stofnfé sitt, enda var þeim hinum sömu annars nánast hótað því, að bréf þeirra yrðu sama sem verðlaus í "þynningu" þeirra vegna stofnfjárútboðsins.
Bankar eiga ekki að gera ráð fyrir, að allur almenningur skilji flókna laga- og viðskiptatexta. Bankar bera ábyrgð, já, meiri en alþýðumaðurinn í slíkum viðskiptum.
Þar að auki virðist Glitnir hafa verið í einhverju samkrulli með ráðandi Byrs-mönnum og þau mál nú til sakarannsóknar hjá sérstökum saksóknara.
Með góðri kveðju sem jafnan, félagi.
Jón Valur Jensson, 21.1.2011 kl. 21:27
Ágæti félagi, Jón Valur. Ekki get ég nú fallist á það að fólk hafi ekki vitað hvað það skrifaði undir, enda er fyrsta regla í öllum viðskiptum, ekki síst við milljóna-, tugmilljóna- eða hundruðmilljóna lántökur, að skrifa ekki undir neitt sem maður skilur ekki.
Það þarf ekkert fasteignaverð í venjulegum lánaviðskiptum til að möguleiki skapist til að ganga að eigninni ef lán, sem tekið er t.d. til bílakaupa, eða bara reiðhjólakaupa, fer í vanskil og lánveitandinn stefnir skuldaranum og gerir hjá honum fjárnám fyrir skuldinni.
Ég er hins vegar sammála því að þetta hafi allt saman verið tómur skítabisness, eins og svo margt annað í græðgis- og gróðaærinu, en að ætla að afgreiða málin með almennri heimsku Íslendinga fynnst mér nú einum of langt gengið.
Til hafa verið svo heiðarlegir menn í viskiptum hér á landi og annarsstaðar að orð þeirra voru tekin góð og gild sem trygging fyrir lánum, en annars hafa undirskriftir manna verið allsráðandi á lánapappírum. Ef hægt er að bera við fávisku og/eða heimsku vegna þess að maður hafi ekki haft vit á því sem maður var að gera, þegar maður undirritaði skuldabrét, þá er nú í öll skjól fokið og enginn getur lánað nokkrum manni eina krónu framar, nema setja lántakandann fyrst í greindarvísitölupróf og síðan á nokkurra vikna námskeið í fjármálalæsi.
Það hljóta allir að sjá fáránleikann í þessu og því miður fyrir þá sem létu glepjast af ruglinu, þá verð ég að láta í ljós það álit mitt, að þessi dómur verði ekki staðfestur í Hæstarétti.
Axel Jóhann Axelsson, 21.1.2011 kl. 22:18
Var nokkurs staðar vitnað í "heimsku" viðkomandi í dómnum, Axel?
Er það ekki bara þín túlkun?
En þú gleymdir að svara þessu: Hefurðu skoðað lánssamningana hjá Glitni?
Skrifað í flýti, bless.
Jón Valur Jensson, 21.1.2011 kl. 23:38
Mikið óskaplega þykir mér þú vera dómharður. Það er enginn að bera fyrir sig heimsku eða fáfræði. Í þessu tilfelli þá treysti fólk orðum virtrar fjármálastofnunar sem kynnti þessa fjárfestingu með þeim hætti að einungis væri lagt að veði fjárfestingin sjálf og arður af henni. Umræddir stofnfjárfestar fóru á kynningarfundi og fengu upplýsingar um fjárfestinguna áður en skrifað var undir. Þegar samningar eru einhliða samdir líkt og í þessu tilfelli þá er aukin ábyrgð á þann sem semur. Þá er líka aukin ábyrgð lögð á sérfræðinga, sem Glitnir var, heldur en almenning sem er að fjárfesta. Þessir fjárfestar voru ekki fagfjárfestar heldur almennir fjárfestar sem þýðir að Glitni bar að upplýsa þá rækilega um fjárfestingakostinn og áhættur honum samfara. Það gerði Glitnir með mjög svo villandi hætti.
Dómstólar hafa margoft dæmt að ekki stoðar að bera fyrir sig tímapressu eða fákunnáttu eða annað slíkt og að fólk beri ábyrgð á gjörðum sínum. Það er hins vegar ekki málið hér. Hér brást Glitnir lagaskyldu sinni og sérfræðilegri skyldu og villti beinlínis um fyrir fólki þannig að því var ekki mögulegt að taka upplýsta ákvörðun.
Eins og ég sagði fyrst, mér þykir þú vera full dómharður og þykir það augljóst að þú hefur heldur ekki skoðað dóminn vel og séð af hverju niðurstaðan er með þessum hætti. Þætti þér sanngjarnt ef sérfræðingar á borð við fjármálaráðgjafa, lögfræðinga, lækna o.s.frv. mættu kynna fyrir þér hlutum sem þú hefur ekki jafn mikið vit á og sleppa mikilvægum upplýsingum og afleiðingarnar lentu aðeins á þér? T.d. að ef þú færð gjafsókn í máli sem þú hyggst höfða en segja þér ekki jafnframt að þú ert ábyrgur fyrir lögfræðikostnaði umfram það sem gjafsóknin dekkar?
Ég mæli með því að þú lúslesir dóminn og myndir þér síðan skoðun í stað þess að lesa bara frásagnir fréttamanna eða fyrirsagnir.
Ein hissa (IP-tala skráð) 22.1.2011 kl. 09:53
"Ábyrgðir eru svikum og prettum yfirsterkari!"
Já, þetta er alveg rétt hjá þér. Skúrkar eiga vissulega að komast upp með að hirða síðustu aurana af fólki sem kann ekki að lesa, og skilur ekki einföldustu gjörninga. Það ætti síðan að dæma þetta svo kallaða fólk til þegnskylduvinnu við að hreinsa og snyrta garðana hjá þessum ofur gáfuðu svikahröppum sem við værum heppinn að fá að kyssa rassinn á.
Billi bilaði, 22.1.2011 kl. 11:29
Ég verð að taka undir margt af því sem Jón Valur segir, enda hafa þessar stofnanir verið uppvísar af svindli í fleiri málum en þessu og fengið dóm fyrir.
En lán er jú lán, svo vissulega hljóta þeir sem þau tóku að hafa gert sér grein fyrir því að einhver ábyrgð fylgdi. Annað er út í hött.
Gunnar Heiðarsson, 22.1.2011 kl. 12:26
Auðvitað skiptir öllu máli hvernig texti samningsins hljóðar. Standi þar skírum stöfum að einungis bréfin sjálf skuli vera til ábyrgðar lánunum og ekkert annað, þá gildir það auðvitað. En ef aðallega er miðað við að fleiri hundruð manns hafi verið blekkt til að taka þátt í þessu, þá þá er eitthvað meira en lítið bogið við gáfnafarið og greinilegt að græðgin hefur tekið völdin af skynseminni.
Standist þetta þýðir ekki lengur að bölsótast út í allt banka- og útrásarhyskið, sem stundaði nákvæmlega þessa sömu aðferð og í gangi eru málaferli til innheimtu á samskonar skuldum hjá Jóni Ásgeiri og félögum.
Standi þessi dómur er allt lánakerfið, þar sem undirskriftir manna hafa hingað til verið til staðfestu skilnings og skuldbindingar skuldarans, handónýtt og heimska, fáfræði og ekki síst græðgin sem gilda sem rök fyrir neitun á greiðslu skulda.
Hitt er allt annað mál að samúðin með bönkunum er engin af minni hálfu og greinilegt að þar hafa verið hreinræktaðir glæpamenn við stjórnvölinn og nánast allt sem þeir aðhöfðust stjórnaðist af staðföstum brotavilja. Í því ljósi mætti dæma alla þeirra gjörninga löglausa og þar með ógilda.
Axel Jóhann Axelsson, 22.1.2011 kl. 13:16
Axel, lánssamningar sem virtust kannski alldjarfir, en samt vel viðráðanlegir, urðu við gengisfellinguna óbærilegir fyrir marga og myndu til dæmis gera flesta eða alla bændur í tveimur norðlenzkum hreppum hús- og jarðnæðislausa. Enginn sá fram á slíka gengisfellingu, og vitaskuld var hún sem slík ekki þessum þjónustufulltrúum Glitnis og stýrendum þessara mála þar að kenna, en þeir áttu að vanda ráðgjöf sína, eins og "ein hissa" var að skrifa um hér ofar.
Ég fullyrði, að þessir lánssamningar voru ótrúlega flóknir og voru, að ég held, um 6 þéttskrifaðar smáleturssíður og varla – raunar ekki – á mannamái venjulegs fólks. Engin hjálp var boðin við að skoða betur málið, en mikil pressa frá stjórnendum Byrs að fá menn til stofnfjárkaupanna, annars væru þeir að "þynna út" hlut sinn í upphaflegum stuðningi við sparisjóðina sem sameinazt höfðu í honum.
Jón Valur Jensson, 22.1.2011 kl. 14:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.